Kreppuástand í skólamálum
Foreldrar senda börnin sín í skóla til að læra, en ekki bara lestur, skrift og reikning. Þeir ætlast til að skólarnir veiti alhliða menntun sem hjálpar börnunum að taka út þroska þannig að foreldrarnir geti verið stoltir af þeim þegar þau vaxa úr grasi. En oft gengur þetta ekki eftir. Af hverju? Af því að það ríkir kreppuástand í skólamálum í heiminum.
VÍÐA um lönd stendur bæði fjárskortur og kennaraskortur í vegi fyrir menntun barna. Um Bandaríkin þver og endilöng hefur efnahagssamdráttur síðustu ára til dæmis neytt suma skóla til að binda aftur inn ‚gamlar kennslubækur, láta múrhúðina molna úr loftinu, leggja niður kennslu í listum og íþróttum eða loka alveg svo dögum skiptir,‘ að því er segir í tímaritinu Time.
Í Afríku er fé til menntamála einnig af skornum skammti. Að sögn dagblaðsins Daily Times í Lagos hafa Nígeríumenn aðeins 1 kennara á móti hverjum 70 nemendum „og verulegar líkur eru á að þriðji hver kennari sé óhæfur.“ Í Suður-Afríku er ekki aðeins skortur á kennurum heldur stuðla yfirfullar kennslustofur og pólitísk ólga að því sem blaðið South African Panorama kallar „öngþveiti í skólum blökkumanna.“
Nægilega margir hæfir kennarar og fullnægjandi kennslugögn eru auðvitað engin trygging fyrir góðri menntun. Til dæmis er sagt að næstum þriðjungur 14 ára barna í Austurríki geti ekki leyst einföld reikningdæmi eða lesið þokkalega. Á Bretlandi ná „talsvert færri nemendur framhaldseinkunn í stærðfræði, raunvísindum og móðurmáli en nemendur í Þýskalandi, Frakklandi og Japan,“ að sögn Lundúnablaðsins The Times.
Kennarar í Bandaríkjunum kvarta undan því að enda þótt nemendur fái góðar einkunnir í prófum geti margir ekki skrifað góða ritgerð, ráðið fram úr stærðfræðiverkefni eða tekið saman yfirlit yfir aðalatriði kennslustundar eða greinar. Fræðsluyfirvöld um heim allan eru því byrjuð að endurskoða bæði námsskrá skólanna og aðferðir til að meta framfarir nemendanna.
Ofbeldi í skólum
Fréttir gefa til kynna ógnvekjandi og vaxandi ofbeldi í skólum. Á kennararáðstefnu í Þýskalandi kom fram að 15 af hundraði skólabarna séu „undir það búin að grípa til ofbeldis — og 5 af hundraði hiki jafnvel ekki við mjög hrottaleg ofbeldisverk, svo sem til dæmis að sparka í varnarlausan, liggjandi mann.“ — Frankfurter Allgemeine Zeitung.
Einstök dæmi um hrottaleg ofbeldisverk valda mönnum miklum áhyggjum. Þegar fjórir unglingar nauðguðu 15 ára stúlku í snyrtiherbergi unglingaskóla í París streymdu nemendur út á götu og heimtuðu hert öryggi í skólum. Foreldrar hafa áhyggjur af vaxandi kynferðisafbrotum, fjárkúgunum og tilfinningalegu ofbeldi. Slíkir atburðir eru ekki einskorðaðir við Evrópu heldur gerast æ algengari um heim allan.
Japanska menntamálaráðuneytið skýrir frá ofbeldisbylgju bæði í yngri og eldri bekkjum unglingaskóla. Suður-afríska dagblaðið The Star líkti ástandinu í mörgum skólum í Soweto við „Villta-Vestrið“ í Bandaríkjunum á 19. öld, undir yfirskriftinni „Vopnaðir nemendur taka völdin.“ Jafnvel New Yorkborg, sem hefur verið orðlögð fyrir ofbeldi, náði „nýjum hátindi með tilkynningu fyrirtækis, sem framleiðir öryggisfatnað, um að það hafi fengið hraðpantanir á skotheldum vestum handa skólabörnum,“ að sögn Lundúnablaðsins The Guardian.
Ofbeldisplága gengur einnig yfir breska skóla. „Síðastliðin 10 ár,“ segir talsmaður kennarafélags, „höfum við séð vaxandi tilhneigingu til að vopnavalds. Hún hefur líka teygt sig niður í yngri aldurshópa og nú eru það ekki aðeins piltar heldur einnig stúlkur sem grípa til vopna.“
Það er því ekkert undarlegt að einstaka foreldrar skuli hafa ákveðið að taka börnin sín úr skóla og kenna þeim heima.a Þeir sem hafa ekki tök á slíku hafa tíðar áhyggjur af slæmum áhrifum skólans á börn sín og velta fyrir sér hvernig þeir geti spornað gegn þeim. Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa börnum sínum að takast á við þau vandamál sem mæta þeim í skólanum? Og hvernig geta foreldrar unnið með kennurum að því að tryggja að börnin þeirra fái sem mest út úr skólagöngunni? Greinarnar á eftir svara þessum spurningum.
[Neðanmáls]
a Greinin „Home Schooling — Is It for You?“ sem birtist í enskri útgáfu Vaknið! hinn 8. apríl 1993, fjalla um þennan möguleika.