Á að gera úr þeim undrabörn?
„Heimurinn gæti verið fullur af ofurmennum andans, eins og Einstein, Shakespeare, Beethoven og Leonardo da Vinci ef við byrjuðum fyrr að kenna börnunum.“ — Dr. Glenn Doman, forstöðumaður The Institutes for the Achievement of Human Potential.
„Ekkert barn fæðist undrabarn og ekkert heimskingi. Allt er undir því komið hvaða örvun heimafrumurnar fá þau ár sem ráða úrslitum, það er að segja frá fæðingu til þriggja ára aldurs. Á forskólastigi er það orðið of seint.“ — Masaru Ibuka, höfundur bókarinnar Kindergarten Is Too Late!
HIN ótrúlega geta barnsheilans fyrstu æviárin vekur fjölda spurninga sem foreldrar þurfa að fá svör við. Hvenær á að byrja kennsluna? Hvað á að kenna? Hve mikið í einu? Hve hratt? Sumir hafa náð hreint ótrúlegum árangri. Börn á aldrinum tveggja til fimm ára kunna að lesa, skrifa, tala tvö eða fleiri tungumál, leika sígilda tónlist á fiðlu og píanó, sitja hest, synda og stunda fimleika.
Í flestum tilvikum er það hugurinn en ekki líkaminn sem beina þarf athyglinni að. Dæmi er um tveggja ára barn sem kann að telja upp að hundrað, leggja rétt saman, hefur vald á 2000 orðum, getur lesið fimm orða málsgreinar og hefur þroskað algera tónheyrn. Þriggja ára barn telur upp frumulíffærin þegar bent er á þau á mynd: hvatberi, frymisnet, golgíkerfi, deilikorn, safabóla, litningar og svo framvegis. Annað þriggja ára barn leikur á fiðlu. Fjögurra ára barn þýðir japönsku og frönsku yfir á ensku. Kennari, sem kennir mjög ungum börnum stærðfræði, fullyrðir: „Ef ég missti 59 peninga á gólfið gætu krakkarnir sagt mér á augabragði að þeir væru 59 en ekki 58.“
Sumir eru eindregið fylgjandi slíkri þaulkennslu en aðrir hafa efasemdir um ágæti hennar. Eftirfarandi athugasemdir eru úrdráttur af skoðunum kennara og sérfræðinga á þessu sviði:
„Á heildina litið virðist ekki mjög heppilegt að hefja kennslu bóklegra fræða mjög snemma. Augljóst er að það er hægt. Spurningin er hins vegar ekki sú hvort að það sé hægt heldur hver séu áhrifin, bæði strax og til langs tíma litið.“
„Þetta er kenning sem gerir börnin að litlum tölvum en gefur þeim ekkert andrúm.“
„Börnin læra með því að eiga frumkvæðið og rannsaka umhverfi sitt á eigin spýtur. [Með því að ýta á eftir þroska hugans] gætum við verið að trufla einhvern annan þroska sem er að eiga sér stað [svo sem tilfinningalegan eða félagslegan].“
„Varist að leggja gáfur að jöfnu við góðan þroska. Vitsmunalegum yfirburðum er mjög oft náð á kostnað framfara á öðrum jafnmikilvægum eða mikilvægari sviðum.“
„Þetta er ekki heilbrigt samband foreldris og barns. Í raun segir það barninu: ‚Ég elska þig af því að þú ert svo gáfað.‘“
Vafalaust eru þess dæmi að foreldrar ýti á eftir börnunum og reyni að gera þau að undrabörnum. Þegar svo er hefur eigingirni og metnaður foreldranna tekið völdin. Börnin eru þá notuð sem sýningargripir og foreldrarnir baða sig í ljómanum af hæfileikum þeirra. Starf sumra forystumanna á sviði ungbarnakennslu virðist þó ekki sprottið af slíkum hvötum.
Glenn Doman, sem höfð voru eftir nokkur orð í byrjun þessarar greinar, er því andvígur að búa til undrabörn. Markmið hans er „að veita öllum foreldrum kunnáttu til að gera börnin sín mjög greind, afar dugleg og yndisleg.“ Nám ætti að vera fjölbreytt og skemmtilegt fyrir börnin. Þau ættu að vera heilsteypt hugarfarslega, líkamlega og tilfinningalega. Glenn Doman er mótfallinn prófum. „Próf eru andstæða lærdóms. Þeim fylgir mikil spenna. Að kenna barninu er að gefa því ánægjulega gjöf. Að prófa það er að krefjast greiðslu — fyrirfram.“
Masaru Ibuka, sem einnig voru höfð eftir nokkur orð í greinarbyrjun, var að því spurður hvort verið sé að búa til undrabörn með smábarnakennslu. Hann svaraði: „Eini tilgangur ungbarnakennslu er sá að kenna börnunum skapandi hugsun, gefa þeim heilbrigðan líkama og gera þau skörp en viðfeldin.“
Shinichi Suzuki, frægur fyrir að kenna börnum með góðum árangri fiðluleik, segir: „Orðið ‚hæfileikamenntun‘ á ekki aðeins við þekkingu eða tæknilega kunnáttu, heldur líka siðferði, það að þroska skapfestu og fegurðarskyn. Við vitum að maðurinn tileinkar sér þá eiginleika í gegnum kennslu og umhverfi. Markmiðið með starfi okkar er ekki að ala upp svokölluð undrabörn, og ekki heldur að leggja eingöngu áherslu á ‚bráðþroska.‘ Við getum einna helst kallað það ‚heildarmenntun.‘“
Suzuki telur það bæði árangurslítið og óæskilegt að reyna að þvinga börnin til að læra eða æfa sig. Þegar hann er að því spurður hve lengi börnin eigi að æfa sig setur hann aldrei fasta stundaskrá. „Það er betra að láta þau æfa sig fimm sinnum á dag í tvær mínútur í senn, sé það vel undirbúið og þau hafi hugann við það,“ segir hann, „en að neyða þau til að sitja við í hálftíma þegar þau langar ekkert til þess.“ Uppskrift hans er þessi: „Tvær ánægjulegar mínútur fimm sinnum á dag.“
Hvernig ber foreldrum þá að líta á ungbarnakennslu? Í greininni á eftir eru góðar leiðbeiningar um hvernig hægt sé að gæta jafnvægis á þessu sviði.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Ekki ýta á eftir. Uppskrift Suzukis er: „Tvær ánægjulegar mínútur fimm sinnum á dag.“