Kaþólska kirkjan í Afríku
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á ÍTALÍU
KAÞÓLSKA kirkjan á sér tugmilljónir áhangenda í Afríku og vandamál hennar eru líka mörg og mikil þar. Á fyrri hluta síðasta árs komu yfir 300 kirkjuleiðtogar saman í Páfagarði í Róm til að ræða sum þessara vandamála á sérstöku mánaðarlöngu kirkjuþingi.
Að sögn L’Osservatore Romano sagði páfi við upphaf þingsins: „Í dag er í fyrsta sinn haldið þing afrísku kirkjunnar sem nær til alls meginlandsins. . . . Fulltrúar allra Afríkuríkja eru viðstaddir hér í dag í Péturskirkjunni. Biskupinn í Róm býður Afríku innilega velkomna.“
Ættflokkastríð
Eins og margir vita eru vandamál kaþólsku kirkjunnar sérlega alvarleg í Afríkuríkjunum Búrúndí og Rúanda þar sem þorri íbúa er kaþólskrar trúar. Ættflokkstríðið það komst í heimsfréttirnar í fyrravor þegar hundruð þúsundir manna féllu fyrir hendi nágranna sinna. Sjónarvottur skýrði svo frá: „Við sáum konur með smábörn á bakinu drepa aðra. Við sáum börn drepa börn.“
Blaðið National Catholic Reporter fjallaði um angist forystumanna kaþólskra og sagði að „nýlegar fregnir af átökunum í smáríkinu [Búrúndí] í Afriku, þar sem íbúar eru að stærstum hluta kaþólskir, tækju páfann. . . ‚ákaflega sárt‘“
Fjöldamorðin í Rúanda eru mikill hnekkir fyrir forystu kaþólsku kirkjunnar. „Páfi fordæmir þjóðarmorð í landi þar sem 70 af hundraði eru kaþólskir,“ sagði í fyrirsögn í sama blaði. Í greininni stóð: „Átökin í Afríkuríkinu eru ‚ekkert annað en þjóðarmorð sem jafnvel kaþólskir menn eiga því miður aðild að,‘ sagði páfi.“
Þar eð hermdarverkin í Rúanda áttu sér stað samtímis og hið sögulega kirkjuþing kaþólskra var haldið í Róm beindist athygli biskupanna óhjákvæmilega að ástandinu í Rúanda. National Catholic Reporter sagði: „Átökin í Rúanda koma upp um ískyggilegt ástand: Kristin trú hefur ekki skotið nógu djúpum rótum í Afríku til að yfirvinna ættflokkaríginn.“
National Catholic Reporter gat um áhyggjur hinna samankomnu biskupa og sagði svo: „Albert Kanene Obiefuna, biskup í Awaka í Nígeríu, fjallaði um þetta stef [ættflokkaríginn] á kirkjuþinginu.“ Í ávarpi sínu sagði Obienfuna: „Fjölskyldulíf og kristilegt líf hins dæmigerða Afríkumanns snýst um starf hans innan ættflokksins.“
Obiefuna hélt síðan áfram í ræðu sinni á þinginu og var þá vafalaust með Rúanda í huga: „Þessi hugsunarháttur gagntekur menn svo að sagt er meðal Afríkumanna að þegar velja þurfi milli verði sá skilningur ekki ofan á að líta á kirkjuna sem fjölskyldu heldur sé fylgt máltækinu að ‚blóð sé þykkara en vatn.‘ Og vatnið hér er væntanlega meðal annars skírnarvatnið þar sem maður fæðist inn í fjölskyldu kirkjunnar. Blóðbönd eru mikilvægari jafnvel fyrir þann Afríkumann sem gerst hefur kristinn.“
Biskupinn viðurkenndi þannig að í Afríku hafi kaþólskri trú mistekist að skapa kristið bræðralag þar sem hinir trúuðu elska hver annan eins og Jesús Kristur kenndi að þeir ættu að gera. (Jóhannes 13:35) „Blóðbönd eru mikilvægari“ fyrir kaþólska Afríkumenn. Það hefur valdið því að ættflokkahatur ræður meiru en allt annað. Eins og páfinn viðurkenndi bera kaþólskir menn í Afríku ábyrgðina á einhverjum verstu hermdarverkum síðustu ára.
Framtíð kirkjunnar sögð í húfi
Afrísku biskuparnir á kirkjuþingingu létu í ljós að þeir óttuðust um framtíð kaþólskrar trúar í Afríku. „Ef við viljum að kirkjan haldi áfram að starfa í landi mínu,“ sagði Bonifatius Hushiku, biskup frá Namibíu, „verðum við að gefa mjög alvarlegan gaum að spurningunni um samlögun.“
Kaþólska fréttastofan Adista á Ítalíu lét svipaða afstöðu í ljós: „Að tala um ‚samlögun‘ fagnaðarerindisins í Afríku merkir að tala um sjálf örlög kaþólsku kirkjunnar þar, möguleika hennar á að lifa af eða ekki.“
Hvað eiga biskuparnir eiginlega við með „samlögun“?
Kirkjan og „samlögun“
John M. Waliggo segir að „við höfum lengi notað orðið aðlögun til að lýsa sama veruleika.“ Sagt á einfaldaara máli er „samlögun“ það að laga hefðir og kenningar ættflokkatrúarbragðanna að kaþólskum helgisiðum og tilbeiðslu, að gefa fornum trúarathöfnum, hlutum, táknum og stöðum nýtt nafn og nýja merkingu.
Samlögun gerir Afríkumanni kleift að vera kaþólskur og í góðu áliti sem slíkur en halda samt áfram athöfnum, helgisiðum og trú ættfokk síns. Er eitthvað að því? Ítalska dagblaðið La Repubblica spurði til dæmis: „Voru ekki jólin í Evrópu tengd Solis Invicti hátíðinni sem bar upp á 25. desember?“
Josef Tomko, kardínáli, sem er yfirmaður Þjóðatrúboðssafnaðarins, sagði: „Trúboðskirkjan stundaði samlögun löngu áður en orðið var tekið í notkun.“ Eins og La Repubblica benti á er jólahald ágætisdæmi um þetta. Upphaflega voru jólin heiðin hátíð. „Hinn 25. desember svarar ekki til fæðingar Krists,“ viðurkennir New Catholic Encyclopedia, „heldur Natalis Solis Invicti hátíðinni, rómversku sólstöðuhátíðinni.“
Jólin eru aðeins einn heiðinn siður af mögum sem kirkjan hefur tekið upp á arma sína. Að auki má nefna kenningar um þrenninguna, ódauðleika sálarinnar og eilífar kvalir mannsálarinnar eftir dauðann. John Henry Newman kardínáli, sem uppi var á 19. öld, skrifaði að „stjórnendur kirkjunnar hafi allt frá fornu fari verið reiðubúnir, ef tilefni gæfist, til að taka upp, líkja eftir eða leggja blessun sína yfir trúarathafnir og siði almennings.“ Hann taldi upp marga kirkjusiði og helgidaga og sagði að þeir væru „allir af heiðnum uppruna og löghelgaðir með því að kirkjan tók þá upp.“
Þegar kaþólskir hefja trúboð á svæðum, sem ekki teljast kristin, komast þeir oft að raun um að ýmsar trúarathafnir og trúarskoðanir fólks líkjast mjög því sem stundað er í kirkjnni. Það stafar af því að fyrr á öldum tók kirkjan upp trúarathafnir og -kenningar ókristinna manna og gerði að hluta kaþólskrar trúar. Slíkar athafnir og kenningar voru, að sögn Newmans kardínála, ‚löghelgaðar með því að kirkjan tók þær upp.‘
Þegar Jóhannes Páll páfi annar heimsótti ókristna þjóðflokka í Afríku í hittifyrra hafði blaðið L’Osservatore Romano eftir honum: „Í Kótónó [í Afríkuríkinu Benín] hitti ég vúdútrúarmenn, og það var ljóst af máli þeirra að á einhvern hátt hafa þeir nú þegar í hugarfari sínu, trúarsiðum, táknum og eðlisfari sumt af því sem kirkjan vill bjóða þeim. Þeir bíða aðeins eftir því að einhver komi og rétti þeim hjálparhönd til að stíga yfir þröskuldinn og endurlifa í skírninni það sem þeir í einhverjum skilningi lifa í og þekkja fyrir skírnina.“
Hvað ættir þú að gera?
Misheppnaðar tilraunir kirkjunnar til að kenna Afríkuþjóðum sanna og ómengaða kristni hafa haft hörmulegar afleiðingar. Ættflokkarígurinn þrífst enn, eins og þjóðernishyggjan annars staðar, og veldur því að kaþólskir menn drepa hver annan. Hvílík vanvirða við Krist! Biblían segir að löglaus manndráp sem þessi séu einkennandi fyrir „börn djöfulsins“ og Jesús segir um slíka menn: „Farið frá mér, illgjörðamenn.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12; Matteus 7:23.
Hvað eiga einlægir kaþólikkar þá að gera? Biblían hvetur kristna menn til að vera á varðbergi gagnvart hverjum þeim siðum eða trúarskoðunum sem gætu gert tilbeiðslu þeirra óhreina í augum Guðs. „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum,“ segir Biblían. Til að njóta velvildar Guðs þarftu að ‚skilja þig frá og ekki snerta neitt óhreint í augum Guðs.‘ — 2. Korintubréf 6:14-17.
[Innskot á blaðsíðu 20]
‚Átökin í Rúanda eru ekkert annað en þjóðarmorð sem jafnvel kaþólskir menn bera ábyrgð á,‘ segir páfi.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 18]
Ljósmynd: Jerden Bouman/Sipa Press