Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.4. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Gull dýru verði keypt
  • Útbreiðslumet
  • Jarðskjálftanemar
  • Óvígð sambúð
  • Ólæsi vex
  • Mannskæð umferð
  • „Umhverfisslys“
  • Nýr helgur dómur?
  • Ferðalög hvala
  • Þeir báðu fyrir friði
  • Methafar í bílaþjófnaði
Vaknið! – 1987
g87 8.4. bls. 29-30

Horft á heiminn

Gull dýru verði keypt

Fyrir nokkru var haldin ráðstefna í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, í tilefni af aldarafmæli gullsnáms borgarinnar. W. Malan, varaforseti Námugraftarráðs landsins, sagði ráðstefnugestum að „þau 40.000 tonn af gulli, sem grafin hafa verið úr [Witwatersrand] dældinni, nemi 32 af hundraði alls gulls sem unnið hefur verið frá öndverðu.“ En þetta gull hefur kostað sitt í mannslífum og þjáningum. Samkvæmt skýrslum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar fórust 8500 manns í suður-afrískum námum á 11 ára tímabili frá 1973 til 1984. Margir þeirra voru gullnámumenn. Á meðan ráðstefnan stóð var minnt óþyrmilega á hve dýru verði gullið er keypt, þegar versta slys í sögu gullnáms í Suður-Afríku varð í Kinross-námunni. Eldur kom upp með þeim afleiðingum að 117 námuverkamenn létust af völdum eitraðra lofttegunda. Í þeirra hópi voru farandverkamenn frá grannríkjunum Botsvana, Letsóto, Malaví og Mósambík.

Útbreiðslumet

Upplýsingar frá Sameinuðu biblíufélögunum leiða í ljós að í maí á síðasta ári var búið að þýða Biblíuna á 1829 tungumál eða mállýskur. Aukningin nemur 21 tungumáli á einu ári! Aðeins fáeinar biblíubækur eru þó þýddar á þetta mörg tungumál. Biblían öll er nú til á aðeins 293 tungumálum sem sum hver er ekki lengur töluð.

Jarðskjálftanemar

Sovéskir vísindamenn álíta að hægt sé að sjá fyrir jarðskjálfta með því að fylgjast með hegðun snáka, orma og annarra dýra, að því er segir í mexíkanska dagblaðinu El Universal. Ýmsar lífverur eru sagðar skynja jarðsegulsveiflur, ásamt breytingum á hitastigi og vatnsborði sem eru undanfari jarðhræringa. Að sögn vísindamannsins Alberts Skovitins er hugsanlegt að skilgreina megi hegðun dýra með hjálp tölvu til að spá með nákvæmni fyrir um jarðskjálfta löngu áður en þeir verða. Til dæmis hafa rannsóknir leitt í ljós að einum mánuði fyrir snarpan jarðskjálfta hverfa snákar úr holum sínum og yfirgefa hættusvæði. Vísindamenn telja að næmleiki þessara dýra sé mun meiri en jarðskjálftanema sem gerðir eru af mannahöndum.

Óvígð sambúð

Hve endingagóð er óvígð sambúð? Hagtölur frá Noregi og Svíþjóð sýna að „helmingur fólks í óvígðri sambúð slítur samvistum innan tveggja ára, og 60 til 80 af hundraði innan 5 ára,“ segir í franska dagblaðinu Le Monde.

Ólæsi vex

„Sjaldan hafa verið jafnmargir . . . ólæsir“ í Frakklandi. Þessi orð franska dagblaðsins Le Figaro voru byggð á skýrslu þar sem fram kom „að um 15 af hundraði íbúa [Frakklands], það er um 8 milljónir manna (innflytjendur meðtaldir), eru svo gott sem ólæsir. . . . Þeir geta varla lesið og aðeins skrifað eftir framburði. Samkvæmt skilgreiningu UNESCO á ólæsi eru þeir einnig ófærir um að ‚skilja stuttan og einfaldan texta sem fjallar um staðreyndir daglegs lífs.‘“ Skólabörn eru engin undantekning því að um það bil fjórðungur barna les ekki skammlaust þegar þau hefja nám í framhaldsskóla.

Mannskæð umferð

Frá því að lýðveldið Ísrael var stofnað árið 1948 hafa 13.717 manns látist í umferðarslysum þar í landi — þrefalt fleiri en þeir 4500 sem fallið hafa í styrjöldum og hryjuðverkaárásum Miðausturlanda. Samkvæmt frétt frá ísraelska samgönguráðuneytinu hefur stjórnin í Jerúsalem ákveðið að skipa nefnd til að rannsaka orsakir þessa mikla manndauða á vegum landsins.

„Umhverfisslys“

Fyrir um það bil aldarfjórðungi var settur Nílaraborri í Viktoríuvatn í Austur-Afríku. „Sú tilraun mistókst hrapallega,“ segir Lundúnablaðið The Times. Af hverju? Af því að þessi stóri ránfiskur jók ekki prótínauðlindir vatnsins, eins og ætlunin hafi verið, heldur er hann að eyða stærstum hluta hinna 300 annarra tegunda í vatninu — þeirra á meðal fisktegund sem átti þátt í að halda í skefjum banvænum blóðögðusjúkdómi. Þessar ólánlegu afleiðingar, ásamt þeirri efnahagsbyrði að þurfa að kaupa öflugri veiðafæri til að veiða þennan stórvaxna fisk, sem getur orðið 100 kg eða meira að þyngd, hefur haft hinar hrikalegustu afleiðingar fyrir fjölmörg fiskveiðisamfélög í Kenýa, Tansaníu og Úganda. Alþjóðanáttúruverndarstofnunin hefur látið í ljós áhyggjur vegna hliðstæðra áforma við Malavívatn og önnur vötn í Afríku.

Nýr helgur dómur?

Ævaforn bátur, sem fannst á botni Galíleuvatns þegar vatnsborðið lækkaði vegna þurrka, er að verða að helgum dómi. Fornleifafræðingar hafa aldursgreint hann frá því nálægt dögum Krists og segja bátinn, sem er úr tré, hafa varðveist vegna þess að hann hafi verið þakinn súrefnislausri botnleðju sem gerlar þrifust illa í. Í tímaritinu Discover er sagt að bátnum hafi verið komið fyrir í plastumbúðum og hann fluttur upp á ströndina þar sem á hann verður borið gervivax. „Síst af öllu viljum við að báturinn verði gerður að helgum dómi,“ segir fornleifafræðingurinn Shelly Wachsman við fornmenjaráðuneytið í Ísrael. Pílagrímar hafa komið stórum hópum til að sjá hann, í þeirri trú að hér sé fundinn báturinn sem Jesús fór á yfir Galíleuvatn skömmu eftir að hann mettaði 5000 manns með kraftaverki. Þegar fólk uppgötvar að það fær ekki að snerta bátinn, sökum þess hve brothættur hann er, biðja sumir að fá að snerta hendur Wachsmans, því að hann hefur snert bátinn!

Ferðalög hvala

Litlir útvarpssendar hafa verið notaðir til að afla upplýsinga um ferðalög hvala. „Fylgst hefur verið með ferðum hvala frá Japansströnd um 2000 kílómetra leið“ segir franska dagblaðið La Croix. „Gráhvalir við Mexíkóströnd flytjast búferlum allt til Alaska.“ Með því að festa litla útvarpssenda við hvali hafa vísindamenn safnað miklum upplýsingum um köfunartíma, ferðahraða og búferlaflutninga fram og til baka. Ýmsum vandkvæðum var háð að safna þessum upplýsingum því að útvarpsmerkin nást aðeins þegar hvalurinn kemur upp á yfirborðið — í mesta lagi þrjár sekúndur í senn!

Þeir báðu fyrir friði

Andlegir leiðtogar 12 mismunandi trúarhreyfinga og fulltrúar allra helstu trúarbragða heims komu saman í Assisi á Ítalíu í október síðastliðnum að beiðni Jóhannesar Páls páfa annars. Markmið þeirra var heimsfriður í einn sólarhring. Sagt er að í það minnsta 11 þjóðir hafi lagt niður vopn um stund, en annars staðar, svo sem í Líbanon og á Norður-Írlandi, var bardögum haldið áfram.

Þótt leiðtogarnir væru sameinaðir í leit sinni að friði um allan heim voru þeir sundraðir eftir trúarbrögðum. Þeir voru ekki komnir til að biðja saman heldur, eins og páfi sagði, „komu þeir saman til að biðja.“ Trúarleiðtogarnir, a.m.k. 155 talsins, skiptust í 12 hópa svo að hver trú gæti beðið út af fyrir sig. Af hinum „trúarlegu fjölskyldum“ má nefna búddhatrúarmenn, hindúa, múslíma, shintotrúarmenn, saraþústramenn, afríska sálnatrúarmenn, gyðinga og ameríska indíána. Að sögn The New York Times breytti Dalai Lama, sem er búddhískur leiðtogi, „altari San Pietro-kirkjunnar með því að stilla Búddhastyttu upp á oblátuskrínið og raða í kringum það bænablöðum og reykelsisstjökum.“ Og tveir amerískir indíánar af Crow-ættkvíslinni „reyktu friðarpípu við lokaathöfnina.“

Methafar í bílaþjófnaði

Bretlandseyjar skipa efsta sætið í skrá um tíðni bílaþjófnaða, að því er segir í frétt frá Federation Internationale de lʼAutomobile sem eru samtök bifreiðaeigenda í Frakklandi. Árið 1984 var stolið 22 bílum á Bretlandseyjum fyrir hverja 10.000 sem skráðir eru. Frakkland er í öðru sæti með 13 stolna bíla fyrir hverja 10.000 skráða, því næst kemur Svíþjóð með 12, Spánn með 11, Bandaríkin með 9, Ítalía með 6, Belgía með 4 og Vestur-Þýskaland með 3,5. Scotland Yard kallar þetta bílaþjófnaðaræði „mjög alvarlegt.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila