Frá lesendum
Að bjarga hjónabandi? Þegar ég las greinina „Er hægt að bjarga hjónabandi eftir hjúskaparbrot?“ (júlí-september 1997), fannst mér eins og Jehóva væri að senda mér bréf. Hún lýsti nákvæmlega því sem ég gekk í gegnum og hvernig mér leið. Eiginmaður minn var mér ótrúr en hann iðraðist einlæglega. Eins og greinin minntist á leið mér eins og ég væri í fellibyl. Ég kaus að fyrirgefa honum en ég skammaðist mín stundum fyrir hugsanir mínar. Greinin sýndi mér fram á að viðbrögð mín væru fyllilega eðlileg og rétt. Jehóva hefur blessað viðleitni okkar mikið og hjónabandinu hefur verið bjargað.
L. P., Frakklandi
Þótt ekki tækist að bjarga hjónabandi mínu var greinin mikil blessun af því að hún lýsti nákvæmlega hvernig mér leið. Ég gat virkilega tengt aðstæður mínar við allt sem lýst var í greininni. Ég þekki líka aðra sem hafa haft sama gagn af henni. Mörgum finnst erfitt að skilja hvernig þetta er, þannig að greinin á eftir að hjálpa þeim mikið við að fá innsýn í það.
M. C., Írlandi
Í níu ár hef ég verið gift manni sem er ekki í trúnni og hefur verið mér ótrúr. En þegar ég las greinarnar undir millifyrirsögninni „Er hægt að bjarga hjónabandinu?“ leið mér miklu betur. Eiginmaður minn vildi halda í hjónabandið en hann vildi líka halda hinu sambandinu áfram. Ég er því ánægð með að binda enda á hjónabandið. Nú verð ég að byrja upp á nýtt og vera einstæð móðir.
M. S. B., Trínidad
Þakka ykkur fyrir þessa fallegu og nærgætnu grein. Þetta voru framúrskarandi ráðleggingar sem hægt er að fylgja til að kanna hvort hægt sé að ná sáttum. Ég hafði alltaf gert ráð fyrir að ef eiginmaður minn yrði ótrúr gæti ég aldrei fyrirgefið honum. Ég geri mér núna grein fyrir því að það er ekki alltaf rétta svarið. Það er skömm að því að þetta er sívaxandi vandamál en ég þakka ykkur fyrir biblíulega innsýn í það hvernig við getum hjálpað okkur sjálf. Traust mitt á Jehóva hefur hjálpað mér að þola mikið þunglyndi og veitt mér styrk til að fyrirgefa, þar sem eiginmaður minn sýndi (og sýnir enn) mikla iðrun.
S. N., Bandaríkjunum
Tilviljun eða sköpun? Ég var að ljúka við að lesa greinaröðina „Hvernig urðum við til? — við sköpun eða af tilviljun?“ (október-desember 1997) Hún vakti áhuga minn af ýmsum ástæðum: (1) Einfaldleikinn, sem þið notið til að bera fram svona djúpt og flókið efni sem þróunarkenningin er, og sannfæring ykkar þegar þið verjið sjónarmið Biblíunnar um uppruna okkar. (2) Myndskreytingarnar sem þið notið til að ná lofsverðu markmiði ykkar. Ég er rannsóknarmaður og nemandi í stórum fjölmiðlaskóla. Slíkar greinar sanna að þið gerið ALLTAF ítarlega rannsókn áður en þið gefið ritin út. Það er eflaust ástæðan fyrir því að samstarfsmenn mínir, blaðamenn, ritstjórar og rannsóknarmenn, lesa Vaknið! og njóta þess.
D. S. T., Kamerún
Ungt fólk spyr . . . Ég er 12 ára gömul. Ég er í skóla og mér þykir mjög gaman að lesa blöðin ykkar. Áður en ég byrjaði að lesa þau fannst mér erfitt að umgangast þá sem voru eldri en ég. En eftir að hafa lesið greinaröðina „Ungt fólk spyr . . . ,“ í Vaknið! hefur mér fundist það auðveldara. Takk fyrir!
N. T., Rússlandi