Horft á heiminn
Kirkja í kreppu
Sameinaða kirkjan í Kanada, stærsta kirkjudeild mótmælenda þar í landi, á við vanda að stríða: Safnaðarmönnum „fer ört fækkandi og þeir eldast, og forystumenn hennar og sóknarbörn eru ekki á eitt sáttir um hvaða mál hún eigi að setja á oddinn,“ segir dagblaðið The Toronto Star. Þótt yfir 3.000.000 manna telji sig tilheyra kirkjunni eru aðeins 750.000 á meðlimaskrá. Meirihluti dyggustu stuðningsmanna hennar er yfir 55 ára en hún höfðar ekki til barna og barnabarna safnaðarmanna. Kirkjan var vöruð við því að hún yrði að grípa til skjótra aðgerða til að breyta um stefnu eða deyja ella. Safnaðarmenn vilja að lögð sé áhersla á tilbeiðslu og ástundun andlegra efna en forystumennirnir vilja gefa meiri gaum að þjóðfélags- og heimsmálum. Ef kirkjan leggur upp laupana „þýðir það líka að það sem Sameinaða kirkjan hefur álitið mikilvægt hefur ekki verið það í augum Kanadamanna,“ segir félagsfræðingurinn Reginald Bibby í Alberta. „Það hefur ekki verið þess virði að eyða í það tíma, fé eða athygli.“
‚Neyðarástand í heiminum‘
Á leiðtogafundi um alnæmi, sem haldinn var í París á sjöunda árlega baráttudeginum gegn alnæmi, bað framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Boutros Boutros-Ghali, þjóðaleiðtoga og heilbrigðisráðherra 42 ríkja og 5 meginlanda að „lýsa yfir neyðarástandi í heiminum“ vegna ógnvekjandi útbreiðsluhraða alnæmisfaraldursins. Þrátt fyrir tilraunir manna um heim allan til að draga úr útbreiðslu alnæmis fjölgaði alnæmistilfellum í heiminum um 60 af hundraði frá júlí 1993 til júlí 1994 eða upp í um fjórar milljónir. Í svartri skýrslu um málið varaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin við því að miðað við núverandi útbreiðsluhraða ‚ógni alnæmisfaraldurinn framtíð heilu þjóðfélaganna,‘ og spáði því að árið 2000 verði á bilinu 30 til 40 milljónir manna smitaðar af hinni banvænu HIV-veiru sem veldur alnæmi.
„Versta fíkniefnið“
Í fyrirsögn brasilíska dagblaðsins Jornal do Brasil fyrir nokkru voru sígarettur kallaðar „versta fíkniefnið.“ Að sögn dr. Marcos Moraes, forstöðumanns brasilísku Krabbameinsstofnunarinnar, beinir tóbaksiðnaðurinn athygli sinni að ungu fólki. Hann segir að „því fyrr sem unglingur byrjar að reykja, þeim mun lengur reykir hann. Og því lengur sem hann reykir, þeim mun hættulegra er það heilsunni.“ Dr. Moraes bendir á að meðal hinna 30 milljóna reykingamanna í Brasilíu séu „2,4 milljónir barna og unglinga.“ Hann bætir við að „sígarettur drepi fleiri en alnæmi, kókaín, heróín, áfengi, eldsvoðar, umferðarslys og sjálfsmorð samanlagt.“
Er fjórhjóladrif öruggara?
Margir halda að það sé alltaf öruggara að aka bifreið með drifi á öllum hjólum, einkum í snjó og hálku. En „bílar með fjórhjóladrifi hafa ekkert fram yfir bíla með tvíhjóladrifi þegar þarf að stöðva þá,“ segir The Wall Street Journal. Fulltrúar tryggingafélaga segja að „bótakröfur vegna árekstra og meiðsla á fólki séu fyrir ofan meðallag“ fyrir sumar af vinsælustu gerðunum. Greinilegt er að margir ökumenn verða einum of sjálfsöruggir og taka óþarfa áhættu þegar þeir aka fjórhjóladrifsbíl. Marc Schoen, vísindamaður við UCLA Medical Center í Los Angeles, bendir á að „kvikmyndir og sjónvarp fái fólk til að tengja fjórhjóladrif sjálfstæðiskennd og frelsi.“ Sú tilfinning ökumanns að hann sé ósigrandi á kraftmiklum bíl getur truflað heilbrigða dómgreind sem er, þegar allt kemur til alls, besta forskriftin að öruggum akstri.
Nýtt tæki varar við hættu á hjartaáfalli
Vísindamenn í Victoria í Ástralíu hafa þróað nýtt mælitæki til að meta hættuna á hjartasjúkdómum. Tækið er einfaldlega lagt að húðinni yfir hálsslagæð þar sem það mælir blóðrennslishraða og breytingar á blóðþrýstingi við hvern hjartslátt. Síðan má nota tölvu til að reikna úr „þanþol alls hjarta- og æðakerfisins,“ segir í frétt dagblaðsins The Sydney Morning Herald. Vonast er til að tækið sé nákvæmara en hefðbundnar aðferðir til að meta hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Þótt hátt kólesterólstig og hár blóðþrýstingur séu sterkar vísbendingar um áhættu „fá margir í þeim hópum aldrei hjartaáfall,“ segir blaðið og bætir við að „með því að beita þessari mælitækni gætu [þeir] losnað við að taka dýr kólesteróllækkandi lyf eða vera á sérfæði sem þeir þurfa ekki.“
Vaxandi ofbeldi gegn konum
„Líkamsárásir eiginmanna, sambýlismanna eða vina á konur er algengasta ofbeldið í heiminum,“ segir dagblaðið The Australian í grein um skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Greinin segir að „allt að fjórðungur kvenna í heiminum sæti ofbeldi og líkamsmeiðingum.“ Í sumum löndum, svo sem Kóreska lýðveldinu, Pakistan, Papúa Nýju-Gíneu, Síle og Taílandi, er talan enn hærri. Í einu landi sæta um 80 af hundraði kvenna misþyrmingum, sagði í umfjöllun annars dagblaðs, The Sydney Morning Herald, um sömu skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Mörg fórnarlambanna sæta auk þess langvarandi tilfinningalegu ofbeldi. Heimilisofbeldi er afar torleyst vandamál af því að það á sér næstum alltaf stað innan veggja heimilisins. Oft eru vinir, nágrannar og ættingjar tregir til að skýra frá því.
Hverjir vinna heimilisstörfin?
„Svo er að sjá sem jafnrétti [karla og kvenna] hafi enn ekki náð inn fyrir veggi heimilanna,“ segir dagblaðið Corriere della Sera í frétt af niðurstöðum könnunar sem ítalska Hagstofan gerði á því hvernig fjölskyldur þar í landi verja tíma sínum. Óháð því hvort konan vinnur úti eða ekki þarf hún að „bera hita og þunga heimilisrekstrarins“ og notar — ef hún á börn — að meðaltali 7 klukkustundir og 18 mínútur til heimilisstarfa á móti 1 klukkustund og 48 mínútum sem maðurinn hennar notar til heimilisstarfa. Það hljómar þverstæðukennt en einhleypar mæður virðast spjara sig betur því þær nota tveim stundum minna til heimilisstarfa á dag. „Allt frá unga aldri ‚ætla‘ mæður litlum dætrum sínum það hlutverk að vinna heimilisstörf,“ bætir La Repubblica við.
Líf eftir dauðann eða skynvilla?
Fjölmiðlarnir gera sér oft mat úr frásögum af „reynslu í nálægð dauðans“ þar sem sjúklingar við dauðans dyr staðhæfa að þeir hafi fengið innsýn í líf eftir dauðann. Hópur þýskra taugasjúkdómafræðinga gerði fyrir nokkru tilraunir sem benda til að rekja megi slíka reynslu til súrefnisskorts sem veldur skynvillum. Að sögn hollenska dagblaðsins De Gooi en Eemlander rannsakaði hópurinn 42 heilbrigð ungmenni sem voru látin missa meðvitund í mest 22 sekúndur með oföndun. Á eftir lýstu ungmennin skynjunum og sýnum sem voru merkilega líkar „reynslu í nálægð dauðans.“ Sumir sögðust hafa séð skæra liti og ljós, séð sjálfa sig úr lofti, séð ástvini í þægilegu umhverfi og svo framvegis. Flest ungmennin lýstu skynjununum sem þægilegum og friðsælum — svo mjög að þau langaði ekki að snúa aftur til meðvitundar.
Rúmlega óheppileg
„Langvarandi rúmlega getur gert sjúklingum meira illt en gott,“ fullyrðir Lundúnablaðið The Times. Fyrir um hálfri öld véfengdi læknirinn sir Richard Asher þessa viðteknu læknismeðferð og vakti athygli á hættum svo sem blóðtappa, vöðvarýrnun, kalktapi úr beinum, nýrnasteinum, hægðateppu og þunglyndi. Síðan þá hafa rannsóknir staðfest þessa viðvörun og krufningar sýna að hættan á segamyndun og banvænni blóðreksstíflu í lungum stendur í beinu hlutfalli við lengd rúmlegu fyrir dauðann. Á hinn bóginn eru læknar meðmæltir rúmlegu þegar um er að ræða bráðan bakverk samfara þjótaki eða kvilla á síðasta hluta meðgöngu. Þegar aðrir bráðir eða alvarlegir sjúkdómar eru annars vegar er oft ekki um annað að velja en að hvílast. Læknar álíta hins vegar að þegar mesta hættan er hjá flýti það bata að komast út úr rúmi og hreyfa sig.
Auðugustu ríki heims
Sviss er auðugasta ríki heims samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans. Verg þjóðarframleiðsla á mann — samanlagt verðmæti allrar framleiddrar vöru og þjónustu — var 2,3 milljónir ÍSK árið 1993. Það var næstum 750.000 krónum meira en þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna sem voru í sjöunda sæti. Á eftir Sviss komu Lúxemborg, Japan, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Bandaríkin, Ísland, Þýskaland og Kúveit. Mósambík var fátækasta ríki heims með aðeins 5000 krónur á mann. Athygli vekur að allmörg olíuframleiðsluríki Miðausturlanda vantar á þennan nýjasta lista yfir tíu auðugustu ríki heims, sem endurspeglar lækkandi olíuverð. En listinn breytist ef miðað er við kaupmátt. Þar eð vöruverð er lægra í Bandaríkjunum en flestum auðugustu ríkjum heims fá Bandaríkjamenn meira fyrir peningana en nokkur önnur þjóð að Lúxemborgurum undanskildum. Þá breytist listinn í: Lúxemborg, Bandaríkin, Sviss, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Katar, Hong Kong, Japan, Þýskaland, Singapúr og Kanada.