Efast þú um að Guð sé til? veist þú hvers vegna?
SUMIR yppta öxlum efagjarnir á svip. Aðrir svara hreinskilnislega neitandi. Þannig eru viðbrögð margra við þeirri spurningu hvort Guð sé til. Ert þú einn þeirra? Ef svo er kemur það ekki á óvart því að þeim hefur farið fjölgandi sem efast um að Guð sé til.
Hvers vegna þau trúðu ekki á Guð
Ung þýsk kona greinir svo frá sinni afstöðu: „Foreldrar mínir trúðu ekki á Guð og voru ekki trúhneigðir, þannig að ég ólst upp án trúar og án Guðs. Væri minnst á trú kallaði það bros fram á varir mér og ég skildi ekki hvers vegna sumir trúðu á Guð. Þó gat ég enga raunverulega ástæðu fært fyrir því að ég skyldi ekki geta trúað.“
Belgíumaður, 32 ára að aldri, segir til skýringar á því hvers vegna hann trúði ekki: „Meðan ég var enn í skóla hvöttu foreldrar mínir mig til að þéna peninga og keppa eftir efnislegum hlutum. Efnishyggja kom í stað sérhverrar umhugsunar um trú og trúarbrögð.“
Hefur þú efasemdir um tilvist Guðs? Veist þú hvers vegna? Getur hugsast að þú hreinlega látir berast með straumnum? Ef svo er, þekkir þú þá þau „sönnunargögn“ sem fjöldinn slær fram? Hefur þú, í fullri hreinskilni og alvöru, prófreynt hvort skýringar hans séu áreiðanlegar?
Þörfin fyrir fullnægjandi svör
Til að komast að ákveðinni niðurstöðu um tilvist Guðs nægir ekki aðeins að ákveða hver hafi rétt fyrir sér og hver rangt. Hér er um að ræða ákvörðun sem getur haft djúptæk áhrif á líf einstaklingsins. Hún er lykillinn að því að við finnum fullnægjandi svör um tilgang og gildi lífsins.
Við skulum athuga tvær „sannanir“ sem oft eru bornar fram af fólki til skýringar á því hvers vegna það trúi ekki að Guð sé til.
Í upphafi gemaldarinnar fyrir meira en tveim áratugum skýrði dagblaðið The New York Times frá því að eftirfarandi orð hafi verið sögð í Moskvuútvarpinu: „Sú staðreynd að hvorki gervihnettir né eldflaugar hafa orðið varar við hinn allra hæsta, engla og svo framvegis ber vitni gegn trúarbrögðum og eflir vantrú á tilvist Guðs.“
Álítur þú þetta vera sönnun? Ef þú gerir það, ertu þá fús til að taka þeim afleiðingum sem slík röksæmdarfærsla hefur í för með sér?
Sú vegalengd, sem menn geta séð og heyrt, hefur verið aukin með hjálp risavaxinna stjörnusjónauka svo að hún teygir sig langt út í alheiminn. Við skulum lýsa þessum vegalengdum í smækkaðri mynd. Ef við gerum ráð fyrir að jörðin væri á stærð við epli myndi hinn sýnilegi alheimur, miðað við sama kvarða, vera 4,7 milljarðar kílómetra í þvermál. Og hversu langt hafa mönnuð og ómönnuð geimför náð að komast burt frá „eplinu“? Þau hafa enn ekki komist út úr eplakassanum!
Auk þess má ekki gleyma að óháð því hversu langt geimför gætu komist út í geiminn gætu menn aldrei séð Guð, hvorki með sínum bókstaflegu augum eða ljósmyndabúnaði gerðum af mannahöndum. Það er látið eins og Guð væri maður af holdi og blóði en Biblían segir: „Guð er andi.“ — Jóhannes 4:24.
Í reyndinni eru stöðugt að gerast í kringum okkur atvik af völdum afla sem eru ósýnileg mannlegum augum. Á meðan þú hugsar um það sem þú ert að lesa núna á sér stað flókið hugsanaferli í þeim rúmlega 10.000.000.000 taugafrumna sem mynda heila þinn. Með háþróaðri tækni má mæla heilabylgjur og jafnvel gera þær sýnilegar mannlegu auga með því að varpa þeim á skjá eða skrá á pappírsræmu. En HVAÐ þú ert að hugsa er ekki hægt að gera sýnilegt. Sérhvert orð sem þú mælir, sérhver meðvituð hreyfing sem þú gerir er afleiðng ferla sem eru ósýnileg mannlegu auga. Ef þetta er haft til viðmiðunar, hvaða röklegar afleiðingar myndi það hafa að halda fast í regluna: „Ég trúi aðeins því sem ég get séð.“?
En margir segja þetta:
Í dagblaðinu Schweizerische Akademiker- und Studentenzeitung (svissneska akademíu- og stúdentablaðið) birtist athyglisverð grein sem fjallaði um þróunarkenninguna. Undir fyrirsögninni „Getur regla komið af tilviljun?“ sagði: „Að raða upp bóka- eða frímerkjasafni á skipulegan hátt úthemtir áætlun, vissa greind og ákveðna áreynslu. Ef við hreinlega hentum öllu inn í herbergið með augun lokuð, og vonuðum að tilviljunin myndi ‚raða‘ því fyrir okkur, myndum við fljótlega uppgötva að það væri ekki þannig sem skipulag og regla yrði til. Meira að segja getur auðveldlega komist aftur óreiða á hlutina ef við ekki fylgjumst stöðugt með, eins og til dæmis þegar börnin taka eitthvað þaðan og setja það síðan á rangan stað, eða eins og þegar skyndileg vindhvíða „raðar“ frímerkjasafninu okkar. Dagleg reynsla kennir okkur að regla verður ekki til fyrir slysni. . . . Af þeirri staðreynd að regla er fyrir hendi getum við á hinn bóginn ályktað að vitsmunir hafi verið að verki. Vel skipulagt bókasafn er til dæmis vitnisburður um góðan bókavörð. Í reynd á hið sama við um reglu af hvers kyns tagi.
Tökum heilan sem dæmi. Hugsaðu um allt það undraverða sem mannsheilinn getur afrekað í sambandi við tungumál. Með hjálp aðeins 20 til 30 mismunandi bókstafa (sem flest stafróf önnur en myndletur eru mynduð af) er heili okkar fær um að mynda óendanlegan fjölda orða og orðasambanda og skynja þær ólíku hugsanir sem þeim er ætlað að tjá. Í sumum tungumálum eru til mörg hundruð þúsund orð. Auk þess er stöðugt verið að mynda ný orð og orðasamsetningar. Allt þetta má gera með aðeins þessum fáeinu bókstöfum stafrófsins. Heili, sem þjálfaður er til tónsmíða, getur gert eitthvað svipað. Hver getur talið hinar mörgu mismunandi laglínur sem settar hafa verið saman úr aðeins sjö grunntónum tónstigans?
Varðandi aðra starfsemi mannsheilans talar heimildarrit um hina „10 milljarða taugafrumna, sem hver um sig getur tengst allt að 25.000 öðrum taugafrumum. Sá fjöldi samtenginga, sem það jafngildir, myndi slá jafnvel stjarnfræðing út af laginu — og stjarnfræðingar eru vanir að meðhöndla stjarnfræðilegar tölur.“ Þýska ritið Architektur der Schöpfung (Arkitektúr sköpunarinnar) bætir við: „Þeir sem rannsakað hafa getu mannsheilans hafa líkt honum við starfsemi mörg þúsund stórborgarsímstöðva, öllum starfandi með fullum afköstum. . . . Áætlað hefur verið að á 70 ára ævi geti mannsheilinn safnað allt að 15.000.000.000.000 einstökum atvikum.“
Koma þessar staðreyndir heim og saman við þá fullyrðingu að „allt hafi orðið til af tilviljun án Guðs?“ Kemur þetta kannski betur heim við þau rök Biblíunnar að ‚sérhvert hús sé gjört af einhverjum, en Guð sé sá sem allt hefur gjört‘? — Hebreabréfið 3:4.
Viturlegt að taka ákvörðun
Árið 1981 sagði Hans-Jochen Vogel, leiðtogi stjórnarandstöðunnar á þinginu í Vestur-Þýskalandi: „Ég held að sífellt fleiri séu farnir að óttast að núverandi ástand gæti skyndilega breyst til hins verra, já, að jafnvel hamfarir af áður óþekktri stærðargráðu séu ekki lengur óhugsandi. Og margir álíta þróunina í þessa átt jafn-óhjákvæmilega og óumflýjanlega og skriðu sem er þegar farin af stað og eykur hraðann niður fjallhlíðina.“ Er það allt og sumt sem framtíðin ber í skauti sínu fyrir þig?
Þeir sem eru sannfærðir um að Guð sé til og nema orð hans gaumgæfilega eru sannfærðir um að Guð hafi áhrif á gang mála í jákvæða veru. Út af Biblíunni sjá þeir fram á mjög bjarta framtíð sem bíður trúaðs mannkyns, þrátt fyrir það ástand sem núna ríkir í heiminum.
Með það í huga hvað þetta þýðir fyrir líf þitt hvetjum við þig, ef þú efast um tilvist Guðs, til að spyrja þig að því hvaða ástæður þú hafir til þess. Reyndu að skrifa þær niður á blað. Hversu margar ástæður hefur þú? Hversu góðar eru þær?
Er ekki orðið tímabært að fara að gefa gaum spurningu sem er andhverfa hinnar: Hvaða sannanir eru fyrir því að það sé til Guð?
[Innskot á blaðsíðu 20]
„Ég trúi aðeins því sem ég get séð og ég hef aldrei séð Guð.“
[Innskot á blaðsíðu 21]
„Allt er orðið til af tilviljun, án Guðs“
[Myndir á blaðsíðu 22]
Regla byggist á vitsmunum eins og vel raðað bókasafn ber vott um.
Hugsaðu um þá margbreytilegu tónlist sem hægt er að búa til úr aðeins fáeinum grunntónum.