Hefur þú einhvern tíma hugleitt?
ER NOKKUR leið að ganga úr skugga um hvaða trú sé Guði þóknanleg í heimi með hundruðum trúarbragða, sértrúarflokka og trúarreglna? Það gæti virst jafnvonlaust og að leita að nál í heystakki. En þarftu að rannsaka heystakkinn strá fyrir strá? Nei. Þú getur notað útilokunaraðferð. Orð Guðs, Biblían, er eins og segull sem getur hjálpað þér að finna þessa ‚einu trú.‘ — Efesusbréfið 4:5.
Við höfum áður fjallað um spurninguna um ódauðlega sál í þessu tímariti (júlí-september 1994, bls. 12) undir yfirskriftinni „Hefur þú einhvern tíma hugleitt?“ Við notuðum rökfærslu Biblíunnar til að sanna að maðurinn hefur ekki ódauðlega sál sem hlýtur annaðhvort blessun eða kvöl eftir dauðann. (Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Með því að nota þann einfalda sannleika getum við útilokað hver þau trúarbrögð sem kenna að maðurinn hafi ódauðlega sál. Þá eru mjög fá trúfélög eftir til að velja milli í leit okkar að þeirri trú sem Guð hefur velþóknun á. Við skulum því varpa fram nokkrum fleiri spurningum sem geta hjálpað okkur að þrengja hringinn enn meir. Við lítum einfaldlega á ritningarstaðina, sem tilfærðir eru hér að neðan, og rökræðum út frá þeim.
1. Ætti sönn tilbeiðsla að upphefja, vegsama og heiðra mennska trúarleiðtoga úr hófi fram og gefa þeim jafnvel óbiblíulega titla? — Sálmur 96:5-7; Matteus 23:6-12; 1. Korintubréf 3:5-9.
2. Ætti hin sanna trú að starfa eins og gróðafyrirtæki þannig að leiðtogar hennar geti lifað í vellystingum? — Matteus 6:19-21; Jakobsbréfið 2:1-4; 5:1-3.
3. Ætti hin sanna trú að þekkjast á einni einstakri kenningu (eins og baptistar og hvítasunnumenn), á landfræðilegum uppruna (Róm, Grikklandi eða Englandi), vera nefnd eftir ófullkomnum stofnanda sínum (Lúter, Kalvín, Wesley) eða stjórnarformi sínu (svo sem öldunga-, biskupa- eða safnaðarkirkjan)? — Jesaja 43:10, 12; Postulasagan 11:26, NW.
4. Ætti sönn trú að reyna að fela opinberað nafn Guðs eða setja annað orð í stað þess? — Jesaja 12:4, 5; Matteus 6:9; Jóhannes 17:26.
5. (a) Hvernig ætti hin sanna trú að líta á Biblíuna? (Sálmur 119:105; Lúkas 24:44, 45; Rómverjabréfið 15:4; 2. Tímóteusarbréf 3:14-16) (b) Hvernig ætti hún að líta á hinar svokölluðu síðari tíma opinberanir? — Galatabréfið 1:8, 9.
6. Að hverju eða hverjum beina sannir tilbiðjendur athygli sem hjálpræðisleið? — Sálmur 27:1; Matteus 6:33; Rómverjabréfið 16:25-27; 1. Korintubréf 15:27, 28; Opinberunarbókin 11:15.
7. Hvers konar breytni ættu kenningar hinnar sönnu trúar að stuðla að? — Matteus 22:37-40; Efesusbréfið 4:23-29; berðu saman Galatabréfið 5:19-21 og 5:22, 23.
8. Myndi heimsbræðrafélag sannra guðsdýrkenda blanda sér í sundrandi stjórnmál og þjóðernishyggju? — Daníel 2:44; 7:14; Jóhannes 18:36; Rómverjabréfið 16:17; 1. Korintubréf 1:10.
9. Myndi sú tilbeiðsla, sem er Guði þóknanleg, leyfa þátttöku í stríði og kynþátta- og ættflokkadrápum? — 2. Mósebók 20:13; Jesaja 2:2-4; Jóhannes 13:34, 35.
10. Hverjir sýna sannan, kristilegan kærleika út um allan heim nú á dögum? Eru ekki sundraðir vegna stjórnmála, kynþátta eða þjóðernishyggju? Upphefja ekki mennska leiðtoga? Misnota sér ekki fólk til að komast yfir auð og völd? Taka ekki þátt í stríðsátökum? Bera biblíulegt nafn? Eru talsmenn Guðsríkis sem varanlegrar lausnar á vandamálum mannkynsins? — Jesaja 43:10, 12.
Hefur þú einhvern tíma hugleitt? Svör Biblíunnar
Hér fara á eftir sumir af þeim ritningarstöðum sem vitnað er í með spurningum á blaðsíðu 12.
1. „Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum. En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — Matteus 23:6-12.
2. „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“ (Matteus 6:19-21) „Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma. Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin, gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar.“ — Jakobsbréfið 5:1-3.
3. „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn.“ (Jesaja 43:10) „Það var fyrst í Antíokkíu sem lærisveinarnir voru vegna forsjónar Guðs kallaðir kristnir.“ — Postulasagan 11:26, NW.
4. „Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. . . . Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.“ (Jesaja 12:4, 5) „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra.“ — Jóhannes 17:26.
5. (a) „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur 119:105) „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15, 16) (b) „Þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.“ — Galatabréfið 1:8.
6. „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) „Heimsríkið er orðið ríki Drottins vors og hans Smurða, og hann mun ríkja um aldir alda.“ — Opinberunarbókin 11:15, Bi 1912.
7. „‚Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. . . . ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ (Matteus 22:37-40) „Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga. . . . Hinn stelvísi hætti að stela. . . . Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar.“ (Efesusbréfið 4:25, 28, 29) „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ — Galatabréfið 5:22, 23.
8. „Jesús svaraði: ‚Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.‘“ (Jóhannes 18:36) „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10.
9. „Þú skalt ekki morð fremja.“ (2. Mósebók 20:13) „Hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:4) „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:34, 35.
10. „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. . . . Og þér eruð vottar mínir — segir [Jehóva]. Ég er Guð.“ — Jesaja 43:10, 12.