Klerkar reyna að ná til unga fólksins
„Hópur pönkara í leðurjökkum og með feiti í hárinu lagði undir sig skrifstofu prestsembættisins við McGill-háskólann,“ sagði í frétt blaðsins The Gazette í Montreal í Kanada. En þetta voru engir venjulegir „pönkarar.“ Þetta voru prestar — háskólaprestar — af hópi er blaðið kallaði „nýja bylgju guðfræðinga er vinna meðal háskólanema sem eru að leita að andlegum trúarleyndardómum.“
Prestarnir klæddust eins og „pönkarar“ í tilefni af gerð veggspjalds til að auglýsa þjónustu þeirra innan háskólans. Einn þeirra, öldungakirkjupresturinn Roberta Clare, gaf þessa skýringu: „Við ákváðum að klæðast eins og pönkarar á veggspjaldinu af því að við vildum losna við þá ímynd, sem margir hafa af okkur, að við þykjumst vera heilagari en aðrir og dómharðir.“
Hún segir þó að langtum fleiri nemendur en áður hafi áhuga á að kynna sér trúarbrögð í skólanum. Margir eru að glíma við erfiðar spurningar og leita svara hjá háskólakennurum og prestum. Blaðið átti viðtal við einn nemanda sem langaði til að vita hvers vegna trú hefði svona sterk áhrif í samfélaginu, hvers vegna það væru til svona mörg trúarbrögð og hvers vegna þau virtust valda svona miklum átökum í heiminum. Hann var að glíma við það hver Jesús Kristur hafi verið í raun og veru og líka spurninguna um uppruna alheimsins.
Nota háskólaprestarnir Biblíuna til að hjálpa nemendum að finna svör Guðs við stórum spurningum af þessu tagi? Sjaldan, að því er virðist. Þessir nýbylgjuguðfræðingar komu sér saman um að reyna ekki að snúa fólki til annarrar trúar þar eð þeir álíta það „sauðaþjófnað.“
Þótt slíkir prestar vilji kannski vel eru þeir orðnir býsna fjarlægir þeim kennsluaðferðum sem Kristur og fylgjendur hans beittu. Frumkristnir menn gerðu sér ekki áhyggjur af „sauðaþjófnaði“ og veigruðu sér ekki við að kenna orð Guðs og hjálpa einlægum, sannleiksleitandi mönnum að skilja það. (Lúkas 24:44, 45; Postulasagan 20:20) Þegar allt kemur til alls er nákvæm þekking á Jehóva Guði og syni hans, Jesú Kristi, nauðsynleg til að hljóta eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Það er vilji Guðs að alls konar menn „komist til þekkingar á sannleikanum“ til að verða hólpnir. — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.
Starf votta Jehóva felur í sér ókeypis heimabiblíunám handa þeim sem vilja fá svör við biblíuspurningum sínum. Vottar Jehóva í þínu byggðarlagi aðstoða þig fúslega ef þú vilt.