Horft á heiminn
Kúariðan
Breskur kúabóndi hefur fundið leið til að nota eldri kýrnar sem hann getur ekki selt með hagnaði vegna óttans við kúariðu. Tímaritið Newsweek greinir frá því að hann noti þær sem auglýsingaskilti. Hann setur auglýsingar á kýrnar sem eru á beit við fjölfarna hraðbraut og fær um 2700 krónur fyrir hverja kú á viku. „Við verðum að leita að nýjum tekjumöguleikum,“ segir bóndinn. „Þetta virðist góð leið til að láta þær vinna fyrir uppihaldi.“
Aktu ekki of hratt!
Árlega verður hraðakstur um 1000 Bretum að bana og slasar 77.000 manns, segir Lundúnablaðið The Daily Telegraph. Og ekki er alltaf öruggt að halda sér við hámarkshraðann. Rekja má yfir 10 prósent slysa á hraðbrautum til þess að ekið er of nálægt farartækinu á undan. Bresku hraðbrautalögin mæla með því að skilið sé eftir tveggja sekúndna bil milli bíla, en það ætti að tvöfalda þegar ekið er á blautum eða hálum vegi eða í slæmu skyggni. Of lítið bil milli bíla er ekki einungis hættulegt, heldur einnig þreytandi og veldur streitu. Ökumenn kvarta oft undan því að þegar þeir skilji eftir öruggt bil milli bíla, komi annar bíll og ryðjist þar inn. En einu öruggu viðbrögðin við því eru þau að draga úr hraðanum og leyfa bilinu að breikka aftur. Ef hemlað er snögglega getur það valdið slysi, svo hafðu augun opin fyrir mögulegum hættum. Hemlalæsivörn styttir ekki hemlunarvegalengdina. Paul Ripley ökukennari segir: „Öruggur hraði við ákveðnar aðstæður er yfirleitt mun lægri en flestir bílstjórar gera sér ljóst.“
Heilsuspillandi borðtuskur
Vísindamenn hafa greint töluvert mikið af skaðlegum bakteríum í notuðum borðtuskum og eldhússvömpum. Samkvæmt fréttabréfinu UC Berkeley Wellness Letter leiddi nýleg rannsókn á 500 borðtuskum og svömpum í ljós að „heilsuspillandi bakteríur voru í tveim af hverjum þrem.“ „Salmonella og klasakokkar, sem eru tvær helstu orsakir matareitrunar“ í Bandaríkjunum, fundust í um fjórðungi þeirra. Sérfræðingar mæla með því að svampar séu endurnýjaðir reglulega og borðtuskur þvegnar oft. Fréttabréfið segir að ‚hægt sé að setja borðtuskur og svampa í uppþvottavélina með óhreina leirtauinu eða í þvottavélina.‘ Eftir að borðplötur og skurðbretti hafa komist í snertingu við hrátt kjöt ætti frekar að hreinsa þau með pappírsþurrkum en margnota tuskum eða svömpum.
Ekkert til spillis
Hvað verður um það sem eftir er af kúnni þegar búið er að vinna kjötið sem er um 270 kílógrömm? Sum af innri líffærunum, eins og skjaldkirtillinn, brisið, lungun, miltað, nýrnahetturnar, eggjastokkarnir, heiladingullinn og gallið frá lifrinni og gallblöðrunni, eru notuð til lyfjaframleiðslu. Kollagen, unnið úr beinum, klaufum og skinni, er notað í rakakrem og húðkrem. Brjósk og fita fer í efnavörur eins og bútýlsterat, PEG-150 tvísterat og glýkólsterat sem eru notuð í ýmsa andlitsfarða og hársnyrtivörur. Flestar sápur eru gerðar úr dýrafitu. Beinin og klaufirnar eru muldar og gert út þeim gelatín sem er notað í hundruð fæðutegunda, þar á meðal ís, sumt sælgæti og margar „fitusnauðar“ vörur. Sumt er notað í margs konar annan varning eins og liti, eldspýtur, gólfbón, línóleumgólfdúka, frostlög, lím, illgresiseyði, sellófan, ljósmyndapappír, íþróttavörur, áklæði og fatnað. Hæsta verðið fæst fyrir gallsteinana — 1400 krónur fyrir grammið! Kaupmenn frá Austurlöndum fjær kaupa þá sem ástalyf.
Eitraður hvalur
Dagblaðið International Herald Tribune greinir frá því að búrhvalur, sem fannst dauður á fjölfarinni siglingaleið undan norðurströnd Danmerkur, hafi verið svo mengaður „kvikasilfri og kadmíum að urða þurfti þarmana á sérstökum losunarstað fyrir hættuleg úrgangsefni.“ Enn er ekki vitað hvaðan þessir eitruðu málmar eru komnir. Í umfjöllun um sama atvik bætti tímaritið Time við að enda þótt sumir álíti þetta augljósa vísbendingu um alvarlega mengun í höfunum, bendi dýrafræðingar á eðlilegar orsakir. Carl Kinze, hvalafræðingur við Dýrafræðisafn Kaupmannahafnar, bendir á að búrhvalir lifi aðallega á kolkröbbum sem sumir hverjir séu kadmíumríkir frá náttúrunnar hendi.