Leyndardómur langlífisins
SÉRHVERN heilbrigðan mann langar til að lifa lengi, lengi. En hve lengi mátt þú búast við að lifa? Hver eru endimörk venjulegrar mannsævi? Getur þú gert eitthvað til að lengja líf þitt? Hver er leyndardómurinn á bak við langlífi? Þetta eru góðar spurningar, og finnir þú svörin við þeim geta þau hjálpað þér að lifa miklu lengur en mögulegt virðist sem stendur.
Áður en svara er leitað er rétt að gera grein fyrir muninum á tveim hugtökum: „lífsskeiði“ og „lífslíkum.“ Lífsskeið á við líffræðileg endimörk ævinnar, en lífslíkur er sá meðalaldur sem ákveðinn aldurshópur getur búist við að ná. Í sögu mannsins hefur mikið vantað á að lífslíkurnar næðu að vera jafnlangar og lífsskeiðið.
Lífslíkur á ýmsum tímum
„Á ævi sinni sér maðurinn og þolir margt sem honum mislíkar mjög. Ég set mörk ævinnar við sjötíu ár.“ Svo mælti Sólon, grískur stjórnmálamaður og löggjafi sem var uppi um 600 f.o.t. Að hans sögn var því lífsskeiðið sjötíu ár. Grafarskriftir frá því um 400 f.o.t. gefa hins vegar til kynna að lífslíkur fólks í Grikklandi hafi verið um það bil 29 ár.
Að því er virðist voru lífslíkur manna í hinum ýmsu Evrópulöndum til forna lítt frábrugðnar því sem var í Grikklandi. Sökum þess hve dauði ungbarna og ungs fólks var mikill vantaði mikið á að lífslíkur manna næðu lífsskeiðinu. Í töflunni á næstu síðu er að finna lífslíkur fólks í nokkrum Evrópulöndum til forna, um síðustu aldamót og nú.
Tölurnar sýna að lífslíkur manna hafa lengst verulega nú á 20. öldinni. Hve lengi munu tölurnar hækka og hversu háar verða þær? Í verki sínu Vitality and Aging frá 1981 (bls. 74-76) segja höfundarnir James F. Fries og Lawrence M. Crapo:
„Meðalævi manna í Bandaríkjunum hefur lengst úr hér um bil 47 árum um aldamótin í meira en 73 ár nú, eða um rúmlega 25 ár. . . . Séu tölurnar skoðaðar grannt kemur hins vegar í ljós að lífslíkur hafa lengst vegna þess að tekist hefur að stemma stigu við ótímabærum dauða, ekki vegna þess að hið eðlilega lífsskeið hafi lengst. Þegar lífslíkurnar eru reiknaðar út frá ákveðnu aldurslágmarki eru aukningin því minni sem aldursmarkið er hærra. Sé reiknað frá 40 ára hafa lífslíkurnar aukist fremur lítið. Reiknað frá 75 ára aldri er aukningin vart merkjanleg. Þegar komið er fram yfir 85 ára er alls ekki hægt að mæla aukninguna með vissu. . . . Bestu spár, sem við getum gert, benda til að miðgildi hins eðlilega lífsskeiðs mannsins sé í hæsta lagi 85 ár.“
En er hugsanlegt að lengja megi lífsskeiðið svo nokkru nemi með réttu mataræði, vítamínum og svo framvegis? Á blaðsíðu 18 í verki sínu segja Fries og Crapo:
„Um hundruð ára reyndu gullgerðamennirnir árangurslaust að blanda veig er gæti yngt manninn. Bókstaflega hundruð efna, þar á meðal jurtir, lyf, vítamín, efni unnin úr dýrafrumum, gerjuð mjólk og ýmsir safar og heilsudrykkir hafa verið sagðir hafa áhrif til yngingar, án þess að sýnt hafi verið fram á það með ótvíræðum hætti. Í okkar landi hefur hin hefðbundna slönguolía fengið á sig óorð, en við höfum enn vítamínin. Alsan í Rúmeníu hefur nýverið komið á framfæri lyfinu geróvítal sem sagt er eiga að draga úr öldrun. Aðalefnið í geróvítal er staðdeyfilyfið nóvókaín sem notað var við meðhöndlun á Kruschev [1894-1971], Sukarno [1901-1970], Ho Chi Min (1890-1969) og öðrum tignarmennum. Að sjálfsögðu eru engar sannanir fyrir því að þetta efni hafi nein slík áhrif, og engar fyrirframgefnar ástæður til að ætla að svo sé. Þeir sem málsvarar geróvítals nefna sem dæmi um notendur hafa allir dáið, meira að segja ekkert sérstaklega gamlir.
Árið 1974 birtu Packer og Smith grein í virtu amerísku tímariti þar sem þeir greindu frá tilraunum er virtust sýna að E-vítamín lengdi verulega lífsskeið venjulegra bandvefsfrumna úr mönnum, ræktaðar í tilraunaglösum. Síðar drógu þeir þessa fullyrðingu til baka þegar hvorki þeir né aðrir gátu endurtekið tilraunina og fengið sömu niðurstöður. Til þessa hefur ekki tekist að sýna fram á að nokkurt sérstakt mataræði, lífshættir, vítamín, lyf eða heilsudrykkir lengi lífskeið mannsins. Hjá þeim fjórum milljörðum manna, sem hafa lifað og dáið, hlýtur að hafa verið fyrir hendi nánast sérhver hugsanleg samsetning mataræðis, efna og sálarlífs. Sú staðreynd að hvergi skuli vera til hópur, sem kemst langt yfir tíræðisaldur, mælir sterklega gegn því að nokkur auðfarin leið sé til langlífis, ella ætti hún að vera fundin núna.“
Ljóst er að menn hafi ekki getað lengt lífsskeið sitt þótt tekist hafi að hækka lífslíkur manna töluvert með því að draga úr dánartíðni af völdum barnasjúkdóma. Frá mannlegum sjónarhóli er lítil von um að lengja megi lífskeiðið. Hins vegar er trygg von um að lífskeið mannsins muni lengjast. Með hvaða aðferðum?
Lífsskeið mannsins lengt
Fyrir nærfellt 2000 árum spurði Jesús Kristur: „Hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?“ (Lúkas 12:25) Það getur auðvitað enginn! En Jesús sagði líka: „Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.“ — Lúkas 18:27.
Upphaflegur tilgangur Guðs var sá að maðurinn ætti að lifa eilíflega. Hinn fyrsti maður Adam hafði tækifæri til að lifa endalaust, væri hann hlýðinn Guði. (1. Mósebók 2:15-17) Adam fyrirgerði þessu tækifæri vegna óhlýðni sinnar, og frá honum tók allt mannkynið í arf synd og dauða. — Rómverjabréfið 5:12.
Margir af ættfeðrunum fyrir flóðið, sem stóðu nær upphaflegum fullkomleika Adams, náðu hátt í þúsund ára aldri. (1. Mósebók 5:5-31) Eftir flóðið styttist lífsskeið manna skyndilega og á sinni tíð gat Móse skrifað: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi.“ — Sálmur 90:10.
Síðar sagði spámaðurinn Jesaja fyrir að Guð myndi „afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] . . . þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jesaja 25:8) Þetta fyrirheit var endurtekið í síðustu bók Biblíunnar þar sem segir að Guð muni „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Þér kann að vera spurn hvort þú munir hljóta þessa blessun sjálfkrafa eða hvort þú þurfir að gera eitthvað til að eignast hana. Biblían heldur áfram: „Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur. En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði.“ — Opinberunarbókin 21:7, 8.
Já, til að lifa að eilífu þarft þú að sigra, það er að segja að láta ekki heiminn sigra þig með þeim iðkunum sem nefndar eru í Opinberunarbókinni 21:8. Einnig er nauðsynlegt að afla sér þekkingar um Guð og son hans. — Jóhannes 17:3.
Munt þú sigra? Munt þú vera í hópi þeirra milljóna sem eru í þann mund að erfa eilíft líf? Rétt viðbrögð þín munu gera þér fært að svara þessum spurningum játandi.
[Tafla á blaðsíðu 15]
Lífslíkur
Land Til fornaa Um 1900 Núna
Austurríki 37 40 73
Búlgaría 39 40 72
England 33 50 74
Frakkland 28 47 75
Grikkland 29 40 74
Ísland 35 48 77
Ítalía 27 45 74
Júgóslavía 33 52b 70
Rúmenía 34 42c 71
Spánn 37 35 76
Ungverjaland 36 38 70
Þýskaland 35 47 73
Taflan er byggð á History of Human Life Span and Mortality eftir Gy. Acsádi og J. Nemeskéri, Búdapest, 1970, bls. 222, og Old Age Among the Ancient Greeks eftir Bessie E. Richardson, bls. 234. Tölurnar fyrir aldamótin eru teknar úr Demographic Yearbook, 1967 útgefin af Sameinuðu þjóðunum í New York 1968, bls. 722-38, og The Milbank Memorial Fund Quarterly, 38. árgangur, 1960, bls. 132. Tölurnar fyrir nútímann eru úr 1986 World Population Data Sheet, gefin út af Population Reference Bureau. Tölurnar fyrir Ísland eru byggðar á Hagtíðindum frá júlí 1986, bls. 192. Talan í fremsta dálki er frá 1850-60 og talan í miðdálki frá 1890-1901.
[Neðanmáls]
a Þessar tölur eru teknar saman eftir grafarskriftum.
b 1931-33
c 1932
[Mynd á blaðsíðu 14]
„Um hundruð ára reyndu gullgerðarmenn árangurslaust að blanda veig er gæti lengt líf manna.“
[Rétthafi]
The Bettman Archive