Horft á heiminn
Trúfrelsi í Mósambík
African News skýrir frá því að vottum Jehóva í Mósambík hafi verið veitt nokkuð trúfrelsi árið 1988. Árið 1975 sendu yfirvöld þá þúsundum saman í útlegð á afskekkt svæði í norðurhluta landsins, vegna þess að þeir neituðu að fara með pólitísk slagorð, en það stríðir gegn samvisku þeirra sem Biblían hefur fengið að móta. Þeir bjuggu þar í einangrun fram til 1986 þegar uppreisnarmenn gegn mósambísku stjórninni fóru að ráðast á þá, ræna konum og hneppa í þrælkun og myrða þá tugum saman. Þá flúðu þeir til grannríkisins Malaví sem heimtaði að Sameinuðu þjóðirnar sæju um að koma þeim út úr landinu. Þá afléttu mósambísk stjórnvöld útlegðardómi sínum og leyfðu vottunum að snúa aftur til heimila sinna sem þeir höfðu orðið að yfirgefa 14 árum áður. Þeir halda enn fast við kristið hlutleysi sitt. Stjórnin í Mósambík á hrós skilið fyrir að leyfa þeim nú að lifa og tilbiðja Guð í friði.
„Afar ósennilegt“
Vísindamenn standa enn ráðþrota frammi fyrir spurningunni um uppruna lífsins. Franska dagblaðið Le Figaro lét eftirfarandi orð falla eftir að hafa sagt frá þingi líffræðinga sem haldið var í París: „Hvaðan er lífið komið? . . . Hafa geimverur eða smástirni borið það til jarðar? Er það komið til vegna guðlegrar íhlutunar? Enginn hefur komið fram með vísindalega skýringu.“ Greinin hélt áfram: „Munurinn á flóknustu steinefnakerfum og einföldustu frumum er svo mikill að enginn getur ímyndað sér hvernig hægt hafi verið að brúa bilið á milli þeirra. Tilurð lífs á jörðinni er samsafn svo ólíklegra atvika og aðstæðna að hún er í sjálfu sér afar ólíkleg.“ Eigi að síður er lífið til. Þróunarkenningin getur ekki skýrt hvernig það varð til en það gerir Biblían.
Rusl í geimnum
Mengun af mannavöldum heldur áfram að teygja sig víðar og víðar — jafnvel út í geiminn. Eftir að hafa svo árum skiptir sent farartæki og vélar á braut um jörð án þess að hirða um að ná þeim aftur til jarðar eru afleiðingarnar farnar að segja til sín. Vísindamenn, sem áforma að senda nýtt geimfar á braut, verða nú að finna leiðir til að vernda það gegn rusli sem þeytist um geiminn með hraða er nemur allt að 12 kílómetrum á sekúndu. Á slíkum hraða gæti hlutur á stærð við marmarakúlu „haft sama eyðileggingarafl og handsprengja,“ segir The New York Times. Verkfræðingur hefur meira að segja hannað vélmenni sem hægt er að setja á braut um jörð til að taka í sundur og safna saman rusli í geimnum. En það er ekki auðhlaupið að því að forðast ruslið í geimnum. Hundruð þúsunda búta eru of smáir til að hægt sé að merkja þá frá jörð, en nógu stórir til að vera banvænir. Eins og vísindamaður sagði í viðtali við Times: „Það fyllir okkur vonbrigðum og viðbjóði að það sem ætti að vera hreint umhverfi skuli vera að kafna í rusli og fara versnandi.“
Ævaforn ræktunaraðferð
Fornleifafræðingar hafa uppgötvað að ræktunaraðferðir Perúmanna til forna, sem hafa verið gleymdar um aldaraðir, kunni að vera langtum árangursríkari en nútímaaðferðir. Þar til fyrir fáeinum öldum notuðu bændur á sléttunum umhverfis Titicacavatn einfalda aðferð: Ræktunin fór fram í upphækkuðum beðum sem voru á bilinu fjögurra til tíu metra breið, um eins metra há og allt frá tíu til 100 metra löng. Á milli þeirra voru skurðir sem voru jafnir á breidd og dýpt. Á þurrkatímum var þörungum úr skurðunum mokað upp í beðin sem áburði. Þar eð vatn geymir vel varma stuðluðu skurðirnir að því að forða uppskerunni frá því að frjósa. Hin upphækkuðu beð virtust standast betur flóð og þurrka en venjulegir akrar. Í tilraunum, sem gerðar voru, tókst að ná fram allt að tífalt meiri uppskeru en hægt var með venjulegum ræktunaraðferðum — án kostnaðar vegna véla eða tilbúins áburðar.
Til að verða ungur aftur
Hve háa fjárhæð myndir þú vilja reiða af hendi til að geta endurheimt æsku þína? Banki í Tokyo lagði þessa spurningu fyrir 600 konur og svör þeirra voru á þessa leið: Konur milli fertugs og fimmtugs voru fúsar til að greiða jafnvirði 4 milljóna króna, en ákafur tíundi hluti hópsins var reiðubúinn að láta af hendi allt að 12 milljónir króna. Hæsta tilboðið átti kona sem sagðist myndu greiða jafnvirði 28 milljóna króna til að geta orðið ung á ný. Að sjálfsögðu getur engin fjárupphæð gert slíkan draum að veruleika. En Guð getur það. Hann heitir því að sá tími muni koma er gert verði út af við elli og dauða. (Opinberunarbókin 21:4) Þess vegna lesum við í Jobsbók: „Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ — Jobsbók 33:25.
Neðanjarðarlíf
Vísindamenn hafa lengi gengið út frá því sem gefnum hlut að ekkert lifi undir efsta jarðvegslaginu, gróðurmoldinni, sem er heimkynni ánamaðka og plönturóta. Þeir höfðu rangt fyrir sér. Fjórar holur, sem grafnar voru nýverið í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, leiddu í ljós að um 3000 örverutegundir lifa allt niður í 600 metra undir yfirborði jarðar. Margar örveranna voru áður óþekktar. Þær búa í niðdimmum heimi, hafa lítið loft og næringu, og þær sem þarfnast súrefnis fá það úr jarðvatni. Þær bæta sér yfirleitt upp fæðuskortinn með hægri líkamsstarfsemi sem líkist dvala. Vísindamenn eru nú að rannsaka hvernig hinar örsmáu lífverur hafi komist þangað sem þær eru og hvort þær séu nýtilegar fyrir manninn, til dæmis til að hreinsa mengaða brunna.
Bætt fjarskipti
Fyrsti ljósleiðarstrengurinn fyrir síma yfir Atlantshaf var tekinn í notkun í desember síðastliðnum. Lögn og uppsetning hafði tekið um hálft ár og kostnaður nam um 20 milljörðum króna. Eirstrengirnir þrír, sem fyrir eru, ásamt gervihnöttum gátu borið í mesta lagi 20.000 símtöl samtímis yfir Atlantshaf, en nýi ljósleiðarinn getur borið 40.000 símtöl. Eirvír getur borið samtímis aðeins 48 símtöl, en einn ljósleiðaraþráður getur borið yfir 8000 símtöl og tölvugagnaboð send sem leysimerki. Með hjálp þessarar nýju tækni verða millilandasímtöl og gagnaflutningur fljótvirkari og nánast brenglunarlaus.
Úrgangur til þriðja heimsins
Iðnríki, sem eiga í erfiðleikum með að losna við sorp og úrgang, eru farin að líta lönd þriðja heimsins hýru auga. Að sögn tímaritsins Journal of Water Pollution Control Federation eru iðnríki farin að virkja löngunina í skjótfenginn gróða til að lokka þróunarlönd til að taka við úrgangi erlendis frá, undir því yfirskyni að þar sé um uppfyllingu eða áburð að ræða. En þessi úrgangur reynist oft hættulegur. Þegar mörgum tonnum af iðnaðarösku frá Bandaríkjunum var hent á eyju úti fyrir strönd Gíneu í Vestur-Afríku dó mestallur trjágróður þar. Í Nígeríu hafa fundist 4000 tonn af eitruðum efnaúrgangi frá Ítalíu. „Þeir sem búa í grenndinni eru farnir að veikjast,“ segir í fréttinni. Embættismaður eins af ríkjum þriðja heimsins sagði í viðtali við tímaritið að vanþróuðu ríkin „skorti nauðsynlega tæknikunnáttu til að mæla eiturvirkni úrgangsefna og séu í verulegri hættu er þau taka við slíkum úrgangi.“
Nýru til sölu
Værir þú tilbúinn að selja úr þér annað nýrað? Vestur-þýskt fyrirtæki, sem sér um að útvega líffæri til ígræðslu, hefur boðið jafnvirði 2,5 milljóna króna hverjum þeim sem er fús til slíks. Talsmaður fyrirtækisins sagði að það væri nú að „drukkna í tilboðum.“ Fólk, sem eygir þarna möguleika á skjótfengnum gróða, sér fyrirtækjum, er selja líffæri úr mönnum, fyrir kappnógri verslunarvöru. Ólíkt ólöglegri líffærasölu í þriðja heiminum starfa „líffærasalar fyrir opnum tjöldum (og löglega) í Vestur-Þýskalandi,“ segir í frétt tímaritsins Newsweek. Fyrirtækið setur upp jafnvirði 4,8 milljóna íslenskra króna fyrir slík líffæri.
Óhugnanleg líffærasala
Snemma árs 1988 komst upp um glæpsamlega starfsemi í Santa Caterina Pinula í Guatemala sem ekki hefur farið mikið fyrir í fréttum fjölmiðla. Samkvæmt ályktun Evrópuþingsins fundu yfirvöld þar „fitunarstöð“ þar sem nýfædd ungbörn keypt fyrir allt niður í rúmlega 1000 krónur voru seld bandarískum eða ísraelskum fjölskyldum fyrir rúmlega 4 milljónir króna. Síðan var ætlunin að fjölskyldurnar, sem keyptu þau, gætu notað líffæri þeirra handa sínum eigin börnum sem þörfnuðust líffæraígræðslu, að því er sagði í ályktuninni. Þar sagði einnig að árið 1987 hefði svipuð „fitunarstöð“ fundist í Hondúras og „í grennd við hana hefðu fundist lík fjölmargra barna, sum hver nýfædd, sem eitt eða fleiri líffæri höfðu verið tekin úr.“ Önnur fannst í Guatemalaborg og „skrár hennar gáfu til kynna að 170 börn . . . hefðu verið seld til útlanda, flest til Bandaríkjanna, til að hægt væri að taka úr þeim líffæri.“ Evrópuþingið hefur sent ályktun sína ýmsum stofnunum og ríkisstjórnum og krafist viðeigandi aðgerða gegn þeim er bera ábyrgð á þessari óhugnanlegu iðju.