Vitavarsla — deyjandi starfsgrein
Eftir fréttaritara Vaknið! í Kanada
„ÉG GÆTI ekki hugsað mér annað betra starf.“ Þeir eru ófáir vitaverðirnir sem þetta hafa sagt. Maður nokkur, sem sagði upp stjórnunarstöðu við plastverksmiðju í Tórontó í Kanada til að gerast vitavörður í 106 ára gömlum vita, kvað starfið hafa „yngt sig upp um tíu ár.“
Aðalstarf vitavarðar er að tryggja að skært ljós logi fyrir sjófarendur. Hann þarf auk þess að stjórna og viðhalda þokulúðrum og gefa veðurupplýsingar um talstöð til fiskimanna og skipa sem leið eiga hjá.
Fyrr á tímum þurftu vitaverðir að gæta þess að olíugeymar vitans væru fullir, það logaði í kveikjum og lampagler væru hrein af sóti. Ekki var óalgengt að vitaverðir sneru ljósboða með handafli alla nóttina til að stýra skipum í örugga höfn þegar ekki var hægt að gera við vitaljósin, eða slægju þokubjöllu með hamri næturlangt þegar þokulúðurinn bilaði!
Stormar og fárviðri
Fárviðri eru stöðugt áhyggjuefni. Eitt sinn taldi vitavörður sig sjá „gríðarlegt hvítt ský“ framundan en það reyndist vera stakur ölduhnútur! Aldan reis yfir 16 metra háan klettinn og náði upp að dvalarstað vitavarðarins. Þessi eina alda gerði jafnmikinn usla og heill stormur.
Öðru sinni gerði mikið hvassviðri og öldurnar buldu alla nóttina á vitanum við Pubnico Harbour á Nova Scotia. Vitavörðurinn og fjölskylda hans gátu ekkert nema beðið milli vonar og ótta. Þegar birti af degi hafði storminn lægt. En þegar vitavörðurinn gekk út rak hann í rogastans því að landið umhverfis vitann var horfið. Þau voru ekki lengur tengd meginlandinu!
Einmanaleiki og tilbreytingarleysi
Aðspurður um einmanaleika hló vitavörður nokkur góðlátlega og sagði: „Fólk spyr okkur: ‚Hvernig í ósköpunum þolið þið alla þessa einsemd?‘ Og við spyrjum að bragði: ‚Nú, hvernig þolið þið að búa í borg með allan þennan hávaða og ringulreið?‘“
Á síðustu öld gátu vitaverðir í afskekktari vitum Bandaríkjanna fengið til sín smásöfn af bókum og árið 1885 voru 420 bókasöfn í notkun. Vitaverðir urðu greinilega miklir bókaormar.
Deyjandi starfsgrein
Á síðari árum hafa mannaðir steinvitar vikið fyrir ómönnuðum stálgrindarturnum með öflugum blikkljósum. Sjófarendur þurfa ekki lengur að rýna út í náttmyrkrið eftir þokukenndu vitaljósi eða óskýrum ljósbjarma. Núna vara öflugir wolfram-halógen lampar og gjallandi, skerandi þokuboð sjómenn við hættum sjávarins.
Skip með búnað til að taka við boðum frá vitum geta staðsett sig óháð því hve þokan er dimm. Nútímatækni gerir sjófarendum kleift að sigla stranda á milli, öruggir um að forðast hættulegar sandgrynningar, háskaleg rif og viðsjál sker.
Vitaverðir eru óðfluga að hverfa af sjónarsviðinu vegna tækniframfara nútímans. Einum fannst geysileg kaflaskil verða í lífinu þegar hann yfirgaf eyjuna sína eftir 25 ára vitavörslu og sagði hryggur í bragði: „Við áttum góða ævi hér. Við vildum aldrei fara.“
En snúningsljós, hjálparljós, neyðarljós, hljóðboðar og útvarpsvitar þarfnast viðhalds og mannvirkin líka. Nú sjá farandviðgerðarmenn um viðhald vita.
Þeim sem meta margra ára þjónustu vitavarða er eins innanbrjósts og manninum í Augusta í Maine í Bandaríkjunum sem sagði tregafullur: „Það verður ekki það sama að horfa á vitann og vita að ljósinu er stýrt af tölvu, að fólkið er farið.“
[Rammi á blaðsíðu 11]
Fyrsti vitinn
Fyrsti vitinn, sem sögur fara af, var fullgerður í stjórnartíð Ptólemeosar annars Egyptalandskonungs. Hann var reistur um 300 f.o.t. og stóð á Faroseyju rétt við innsiglinguna þar sem nú er höfnin í Alexandríu. Það tók 20 ár að byggja hann og kostaði jafnvirði 180 milljóna króna.
Sögulegar heimildir gefa til kynna að vitinn hafi verið meira en 90 metra hár. Í efra herberginu sneru gluggar út að hafi og bak við þá loguðu viðareldar eða ef til vill kyndlar sem sjá mátti úr allt að 50 kílómetra fjarlægð, að sögn Jósefusar.
Þetta mikla steinvirki var talið eitt af sjö undrum veraldar. Skær eldur vitans var sjófarendum til viðvörunar í 1600 ár uns hann eyðilagðist, að öllum líkindum í jarðskjálfta.
Í aldanna rás voru þúsundir vita af öllum stærðum og gerðum reistir við hafnarmynni um heim allan. Gamlir steinvitar eru víða safngripir og vinsælir viðkomustaðir milljóna ferðamanna í þjóðgörðum og almenningsgörðum borga og bæja.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Vitinn á Cape Spear á Nýfundnalandi.