Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Daníel 1:1-12:13
  • Daníel

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Daníel
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Daníel

DANÍEL

1 Á þriðja stjórnarári Jójakíms+ Júdakonungs kom Nebúkadnesar konungur Babýlonar til Jerúsalem og settist um hana.+ 2 Jehóva gaf Jójakím Júdakonung í hendur hans+ og einnig nokkuð af áhöldunum úr húsi* hins sanna Guðs. Nebúkadnesar flutti áhöldin til Sínearlands*+ í hús* guðs síns og kom þeim fyrir í fjárhirslu guðs síns.+

3 Konungur skipaði Aspenasi hirðstjóra sínum að koma með nokkra Ísraelsmenn, þar á meðal af konungsættinni og af aðalsættum.+ 4 Þetta áttu að vera ungir menn* sem voru lýtalausir og myndarlegir, bjuggu yfir visku, þekkingu og skilningi+ og voru hæfir til að þjóna í konungshöllinni. Hann átti að kenna þeim að skrifa og tala mál* Kaldea. 5 Konungur ákvað að þeir skyldu fá daglegan skammt af kræsingum sínum og víninu sem hann drakk. Þeir áttu að fá þriggja ára menntun* og eftir það myndu þeir þjóna við hirð konungs.

6 Í hópi þeirra voru nokkrir af ættkvísl Júda, þeir Daníel,*+ Hananja,* Mísael* og Asarja.*+ 7 Hirðstjórinn gaf þeim ný nöfn.* Hann nefndi Daníel Beltsasar,+ Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed Negó.+

8 En Daníel var ákveðinn í hjarta sínu að óhreinka sig hvorki á kræsingum konungs né víninu sem hann drakk. Hann bað því hirðstjórann að fá að sleppa við að óhreinka sig á þennan hátt. 9 Hinn sanni Guð sá til þess að hirðstjórinn sýndi Daníel vinsemd og samúð.*+ 10 En hirðstjórinn sagði við Daníel: „Ég er hræddur við herra minn, konunginn, sem hefur ákveðið hvað þið eigið að borða og drekka. Hvað ef hann sæi að þið lituð verr út en hinir unglingarnir* á ykkar aldri? Þið mynduð baka mér* sekt frammi fyrir konungi.“ 11 Þá sagði Daníel við gæslumanninn sem hirðstjórinn hafði sett yfir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja: 12 „Reyndu þjóna þína í tíu daga. Láttu gefa okkur grænmeti að borða og vatn að drekka. 13 Berðu síðan saman útlit okkar og unglinganna* sem borða kræsingar konungs og láttu niðurstöðuna ráða hvað þú gerir við okkur.“

14 Hann féllst á tillögu þeirra og reyndi þá í tíu daga. 15 Að tíu dögum liðnum litu þeir betur út og voru hraustlegri* en allir unglingarnir* sem borðuðu kræsingar konungs. 16 Gæslumaðurinn fór þá með kræsingarnar og vínið burt frá þeim og gaf þeim grænmeti. 17 Hinn sanni Guð veitti þessum fjórum ungu mönnum* þekkingu og skilning á alls konar ritverkum* og speki, og Daníel gat ráðið alls konar sýnir og drauma.+

18 Þegar tíminn var liðinn sem Nebúkadnesar hafði tiltekið+ leiddi hirðstjórinn þá fram fyrir konung. 19 Konungur ræddi við þá og meðal þeirra allra reyndist enginn eins og Daníel, Hananja, Mísael og Asarja.+ Þeir urðu því um kyrrt og þjónuðu við hirð konungs. 20 Í hvert skipti sem konungur spurði þá um eitthvað sem útheimti visku og skilning komst hann að raun um að þeir voru tíu sinnum betri en allir galdraprestar og særingamenn+ í öllu ríki hans. 21 Daníel dvaldist þar allt fram á fyrsta stjórnarár Kýrusar konungs.+

2 Á öðru stjórnarári sínu dreymdi Nebúkadnesar nokkra drauma og honum varð svo órótt+ að hann gat ekki sofið. 2 Konungur lét þá sækja galdrapresta, særingamenn, galdramenn og Kaldea* til að þeir segðu honum hvað hann hefði dreymt. Þeir komu og tóku sér stöðu frammi fyrir konungi.+ 3 Konungur sagði við þá: „Mig dreymdi draum og mér verður ekki rótt fyrr en ég fæ að vita hvað mig dreymdi.“ 4 Kaldearnir svöruðu konungi á arameísku:*+ „Konungurinn lifi að eilífu. Segðu þjónum þínum drauminn, þá skulum við segja þér hvað hann merkir.“

5 Konungur svaraði Kaldeum: „Þetta er ákvörðun mín og henni verður ekki breytt: Ef þið segið mér ekki drauminn og merkingu hans verðið þið aflimaðir og hús ykkar gerð að almenningskömrum.* 6 En ef þið segið mér drauminn og merkingu hans fáið þið frá mér gjafir, umbun og mikinn heiður.+ Segið mér því drauminn og hvað hann merkir.“

7 Þeir svöruðu aftur: „Segðu þjónum þínum drauminn, konungur, þá skulum við segja þér hvað hann merkir.“

8 Konungur svaraði: „Mér er fullljóst að þið eruð að reyna að vinna ykkur inn tíma því að þið vitið hvað ég hef ákveðið. 9 Ef þið segið mér ekki drauminn hljótið þið allir einn og sama dóminn. En þið hafið komið ykkur saman um að ljúga að mér og blekkja mig í von um að eitthvað breytist. Segið mér því drauminn, þá veit ég hvort þið getið ráðið hann.“

10 Kaldearnir svöruðu konungi: „Enginn maður á jörðinni getur gert það sem konungur fer fram á enda hefur enginn voldugur konungur eða landstjóri ætlast til annars eins af nokkrum galdrapresti, særingamanni eða Kaldea. 11 Það sem konungur biður um er hægara sagt en gert. Enginn getur opinberað konungi þetta nema guðirnir en þeir búa ekki meðal dauðlegra manna.“

12 Þá trylltist konungur af reiði og skipaði að allir vitringar Babýlonar skyldu teknir af lífi.+ 13 Þegar tilskipunin var gefin út um að vitringarnir skyldu teknir af lífi var einnig leitað að Daníel og félögum hans til að lífláta þá.

14 Þá sneri Daníel sér til Arjóks lífvarðarforingja konungs sem var lagður af stað til að lífláta vitringana í Babýlon og ræddi við hann af varkárni og skynsemi. 15 Hann spurði Arjók embættismann konungs: „Hvers vegna er tilskipun konungs svona vægðarlaus?“ Arjók útskýrði málið fyrir Daníel.+ 16 Daníel gekk þá inn til konungs og bað hann um frest til að ráða drauminn fyrir hann.

17 Daníel fór síðan heim til sín og sagði Hananja, Mísael og Asarja félögum sínum frá þessu. 18 Hann bað þá um að biðja Guð himinsins að vera miskunnsamur og opinbera þennan leyndardóm svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki teknir af lífi ásamt hinum vitringum Babýlonar.

19 Leyndardómurinn var opinberaður Daníel í sýn um nóttina+ og Daníel lofaði Guð himinsins. 20 Hann sagði:

„Lofað sé nafn Guðs um alla eilífð*

því að hann einn veitir visku og mátt.+

21 Hann breytir tímum og tíðum,+

sviptir konunga völdum og skipar nýja.+

Hann veitir vitrum visku og skynsömum þekkingu.+

22 Hann afhjúpar hið djúpa og dulda,+

hann veit hvað leynist í myrkrinu+

og ljósið býr hjá honum.+

23 Guð forfeðra minna, ég færi þér þakkir og lof

því að þú hefur veitt mér visku og mátt.

Og nú hefurðu opinberað mér það sem við báðum þig um,

þú hefur opinberað okkur það sem konungi lá á hjarta.“+

24 Því næst gekk Daníel inn til Arjóks sem konungur hafði falið að lífláta vitringa Babýlonar+ og sagði við hann: „Lífláttu engan af vitringum Babýlonar. Farðu með mig til konungs og ég skal segja honum hvað draumurinn merkir.“

25 Arjók flýtti sér að leiða Daníel fyrir konung og sagði: „Ég hef fundið mann meðal útlaganna frá Júda+ sem getur sagt konungi merkingu draumsins.“ 26 Konungur sagði við Daníel sem hafði fengið nafnið Beltsasar:+ „Geturðu í alvöru sagt mér drauminn sem mig dreymdi og hvað hann merkir?“+ 27 Daníel svaraði konungi: „Enginn af vitringunum, særingamönnunum, galdraprestunum eða stjörnuspekingunum er fær um að opinbera konungi leyndardóminn sem hann spyr um.+ 28 En til er sá Guð á himnum sem opinberar leyndardóma+ og hann hefur birt Nebúkadnesari konungi hvað muni gerast á síðustu dögum. Þetta er draumurinn og þetta eru þær sýnir sem þú sást í rúmi þínu:

29 Meðan þú lást í rúmi þínu, konungur, beindist hugur þinn að því sem mun eiga sér stað í framtíðinni og sá sem opinberar leyndardóma hefur birt þér hvað muni gerast. 30 Þessi leyndardómur var ekki opinberaður mér vegna þess að ég sé gæddur meiri visku en aðrir lifandi menn heldur til að þú, konungur, fengir að vita merkingu draumsins og hugsanir hjarta þíns.+

31 Það sem þú sást, konungur, var risavaxið líkneski.* Það var gríðarstórt og skærri birtu stafaði af því. Það stóð fyrir framan þig og var ógnvekjandi að sjá. 32 Höfuð líkneskisins var úr skíragulli,+ bringan og handleggirnir úr silfri,+ kviðurinn og lærin úr kopar,+ 33 fótleggirnir úr járni+ og fæturnir að hluta til úr járni og að hluta til úr leir.*+ 34 Meðan þú horfðir á losnaði steinn nokkur en þó ekki af mannavöldum.* Hann lenti á fótum líkneskisins sem voru úr járni og leir og mölvaði þá.+ 35 Þá molnaði allt saman, járnið, leirinn, koparinn, silfrið og gullið, og varð eins og hismi á þreskivelli að sumri. Vindurinn feykti því öllu burt svo að ekki var snefill eftir. En steinninn sem lenti á líkneskinu varð að stóru fjalli sem þakti alla jörðina.

36 Þetta var draumurinn og nú ætlum við að segja konungi hvað hann merkir. 37 Þú, konungur, ert konungur konunga. Guð himinsins hefur gefið þér ríkið,+ valdið, máttinn og dýrðina, 38 vald yfir mönnum hvar sem þeir búa og yfir dýrum merkurinnar og fuglum himins og hann hefur látið þig ríkja yfir öllu þessu.+ Þú sjálfur ert gullhöfuðið.+

39 En eftir þig rís annað konungsríki,+ lakara en þitt, og því næst þriðja ríkið úr kopar sem mun ríkja yfir allri jörðinni.+

40 Fjórða ríkið verður sterkt sem járn.+ Eins og járn brýtur allt og mylur, já, eins og járn mölvar allt, mun það brjóta og mölva öll hin ríkin.+

41 Þú sást að fæturnir og tærnar voru að hluta til úr leir* og að hluta til úr járni. Það þýðir að ríkið verður skipt en mun þó að sumu leyti búa yfir hörku járnsins enda sástu að járn var blandað við mjúkan leirinn. 42 Og þar sem tærnar á fótunum voru að hluta til úr járni og að hluta til úr leir verður ríkið að sumu leyti sterkt og að sumu leyti veikt. 43 Eins og þú sást var járnið blandað mjúkum leir. Það þýðir að þeir* verða blandaðir þegnunum* en þeir samlagast ekki hvorir öðrum, rétt eins og járn og leir blandast ekki saman.

44 Á dögum þessara konunga mun Guð himinsins stofnsetja ríki+ sem verður aldrei eytt.+ Þetta ríki verður ekki gefið neinni annarri þjóð.+ Það molar öll þessi ríki og gerir þau að engu+ en það eitt mun standa að eilífu,+ 45 rétt eins og steinninn sem þú sást losna úr fjallinu, þó ekki af mannavöldum, steinninn sem mölvaði járnið, koparinn, leirinn, silfrið og gullið.+ Hinn mikli Guð hefur birt konungi hvað gerist í framtíðinni.+ Draumurinn er sannur og ráðning hans áreiðanleg.“

46 Nebúkadnesar konungur féll þá á grúfu frammi fyrir Daníel og sýndi honum lotningu. Hann skipaði að honum skyldi færð gjöf og reykelsisfórn. 47 Konungur sagði við Daníel: „Guð ykkar er sannarlega Guð guðanna og Drottinn konunganna og sá sem opinberar leyndardóma því að þér tókst að ráða þennan leyndardóm.“+ 48 Konungur veitti Daníel virðingarstöðu og gaf honum margar veglegar gjafir. Hann setti hann yfir allt skattlandið Babýlon+ og gerði hann að yfirhöfðingja yfir öllum vitringum Babýlonar. 49 Að beiðni Daníels fól konungur þeim Sadrak, Mesak og Abed Negó+ að fara með stjórnsýslu í skattlandinu Babýlon, en sjálfur þjónaði Daníel við hirð konungs.

3 Nebúkadnesar konungur gerði líkneski* úr gulli sem var 60 álnir* á hæð og 6 álnir* á breidd. Hann reisti það á Dúrasléttu í skattlandinu Babýlon. 2 Nebúkadnesar konungur sendi út boð og kallaði saman skattlandsstjóra* sína, höfðingja, landstjóra, ráðgjafa, féhirða, dómara, löggæslumenn og alla sem fóru með stjórnsýslu skattlandanna. Þeir áttu að koma til að vera viðstaddir vígslu líkneskisins sem Nebúkadnesar konungur hafði reist.

3 Skattlandsstjórarnir, höfðingjarnir, landstjórarnir, ráðgjafarnir, féhirðarnir, dómararnir, löggæslumennirnir og allir sem fóru með stjórnsýslu skattlandanna söfnuðust þá saman til að vera viðstaddir vígslu líkneskisins sem Nebúkadnesar konungur hafði reist. Þegar þeir höfðu tekið sér stöðu fyrir framan líkneskið 4 hrópaði kallarinn hárri röddu: „Ykkur er fyrirskipað þetta, þið þjóðir og þjóðflokkar, hvaða tungumál sem þið talið: 5 Þegar þið heyrið hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna, sekkjapípuna og öll hin hljóðfærin skuluð þið falla fram og tilbiðja gulllíkneskið sem Nebúkadnesar konungur hefur reist. 6 Þeim sem fellur ekki fram og tilbiður það verður umsvifalaust kastað í logandi eldsofninn.“+ 7 Um leið og allt fólkið af hinum ýmsu þjóðum, þjóðflokkum og málhópum heyrði hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna og öll hin hljóðfærin féll það fram og tilbað gulllíkneskið sem Nebúkadnesar hafði reist.

8 Nokkrir Kaldear stigu nú fram og ásökuðu* Gyðingana. 9 Þeir sögðu við Nebúkadnesar konung: „Konungurinn lifi að eilífu. 10 Þú, konungur, hefur skipað svo fyrir að allir sem heyra hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna, sekkjapípuna og öll hin hljóðfærin eigi að falla fram og tilbiðja gulllíkneskið 11 og að hverjum sem fellur ekki fram og tilbiður það skuli kastað í logandi eldsofninn.+ 12 En hér eru nokkrir Gyðingar sem þú hefur falið stjórnsýslu yfir skattlandinu Babýlon, þeir Sadrak, Mesak og Abed Negó.+ Þessir menn virða þig einskis, konungur. Þeir þjóna ekki guðum þínum og neita að tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur reist.“

13 Nebúkadnesar varð þá bálreiður og skipaði að Sadrak, Mesak og Abed Negó skyldu sóttir. Mennirnir voru síðan leiddir fyrir konung. 14 Nebúkadnesar sagði við þá: „Er það satt, Sadrak, Mesak og Abed Negó, að þið þjónið ekki guðum mínum+ og neitið að tilbiðja gulllíkneskið sem ég hef reist? 15 Ef þið eruð tilbúnir, þegar þið heyrið hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna, sekkjapípuna og öll hin hljóðfærin, að falla fram og tilbiðja líkneskið sem ég hef gert þá eruð þið lausir allra mála. En ef þið neitið að tilbiðja það verður ykkur umsvifalaust kastað í logandi eldsofninn. Og hvaða guð getur bjargað ykkur úr höndum mínum?“+

16 Sadrak, Mesak og Abed Negó svöruðu konungi: „Nebúkadnesar, það er óþarfi að ræða þetta frekar. 17 Ef okkur verður kastað í logandi eldsofninn getur Guð okkar sem við þjónum bjargað okkur þaðan og úr höndum þínum, konungur.+ 18 En þó að hann geri það ekki skaltu samt vita, konungur, að við ætlum hvorki að þjóna guðum þínum né tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur reist.“+

19 Þá reiddist Nebúkadnesar þeim Sadrak, Mesak og Abed Negó svo heiftarlega að andlitið afmyndaðist* og hann gaf skipun um að kynda ofninn sjöfalt heitar en venjulega. 20 Hann skipaði nokkrum af sterkustu mönnunum í her sínum að binda Sadrak, Mesak og Abed Negó og kasta þeim í logandi eldsofninn.

21 Þeir voru bundnir í skikkjum sínum, kyrtlum, höfuðbúnaði og öðrum flíkum og þeim kastað í logandi eldsofninn. 22 En þar sem skipun konungs var svo vægðarlaus og ofninn gífurlega heitur urðu eldslogarnir mönnunum að bana sem fylgdu Sadrak, Mesak og Abed Negó. 23 En mennirnir þrír, Sadrak, Mesak og Abed Negó, féllu bundnir í logandi eldsofninn.

24 Nebúkadnesar konungur varð þá hræddur, spratt á fætur og spurði ráðgjafa sína: „Bundum við ekki þrjá menn og köstuðum í eldinn?“ „Jú, konungur,“ svöruðu þeir. 25 Hann sagði: „En ég sé fjóra menn ganga um í eldinum! Þeir eru óbundnir og óskaddaðir og sá fjórði lítur út eins og sonur guðanna.“

26 Nebúkadnesar gekk að dyrum logandi eldsofnsins og sagði: „Sadrak, Mesak og Abed Negó, þjónar hins hæsta Guðs,+ gangið út og komið hingað!“ Sadrak, Mesak og Abed Negó gengu þá út úr eldinum. 27 Skattlandsstjórarnir, höfðingjarnir, landstjórarnir og ráðgjafar konungs sem voru þar samankomnir+ sáu að líkamar mannanna höfðu ekki beðið neinn skaða í eldinum,+ ekki eitt einasta hár á höfði þeirra var sviðnað, föt þeirra voru alveg eins og áður og það var ekki einu sinni brunalykt af þeim.

28 Nebúkadnesar tók þá til máls og sagði: „Lofaður sé Guð Sadraks, Mesaks og Abeds Negós+ sem sendi engil sinn og bjargaði þjónum sínum. Þeir treystu honum og óhlýðnuðust skipun konungs og vildu frekar deyja* en að heiðra eða tilbiðja nokkurn annan guð en sinn Guð.+ 29 Þess vegna gef ég út þá tilskipun að sá sem lastar Guð Sadraks, Mesaks og Abeds Negós, óháð þjóðerni, þjóðflokki og málhópi, skuli aflimaður og hús hans gert að almenningskamri* því að enginn annar guð er til sem getur bjargað eins og hann.“+

30 Konungur skipaði síðan Sadrak, Mesak og Abed Negó í háar stöður* í skattlandinu Babýlon.+

4 „Frá Nebúkadnesari konungi til allra þjóða, þjóðflokka og málhópa sem búa um alla jörð: Ég óska ykkur friðar og farsældar! 2 Það gleður mig að segja frá þeim táknum og undraverkum sem hinn hæsti Guð hefur látið koma fram á mér. 3 Hversu mikilfengleg eru tákn hans og stórkostleg undraverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og stjórn hans varir kynslóð eftir kynslóð.+

4 Ég, Nebúkadnesar, var áhyggjulaus í húsi mínu og undi mér vel í höll minni. 5 Þá dreymdi mig draum sem gerði mig óttasleginn. Myndirnar og sýnirnar sem birtust mér í huganum meðan ég lá í rúmi mínu skelfdu mig.+ 6 Ég gaf því skipun um að allir vitringar Babýlonar skyldu leiddir fyrir mig til að segja mér hvað draumurinn merkti.+

7 Þá komu galdraprestarnir, særingamennirnir, Kaldearnir* og stjörnuspekingarnir+ og ég sagði þeim drauminn en þeir gátu ekki ráðið hann fyrir mig.+ 8 Loks kom Daníel til mín sem er kallaður Beltsasar+ eftir nafni guðs míns.+ Í honum býr andi hinna heilögu guða,+ og ég sagði honum drauminn:

9 ‚Beltsasar, þú sem ert yfirmaður galdraprestanna,+ ég veit að andi hinna heilögu guða býr í þér+ og enginn leyndardómur er þér ofviða.+ Útskýrðu nú fyrir mér sýnirnar sem ég sá í draumi mínum og hvað þær merkja.

10 Í sýnunum sem birtust mér í huganum í rúmi mínu sá ég tré.+ Það var geysihátt og stóð á miðri jörðinni.+ 11 Tréð óx og varð sterkt, það náði til himins og var sýnilegt frá endimörkum jarðar. 12 Það var laufskrúðugt, bar mikinn ávöxt og gaf af sér fæðu handa öllum. Dýr jarðar leituðu skjóls í skugga þess, fuglar himins hreiðruðu um sig á greinum þess og allar lífverur nærðust af því.

13 Meðan sýnirnar birtust mér í rúmi mínu sá ég heilagan vörð stíga niður af himni.+ 14 Hann kallaði hárri röddu: „Höggvið tréð,+ skerið af greinarnar, hristið af laufið og dreifið ávöxtunum svo að dýrin flýi undan því og fuglarnir af greinum þess. 15 En látið stubbinn með rótum sínum* vera eftir í jörðinni, bundinn járn- og koparfjötrum á grösugu enginu. Dögg himins skal væta hann og hann skal deila gróðri jarðar með dýrunum.+ 16 Hjarta hans mun breytast. Hann skal ekki lengur hafa mannshjarta heldur verður honum gefið dýrshjarta, og sjö tíðir+ munu líða.+ 17 Verðirnir+ tilkynna þessa ákvörðun, hinir heilögu boða þennan úrskurð svo að allir sem lifa viti að Hinn hæsti drottnar yfir ríki mannanna+ og gefur það hverjum sem hann vill og setur jafnvel yfir það hinn lítilmótlegasta meðal manna.“

18 Þetta var draumurinn sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi. Segðu mér nú, Beltsasar, hvað hann merkir því að enginn af hinum vitringunum í ríki mínu getur ráðið hann fyrir mig.+ En þú ert fær um það því að andi hinna heilögu guða býr í þér.‘

19 Daníel, sem hafði fengið nafnið Beltsasar,+ stóð þá stjarfur um stund og hugsanir hans gerðu hann óttasleginn.

Konungurinn sagði: ‚Beltsasar, láttu hvorki drauminn né merkingu hans hræða þig.‘

Beltsasar svaraði: ‚Herra minn, ég vildi óska að draumurinn rættist á þeim sem hata þig og merking hans á óvinum þínum.

20 Tréð sem þú sást varð voldugt og sterkt og náði til himins og var sýnilegt um alla jörð.+ 21 Það var laufskrúðugt og bar mikinn ávöxt svo að næg fæða var handa öllum. Dýr jarðar bjuggu undir því og fuglar himins hreiðruðu um sig á greinum þess.+ 22 Þetta tré ert þú, konungur, því að þú ert orðinn voldugur og sterkur og mikilfengleiki þinn hefur vaxið allt til himins+ og stjórn þín til endimarka jarðar.+

23 Konungurinn sá heilagan vörð+ stíga niður af himni og segja: „Höggvið tréð og eyðið því en látið stubbinn með rótum sínum* vera eftir í jörðinni, bundinn járn- og koparfjötrum á grösugu enginu, og dögg himins væti hann. Hann skal búa meðal dýra jarðarinnar þar til sjö tíðir eru liðnar.“+ 24 Ráðningin er þessi, konungur, og þetta er það sem Hinn hæsti hefur ákveðið að komi fyrir herra minn, konunginn. 25 Þú verður hrakinn burt úr samfélagi manna til að búa með dýrum jarðar. Þér verður gefið gras að bíta eins og nautum og dögg himins mun væta þig.+ Sjö tíðir+ munu líða+ þar til þér verður ljóst að Hinn hæsti drottnar yfir ríki mannanna og gefur það hverjum sem hann vill.+

26 En sagt var að stubbur trésins skyldi skilinn eftir með rótum sínum*+ og það merkir að þú munt endurheimta ríki þitt eftir að þér verður ljóst að himnarnir fara með völdin. 27 Þiggðu því ráð mitt, konungur. Segðu skilið við syndir þínar með því að gera það sem er rétt og við ranglæti þitt með miskunnsemi við fátæka. Þá má vera að farsæld þín vari lengur.‘“+

28 Allt þetta rættist á Nebúkadnesari konungi.

29 Tólf mánuðum síðar, þegar konungur var á gangi á þaki konungshallarinnar í Babýlon, 30 sagði hann: „Er þetta ekki Babýlon hin mikla sem ég hef reist sem konungssetur með eigin styrk og mætti, mikilfengleika mínum til dýrðar?“

31 Áður en konungur hafði sleppt orðinu heyrðist rödd af himni: „Um þig er sagt, Nebúkadnesar konungur: ‚Ríkið hefur verið tekið af þér+ 32 og þú verður hrakinn burt úr samfélagi manna. Þú munt búa með dýrum jarðar og þér verður gefið gras að bíta eins og nautum. Sjö tíðir munu líða þar til þér er ljóst að Hinn hæsti drottnar yfir ríki mannanna og gefur það hverjum sem hann vill.‘“+

33 Á sömu stundu rættust þessi orð á Nebúkadnesari. Hann var hrakinn burt úr samfélagi manna og fór að bíta gras eins og naut. Dögg himins vætti líkama hans. Hárið óx og varð sítt eins og arnarfjaðrir og neglurnar eins og fuglsklær.+

34 „Þegar tíminn var liðinn+ leit ég, Nebúkadnesar, til himins og fékk vitið aftur. Ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann sem lifir eilíflega því að stjórn hans er eilíf stjórn og ríki hans varir kynslóð eftir kynslóð.+ 35 Allir jarðarbúar eru ekki neitt í samanburði við hann og hann fer með her himins og íbúa jarðar eins og hann vill. Enginn getur staðið í vegi fyrir honum*+ eða sagt: ‚Hvað hefurðu gert?‘+

36 Á sömu stundu fékk ég vitið aftur og endurheimti ríki mitt í allri sinni dýrð, mikilfengleika minn og tign.+ Embættismenn mínir og tignarmenn leituðu til mín. Ég settist aftur að völdum og hlaut enn meiri vegsemd en áður.

37 Ég, Nebúkadnesar, lofa nú, vegsama og tigna konung himnanna+ því að öll verk hans eru sannleikur og vegir hans réttlátir.+ Hann er fær um að auðmýkja þá sem ganga fram í hroka.“+

5 Belsassar+ konungur hélt mikla veislu fyrir þúsund tignarmenn sína og drakk vín frammi fyrir þeim.+ 2 Þegar vínið var farið að segja til sín skipaði Belsassar þjónum sínum að sækja gull- og silfurílátin sem Nebúkadnesar faðir hans hafði flutt með sér úr musterinu í Jerúsalem,+ svo að konungurinn, tignarmenn hans, hjákonur og óæðri eiginkonur gætu drukkið úr þeim. 3 Gullílátin, sem höfðu verið tekin úr helgidóminum í húsi Guðs í Jerúsalem, voru þá sótt og konungurinn, tignarmenn hans, hjákonur og óæðri eiginkonur drukku úr þeim. 4 Þau drukku vín og lofuðu guði sína úr gulli og silfri, kopar, járni, tré og steini.

5 Allt í einu birtust fingur á mannshendi sem fóru að skrifa á kalkið á vegg konungshallarinnar á móti ljósastikunni og konungurinn sá höndina skrifa. 6 Konungurinn varð náfölur* og hugsanir hans skelfdu hann.+ Hann missti máttinn í fótunum og hnén skulfu.

7 Konungur kallaði hárri röddu að særingamennirnir, Kaldearnir* og stjörnuspekingarnir skyldu sóttir.+ Konungurinn sagði við vitringa Babýlonar: „Hver sem getur lesið þessa skrift og sagt mér hvað hún merkir verður færður í purpuraklæði, fær gullfesti um hálsinn+ og verður þriðji valdamesti maðurinn í ríkinu.“+

8 Allir vitringar konungs komu þá inn en gátu hvorki lesið skriftina né sagt konungi hvað hún merkti.+ 9 Belsassar konungur varð mjög hræddur og fölnaði í framan, og tignarmenn hans vissu ekki sitt rjúkandi ráð.+

10 Þegar drottningin heyrði hvað konungi og tignarmönnum hans fór á milli gekk hún inn í veislusalinn. Drottningin sagði: „Konungurinn lifi að eilífu. Af hverju ertu svona fölur í framan? Láttu ekki hugsanir þínar hræða þig. 11 Í ríki þínu er maður nokkur sem andi hinna heilögu guða býr í. Á dögum föður þíns var hann þekktur fyrir innsæi, skilning og visku eins og þá sem guðirnir búa yfir.+ Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, skipaði hann yfirmann galdraprestanna, særingamannanna, Kaldeanna* og stjörnuspekinganna.+ Þetta gerði faðir þinn, konungur. 12 Daníel, sem konungurinn hafði gefið nafnið Beltsasar,+ var einstaklega vel gefinn og bjó yfir þekkingu og innsæi sem gerði honum kleift að túlka drauma, ráða gátur og leysa flókin vandamál.*+ Láttu nú sækja Daníel svo að hann geti sagt þér hvað þetta merkir.“

13 Daníel var þá leiddur fyrir konung. Konungurinn spurði Daníel: „Ert þú Daníel, einn af útlögunum+ sem konungurinn, faðir minn, flutti með sér frá Júda?+ 14 Ég hef heyrt að andi guðanna búi í þér+ og að þú sért gæddur innsæi, skilningi og einstakri visku.+ 15 Vitringarnir og særingamennirnir voru leiddir fyrir mig til að lesa þessa skrift og ráða hana fyrir mig en þeir geta ekki sagt mér hvað skilaboðin merkja.+ 16 En ég hef heyrt að þú sért fær um að ráða leyndardóma+ og leysa flókin vandamál.* Ef þú getur lesið skriftina og sagt mér hvað hún merkir verður þú færður í purpuraklæði, þú færð gullfesti um hálsinn og verður þriðji valdamesti maðurinn í ríkinu.“+

17 Daníel svaraði konungi: „Þú mátt halda gjöfunum og gefa einhverjum öðrum verðlaunin. En ég skal lesa skriftina fyrir konunginn og segja honum hvað hún merkir. 18 Herra konungur, hinn hæsti Guð gaf Nebúkadnesari föður þínum ríki, vald, heiður og tign.+ 19 Allar þjóðir, þjóðflokkar og málhópar skulfu af ótta frammi fyrir honum vegna valdsins sem Guð hafði gefið honum.+ Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og þyrmdi lífi hvers sem hann vildi, og hann upphóf og auðmýkti hvern sem hann vildi.+ 20 En hjarta hans fylltist sjálfumgleði og hugurinn þrjósku svo að hann fór að sýna af sér hroka.+ Þá var honum steypt af stóli og hann sviptur tign sinni. 21 Hann var hrakinn burt úr samfélagi manna og hjarta hans varð eins og dýrshjarta. Hann bjó meðal villiasna, honum var gefið gras að bíta eins og nautum og dögg himins vætti líkama hans þar til honum varð ljóst að hinn hæsti Guð drottnar yfir ríki mannanna og felur hverjum sem hann vill vald yfir því.+

22 En þú, Belsassar sonur hans, hefur ekki auðmýkt hjarta þitt þó að þú vissir þetta allt 23 heldur hefurðu hreykt þér upp á móti Drottni himnanna+ og látið færa þér ílátin úr húsi hans.+ Síðan drakkstu vín úr þeim ásamt tignarmönnum þínum, hjákonum og óæðri eiginkonum og þið lofuðuð guði úr silfri og gulli, kopar, járni, tré og steini, guði sem sjá ekkert, heyra ekkert og vita ekkert.+ En þú hefur ekki heiðrað þann Guð sem hefur lífsanda þinn í hendi sér+ og vald yfir öllum högum þínum. 24 Þess vegna sendi hann höndina og lét skrifa þessi orð.+ 25 Þetta er það sem var skrifað: MENE, MENE, TEKEL og PARSIN.

26 Orðin merkja þetta: MENE, Guð hefur talið daga ríkis þíns og bundið enda á þá.+

27 TEKEL, þú hefur verið veginn á vogarskálum og reynst léttvægur.

28 PERES, ríki þínu hefur verið skipt og gefið Medum og Persum.“+

29 Belsassar skipaði þá að Daníel skyldi færður í purpuraklæði og gullfesti sett um háls honum. Tilkynnt var að hann skyldi verða þriðji valdamesti maður ríkisins.+

30 Þessa sömu nótt var Belsassar konungur Kaldea drepinn.+ 31 Daríus+ frá Medíu tók við ríkinu. Hann var þá um 62 ára.

6 Daríus ákvað að skipa 120 skattlandsstjóra* yfir allt ríkið.+ 2 Hann setti yfir þá þrjá háttsetta embættismenn og Daníel var einn þeirra.+ Skattlandsstjórarnir+ áttu að gera þeim grein fyrir öllu svo að konungurinn myndi ekki bíða tjón. 3 Daníel skaraði fram úr hinum embættismönnunum og skattlandsstjórunum vegna einstakra hæfileika sinna,*+ og konungurinn hafði hug á að setja hann yfir allt ríkið.

4 Embættismennirnir og skattlandsstjórarnir reyndu þá að finna eitthvert misferli í stjórnsýslu Daníels en þeim tókst ekki að finna neitt vítavert né neina spillingu sem hægt væri að saka hann um því að hann var traustsins verður og enga vanrækslu né spillingu var að finna hjá honum. 5 Mennirnir sögðu þá: „Við eigum ekki eftir að finna neitt til að saka Daníel um nema við finnum eitthvað í lögum Guðs hans til að nota gegn honum.“+

6 Þessir embættismenn og skattlandsstjórar fóru því fylktu liði inn til konungs og sögðu við hann: „Daríus konungur lifi að eilífu. 7 Allir embættismenn konungs, höfðingjar, skattlandsstjórar, ráðgjafar og landstjórar hafa komið sér saman um að gefin skuli út konungleg tilskipun og banni komið á: Hverjum sem biður til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur, næstu 30 daga skal kastað í ljónagryfjuna.+ 8 Gefðu nú út þessa tilskipun, konungur, og undirritaðu hana+ svo að henni verði ekki breytt því að lög Meda og Persa má ekki fella úr gildi.“+

9 Daríus konungur undirritaði þá tilskipunina og bannið.

10 En um leið og Daníel frétti að tilskipunin hefði verið undirrituð fór hann heim til sín. Í þakherberginu hafði hann opna glugga sem sneru í átt að Jerúsalem.+ Þrisvar á dag kraup hann, bað til Guðs síns og lofaði hann eins og hann hafði verið vanur fram að þessu. 11 Nú ruddust þessir menn inn og fundu Daníel þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.

12 Síðan fóru þeir til konungs og minntu hann á konunglega bannið: „Skrifaðir þú ekki undir tilskipun um að hverjum sem biður til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur, í 30 daga skuli kastað í ljónagryfjuna?“ „Jú,“ svaraði konungurinn, „og ákvörðunin stendur því að lög Meda og Persa verða ekki felld úr gildi.“+ 13 Þeir svöruðu konungi um hæl og sögðu: „Daníel, einn af útlögunum frá Júda,+ virðir þig að vettugi, konungur, og bannið sem þú undirritaðir. Hann biður þrisvar á dag.“+ 14 Þegar konungur heyrði þetta fékk það mjög á hann, og hann velti fyrir sér hvernig hann gæti bjargað Daníel. Allt til sólseturs reyndi hann hvað hann gat að koma honum til bjargar. 15 Loks fóru þessir menn fylktu liði til konungs og sögðu við hann: „Þú veist vel, konungur, að samkvæmt lögum Meda og Persa má ekki breyta neinu banni né tilskipun sem konungurinn hefur gefið út.“+

16 Konungur skipaði þá að Daníel skyldi sóttur og honum kastað í ljónagryfjuna.+ Konungur sagði við Daníel: „Guð þinn, sem þú þjónar statt og stöðugt, mun bjarga þér.“ 17 Síðan var sóttur steinn og hann settur yfir gryfjumunnann. Konungur innsiglaði hann með innsiglishring sínum og innsiglishring tignarmanna sinna svo að ekki væri hægt að breyta neinu í máli Daníels.

18 Konungurinn fór síðan heim í höll sína og fastaði alla nóttina. Hann var ekki í skapi til að láta skemmta sér* og hann gat ekki sofið. 19 Um leið og birta tók af degi fór konungur fram úr og flýtti sér að ljónagryfjunni. 20 Þegar hann nálgaðist gryfjuna hrópaði hann dapurri röddu til Daníels. Konungur spurði: „Daníel, þjónn hins lifandi Guðs, hefur Guð þinn, sem þú þjónar statt og stöðugt, getað bjargað þér frá ljónunum?“ 21 Daníel svaraði konungi samstundis: „Konungurinn lifi að eilífu. 22 Guð minn sendi engil sinn og lokaði gini ljónanna.+ Þau gerðu mér ekkert mein+ því að ég reyndist saklaus frammi fyrir honum. Ég hef heldur ekki gert neitt á hlut þinn, konungur.“

23 Konungurinn var himinlifandi og skipaði að Daníel skyldi dreginn upp úr gryfjunni. Daníel var þá hífður upp úr gryfjunni og var alveg óskaddaður því að hann hafði treyst Guði sínum.+

24 Konungurinn gaf nú skipun um að mennirnir sem höfðu ásakað* Daníel skyldu sóttir og þeim kastað í ljónagryfjuna ásamt sonum sínum og eiginkonum. Áður en þau náðu til botns í gryfjunni réðust ljónin á þau og muldu í þeim hvert bein.+

25 Síðan skrifaði Daríus konungur öllum þjóðum, þjóðflokkum og málhópum um alla jörð:+ „Ég óska ykkur friðar og farsældar! 26 Ég gef út þá tilskipun að alls staðar í ríki mínu skuli fólk óttast og virða Guð Daníels+ því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans verður aldrei eytt og stjórn* hans er eilíf.+ 27 Hann bjargar+ og frelsar og gerir tákn og undur á himni og jörð+ enda bjargaði hann Daníel úr klóm ljónanna.“

28 Daníel þessi naut velgengni í stjórnartíð Daríusar+ og í stjórnartíð Kýrusar hins persneska.+

7 Á fyrsta stjórnarári Belsassars+ Babýlonarkonungs dreymdi Daníel draum og sýnir birtust honum í huganum meðan hann lá í rúmi sínu.+ Hann skrifaði niður drauminn+ og lýsti honum í smáatriðum. 2 Daníel skýrir svo frá:

„Í sýnum mínum um nóttina sá ég himinvindana fjóra ýfa upp hafið mikla.+ 3 Fjögur risavaxin dýr+ stigu upp úr hafinu, hvert öðru ólíkt.

4 Það fyrsta var eins og ljón+ og hafði arnarvængi.+ Meðan ég horfði á það voru vængirnir reyttir af því. Því var lyft upp af jörðinni og látið standa á tveim fótum eins og maður, og því var gefið mannshjarta.

5 Og ég sá annað dýr sem var annað í röðinni. Það var eins og björn.+ Það reis upp á aðra hliðina og var með þrjú rif í kjaftinum milli tannanna. Því var sagt: ‚Stattu upp og éttu mikið kjöt.‘+

6 Eftir þetta sá ég enn eitt dýr. Það líktist hlébarða+ en var með fjóra fuglsvængi á bakinu. Dýrið var með fjögur höfuð+ og því var gefið vald til að ríkja.

7 Eftir þetta sá ég í nætursýnunum fjórða dýrið, ógnvekjandi, hræðilegt og óvenjusterkt. Það var með stórar járntennur og gleypti allt og muldi og traðkaði síðan undir fótum sér það sem eftir var.+ Það var ólíkt öllum hinum dýrunum á undan því og var með tíu horn. 8 Meðan ég virti fyrir mér hornin sá ég annað lítið horn+ spretta upp á meðal þeirra. Þrjú af fyrri hornunum voru rifin af frammi fyrir því. Þetta horn var með augu sem líktust mannsaugum og munn sem talaði með hroka.*+

9 Ég hélt áfram að horfa og sá þá að hásætum var komið fyrir og Hinn aldni+ fékk sér sæti.+ Klæði hans voru hvít sem snjór+ og hárið á höfði hans eins og hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því brennandi eldur.+ 10 Eldstraumur flæddi út frá honum.+ Þúsund þúsunda þjónaði honum og tíu þúsund tíu þúsunda stóðu frammi fyrir honum.+ Réttarhöldin+ hófust og bækur voru opnaðar.

11 Ég hélt áfram að horfa því að ég heyrði hvernig hornið hreykti sér upp.*+ Ég sá nú að dýrið var drepið, líkama þess eytt og því kastað á logandi eld. 12 Hin dýrin+ voru svipt völdum en fengu að lifa um tíma og tíð.

13 Ég hélt áfram að horfa í nætursýnunum og sá einhvern sem líktist mannssyni koma með skýjum himins.+ Honum var leyft að koma fram fyrir Hinn aldna+ og var leiddur fyrir hann. 14 Honum var gefið vald,+ heiður+ og ríki til að allar þjóðir, þjóðflokkar og málhópar skyldu þjóna honum.+ Stjórn hans er eilíf stjórn sem líður aldrei undir lok og ríki hans verður aldrei eytt.+

15 Mér, Daníel, var órótt í skapi því að sýnirnar sem birtust mér í huganum hræddu mig.+ 16 Ég gekk til eins af þeim sem stóðu þarna og spurði hann hvað allt þetta merkti. Hann svaraði mér og útskýrði þetta fyrir mér.

17 ‚Þessi risavöxnu dýr, fjögur talsins,+ eru fjórir konungar sem munu koma fram á jörðinni.+ 18 En hinir heilögu Hins æðsta+ hljóta ríkið+ og halda því að eilífu, já, um alla eilífð.‘

19 Ég vildi vita meira um fjórða dýrið sem var ólíkt öllum hinum. Það var hrikalega ógnvekjandi, með járntennur og koparklær. Það gleypti allt og muldi og traðkaði það sem eftir var undir fótum sér.+ 20 Ég vildi líka vita meira um hornin tíu+ á höfði þess og hitt hornið sem spratt upp og varð til þess að þrjú önnur féllu af,+ hornið sem var með augu og munn sem talaði með hroka* og var stærra að sjá en hin.

21 Ég hélt áfram að horfa og sá að þetta horn háði stríð við hina heilögu og hafði yfirhöndina gegn þeim+ 22 þar til Hinn aldni+ kom og dómur var felldur hinum heilögu Hins æðsta í vil+ og tilsettur tími kom að hinir heilögu hlytu ríkið.+

23 Hann útskýrði þetta fyrir mér: ‚Fjórða dýrið táknar fjórða ríkið sem kemur fram á jörðinni. Það verður ólíkt öllum hinum ríkjunum. Það mun gleypa alla jörðina, traðka allt niður og mylja sundur.+ 24 Hornin tíu merkja að tíu konungar rísa af þessu ríki, og enn einn konungur rís eftir þá. Hann verður ólíkur hinum fyrri og mun auðmýkja þrjá konunga.+ 25 Hann mun tala gegn Hinum hæsta+ og linnulaust þjaka hina heilögu Hins æðsta. Hann ætlar sér að breyta tímum og lögum og þeir verða gefnir honum á vald um tíð, tíðir og hálfa tíð.*+ 26 En réttarhöldin hófust og hann var sviptur völdum til að honum yrði tortímt og gereytt.+

27 Ríkið og valdið og mikilfengleiki allra ríkja undir himninum var gefinn hinum heilögu Hins æðsta.+ Ríki þeirra er eilíft ríki+ og allar stjórnir munu þjóna þeim og hlýða.‘

28 Hér lýkur frásögninni. Hugsanir mínar skutu mér, Daníel, skelk í bringu og ég varð náfölur.* En ég geymdi þetta í hjarta mínu.“

8 Á þriðja stjórnarári Belsassars+ konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá sem hafði birst mér áður.+ 2 Ég sá sýnina og var þá staddur í virkisborginni* Súsa+ sem er í skattlandinu Elam.+ Þegar ég virti fyrir mér sýnina var ég staddur við Úlaífljót.* 3 Ég leit upp og sá þá hrút+ standa hjá fljótinu og hann var með tvö horn.+ Bæði hornin voru há en annað var hærra en hitt, og hærra hornið spratt upp síðar.+ 4 Ég sá hrútinn stanga í vestur, norður og suður. Ekkert villidýr gat staðist gegn honum og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi* hans.+ Hann gerði eins og honum sýndist og var mikill með sig.

5 Ég hélt áfram að horfa og sá að geithafur+ kom úr vestri* og fór yfir alla jörðina án þess að snerta hana. Hann var með áberandi horn milli augnanna.+ 6 Hann stefndi á tvíhyrnda hrútinn sem ég hafði séð standa við fljótið. Hann hljóp að honum í heiftaræði.

7 Ég sá hann nálgast hrútinn af miklum ofsa. Hann réðst á hrútinn og braut bæði horn hans. Hrúturinn hafði engan mátt til að standa gegn honum. Geithafurinn fleygði honum til jarðar og tróð á honum og enginn gat frelsað hrútinn undan valdi* hans.

8 Geithafurinn var mjög mikill með sig en um leið og hann varð voldugur brotnaði stóra hornið. Í stað þess spruttu upp fjögur áberandi horn á móti höfuðáttunum* fjórum.+

9 Af einu þeirra spratt annað horn. Það var lítið en varð mjög stórt og óx í átt til suðurs, austurs* og landsins dýrlega.*+ 10 Það varð svo stórt að það náði alla leið til hers himinsins og olli því að hluti hersins og nokkrar af stjörnunum féllu til jarðar, og það tróð á þeim. 11 Það miklaðist jafnvel gegn höfðingja hersins. Hann var sviptur hinni daglegu fórn og helgidómurinn sem hann grundvallaði var rifinn niður.+ 12 Og her var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgerðarinnar. Hornið fleygði sannleikanum til jarðar. Það lét til sín taka og náði árangri.

13 Nú heyrði ég heilaga veru tala og önnur heilög vera sagði við hana: „Hve lengi mun það vara sem birtist í sýninni um hina daglegu fórn og misgerðina sem veldur eyðingu+ svo að troðið er á helgidóminum og hernum?“ 14 Veran sagði við mig: „Í 2.300 kvöld og morgna. Síðan verður helgidómurinn færður í samt lag.“

15 Meðan ég, Daníel, virti fyrir mér sýnina og reyndi að skilja hana sá ég allt í einu einhvern standa fyrir framan mig sem líktist manni. 16 Síðan heyrði ég mannsrödd úr miðju Úlaífljóti*+ sem hrópaði: „Gabríel,+ útskýrðu sýnina fyrir þessum manni.“+ 17 Hann gekk þá til mín þar sem ég stóð en þegar hann kom varð ég svo hræddur að ég féll á grúfu. Hann sagði við mig: „Gerðu þér ljóst, mannssonur, að sýnin á við tíma endalokanna.“+ 18 En meðan hann var að tala við mig steinsofnaði ég þar sem ég lá á grúfu á jörðinni. Þá snerti hann mig og reisti mig aftur á fætur þar sem ég hafði staðið.+ 19 Síðan sagði hann: „Nú segi ég þér hvað gerist við lok reiðitímans því að sýnin á við tilsettan tíma endalokanna.+

20 Tvíhyrndi hrúturinn sem þú sást táknar konunga Medíu og Persíu.+ 21 Loðni geithafurinn táknar konung Grikklands+ og stóra hornið sem var milli augna hans táknar fyrsta konunginn.+ 22 Það að hornið skyldi brotna og fjögur önnur spretta í stað þess+ merkir að fjögur ríki munu rísa af þjóð hans en verða þó ekki jafn máttug og hann.

23 Undir lok ríkis þeirra, þegar hinir brotlegu hafa fyllt mælinn, kemur fram grimmdarlegur konungur sem kann skil á tvíræðu máli.* 24 Hann verður mjög voldugur en þó ekki af eigin mætti. Hann mun valda hrikalegri eyðileggingu og takast vel til í öllu sem hann gerir. Hann mun tortíma stórmennum og einnig hinum heilögu.+ 25 Lævís beitir hann blekkingum til að ná sínu fram. Hann hrokast upp í hjarta sínu og þegar allt er með kyrrum kjörum* tortímir hann mörgum. Hann rís jafnvel gegn höfðingja höfðingjanna en verður gersigraður án íhlutunar manna.

26 Það sem var sagt í sýninni um kvöldin og morgnana er satt. En þú skalt halda sýninni leyndri því að hún varðar fjarlæga framtíð.“*+

27 Ég, Daníel, var uppgefinn og veikur í marga daga.+ Síðan komst ég á fætur og sinnti verkefnum mínum fyrir konung.+ En ég var undrandi yfir því sem ég hafði séð og enginn skildi sýnina.+

9 Á fyrsta stjórnarári Daríusar+ Ahasverussonar, sem var kominn af Medum og hafði verið gerður að konungi yfir ríki Kaldea,+ 2 á fyrsta ári stjórnartíðar hans, komst ég, Daníel, að raun um með hjálp bókanna* hve mörg ár Jerúsalem átti að liggja í eyði samkvæmt orði Jehóva til Jeremía spámanns.+ Það voru 70 ár.+ 3 Ég sneri mér þá til Jehóva, hins sanna Guðs. Ég bað innilega til hans og fastaði+ í hærusekk og ösku. 4 Ég bað til Jehóva Guðs míns, gerði játningu og sagði:

„Jehóva, hinn sanni Guð, þú mikli og mikilfenglegi Guð sem heldur sáttmálann og sýnir þeim tryggan kærleika+ sem elska þig og halda boðorð þín.+ 5 Við höfum syndgað og brotið af okkur, framið illskuverk og gert uppreisn.+ Við höfum vikið frá boðorðum þínum og ákvæðum. 6 Við hlustuðum ekki á þjóna þína, spámennina,+ sem töluðu í þínu nafni til konunga okkar og höfðingja, forfeðra okkar og allra íbúa landsins. 7 Þitt er réttlætið, Jehóva, en skömmin er okkar allt til þessa dags, okkar Júdamanna, Jerúsalembúa og alls Ísraels, nær og fjær, í öllum þeim löndum sem þú tvístraðir þeim til því að þeir voru þér ótrúir.+

8 Æ, Jehóva, skömmin er okkar, konunga okkar, höfðingja og forfeðra, því að við höfum syndgað gegn þér. 9 Jehóva Guð okkar er miskunnsamur og fús til að fyrirgefa+ en við höfum gert uppreisn gegn honum.+ 10 Við höfum ekki hlýtt rödd Jehóva Guðs okkar með því að fylgja lögunum sem hann gaf okkur fyrir milligöngu þjóna sinna, spámannanna.+ 11 Allur Ísrael hefur brotið lög þín og snúið baki við þér með því að óhlýðnast þér. Þess vegna léstu okkur kenna á bölvuninni og eiðnum sem skrifað er um í lögum Móse, þjóns hins sanna Guðs,+ enda höfum við syndgað gegn þér. 12 Þú stóðst við orð þín sem þú talaðir gegn okkur+ og valdhöfum okkar sem ríktu yfir okkur* með því að leiða yfir okkur miklar hörmungar. Hvergi undir himninum hefur átt sér stað slík ógæfa eins og sú sem varð í Jerúsalem.+ 13 Allar þessar hörmungar eru komnar yfir okkur samkvæmt því sem stendur í lögum Móse.+ Samt höfum við ekki sárbænt Jehóva Guð okkar um miskunn.* Við höfum hvorki sagt skilið við syndir okkar+ né gefið gaum að sannleika þínum.*

14 Jehóva var á verði og leiddi hörmungarnar yfir okkur enda er Jehóva Guð okkar réttlátur í öllu sem hann gerir. En samt höfum við ekki hlýtt honum.+

15 Jehóva Guð okkar, þú sem leiddir fólk þitt út úr Egyptalandi með máttugri hendi+ og skapaðir þér nafn sem þú berð enn í dag,+ við höfum syndgað og gert það sem er illt. 16 Jehóva, þú sem hefur alltaf gert það sem er réttlátt,+ snúðu reiði þinni og heift frá borg þinni, Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að allir í kringum okkur hæðast að Jerúsalem og fólki þínu vegna synda okkar og afbrota forfeðra okkar.+ 17 Hlustaðu nú, Guð okkar, á bæn þjóns þíns og grátbeiðni og láttu andlit þitt lýsa+ á rústir helgidóms þíns+ sjálfs þín vegna, Jehóva. 18 Ljáðu mér eyra, Guð minn, og hlustaðu. Opnaðu augun og sjáðu hve illa er komið fyrir okkur og borginni sem ber nafn þitt. Við sárbænum þig ekki vegna okkar eigin réttlætisverka heldur vegna mikillar miskunnar þinnar.+ 19 Jehóva, hlustaðu. Jehóva, fyrirgefðu okkur.+ Jehóva, veittu okkur athygli og láttu til þín taka! Frestaðu því ekki, Guð minn, sjálfs þín vegna því að borg þín og fólk þitt er kennt við nafn þitt.“+

20 Meðan ég var enn að tala og biðjast fyrir og játa syndir mínar og syndir þjóðar minnar, Ísraels, og biðja fyrir heilögu fjalli Guðs míns+ frammi fyrir Jehóva Guði mínum, 21 já, meðan ég var enn að biðjast fyrir kom Gabríel+ til mín, maðurinn sem ég hafði séð áður í sýninni.+ Það var um kvöldfórnartímann og ég var örþreyttur. 22 Hann veitti mér skilning og sagði:

„Daníel, ég er kominn til að veita þér innsæi og skilning. 23 Þegar þú byrjaðir bæn þína fékk ég orðsendingu og ég er kominn til að greina þér frá henni því að þú ert mikils metinn.*+ Taktu nú vel eftir og reyndu að skilja sýnina.

24 Sjötíu vikur* eru ætlaðar þjóð þinni og þinni heilögu borg,+ til að binda enda á afbrotin og afmá syndina,+ til að friðþægja fyrir misgerðina+ og koma á eilífu réttlæti,+ til að innsigla sýnina og spádóminn*+ og smyrja hið háheilaga.* 25 Þú skalt vita og skilja að frá því að skipunin er gefin um að endurreisa og endurbyggja Jerúsalem+ þar til Messías,*+ leiðtoginn,+ kemur fram líða 7 vikur og 62 vikur.+ Hún verður endurreist og endurbyggð með torgi og síki, en þó á þrengingatímum.

26 Eftir þessar 62 vikur verður Messías afmáður*+ og allslaus.+

Leiðtogi nokkur kemur með her sinn og eyðir borginni og helgidóminum.+ Eyðingin kemur eins og flóð. Stríð mun geisa allt til enda, eyðing er fastráðin.+

27 Hann mun halda sáttmálanum í gildi fyrir marga í eina viku. Og um miðja vikuna afnemur hann sláturfórn og fórnargjöf.+

Á væng viðurstyggðanna kemur sá sem veldur eyðingu.+ Og því sem var ákveðið verður úthellt yfir hana sem liggur í eyði, allt til gereyðingar.“

10 Á þriðja stjórnarári Kýrusar+ Persakonungs fékk Daníel, sem var kallaður Beltsasar,+ opinberun. Boðskapurinn var sannur og varðaði mikil átök. Hann skildi boðskapinn og fékk skýringu á því sem hann sá.

2 Á þeim tíma hafði ég, Daníel, syrgt+ í þrjár heilar vikur. 3 Ég borðaði engan gómsætan mat og bragðaði hvorki kjöt né vín. Ég bar ekki á mig olíu í þrjár vikur. 4 Á 24. degi fyrsta mánaðarins var ég staddur á bakka Tígris,*+ fljótsins mikla. 5 Ég leit upp og sá mann í línklæðum.+ Um mittið var hann með belti úr gulli frá Úfas. 6 Líkami hans var eins og krýsólít,+ andlitið ljómaði eins og elding, augun voru eins og logandi blys, handleggir hans og fætur líktust fægðum kopar+ og röddin hljómaði eins og mikill mannfjöldi. 7 Ég, Daníel, var sá eini sem sá sýnina. Mennirnir sem voru með mér sáu hana ekki+ en samt greip þá mikil hræðsla og þeir hlupu í felur.

8 Nú var ég einn eftir og sá þessa miklu sýn. Ég var máttvana og veiklulegur og kraftar mínir voru á þrotum.+ 9 Þá heyrði ég hljóminn af rödd hans. En þegar ég heyrði hann tala steinsofnaði ég og hné niður á grúfu.+ 10 Ég fann að hönd snerti mig.+ Hún stjakaði við mér og hjálpaði mér upp á fjóra fætur. 11 Síðan sagði hann við mig:

„Daníel, þú sem ert mikils metinn,*+ taktu vel eftir því sem ég segi þér. Stattu nú upp því að ég var sendur til þín.“

Þegar hann sagði þetta stóð ég skjálfandi á fætur.

12 Því næst sagði hann við mig: „Vertu ekki hræddur,+ Daníel. Guð hefur heyrt bæn þína frá fyrsta degi sem þú ákvaðst í hjarta þínu að leita skilnings og auðmýkja þig frammi fyrir Guði þínum, og ég er kominn vegna bænar þinnar.+ 13 En höfðingi+ Persaveldis veitti mér mótstöðu í 21 dag. Mikael,*+ einn af fremstu* höfðingjunum, kom mér þá til hjálpar, og ég varð eftir þar hjá konungum Persíu. 14 Ég er kominn til að útskýra fyrir þér hvað mun koma fyrir þjóð þína á síðustu dögum+ því að sýnin varðar ókomna daga.“+

15 Þegar hann sagði þetta við mig leit ég til jarðar og kom ekki upp orði. 16 Einhver sem líktist manni snerti þá varir mínar+ og ég opnaði munninn og sagði við þann sem stóð fyrir framan mig: „Herra minn, ég skelf vegna sýnarinnar og kraftur minn er á þrotum.+ 17 Hvernig ætti ég, þjónn þinn, að geta talað við þig, herra minn?+ Ég er örmagna og enginn lífsandi er eftir í mér.“+

18 Sá sem líktist manni snerti mig þá aftur og styrkti mig.+ 19 Hann sagði: „Vertu ekki hræddur,+ þú sem ert mikils metinn.*+ Friður sé með þér.+ Vertu sterkur, vertu sterkur.“ Þegar hann talaði við mig styrktist ég og sagði: „Talaðu, herra, því að þú hefur gefið mér styrk.“

20 Þá sagði hann: „Veistu af hverju ég er kominn til þín? Nú fer ég aftur til að berjast við höfðingja Persíu.+ Þegar ég fer kemur höfðingi Grikklands. 21 En fyrst ætla ég að segja þér hvað er skrifað í bók sannleikans. Enginn liðsinnir mér við þetta nema Mikael+ höfðingi þinn.+

11 En á fyrsta stjórnarári Daríusar+ frá Medíu gekk ég fram til að styrkja hann og efla.* 2 Það sem ég segi þér nú er sannleikur:

Þrír aðrir konungar munu koma fram í Persíu og sá fjórði sankar að sér meiri auðæfum en allir aðrir. Og þegar auðurinn hefur gert hann öflugan stefnir hann öllu gegn konungsríkinu Grikklandi.+

3 Voldugur konungur mun koma fram, ráða yfir víðáttumiklu ríki+ og gera eins og honum þóknast. 4 En þegar hann er kominn fram liðast ríki hans sundur og tvístrast í höfuðáttirnar fjórar.*+ Það kemur þó ekki í hlut afkomenda hans og verður ekki eins öflugt og þegar hann réð ríkjum því að ríki hans verður rifið upp með rótum og fengið öðrum en þeim.

5 Konungur suðursins verður voldugur, það er að segja einn af höfðingjum hans. Annar mun þó hafa betur gegn honum, ráða yfir víðáttumiklu ríki og verða voldugri en hann.

6 Að nokkrum árum liðnum gera þeir með sér bandalag. Dóttir konungs suðursins kemur til konungs norðursins til að staðfesta samkomulagið. En hún mun ekki halda mætti handar sinnar og hann mun ekki halda velli heldur missa völd sín. Hún verður framseld ásamt þeim sem fylgdu henni þangað, föður sínum og þeim sem var henni stoð og stytta á þessum tíma. 7 Þá mun sproti spretta af rótum hennar í hans stað. Hann heldur gegn hernum og virki konungsins í norðri. Hann lætur til skarar skríða gegn þeim og sigrar. 8 Hann tekur guði þeirra, málmlíkneski,* dýrgripi úr silfri og gulli og fanga og flytur með sér til Egyptalands. Í nokkur ár mun hann halda sig fjarri konungi norðursins. 9 Sá mun ráðast á ríki konungsins í suðri en snúa þó aftur heim í land sitt.

10 Synir hans vígbúast og safna saman stærðarinnar her. Hann mun sækja fram og steypast yfir landið eins og flóðbylgja en snúa aftur og heyja stríð alla leið að virkinu.

11 Konungur suðursins verður heiftarreiður og heldur af stað til að berjast við hann, við konung norðursins, og sá mun safna saman miklu liði en það mun falla í hendur hins. 12 Og liðið verður flutt burt. Hann hrokast upp í hjarta sínu og verður tugþúsundum að bana en hann mun ekki nýta sér yfirburðastöðu sína.

13 Konungur norðursins snýr aftur og safnar saman miklum liðsafla, fjölmennari en hinum fyrri. Að nokkrum tíma liðnum, nokkrum árum síðar, kemur hann með fjölmennan her og mikinn útbúnað. 14 Á þeim tíma munu margir rísa gegn konungi suðursins.

Ofbeldismenn* meðal þjóðar þinnar berast með straumnum og reyna að láta sýn nokkra rætast en þeim mun mistakast.*

15 Konungur norðursins kemur, reisir umsátursvirki og vinnur víggirta borg. Hersveitir suðursins fá ekki staðist, ekki einu sinni úrvalsliðið. Þær hafa engan mátt til að halda uppi vörnum. 16 Sá sem heldur gegn honum gerir eins og honum þóknast og enginn getur veitt honum mótspyrnu. Hann nær fótfestu í landinu dýrlega*+ og hefur eyðingarmátt í hendi sér. 17 Hann einsetur sér að koma með allan liðsafla ríkis síns og samkomulag verður gert* við hann, og hann gengur til verks. Honum verður leyft að leiða ógæfu yfir dótturina. Hún fær ekki staðist og segir skilið við hann. 18 Hann snýr sér að strandhéruðunum og vinnur mörg. En herforingi nokkur bindur enda á skömmina sem hann olli svo að henni linnir. Hann lætur hana koma yfir hann sjálfan. 19 Þá snýr hann aftur til virkisborga lands síns og hrasar og fellur og finnst hvergi framar.

20 Í hans stað kemur annar og sá mun senda skattheimtumann* um ríkið glæsilega. En að fáeinum dögum liðnum mun hann falla, þó ekki fyrir reiði né í bardaga.

21 Í hans stað kemur fyrirlitinn* maður og honum verður ekki veittur konunglegur heiður. Hann kemur fram þegar allt er með kyrrum kjörum* og nær undir sig ríkinu með lævísi.* 22 Hersveitunum, sem flæða fram, verður sópað burt sökum hans. Þeim verður eytt og einnig leiðtoga+ sáttmálans.+ 23 Og vegna bandalags við hann beitir hann blekkingum. Hann kemst til valda og verður öflugur með hjálp fámennrar þjóðar. 24 Þegar allt er með kyrrum kjörum* heldur hann inn í auðugustu* svæði skattlandsins og gerir það sem feður hans og feður þeirra höfðu ekki gert. Hann útbýtir herfangi, ránsfeng og auðæfum meðal fólksins og leggur á ráðin gegn virkisborgum, en aðeins um stundarsakir.

25 Hann mun beita styrk sínum og kjarki* gegn konungi suðursins með fjölmennum her, og konungur suðursins mun búa sig undir stríð með gríðarstórum og öflugum her. Hann fær ekki staðist því að launráð verða brugguð gegn honum. 26 Þeir sem borða kræsingar hans verða honum að falli.

Her hans verður sópað* burt og mannfallið verður mikið.

27 Báðir konungarnir eru ákveðnir í að gera það sem er illt. Þeir munu sitja að sama borði og ljúga hvor að öðrum. En áform þeirra bera engan árangur því að endirinn kemur á tilsettum tíma.+

28 Hann snýr aftur til lands síns með mikil auðæfi og einsetur sér að berjast gegn hinum heilaga sáttmála. Hann lætur til sín taka og snýr aftur heim í land sitt.

29 Á tilsettum tíma kemur hann aftur og ræðst gegn landinu í suðri. En í þetta skipti fer ekki eins og áður 30 því að skip frá Kittím+ koma á móti honum og hann verður auðmýktur.

Hann snýr aftur heim og eys formælingum yfir* hinn heilaga sáttmála+ og lætur til sín taka. Hann snýr aftur og gefur gaum að þeim sem yfirgefa hinn heilaga sáttmála. 31 Hersveitir hans láta til skarar skríða, vanhelga helgidóminn,+ virkið, og afnema hina daglegu fórn.+

Og viðurstyggðin sem veldur eyðingu verður reist.+

32 Þá sem fremja illskuverk og brjóta sáttmálann lokkar hann út í fráhvarf með blíðmælum.* En þeir sem þekkja Guð sinn standa stöðugir og láta til sín taka. 33 Hinir skynsömu+ meðal fólksins munu veita mörgum skilning. En um nokkurra daga skeið falla þeir fyrir sverði og eldi, útlegð og ránum. 34 Þegar þeir falla hljóta þeir þó dálitla hjálp. Og margir ganga til liðs við þá með fagurgala.* 35 Nokkrir af hinum skynsömu verða felldir svo að hreinsun geti átt sér stað vegna þeirra og fólkið verði þvegið og skírt+ allt til endalokanna því að endirinn kemur á tilsettum tíma.

36 Konungurinn mun gera hvað sem honum sýnist. Hann hreykir sér upp og setur sig ofar öllum guðum. Hann talar gegn Guði guðanna+ með sláandi hætti. Honum gengur allt í haginn þar til reiðin er á enda því að það sem hefur verið ákveðið mun gerast. 37 Hann ber enga virðingu fyrir Guði feðra sinna og ekki heldur fyrir yndi kvennanna né nokkrum öðrum guði heldur hefur sig upp yfir alla. 38 Hann heiðrar guð vígvirkjanna. Með gulli og silfri, eðalsteinum og dýrgripum heiðrar hann guð sem feður hans þekktu ekki. 39 Hann lætur til skarar skríða gegn rammgerðustu vígjunum ásamt* framandi guði. Þeim sem viðurkenna hann* veitir hann mikinn heiður og lætur þá ríkja yfir mörgum. Og hann úthlutar landsvæðum gegn gjaldi.

40 Á tíma endalokanna mun konungur suðursins stimpast* við hann og konungur norðursins mun geysast á móti honum með vögnum og riddurum og mörgum skipum. Hann ryðst inn í löndin og steypir sér yfir þau eins og flóðbylgja. 41 Hann ræðst einnig inn í landið dýrlega*+ og mörg lönd munu falla. En þessi munu ganga honum úr greipum: Edóm og Móab og hinir fremstu meðal Ammóníta. 42 Hann réttir út hönd sína gegn löndunum og Egyptaland kemst ekki undan. 43 Hann mun ráða yfir földum fjársjóðum af gulli og silfri og yfir öllum dýrgripum Egyptalands. Og Líbíumenn og Eþíópíumenn fylgja honum hvert fótmál.

44 En fréttir úr austri* og norðri koma honum í uppnám og hann heldur af stað í mikilli heift til að tortíma og eyða mörgum.* 45 Hann slær upp konungstjöldum sínum milli hafsins mikla og fjallsins heilaga í landinu dýrlega*+ en hann líður undir lok og enginn kemur honum til hjálpar.

12 Á þeim tíma mun Mikael,*+ höfðinginn mikli+ sem beitir sér* í þágu þjóðar þinnar,* ganga fram. Þá verða neyðartímar, slíkir sem aldrei hafa verið frá því að nokkur þjóð varð til og allt til þess dags. En á þeim tíma mun þjóð þín komast undan,+ allir sem eru skráðir í bókinni.+ 2 Og margir þeirra sem sofa í dufti jarðar munu vakna, sumir til eilífs lífs en aðrir til smánar og eilífrar fyrirlitningar.

3 Hinir skynsömu munu skína eins skært og himinhvolfið og þeir sem leiða marga til réttlætis munu skína eins og stjörnurnar, um alla eilífð.

4 En þú, Daníel, skalt halda þessum orðum leyndum og innsigla bókina fram að tíma endalokanna.+ Margir munu leita víða* og sönn þekking verður ríkuleg.“+

5 Ég, Daníel, sá nú tvo aðra standa þarna, annan mín megin fljótsins+ og hinn hinum megin. 6 Annar þeirra sagði við manninn í línklæðunum+ sem var yfir fljótinu: „Hve langt er í endi þessara undraverðu hluta?“ 7 Þá heyrði ég manninn í línklæðunum, sem var yfir fljótinu, lyfta hægri og vinstri hendi til himins og sverja við þann sem lifir að eilífu:+ „Tíð, tíðir og hálf tíð* eru fastsettar. Þegar máttur hinnar heilögu þjóðar hefur verið brotinn á bak aftur+ mun allt þetta koma fram.“

8 Ég heyrði þetta en skildi það ekki.+ Ég spurði því: „Herra minn, hvernig endar allt þetta?“

9 Hann svaraði: „Farðu, Daníel, því að orðunum skal haldið leyndum og þau innsigluð allt til tíma endalokanna.+ 10 Margir munu þvo sér og verða skírir og hreinir.+ Hinir illu fremja illskuverk og engin illmenni skilja þetta en hinir skynsömu munu skilja það.+

11 Frá því að hin daglega fórn+ er afnumin og viðurstyggðin sem veldur eyðingu er reist+ líða 1.290 dagar.

12 Sá er hamingjusamur sem bíður þolgóður* þar til dagarnir 1.335 eru liðnir!

13 En þú skalt halda áfram allt til enda. Þú munt hvílast en rísa upp og taka við hlut þínum* við lok daganna.“+

Eða „musteri“.

Það er, Babýloníu.

Eða „musteri“.

Orðrétt „börn“.

Eða „kenna þeim bókmenntir og mál“.

Eða hugsanl. „Það átti að ala þá í þrjú ár“.

Sem merkir ‚Guð er dómari minn‘.

Sem merkir ‚Jehóva hefur sýnt velvild‘.

Merkir hugsanl. ‚hver er eins og Guð?‘

Sem merkir ‚Jehóva hefur hjálpað‘.

Það er, babýlonsk nöfn.

Eða „miskunn“.

Orðrétt „börnin“.

Orðrétt „höfði mínu“.

Orðrétt „barnanna“.

Orðrétt „feitari“.

Orðrétt „öll börnin“.

Orðrétt „börnum“.

Eða „ritmáli“.

Hópur sem lagði stund á spásagnir og stjörnuspeki.

Dan 2:4b til 7:28 er á arameísku í frumtextanum.

Eða hugsanl. „ruslahaugum; mykjuhaugum“.

Eða „frá eilífð til eilífðar“.

Eða „risavaxin stytta“.

Eða „brenndum (mótuðum) leir“.

Eða „án þess að mannshönd kæmi þar nálægt“.

Orðrétt „leir leirkerasmiðs“.

Virðist vísa til þess sem járnið táknar.

Eða „afkomendum mannkyns“, það er, almúganum.

Eða „styttu“.

Um 27 m. Sjá viðauka B14.

Um 2,7 m. Sjá viðauka B14.

Eða „satrapa“. Sjá orðaskýringar.

Eða „rægðu“.

Eða „hugur hans gerbreyttist gagnvart þeim“.

Eða „fórna líkama sínum“.

Eða hugsanl. „ruslahaug; mykjuhaug“.

Orðrétt „veitti síðan Sadrak, Mesak og Abed Negó velgengni“.

Hópur sem lagði stund á spásagnir og stjörnuspeki.

Eða „látið rótarstofninn“.

Eða „látið rótarstofninn“.

Eða „rótarstofn trésins skyldi skilinn eftir“.

Eða „haldið aftur af hendi hans“.

Eða „Ásýnd konungsins breyttist“.

Hópur sem lagði stund á spásagnir og stjörnuspeki.

Hópur sem lagði stund á spásagnir og stjörnuspeki.

Orðrétt „leysa hnúta“.

Orðrétt „leysa hnúta“.

Eða „satrapa“. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „síns einstaka anda“.

Eða hugsanl. „Engir hljóðfæraleikarar voru leiddir inn“.

Eða „rægt“.

Eða „drottinvald“.

Eða „gortaði“.

Eða „gortaði“.

Eða „gortaði“.

Það er, þrjár og hálfa tíð.

Eða „ásýnd mín breyttist“.

Eða „höllinni“.

Eða „Úlaískurð“.

Orðrétt „hendi“.

Eða „frá sólsetrinu“.

Orðrétt „hendi“.

Orðrétt „himinvindunum“.

Eða „sólarupprásarinnar“.

Eða „landsins fagra; prýðinnar“.

Eða „miðjum Úlaískurði“.

Eða „er brögðóttur; er undirförull“.

Eða hugsanl. „og fyrirvaralaust“.

Eða „því að enn eru margir dagar þar til hún rætist“.

Það er, heilögu ritninganna.

Orðrétt „dómurum okkar sem dæmdu okkur“.

Eða „reynt að milda Jehóva Guð okkar“.

Eða „trúfesti þinni“.

Eða „ástfólginn Guði; mjög dýrmætur“.

Það er, áravikur.

Orðrétt „spámanninn“.

Eða „hið allra helgasta“.

Eða „hinn smurði“.

Eða „tekinn af lífi“.

Orðrétt „Kíddekel“.

Eða „ástfólginn Guði; mjög dýrmætur“.

Sem þýðir ‚hver er eins og Guð?‘

Eða „háttsettustu“.

Eða „ástfólginn Guði; mjög dýrmætur“.

Eða „og vera honum virki“.

Orðrétt „fyrir himinvindunum fjórum“.

Eða „steypt líkneski“.

Eða „Ræningjasynir“.

Orðrétt „þeir hrasa“.

Eða „fagra“.

Eða „og hann gerir samning“.

Hebreska orðið getur einnig átt við herkvaðningarmann.

Eða „fyrirlitlegur“.

Eða hugsanl. „fyrirvaralaust“.

Eða „smjaðri“.

Eða hugsanl. „Fyrirvaralaust“.

Eða „bestu“.

Orðrétt „hjarta“.

Eða „skolast“.

Eða „beinir reiði sinni gegn“.

Eða „smjaðri; hræsni“.

Eða „smjaðri; hræsni“.

Eða „með hjálp“.

Eða hugsanl. „Hverjum sem hann viðurkennir“.

Eða „stangast á“.

Eða „fagra“.

Eða „frá sólarupprásinni“.

Eða „helga marga eyðingu“.

Eða „fagra“.

Sem þýðir ‚hver er eins og Guð?‘

Orðrétt „stendur“.

Orðrétt „sona þjóðar þinnar“.

Eða „rannsaka hana [það er, bókina] vandlega“.

Það er, þrjár og hálf tíð.

Eða „með eftirvæntingu“.

Eða „rísa upp á þeim stað sem þér er úthlutað“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila