Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.1. bls. 7-10
  • Hinar sálfræðilegu rætur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hinar sálfræðilegu rætur
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Allt virtist vonlaust“
  • ‚Ég er einskis nýtur‘
  • Fullkomnunarárátta
  • ‚Ég get aldrei gert neitt rétt‘
  • Sigrað í baráttunni við þunglyndi
    Vaknið! – 1988
  • Hvers vegna verð ég svona þunglyndur?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Sigrast á þunglyndi með hjálp annarra
    Vaknið! – 1988
  • Barist við vægðarlausan óvin
    Vaknið! – 1988
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.1. bls. 7-10

Hinar sálfræðilegu rætur

„ÉG hef rannsakað þig frá toppi til táar og ekkert getað fundið að þér,“ sagði læknirinn vingjarnlega. „En ég sé að þú átt við þunglyndi að stríða og það er einhver ástæða fyrir því.“

Elísabet, sem hélt að hún væri með einhvern líkamlegan sjúkdóm, fór að íhuga hvort læknirinn hefði á réttu að standa. Hún velti fyrir sér hinni daglegu baráttu sinni undanfarin ár við óstýrilátan og oft óviðráðanlegan son sinn, sem nú var sex ára. (Síðar kom í ljós að drengurinn var með skerta athylisgáfu.) „Streitan og áhyggjurnar hvíldu á mér eins og mara daginn út og daginn inn,“ segir Elísabet. „Ég var svo langt leidd að mér fannst allt vonlaust og gat vel hugsað mér að svipta mig lífi.“

Oft má finna orsakasamband milli þunglyndis og óvenjulegs tilfinningaálags eins og Elísabet varð fyrir. Í merkri rannsókn Bretanna George Brown og Tirril Harris kom í ljós að þrefalt algengara var að þunglyndar konur ættu við að stríða „meiriháttar erfiðleika,“ svo sem lélegt húsnæði eða erfiðleika í fjölskyldunni, en heilbrigðar konur. Þessir erfiðleikar höfðu valdið „verulegum og oft stöðugum áhyggjum“ í að minnsta kosti tvö ár. Erfið lífsreynsla, svo sem dauði náins ættingja eða vinar, alvarleg veikindi eða slys, hörmulegar fréttir eða skyndilegur atvinnumissir, var fjórfalt algengari meðal þunglyndra kvenna en heilbrigðra!

Brown og Harris komust þó að þeirri niðurstöðu að erfiðleikar einir sér orsaki ekki þunglyndi, heldur sé mikið komið undir huglægum viðbrögðum einstaklingsins og tilfinningalegu atgervi.

„Allt virtist vonlaust“

Sara, atorkusöm eiginkona og móðir þriggja ungra barna, meiddist í baki í vinnuslysi. Læknirinn hennar sagði henni að hryggþófi hefði skemmst og að af þeim sökum yrði hún að stilla mjög í hóf allri áreynslu og líkamlegum athöfnum. „Mér fannst heimurinn í rústum. Ég hafði alltaf verið athafnasöm og stundað íþróttir með krökkunum. Ég velti fyrir mér þessum missi og fannst sem ástandið gæti aldrei batnað framar. Fljótlega missti ég lífsgleðina. Allt virtist vonlaust,“ segir Sara.

Viðbrögð hennar við slysinu urðu til þess að henni fannst lífið allt vera vonlaust og það leiddi síðan til þunglyndis. Brown og Harris segja í bók sinni Social Origins of Depression: „Það [atvikið, svo sem slys Söru] getur leitt til þess að fólki finnist líf þess í heild vera vonlaust. Það er slík alhæfing í sambandi við vonleysi sem við teljum vera undirrót þunglyndis.“

En hvað veldur því að sumum finnst þeir ekki geta unnið bug á tjóni, missi eða erfiðleikum, með þeim afleiðingum að þeir verða alvarlegu þunglyndi að bráð? Hvers vegna lét Sara neikvæðar hugsanir hafa slík áhrif á sig?

‚Ég er einskis nýtur‘

„Mig hefur alltaf skort sjálfstraust,“ segir Sara. „Ég hafði lítið sjálfsálit og fannst ég óverðug nokkurrar athygli.“ Sársaukafullar tilfinningar tengdar ófullnægjandi sjálfsáliti eru oft kveikjan að þunglyndi. „Sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur,“ segir í Orðskviðunum 15:13. Biblían horfist í augu við það að dapur hugur getur stafað af neikvæðum hugsunum, ekki ytri aðstæðum einum saman. Hvað getur valdið því að fólk hafi óeðlilega lítið álit á sjálfu sér?

Hugsanamynstur okkar mótast að sumu leyti af uppeldi okkar. „Foreldrar mínir hrósuðu mér aldrei þegar ég var barn,“ segir Sara. „Ég man ekki eftir að nokkur hafi farið lofsorði um mig fyrr en ég var gengin í hjónaband. Þess vegna var ég alltaf að leita viðurkenningar annarra. Ég er skelfilega hrædd við að öðrum geðjist ekki að mér.“

Þessi sterka þörf fyrir viðurkenningu er algeng í fari margra sem alvarlegt þunglyndi sækir á. Rannsóknir hafa gefið til kynna að slíkir einstaklingar byggi sjálfsmat sitt á þeirri ást og viðurkenningu, sem þeir hljóta frá öðrum, en ekki því sem þeir sjálfir geta og gera. Þeim virðist hætta til að meta manngildi sjálfra sín eftir því hvernig öðrum geðjast að þeim og hve mikils þeir eru metnir. „Ef þessi stuðningur hættir verður það til þess að sjálfsálit manna dvínar og það ýtir mjög undir upptök þunglyndis,“ segir hópur vísindamanna.

Fullkomnunarárátta

Óeðlileg þörf fyrir viðurkenningu annarra birtist oft með óvenjulegum hætti. Sara segir: „Ég kappkostaði að gera alla hluti nákvæmlega rétt þannig að ég gæti hlotið þá viðurkenningu sem ég ekki naut á barnsaldri. Í vinnunni gerði ég allt eins fullkomlega og ég gat. Ég varð að eiga ‚fullkomna‘ fjölskyldu. Ég hafði þessa ímynd sem ég varð að lifa samkvæmt.“ Þegar hún varð fyrir slysinu virtist allt vonlaust. Hún bætir við: „Ég áleit að það væri ég sem héldi fjölskyldunni gangandi og óttaðist að ef ég gæti ekki gert skyldu mína gæti maðurinn minn og börnin ekki spjarað sig og þá myndi fólk segja að ég væri slæm móðir og eiginkona.“

Hugsunarháttur Söru leiddi til alvarlegs þunglyndis. Rannsóknir á persónuleika og hugsanagangi fólks, sem þjáist af þunglyndi, leiða í ljós að slíkur hugsunarháttur er alls ekki sjaldgæfur. Margrét, sem einnig þjáðist af þunglyndi á alvarlegu stigi, viðurkennir: „Ég hafði áhyggjur af því hvað aðrir hugsuðu um mig. Ég var með fullkomnunar-, stundvísi- og skipulagningaráráttu á háu stigi.“ Þunglyndi má oft rekja til þess að fólk setur sér óraunhæf markmið eða er svo samviskusamt að það gengur út í öfgar, en rís svo ekki undir því sem það væntir af sjálfu sér. Prédikarinn 7:16 aðvarar: „Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran — hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ Að reyna að sýnast nærri „fullkominn“ í augum annarra getur leitt til líkamlegs og tilfinningalegs tjóns. Vonbrigðin geta einnig leitt til skaðlegrar sjálfsásökunar.

‚Ég get aldrei gert neitt rétt‘

Sjálfsásökun getur verið jákvæð. Segjum sem svo að maður sé rændur af því að hann var einn á ferð í hættulegu umhverfi. Hann ásakar sig kannski fyrir að koma sér í slíkar aðstæður og strengir þess heit að hann skuli ekki gera það oftar. En menn geta gengið lengra og skellt skuldinni á persónuleika sinn: ‚Ég er óvarkár og kærulaus og ófær um að sneiða hjá erfiðleikum.‘ Með sjálfsásökun af þessu tagi veitast menn að sínum eigin persónuleika og grafa undan sjálfsvirðingu sinni.

María, sem er 32 ára, er dæmi um skaðlega sjálfsásökun af þessu tagi. Sökum misskilnings ól hún í hálft ár með sér gremju í garð eldri systur sinnar. Kvöld eitt hringdi hún til hennar og húðskammaði hana. Þegar móðir þeirra frétti af því hringdi hún í Maríu og ávítaði hana harðlega.

„Ég varð öskureið við móður mína, en ég varð enn reiðari við sjálfa mig þegar rann upp fyrir mér hve mjög ég hafði sært systur mína,“ segir María. Skömmu síðar hellti hún sér yfir níu ára gamlan son sinn sem var óþekkur. Drengurinn tók það mjög nærri sér og sagði síðar við hana: „Mamma, það var alveg eins og þú ætlaðir að drepa mig!“

María var niðurbrotin. Hún segir svo frá: „Mér fannst ég hræðileg manneskja. Ég hugsaði með mér að ég gæti ekki gert nokkurn skapaðan hlut rétt! Það var það eina sem ég gat hugsað um. Þá byrjaði þunglyndið fyrir alvöru.“ Sjálfsásökun Maríu var niðurdrepandi.

Ber að skilja þetta svo að allir sem þjást af alvarlegu þunglyndi hafi óeðlilega lítið álit á sjálfum sér? Auðvitað ekki. Orsakirnar eru miklu flóknari og fjölbreyttari. Jafnvel þegar afleiðingarnar eru það sem Biblían kallar „hryggð í hjarta“ eru það margar tilfinningar sem valda því, þar á meðal innibyrgð reiði, gremja, sektarkennd — raunveruleg eða ýkt — og óútkljáðar deilur við aðra. (Orðskviðirnir 15:13) Allt þetta getur orsakað ‚dapran huga‘ eða þunglyndi.

Þegar Sara gerði sér ljóst að þunglyndi hennar stafaði að verulegu leyti af hugsunarhætti hennar féll henni fyrst allur ketill í eld. „En síðan létti mér nokkuð,“ segir hún, „því að það rann upp fyrir mér að ef það væri hugsunarháttur minn, sem ylli þunglyndinu, þá gæti hugsunarháttur minn líka læknað það.“ Þessi hugmynd varð Söru til hvatningar. Hún segir: „Ég gerði mér ljóst að þegar ég breytti um hugsunarhátt gagnvart ýmsu gæti það haft góð áhrif á líf mitt héðan í frá.“

Sara gerði þær breytingar, sem hún þurfti, og þunglyndinu linnti. María, Margrét og Elísabet sigruðu líka í baráttunni. Hvaða breytingar gerðu þær?

[Rammi á blaðsíðu 10]

‚Það var mér nokkur léttir og hughreysting þegar ég gerði mér ljóst að hugsunarháttur minn væri valdur að þunglyndinu, því að þá fékk ég trú á að ég gæti líka unnið bug á því.12‘

[Rammi á blaðsíðu 8, 9]

Þunglyndi barna: „Ég vildi að ég væri ekki til“

Hér fer á eftir viðtal við dr. Donald McKnew við bandarísku geðheilbrigðisstofnunina, en hann hefur í tuttugu ár unnið að rannsóknum á þessu viðfangsefni.

Vaknið!: Hve útbreitt telur þú þetta vandamál vera?

McKnew: Nýlegar rannsóknir á þúsund börnum á Nýja-Sjálandi sýndu að þegar níu ára aldri var náð höfðu um 10 af hundraði barnanna einhvern tíma gengið í gegnum þunglyndistímabil. Okkur virðist sem 10 til 15 af hundraði skólabarna eigi við að stríða óheilbrigðar geðsveiflur. Eitthvað færri þjást af alvarlegu þunglyndi.

Vaknið!: Af hverju má sjá hvort börnin þjást af alvarlegu þunglyndi?

McKnew: Eitt aðaleinkennið er það að þau hafa ekki gaman af neinu. Þau vilja ekki fara út að leika sér eða vera með vinum sínum. Þau hafa ekki áhuga á fjölskyldunni. Þau eiga erfitt með að einbeita sér; þau geta ekki einu sinni bundið hugann við sjónvarpið, og þaðan af síður heimaverkefnin. Þeim finnst þau einskis virði og þau þjást af sektarkennd. Þau segja að þau séu til einskis nýt og að engum finnist vænt um þau. Þau eiga ýmist erfitt um svefn eða sofa allt of mikið; þau annaðhvort missa matarlystina eða borða of mikið. Auk þess örlar fyrir sjálfsmorðshugleiðingum. Þau segja til dæmis: „Ég vildi að ég væri ekki til.“ Ef öll þessi einkenni gera vart við sig og þau hafa varað í eina til tvær vikur, þá þjáist barnið af alvarlegu þunglyndi.

Vaknið!: Hverjar eru helstu orsakir þunglyndis hjá börnum?

McKnew: Ef tala á um ákveðnar orsakir hjá ákveðnu barni er veigamesta orsökin sennilega missir. Oftast er um að ræða missi annars foreldris, en það gæti líka verið um að ræða vini, nána ættingja eða jafnvel gæludýr. Næstveigamestu orsökina tel ég vera þá að lítið sé gert úr barninu eða því hafnað. Við sjáum ósköpin öll af börnum sem foreldrar gagnrýna fólskulega og láta fá á tilfinninguna að þau séu lítil og lítils virði. Stundum er barnið haft fyrir blóraböggul. Því er kennt um allt sem úrskeiðis fer í fjölskyldunni, hvort sem það er því að kenna eða ekki. Það veldur því að barnið missir alla sjálfsvirðingu. Þriðja atriðið er sinnisveiki annars foreldranna.

Vaknið!: Í bókinni Why Isn’t Johnny Crying?, sem þú varst meðhöfundur að, segir að þunglynd börn neyti stundum fíkniefna, drekki í óhófi eða hneigist jafnvel til afbrota. Af hverju stafar það?

McKnew: Við álítum að þau séu að reyna að fela þunglyndi sitt, jafnvel fyrir sjálfum sér. Þau gera það oft með því að vera upptekin af öðru, svo sem að stela bílum, neyta fíkniefna eða drekka. Með þeim hætti reyna þau að breiða yfir hve illa þeim líður. Börn eru hvað ólíkust fullorðnum að því leyti að þau reyna að fela þunglyndi sitt.

Vaknið!: Af hverju má ráða hvort um er að ræða þunglyndi eða aðeins hegðunarvandamál?

McKnew: Ef það er talað við þessi börn og þau fengin til að opna sig, þá kemur oft í ljós að þau þjást af þunglyndi. Ef þau fá rétta meðhöndlun batnar hegðun þeirra. Þótt vandamálið virtist á yfirborðinu vera allt annað var það þunglyndi sem bjó undir allan tímann.

Vaknið!: Hvernig er hægt að fá þunglynt barn til að segja hug sinn?

McKnew: Í fyrsta lagi þarf að velja stað og stund þegar hægt er að tala saman án truflunar. Síðan má spyrja markvissra spurninga svo sem: ‚Er eitthvað sem veldur þér áhyggjum?‘ ‚Ert þú leiður eða hryggur út af einhverju?‘ ‚Ert þú reiður út af einhverju?‘ Ef orðið hefur dauðsfall í fjölskyldunni gætir þú, eftir því hverjar kringumstæður eru, spurt: ‚Saknar þú ömmu jafnmikið og ég?‘ Gefðu barninu tækifæri til að viðra tilfinningar sínar.

Vaknið!: Hvað ráðleggur þú alvarlega þunglyndum börnum að gera?

McKnew: Að segja foreldrum sínum frá því. Það er mjög mikilvægt að greina þetta vandamál, því að oftast vita aðeins börnin af því að þau eru þunglynd. Foreldrar og kennarar sjá það yfirleitt ekki. Ég veit dæmi þess að unglingar hafa snúið sér að foreldrum sínum og sagt: „Ég er þunglyndur og þarfnast hjálpar,“ og fengið hana.

Vaknið!: Hvernig geta foreldrar hjálpað þunglyndu barni?

McKnew: Ef þunglyndið virðist lamandi er ekki hægt að ráða bót á því innan veggja heimilisins — ekkert frekar en lungnabólgu. Lamandi þunglyndi þarf að fá sérfræðilega meðferð því að þörf getur verið fyrir lyf til að lækna það. Við notum lyf í meira en helmingi tilfella, einnig hjá börnum, allt niður í fimm ára. Við reynum líka að breyta hugsunarhætti barnsins. Með þessum aðferðum er hægt að meðhöndla þunglyndi með góðum árangri.

Vaknið!: Hvað geta foreldrarnir gert ef þunglyndið er ekki á alvarlegu stigi?

McKnew: Litið rannsakandi auga á sig og fjölskylduna. Hefur orðið dauðsfall sem þarf að ræða um við barnið? Ekki gera lítið úr hryggð barnsins við þær aðstæður. Leyfðu því að syrgja. Sýndu þunglyndu barni sérstaka athygli, tilfinningalegan stuðning og hrósaðu því. Notaðu meiri tíma til að vera einn með því. Áhugi þinn, athygli og hlýja er besta meðferðin sem barnið getur fengið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila