Horft á heiminn
Drykkjusýki í Mexíkó
Rannsóknir á vegum mexíkósku Almannatryggingastofnunarinnar gefa til kynna að drykkjusjúklingar hafi verið meira en fjórar milljónir þar í landi árið l991. Talan gæti hafa verið orðin tvöföld árið 1997 að sögn mexíkóska dagblaðsins El Universal. Blaðið vitnar í AA-samtökin sem halda því fram að þrjár af átta milljónum drykkjusjúkra Mexíkómanna séu búsettar í Mexíkóborg. El Universal fullyrðir að flestir glæpir þar í landi séu framdir undir áhrifum áfengis. Ofneysla áfengis hefur í för með sér lélega vinnuástundun og slakan námsárangur. José Manuel Castrejón, fulltrúi Landssamtaka gegn áfengis- og fíkniefnanotkun segir að „helmingur heimilisofbeldistilfella og fimmtungur vinnuslysa sé nátengdur áfengisneyslu.“
Heilræði handa flugfarþegum
Langar flugferðir reyna bæði á huga og líkama. Lundúnablaðið The Times kemur með nokkrar tillögur til að draga úr álaginu, meðal annars að „forðast áfengi en drekka mikið af gosdrykkjum, borða aðeins léttar máltíðir og láta sig dreyma um dvöl í notalegu umhverfi.“ Við langar kyrrsetur geta fæturnir þrútnað og fötin þrengt að manni. The Times segir að „læknar mæli með að menn losi um fötin, fari úr skónum og biðji um sæti við ganginn svo að þeir geti rölt á snyrtinguna þegar þá lystir.“ Til að halda blóðrásinni í góðu lagi er gott að kreppa og rétta úr handleggjum og fótleggjum meðan á ferðinni stendur. „Vanir ferðalangar draga stundum úr þotuþreytu með því að stilla sig inn á tímamuninn áður en þeir leggja í langferðir. Þeir sem eru að ferðast austur á bóginn fara fyrr á fætur í um vikutíma og þeir sem eru á vesturleið fara seint að sofa.“
Flökkukrákurnar í Tókíó
Krákur í Tókíó í Japan hafa að sögn dagblaðsins The Daily Yomiuri tekið upp þann sið að fljúga milli úthverfanna og miðborgarinnar á hverjum degi. Sérfróðir menn um fugla segja að þetta hafi byrjað fyrir fáeinum árum þegar krákum í skrúðgörðum og á musterissvæðum Tókíóborgar hafði fjölgað svo að þær voru tilneyddar að gera sér hreiður annars staðar. Þá uppgötvuðu þær þægindi úthverfanna. En þær söknuðu eins, fjölbreytta borgarmatarins — rusls og matarleifa. Þær leystu það vandamál með því að koma sér upp „svipuðum ferðavenjum og launþegar. Þær fljúga til borgarinnar á morgnana í fæðuleit og snúa svo heim í úthverfin á kvöldin,“ segir dagblaðið.
Náttúruauðæfum ógnað
◆ Í norðausturhluta Indlands er jurta- og dýralíf fjölskrúðugt. Þar eru nú 650 jurtategundir og 70 dýrategundir í útrýmingarhættu. Vistkerfið í Meghalaya, sem á landamæri að Bangladess, hefur verið skilgreint sem eitt af 18 áhættusvæðum þar sem fjölbreytni lífríkisins er í hættu. Að sögn dagblaðsins The Asian Age eru það meðal annars rányrkja og veiðiþjófnaður sem ógna vistkerfinu. Fjölbreytni lífríkisins í norðausturríkjum Indlands, sem eru sjö að tölu, er álitin viðkvæmari en í öðrum landshlutum.
◆ Æ fleiri plöntutegundir á Ítalíu eru líka í hættu. Árið 1992 var álitið að 458 væru í hættu en talan var komin upp í 1011 árið 1997. „Um það bil sjöunda hvert plöntuafbrigði ítalskrar flóru er í hættu á einhvern hátt og allt að 29 tegundir hafa dáið út á allra síðustu árum,“ að sögn dagblaðsins Corriere della Sera. „Meira en 120 tegundir eru í alvarlegri útrýmingarhættu í náinni framtíð“ og þær gætu orðið næstum 150 innan skamms. Að mati Francos Pedrottis, sem er grasafræðingur við háskólann í Camerino, „gefa þessar tölur til kynna að ástandið sé kvíðvænlegt.“ Ein jurtategund varð aldauða í kjörlendi sínu þegar eina staðnum, þar sem hún óx, var breytt í fótboltavöll.
◆ Dagblaðið Clarín í Buenos Aires í Argentínu greinir frá því að af 2500 upprunalegum dýrategundum í landinu séu 500 í hættu. „Jafnvel þótt það skipti sköpum um velferð mannfólksins nú og í framtíðinni að varðveita fjölbreytni lífríkisins, þá er hætta á að margar dýrategundir hverfi,“ segir Claudio Bertonatti, forstöðumaður náttúruverndardeildar Wildlife Foundation. Í Argentínu eru ýmis beltisdýr, jagúar, villilamadýr, hvalir og landskjaldbökur meðal dýra í útrýmingarhættu. Fréttin segir að „þótt bannað sé að selja landskjaldbökur“ séu um 100.000 seldar á ári á Buenos Aires svæðinu. „Maðurinn ber ábyrgð á flestu því sem setur margar dýrategundir í útrýmingarhættu, þótt honum ætti að vera það mest í mun að vernda þessa auðlind,“ segir Bertonatti.
Sá María hinn upprisna Jesú fyrst?
Jóhannes Páll páfi annar fullyrðir að það sé „réttmætt að halda því fram að móðirin [María, móðir Jesú] hafi líklega verið fyrsta manneskjan sem hinn upprisni Jesús birtist.“ (L’Osservatore Romano) Ekkert guðspjallanna fjögurra segir að móðir Jesú hafi verið nærverandi þegar gröfin fannst tóm. En páfinn sagði líka: „Hvernig gat það verið að hin helga mey, sem tilheyrði upprunalegu samfélagi lærisveinanna (sbr. Postulasöguna 1:14), hafi ekki hitt guðlegan son sinn eftir að hann var reistur upp frá dauðum?“ Páfinn beitti ýmsum rökum til að reyna að skýra hvers vegna guðspjöllin láta þess ógetið að Jesús og móðir hans hafi hist. Staðreyndin er samt sú að heilagur andi blés ekki neinum guðspjallaritara í brjóst að skrifa um slíkan atburð. Reyndar er ekki heldur minnst á Maríu í bréfum postulanna. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
„Offitufaraldur“
„Vaxandi offitufaraldur ógnar heilsufari milljóna manna um heim allan,“ að sögn læknatímaritsins The Journal of the American Medical Association. Blaðið vitnar í viðvörun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og bendir á að „heilbrigðis- og næringarsérfræðingar 25 landa hafi sagt að 25% fullorðinna í sumum löndum Vestur-Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku séu of feitir. Talan er 40% fyrir konur í Austur-Evrópu og Miðjarðarhafslöndum og svartar konur í Bandaríkjunum. Algengust er offita í Melanesíu, Míkrónesíu og Pólýnesíu — allt að 70% á sumum svæðum.“ Sérfræðingarnir vara við gríðarlegri aukningu á hjartasjúkdómum, öndunarfærasjúkdómum, heilablæðingum, gallblöðrusjúkdómum, krabbameini, sykursýki og vöðva- og grindarsjúkdómum nema dregið sé úr fituríkum mat og fólk hreyfi sig meira. „Líta ætti á offitu ‚sem eitthvert vanræktasta heilbrigðisvandamál nútímans og það gæti haft jafnmikil áhrif og reykingar á heilsufar manna,‘ að sögn sérfræðinganna.“
‚Pyndingar‘ í vinnunni
„Höfuðverkur, þreyta, minnisleysi, sjóntruflanir, svimi, öndunarörðugleikar, eyrnabólga, eyrnasuða [og] húðsjúkdómar“ — allt getur þetta verið afleiðing húsasóttar, að sögn Jacks Rostrons, rannsóknarmanns við John Moore háskólann. Húsasótt er viðurkennd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem sjúkdómsvaldur og getur að sögn Rostrons „breytt þeim sjálfsagða hlut að fara í vinnuna í hálfgerða pyndingu.“ Lundúnablaðið The Independent greinir frá því að hús með miðstýrðum loftræstikerfum og gluggum sem ekki er hægt að opna, geti safnað saman mengunarefnum svo sem eitruðum lofttegundum og ögnum frá ljósritunarvélum og prenturum. Til að forðast húsasótt verður að hreinsa loftræstikerfi reglulega og rækilega. Rostron bendir á að „vinnuafköst batni þegar litlir vinnuhópar sameinist um litlar skrifstofur með opnanlegum gluggum.“
Ágóði af fíkniávana
Að sögn Sameinuðu þjóðanna er talið að lyfþrælar og fíkniefnaneytendur í heiminum séu um 340 milljónir. Dagblaðið Jornal da Tarde segir að „róandi lyf og deyfilyf skipi fyrsta sætið með 227,5 milljónir neytenda eða næstum 4 prósent jarðarbúa. Maríjúana er í öðru sæti með 141 milljón neytenda eða alls 2,5 prósent jarðarbúa.“ Talið er að lögregla nái ekki að gera upptæk nema 5 til 10 prósent ólöglegra fíkniefna. Fíkniefnasala gefur af sér jafnvirði allt að 28.000 milljarða íslenskra króna á ári. Hagnaður fíkniefnasalanna er í sumum tilvikum allt að 300 prósent — „hagnaður sem þekkist ekki í nokkurri annarri atvinnugrein,“ segir dagblaðið.