Fóstureyðing – réttindi hvers er um að ræða?
LÆKNARNIR P. M. A. Nicholls og Carlos del Campo í Halifax í Nova Scotia skrifuðu athyglisvert bréf sem birtist í tímariti kanadísku læknasamtakanna, Canadian Medical Association Journal. Bréfið fjallaði um það hvers réttindi væri um að tefla í sambandi við fóstureyðingar. Þeir gátu þess fyrst að oft hefði verið sagt að „ákvörðunin um hvort eyða beri fóstri eða ekki sé fyrst og fremst konunnar,“ og að „margar konur, sem vilja láta eyða fóstri, og flestir hópar, sem eru fóstureyðingum hlynntir, líti svo á að konan hafi rétt til að ákveða örlög síns eigin ‚líkama‘ og að fóstureyðing sé leyfileg á þeim grundvelli.“ En eftirfarandi athugasemdir læknanna gefa mönnum tilefni til að staldra ögn við og hugleiða málið nánar.
„Þótt eftirfarandi ætti að vera augljóst öllum læknum og leggja á það áherslu er það venjulega ekki íhugað. Eftir frjóvgun renna einlitna frumurnar saman í tvílitna frumu. Frá því augnabliki er fósturvísirinn erfðafræðilega frábrugðinn móðurinni; það er að segja, hefur að geyma sérstæðar, skipulegar litningaupplýsingar. Óyggjandi sönnun þess er sú að líkami hennar myndi hafna honum snarlega ef ekki kæmu til sá skilveggur sem legkakan er.
Hvernig stendur þá á því að við förum með fóstureyðingu eins og við værum að nema brott botnlanga, gallblöðru eða eitthvert annað líffæri? (Okkur er að sjálfsögðu kunnugt um hinar meiri, sálfræðilegu afleiðingar fóstureyðingar.) Það er kaldhæðni að það skuli vera miklu auðveldara að fá fæðingarlækni til að fjarlægja lífvænlegt fóstur en skurðlækni að fallast á að fjarlægja heilbrigða gallblöðru. Þó er það líffæri, ólíkt fóstrinu, tvímælalaust hluti sjúklingsins. Getum við sætt okkur við hið almenna viðhorf, ‚þetta er minn líkami,‘ og fallist á að ákvörðunin um að binda enda á líf fóstursins sé í höndum konunnar og læknisins? Ef við skoðum þetta mál rökrétt er í raun ekki um að ræða líkama konunnar heldur líf sem ekki verður neitað að sé aðgreint hennar og hefur sjálfstæða genabyggingu.“
Að lokum aðvöruðu læknarnir: „Þegar við stöndum frammi fyrir þessari spurningu er auðveldara að virða að vettugi það sem við vitum vera rétt, sökum þess að það er þægilegt, eða sökum ‚samúðar.‘ Samt sem áður er það skylda sérhvers læknis að forðast að beygja sig fyrir eða fela sig á bak við skoðanir og viðhorf þjóðfélags sem verður sífellt undanlátsamara.“
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 17]
Mynd: S. J. Allen/Int’l. Stock Photo Ltd.