Kenndu barninu á réttan hátt — og byrjaðu snemma!
„Ungbarnsárin eru án efa mikilvægasta æviskeiðið. Þau ætti að nota til menntunar á alla hugsanlega og mögulega vegu. Það verður aldrei bætt ef þetta æviskeið er ekki nýtt. Það er skylda okkar að leggja eins mikla rækt og við getum við þessi fyrstu ár en ekki láta þau líða ónotuð.“ — Dr. Alexis Carrel.
ÞAÐ er nauðsynlegt að leggja rækt bæði við hugann og hjartað. Hin miklu afrek hugans fylla mennina oft lotningu en Guð lítur á hjartað. Þekking gerir menn stundum hrokafulla, en það er kærleikur hjartans sem byggir upp. Skarpur hugur er ekki mikils virði ef hjartað er ekki kærleiksríkt, því að „af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ Þetta táknræna hjarta er líka uppspretta góðra verka og slæmra. (Matteus 12:34, 35; 15:19; 1. Samúelsbók 16:7; 1. Korintubréf 8:1) Þótt þýðingarmikið sé að örva hugsun barnanna er enn mikilvægara að gróðursetja kærleika í hjörtum þeirra.
Þessi innræting hefst sjálfkrafa við fæðingu í gegnum tilfinningatengsl móður og barns. Móðirin heldur barninu í fangi sér, faðmar, strýkur og hjalar blíðlega við það. Á meðan einblínir barnið á móður sína. Tilfinningatengsl myndast milli þeirra, móðurtilfinningin tekur við sér og barnið finnur til öryggiskenndar. Sumir sérfræðingar telja að „fyrstu mínúturnar og klukkustundirnar eftir fæðingu barns séu hagstæðasti tíminn til að mynda náin tengsl milli foreldra og barns.“
Þetta er góð byrjun en aðeins byrjun. Hvítvoðungurinn er hjálparvana og háður því að móðir hans fyrst og fremst fullnægi stundlegum þörfum hans — bæði líkamlegum og tilfinningalegum. Án matar sveltur barnið; en það getur líka svelt tilfinningalega. Faðmlög, gælur, strokur og ást örva vöxt og þroska heilans. Þessari örvun hefur verið líkt við næringarefni fyrir heilann. Án hennar sveltur heilinn og þroska hans eru takmörk sett alla ævi. Slík vannæring getur síðar meir gert barnið fjandsamlegt og afbrota- og ofbeldishneigt. Umhyggja móðurinnar er forgangsmál fyrir barnið og þjóðfélagið — langtum þýðingarmeiri en einhver starfsframi í heiminum!
Hlutverk föðurins
Ekki má gleyma föðurnum. Ef hann er viðstaddur fæðinguna stuðlar það að tilfinningatengslum milli hans og barnsins. Eftir því sem vikur og mánuðir líða aukast hratt þau áhrif sem hann hefur á þroska barnsins. Dr. T. Berry Brazelton, sérfræðingur um vöxt og þroska barna, segir:
„Sérhvert barn þarfnast bæði móður og föður, og sérhver faðir hefur sín sérstöku áhrif á barnið. Meiri móðurleg umhyggja getur ekki komið í staðinn fyrir áhugasaman föður.“ Hann vitnar í skýrslu þar sem bent er á muninn á því hvernig mæður og feður koma fram við börnin. „Mæðurnar voru yfirleitt blíðar við börnin og hljóðlátar en feðurnir léku meira við þau, kitluðu og potuðu.“
En feður gera meira fyrir börnin en aðeins að skemmta þeim. „Barn, sem á sér áhugasaman föður,“ segir dr. Brazelton, „stendur sig betur í skóla, hefur betri kímnigáfu og á auðveldara með að umgangast önnur börn. Það hefur meira sjálfstraust og sterkari áhugahvöt til að læra. Sex eða sjö ára gamalt verður það með hærri gáfnastuðul en jafnaldrarnir.“
Jehóva Guð hefur lagt feðrum þá skyldu á herðar að kenna börnunum sínum: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:6, 7) Ef þessu er fylgt byrjar ekki að myndast kynslóðabil í æsku.
Uppfræðsla frá barnsaldri
Frá fæðingu fram til sex ára aldurs ganga börnin í gegnum ýmis þroskastig. Þau læra að samstilla vöðvana, tala, þroska tilfinningalíf sitt, minnisgáfu, samvisku og svo mætti lengi telja. Hin ýmsu þroskastig taka við hvert af öðru samhliða örum vexti barnsheilans, og heppilegast er að leggja rækt við hina ýmsu hæfileika þegar barnið er móttækilegast fyrir þeim.
Á þessum þroskastigum drekkur barnsheilinn í sig lærdóminn eins og svampur vatn. Séu börnin elskuð læra þau að elska. Sé talað við þau og lesið fyrir þau bæði læra þau að tala og lesa. Séu sett undir þau skíði ná þau afbragðstökum á skíðaíþróttinni. Venjist þau heiðarleika og ráðvendni temja þau sér slíkt. Ef þau þroskastig, þegar námfýsin er hámarki, eru látin ónotuð verður erfiðara fyrir börnin síðar meir að tileinka sér þessa eiginleika og hæfileika.
Biblían viðurkennir þessa staðreynd og áminnir foreldra: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskviðirnir 22:6) Keil-Delitzsch skýringarritið þýðir versið þannig: „Veittu barninu fræðslu samkvæmt vegum hans [Guðs].“ Hebreska orðið, hér þýtt ‚fræða‘ eða ‚veita fræðslu,‘ merkir líka að „hefja, koma af stað“ og á hér við það að hefja fyrstu fræðslu ungbarnsins. Fræddu barnið um þann veg sem það á að ganga, þann veg sem Guð markar manninum, í samræmi við þau þroskastig sem barnið er að ganga í gegnum þá stundina. Þá drekkur það fræðsluna auðveldlega í sig og líklegast að það sem það lærir á þessum mótunarárum verði varanlegt.
Flestir atferlisfræðingar eru sömu skoðunar. „Atferlisfræðirannsóknir hafa aldrei sýnt fram á verulega hæfni til að breyta persónuleikamynstri eða þjóðfélagsviðhorfum mótuðu í bernsku.“ Sérfræðingar viðurkenna að þeim sé hægt að breyta, en „algengara er að engin breyting verði til batnaðar.“ Margar undantekningar eru þó á þá lund að breytingum megi ná fram með þeim mætti sem býr í sannleiksorði Guðs. — Efesusbréfið 4:22, 24; Kólossubréfið 3:9, 10.
Málþroski er gott dæmi um að kenna þurfi réttu hlutina á réttum tíma. Börn eru erfðafræðilega stillt inn á tungumálanám, en til að hinar innbyggðu rafrásir heilans starfi með fullum afköstum þarf ungbarnið að heyra málhljóð á réttu þroskastigi. Talstöðvar heilans vaxa með eldingarhraða frá sex til tólf mánaða aldri ef fullorðnir tala oft við barnið á því tímabili. Frá tólf til átján mánaða aldri eykst vaxtarhraðinn enn þá er börnin fara að skilja að orð hafa merkingu.
Barnið lærir orð áður en það getur sagt þau. Á öðru árinu getur þessi óvirki orðaforði aukist úr fáeinum orðum upp í nokkur hundruð. Páll postuli minnti Tímóteus á að hann hefði „frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Orðið, sem hér er þýtt ‚blautt barnsbein,‘ felur í sér þá hugsun að Tímóteus hafi þekkt Ritninguna áður en hann kunni að tala.“ Mjög líklegt er að Heilög ritning hafi verið lesin fyrir hann meðan hann enn var ungbarn, og þannig hafi hann þekkt mörg af orðum Biblíunnar áður en hann gat sagt þau.
Meginatriðið er það að á ákveðnum þroskaskeiðum á barnið mjög auðvelt með að læra ákveðna hluti; það nánast drekkur þá í sig. Ef þessi skeið líða hjá án þess að barninu sé veitt viðeigandi örvun nær það ekki að þroska hæfileika sína til fulls. Ef börn heyrðu alls ekkert talmál fyrr en þau væru orðin nokkurra ára gömul yrði seinlegt og erfitt fyrir þau að læra að tala, og þau myndu sjaldnast ná góðu valdi á töluðu máli.
Lestu fyrir barnið frá bernsku
Hvenær átt þú að byrja? Strax! Lestu upphátt fyrir nýfætt barn þitt. ‚En það skilur ekkert!‘ Hvenær byrjaðir þú að tala við það? ‚Nú, auðvitað strax og það fæddist.‘ Skildi það hvað þú varst að segja? ‚Nei, en . . . ‘ Af hverju lestu þá ekki upphátt fyrir það?
Þegar ungbarn situr í kjöltu eða hvílir í örmum móður sinnar eða föður finnur það til öryggis. Það veit að það er elskað. Því fellur vel að heyra lesið upphátt fyrir sig. Lestur verður í huga þess ánægjuleg lífsreynsla. Barn líkir eftir fullorðnum og foreldrarnir eru mikilvægustu fyrirmyndir þess. Það vill líkja eftir þér. Það vill lesa. Það lætur sem það sé að lesa. Síðar uppgötvar það hversu gaman það er að geta lesið.
Lestrarkunnáttan hefur annan kost í för með sér — barnið verður líklega ekki sjónvarpssjúklingur. Það situr ekki glaseygt og horfir á hnífsstungur, skotárásir, morð, nauðganir, saurlifnað og hjúskaparbrot í þúsundatali. Það getur slökkt á sjónvarpstækinu, opnað bók og farið að lesa. Það er þó nokkurt afrek á dögum útbreiddrar sjónvarpssýki og hálfgerðs ólæsis.
Kærleikur kostar tíma
Að sjálfsögðu tekur það tíma að lesa fyrir börnin. Það tekur líka tíma að leika við þau, fara í gægjuleik, horfa á þau kanna umhverfi sitt, reyna eitthvað nýtt, svala forvitni sinni og örva sköpunargáfu sína. Það tekur tíma að rækja foreldrahlutverkið og það er eins gott að byrja meðan börnin eru hvítvoðungar. Það er oft þá sem kynslóðabilið byrjar; það verður ekki til allt í einu þegar börnin komast á táningaaldur. Robert J. Keeshan, sem gerir útvarpsþætti fyrir börn undir heitinu „Kengúra skipstjóri,“ lýsir hvernig það getur gerst:
„Með þumalfingur í munninum og dúkku í hendinni bíður litla stúlkan óþolinmóð eftir að pabbi og mamma komi heim. Hún þarf að segja frá dálitlu sem gerðist í sandkassanum. Hún er óðfús að segja frá því sem gerðist fyrr um daginn. Loksins kemur pabbi (eða mamma) heim, þreyttur og uppspenntur eftir erfiðan vinnudag. ‚Ekki núna,‘ svarar hann, ‚ég er upptekinn. Farðu og horfðu á sjónvarpið.‘ Algengustu orðin á mörgum amerískum heimilum eru: ‚Ég er upptekinn, farðu og horfðu á sjónvarpið.‘ En ef ekki núna, hvenær þá? ‚Seinna.‘ En ‚seinna‘ kemur næstum aldrei . . .
Árin líða og stúlkan vex. Við gefum henni leikföng og föt. Við gefum henni tískuföt með réttum vörumerkjum og hljómflutningstæki en við gefum henni ekki það sem hún helst vildi fá, tíma okkar. Hún er orðin fjórtán ára og starir tómlát út í bláinn. Hún er byrjuð að fikta við eitthvað. ‚Elskan mín, hvað er að? Talaðu við mig, segðu eitthvað.‘ Of seint, allt of seint. Stund kærleikans er liðin hjá . . .
Þegar við segjum við barnið: ‚Ekki núna, einhvern tíma seinna‘; þegar við segjum: ‚Farðu og horfðu á sjónvarpið‘; þegar við segjum: ‚Ekki spyrja svona margra spurninga‘; þegar við gefum ekki barninu það eina sem það krefst af okkur, tíma okkar, þegar við vanrækjum að sýna barni okkar kærleika — þá stafar það ekki af því að okkur standi á sama um það. Við erum einfaldlega of upptekin til að elska barn.“
Já, það tekur tíma að sýna barni kærleika. Það tekur tíma ekki aðeins að næra það og klæða; það tekur líka tíma að fylla hjarta þess kærleika. Ekki veginn, mældan og skammtaðan kærleika heldur yfirþyrmandi og „fáránlegan kærleika,“ eins og Burton L. White, höfundur bókarinnar The First Three Years of Life, orðar það. Hann segir: „Það er mjög óviturlegt af útivinnandi foreldrum að leggja einhverjum öðrum höfuðþætti uppeldishlutverksins á herðar, ekki síst einhverri stofnun. Ég hef orðið fyrir miklu aðkasti vegna þessara orða, en ég hef fyrst og fremst áhuga á því sem er best fyrir börnin.“ Hann gerir sér þó ljóst að „því sem er best fyrir börnin“ verður ekki alltaf komið við ef foreldrarnir eru báðir nauðbeygðir til að vinna úti.
Agi er viðkvæmt mál
Biblían hefur líka orðið fyrir miklu aðkasti vegna þess sem hún segir um aga. „Sá sem sparar vöndinn hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ (Orðskviðirnir 13:24) Í neðanmálsathugasemd við þetta vers segir New International Version Study Bible: „vöndur: sennilega tákn hvers kyns aga.“ Orðabókin Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words skilgreinir „vönd“ sem „veldissprota, sem tákn um yfirvald.“
Ögun foreldranna getur haft flengingu í för með sér þótt oftast sé hún óþörf. Samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 2:24, 25 á kristinn maður að vera „ljúfur við alla . . . hógvær er hann agar.“ Agi ætti alltaf að taka mið af tilfinningum barnanna: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4.
Sumir sálfræðingar styðja eindregið undanlátsemi og segja að flenging jafngildi hatri. Það er alrangt. Það er undanlátsemi sem jafngildir hatri. Hún hefur hleypt af stað flóðbylgju unglingaafbrota og glæpa sem hefur valdið milljónum foreldra angist og kvöl. Orð Biblíunnar í Orðskviðunum 29:15 eru dagsönn: „Agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.“ Undir fyrirsögninni „Strangir foreldrar eða undanlátssamir“ segir dr. Joyce Brothers:
„Nýleg könnun meðal tæplega 2000 fimmtu- og sjöttubekkinga — sumir aldir upp af ströngum foreldrum, aðrir af undanlátsömum, leiddi sitthvað óvænt í ljós. Þau börn, sem fengið höfðu strangt uppeldi, höfðu mikla sjálfsvirðingu og stóðu sig vel, bæði félagslega og í námi.“ Voru þau gröm við foreldra sína vegna strangleika þeirra? Nei, „þeim fannst reglur foreldra sinna hafa verið þeim fyrir bestu — tákn um kærleika þeirra.“
Rithöfundurinn Burton L. White segir að sá sem er strangur við barn sitt þurfi ekki að óttast „að barnið elski það minna heldur en væri hann eftirlátur. Það þarf mikið til að barn verði fráhverft aðaluppalendum sínum á fyrstu tveim æviárunum. Jafnvel þótt það sé flengt oft kemur það aftur og aftur til þeirra.“
Besti lærdómurinn
Besti lærdómurinn, sem þú getur veitt barni þínu, er að vera góð fyrirmynd. Það tekur meira mark á því sem þú gerir en því sem þú segir. Það heyrir að vísu orðin en það líkir eftir verkum þínum. Börn eru miklar eftirhermur. Hvernig viltu að barnið þitt verði? Ástríkt, góðviljað, örlátt, íhugult, greint, iðjusamt, lærisveinn Jesú, tilbiðjandi Jehóva? Hvað sem þú vilt að barnið þitt verði skalt þú vera sjálfur.
Þú skalt því byrja að kenna barninu þínu meðan það enn er í vöggu, þegar vöxtur heilans er örastur og það drekkur í sig upplýsingar og áhrif frá umhverfi sínu. En hvað getur þú gert ef þessi mikilvægu mótunarár eru liðin og börn þín hafa ekki þroskað persónuleika sem er Guði að skapi? Örvæntu ekki. Enn getur orðið breyting á. Milljónir ungra og aldinna eru að taka slíkum breytingum með Guðs hjálp. ‚Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans,‘ segir orð Guðs, ‚og íklæðist hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.‘ — Kólossubréfið 3:9, 10.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Það er gaman að lesa með pabba og leika við hann.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Það getur verið gaman í baði.