Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.10. bls. 13-15
  • Frumkristnir menn völdu trú sína sjálfir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Frumkristnir menn völdu trú sína sjálfir
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Prédikað fyrir ‚fátækum í anda‘
  • Kristin trú — persónuleg ákvörðun
  • Frumkristnir menn og heimurinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Hvernig „kristnir menn“ urðu hluti af þessum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Frumkristnin og guðir Rómar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Allir sannkristnir menn boða fagnaðarerindið
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.10. bls. 13-15

Frumkristnir menn völdu trú sína sjálfir

Á FYRSTU öldinni voru til guðir í hrönnum er hentuðu hvaða smekk sem verkast vildi. Allt frá vöggu til grafar settu þegnar Rómaveldis traust sitt á guði og gyðjur sér til hjálpar og verndar.

Cúba annaðist hið nýfædda barn og Ossipago styrkti bein þess þegar það byrjaði að læra að ganga. Adeóna stýrði fyrstu skrefum þess og Fabúlínus kenndi því að tala. Ef það færi í stríð síðar á ævinni myndi Mars vernda það. Ef það veiktist myndi Eskulapíus annast það. Þegar það dæi myndi Orcus, guð undirheima, vaka yfir því.

Hver borg sem borg gat talist og hver ættkvísl átti sinn verndarguð og daglega var brennt reykelsi handa rómverska keisaranum sem talinn var guð í mannsmynd. Austurlenskir guðir voru í tísku og musteri voru reist til heiðurs Míþras, Ísis og Ósíris. Jafnvel Gyðingar, sem fullyrtu að þeir tilbæðu hinn alvalda, ósýnilega Guð, voru sundraðir í ótal sértrúarhópa.

Á þessu tímabili sögunnar, mitt í öllum þessum trúarglundroða, kom Jesús Kristur fram og kenndi nýja kenningu — kenningu um alheimstrú er væri hafin yfir kynþátta- og þjóðernismörk; trú er byggðist á sannleikanum um hinn alvalda Guð, sannleikanum sem gat frelsað menn úr fjötrum hjátrúar og villu. (Jóhannes 8:32) Það má sjá af orðum hans við Pílatus: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Hvernig fékk hann valdið þessu risavaxna verkefni?

Prédikað fyrir ‚fátækum í anda‘

Sagt hefur verið að ætli menn að snúa öðrum til trúar í stórum stíl sé í aðalatriðum um tvær leiðir að velja. Önnur sé sú að boða almenningi trúna og vinna síðan upp á við. Hin sé sú að einbeita sér að heldra fólkinu eða jafnvel einstaklingum sem tróna efstir meðal yfirstéttarinnar og vinna síðan niður á við með valdbeitingu. Jesús og fylgjendur hans létu sér aldrei til hugar koma að beita síðarnefndu aðferðinni sem kirkjur kaþólskra, mótmælenda og rétttrúnaðarmanna hafa aðhyllst svo mjög.

Allt frá því er Jesús hóf opinbera þjónustu sína sagðist hann ætla að beina athygli sinni að þeim sem væru „fátækir í anda“ eða bókstaflega „betlarar um andann.“ Hér var um að ræða auðmjúkt fólk sem hungraði eftir réttlætinu, sem ‚skynjaði andlega þörf sína.‘ — Matteus 5:3, Ísl. bi. 1981; New World Translation Reference Bible, neðanmálsathugasemd.

Þegar postular Jesú sneru aftur úr prédikunarferð sagði Kristur því: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.“ (Matteus 11:25) Stærstur hluti prédikunar hans fór fram í Galíleu, heimkynnum óbreyttra fiskimanna og bænda frekar en í Júdeu þar sem var höfuðvígi höfðingja Gyðinga og Farísea.

Sjálfur var Jesús frá Nasaret, lítt þekktu þorpi þaðan sem aldrei hafði nokkurt stórmenni komið. „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ spurði Natanael. (Jóhannes 1:46) En það sem hann sá og heyrði hjálpaði honum að yfirstíga þessa fordóma gagnvart fólki frá ákveðnu svæði, þar eð hann hafði opinn huga. Hinir rembilátu Farísear gortuðu aftur á móti: „Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?“ — Jóhannes 7:48.

Kristin trú — persónuleg ákvörðun

Markmið Jesú var að ná til hjartans og sannfæra hugann. Hann kenndi lærisveinum sínum að leita uppi fólk sem verðskuldaði að heyra boðskapinn og dvelja nógu lengi á heimilum þess til að það yrði einlægt í trúnni — ef það vildi. Eftir að nokkrir íbúar þorps í Samaríu höfðu heyrt Jesú boða trúna sögðu þeir: „Vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins.“ — Jóhannes 4:42.

Hver sá sem vildi snúast til kristinnar trúar varð að hlusta og íhuga það sem hann heyrði og taka síðan skynsamlega ákvörðun. Hann þurfti að byggja upp sterka sannfæringu vegna andstöðu sem hann yrði fyrir. Allir fyrstu lærisveinar Jesú voru gerðir samkundurækir en það þýddi að þeim var útskúfað úr samfélagi Gyðinga á staðnum.

Hver einasti lærisveinn taldi sér skylt að verja hina nýfundnu trú sína og segja öðrum frá henni. Celsus, sem gagnrýndi kristnina á annarri öld, gerði gys að því að „verkamenn, skósmiðir og bændur, ómenntuðustu og klaufskustu mennirnir, skuli vera ákafir prédikarar guðspjallsins.“ — Samanber Jóhannes 9:24-34.

Þessi aðferð til að snúa mönnum til trúar, ásamt kristniboðsáhuga þeirra sem tóku trú, varð til þess að kristnin breiddist ört út. Innan skamms var hún orðin alþjóðleg trú í stað þess að vera staðbundin. Jesús hafði sérstaklega tekið fram að fylgjendur hans ættu að prédika „allt til endimarka jarðarinnar.“ — Postulasagan 1:8.

Í samræmi við tilgang Guðs fór kristniboðið fram meðal Gyðinga í byrjun og þess vegna voru fyrstu lærisveinarnir Gyðingar. Jerúsalem varð sá miðpunktur þar sem postularnir komu saman til að stýra hinni nýstofnuðu kirkju. Af þeim sökum voru kristnir menn oft ranglega ásakaðir fyrir að vera Gyðingar enda þótt engir ofsæktu kristna menn harðar en Gyðingar sjálfir. Rómverskur sagnaritari afskrifaði kristnina sem skaðlega hjátrú.

Áður en Pétur skírði fyrsta manninn sem ekki var Gyðingur sagði hann: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Kostgæfni kristinna manna, sem stefnuföst trú þeirra vakti, varð þannig til þess að boðskapurinn um Krist var boðaður um allt Rómaveldi. Ofsóknir dugðu ekki til þess að útrýma þessum kristnu mönnum og margir dóu vegna þess að þeir vildu ekki hafna þeirri trú sem þeir höfðu valið sér. Kostgæfni þeirra og guðrækni er býsna ólík því sinnuleysi sem einkennir kristna heiminn núna á 20. öldinni.

Getur ástæðan fyrir þessu sinnuleysi verið sú að tiltölulega fáir hafa sjálfir tekið yfirvegaða ákvörðun um hvaða trúfélagi þeir skuli tilheyra? Ef þér finnst það einhverju máli skipta hverju þú trúir hvetjum við þig til að skoða alvarlega það sem segir í greininni á eftir.

[Myndir á blaðsíðu 14]

Margir guðir voru tilbeðnir í Róm til forna, þeirra á meðal Mars, stríðsguðinn; Júpíter, yfirguð Rómverja og Eskulapíus, guð læknisfræðinnar.

Mars

[Rétthafi]

Teikning gerð eftir sýningargrip í Mansell-safninu.

Júpíter

[Rétthafi]

Teikning gerð eftir höggmynd í Breska þjóðminjasafninu.

Eskulapíus

[Rétthafi]

Teikning gerð eftir sýningargrip í Gríska þjóðminjasafninu í Aþenu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila