Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.4. bls. 28-30
  • Franska byltingin — forsmekkur þess er koma skyldi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Franska byltingin — forsmekkur þess er koma skyldi
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Stéttaþingið
  • Mannréttindi
  • Kirkjan klofnar
  • Ógnaröld og blóðsúthellingar
  • Afkristnun
  • Hvernig er komið fyrir yfirráðum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Hvers vegna blanda prestar sér í stjórnmál?
    Vaknið! – 1987
  • Hvað er að verða um trúarleg gildi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
Vaknið! – 1990
g90 8.4. bls. 28-30

Franska byltingin — forsmekkur þess er koma skyldi

Eftir fréttaritara Vaknið! í Frakklandi

Franska byltingin átti sér stað árið 1789, fyrir liðlega 200 árum. Hvað hleypti henni af stað? Hvernig var hún forsmekkur að því er koma skyldi?

„ER ÞETTA uppreisn?“ spurði konungur.

„Nei, yðar hátign, þetta er bylting.“

Loðvík XVI, konungur Frakklands, spurði þessarar spurningar þann 14. júlí 1789, daginn sem Bastillan í París var tekin. Hann lét þar með í ljós að hann var ófær um að bera skyn á atburði sem áttu eftir að breyta Frakklandi til frambúðar og voru forsmekkur þess er koma skyldi.

Hungursneyð var þegar búin að valda tíðum uppreisnum í Frakklandi á 18. öld. Rétt fyrir byltinguna voru 10 af 25 milljónum landsmanna háðir ölmusugjöfum til að draga fram lífið. Völd konungs fóru dvínandi, stjórn landsins hafði lítinn áhuga á umbótum og menntamenn ræddu um það sín á milli hvort vald konungs ætti að ganga fyrir þjóðarhag.

Stéttaþingið

Árið 1788 stóð stjórnin frammi fyrir efnahagskreppu, aðallega vegna stuðnings Frakka við Bandaríkjamenn í sjálfstæðisbaráttu þeirra gegn Bretum. Konungur neyddist til að kalla saman hið svonefnda stéttaþing. Á þinginu sátu fulltrúar hinna þriggja stétta þjóðarinnar: klerkanna (fyrstu lögstéttar); aðalsins (annarrar lögstéttar) og almennings (þriðju lögstéttar).

Fulltrúar klerkastéttarinnar höfðu á bak við sig aðeins um 150.000 manns, fulltrúar aðalsmanna um 500.000 manns en þriðja lögstéttin taldi yfir 24.500.000 manns. Sérhver þessara þriggja stétta fór með eitt atkvæði á stéttaþinginu. Það þýddi að almenningur (sem fór með eitt atkvæði) gat engum umbótum komið á nema klerkar og aðalsmenn (með samanlagt tvö atkvæði) samþykktu. Klerkar og aðalsmenn — sem voru um 3 af hundraði þjóðarinnar — fóru þannig með meiri atkvæðisrétt en hin 97 af hundraði! Auk þess áttu klerkar og aðalsmenn um 36 af hundraði landsins og þurftu ekki að greiða jarðeignarskatt.

Sökum þess hve margir sultu fordæmdu fulltrúar almennings harðstjórn yfirvalda, rangláta skattheimtu og kosningakerfi og óréttlæti og óhóf kaþólsku klerkastéttarinnar og aðalsins. En konungurinn virtist öruggur í sessi því að hann var álitinn stjórna af Guðs náð. Og fólk hét enn tryggð við hina kaþólsku trú. Þrátt fyrir það var einveldinu kollvarpað á innan við fjórum árum og hafin stórfelld afkristnun.

Vorið 1789 tóku að gerast þeir atburðir sem voru undanfari byltingarinnar. Þar eð sumir af aðlinum neituðu að sætta sig við breytt kosningafyrirkomulag lýstu fulltrúar þriðju lögstéttarinnar sig þjóðþing. Þar með hafði bylting miðstéttarinnar gengið með sigur af hólmi og algert einræði var liðin tíð.

Bændur óttuðust hins vegar samsæri konungs og yfirstéttar gegn þriðju lögstéttinni. Þessi ótti kom fólki til að fara með rán og gripdeildir um kastala og herragarða sem magnaðist síðan upp í fjöldauppreisn. Til að reyna að halda uppi lögum og reglu í landinu ákvað þjóðþingið að kvöldi 4. ágúst 1789 að svipta aðalinn forréttindum sínum og leggja niður lénsskipulagið. Þannig brast grundvöllur hins forna stjórnkerfis á aðeins fáeinum dögum.

Mannréttindi

Þjóðþingið lagði síðan fram mannréttindayfirlýsingu sína. Þar var lögð áhersla á frelsi, jafnrétti og bræðralag. En þjóðþingið þurfti að sigrast á andstöðu klerkastéttarinnar gegn 10. og 11. grein sem kváðu á um trú- og tjáningarfrelsi.

Margir töldu að þeir hefðu nú fundið hið fullkomna stjórnarfar. En þeir áttu eftir að verða fyrir vonbrigðum því að kirkjan, undir forystu Píusar páfa VI, fordæmdi mannréttindayfirlýsinguna. Margir byltingarsinnar höfðu yfirlýsinguna að engu og létu óseðjandi blóðþorsta ráða gerðum sínum.

Meira en 150 árum síðar, árið 1948, samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mannréttindayfirlýsingu sína sem sótti innblástur sinn í hina frönsku yfirlýsingu frá 1789. En eins og fyrrum þjóna margir slíkum meginreglum með vörunum en sýna þeim megnustu fyrirlitningu í verki. Þau eru mikil sannmæli orðin í Prédikaranum 8:9: „Sumir menn hafa völd og aðrir verða að þjást undir oki þeirra.“ — Today’s English Version.

Kirkjan klofnar

Í ágúst 1789 báru nokkrir þingfulltrúar fram þá hugmynd að þjóðnýta eignir kirkjunnar. Tillagan varð að lögum og ríkið gerði eigur kirkjunnar upptækar. Auk þess skyldaði þjóðþingið presta til að sverja hollustueið svonefndri „borgaralegri stjórnarskrá presta“ sem það hafði samið.

Kirkjan klofnaði. Um 60 af hundraði presta tóku eiðinn og urðu þjóðprestar en hinir neituðu að sverja hollustueið og héldu tryggð við Róm. Þessi klofningur olli miklum átökum. Þeir prestar, sem neituðu að sverja eiðinn, voru oft álitnir óvinir byltingarinnar og þjóðarinnar.

Ógnaröld og blóðsúthellingar

Ýmsar ytri hættur steðjuðu einnig að byltingunni. Önnur einveldi voru komin á fremsta hlunn með að blanda sér í málefni Frakklands í þeim tilgangi að koma konunginum aftur til valda. Almenningur missti hins vegar allt traust til Loðvíks XVI er hann reyndi að flýja land þann 21. júní 1791.

Vorið 1792 lýsti Frakkland konungum Bæheims og Ungverjalands stríð á hendur, sökum hinnar vaxandi andstöðu annarra Evrópuríkja gegn byltingunni. Stríðið breiddist út til Evrópu allrar og stóð allt fram til 1799. Yfir 500.000 Frakkar létu lífið.

Í ágúst og september 1792 gerðust byltingarmenn róttækari: Konungurinn var sviptur embætti, dæmdur til dauða og lýst var yfir lýðræði. Konungur var tekinn af lífi þann 21. janúar 1793 og drottningin, Marie Antoinette þann 16. október 1793. Margir ósamvinnuþýðir prestar voru reknir úr landi. Byltingarmenn töldu sig þurfa að frelsa aðrar þjóðir sem enn bjuggu við harðstjórn einvalda, en frelsararnir breyttust oft sjálfir í harðstjóra.

Erfiðleikarnir höfðu verið magnaðir fyrir en nú gerði stríðið illt verra. Eftir tilskipun þess efnis að kalla 300.000 karlmenn í herinn varð mikil ólga í landinu. Í vesturhluta Frakklands var myndaður her kaþólskra konungssinna undir merki krossins og hins helga hjarta. Hann náði völdum í borgum í fjórum héruðum og brytjaði lýðveldissinna niður.

Landstjórnin notfærði sér þessi vandamál til að taka sér alræðisvald sem fengið var í hendur svonefndri „öryggismálanefnd“ undir forystu Robespierres. Óttinn var eitt helsta vopn stjórnarinnar. Oft voru þau réttindi, sem kveðið var á um í mannréttindayfirlýsingunni frá 1789, fótum troðin. Byltingardómstólar felldu sífellt fleiri dauðadóma og fallöxin varð illræmd.

Afkristnun

Haustið 1793 setti byltingarstjórnin í gang umfangsmikla áætlun um afkristnun þjóðarinnar. Markmið hennar var að byggja upp „nýjan mann“ er væri laus við alla lesti. Hin kaþólska trú var sökuð um að misnota sér trúgirni almennings. Sumar kirkjur voru jafnaðar við jörðu en öðrum breytt í hermannaskála. Prestar voru neyddir til að láta af störfum og kvænast. Þeir sem neituðu voru handteknir og líflátnir. Sumir flúðu land.

Kaþólsk trú var látin víkja fyrir dýrkun skynseminnar. Sumir litu á skynsemina sem gyðju, „móður þjóðarinnar.“ Síðan var dýrkun skynseminnar látin víkja fyrir eins konar guðstrú sem Robespierre kom á. Hann ruddi andstæðingum sínum úr vegi og kom á miskunnarlausri harðstjórn. En blóðþorsti hans kostaði hann lífið. Hann var dreginn æpandi að fallöxinni þann 28. júlí 1794.

Þeir stjórnmálamenn, sem eftir lifðu, vildu forðast að alræði eins manns endurtæki sig og fólu fimm manna þjóðstjórn völdin. En þegar stríðið hélt áfram og efnahagsástand versnaði hölluðust menn aftur að því að fela einum einstaklingi stjórnina. Það var Napóleon Bonaparte. Þar með var brautin rudd fyrir nýja einræðisstjórn.

Franska byltingin sáði út frá sér hugmyndum sem síðan uxu upp bæði sem lýðræði og einræði. Hún er líka glöggt dæmi um hvað getur gerst þegar stjórnmálaöflin snúast skyndilega gegn stórum kirkjudeildum. Í þeim skilningi getur hún gefið okkur forsmekk að því sem koma mun. — Opinberunarbókin 17:16; 18:1-24.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Hjáguðadýrkun í Notre Dame-kirkjunni: Hátíð haldin skynsemisgyðjunni.

[Rétthafi]

Bibliothèque Nationale, París

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila