Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.7. bls. 18-19
  • Við flýðum undan sprengjum — 50 árum seinna!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Við flýðum undan sprengjum — 50 árum seinna!
  • Vaknið! – 1998
  • Svipað efni
  • Stríðið til að binda enda á styrjaldir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Vaknið! – 1998
g98 8.7. bls. 18-19

Við flýðum undan sprengjum — 50 árum seinna!

„Brátt springa hér sprengjur. Allir leiti skjóls!“

MEÐ þessum orðum gaf lögregluþjónn mér og manni mínum viðvörun um að yfirgefa húsið og leita skjóls í nærliggjandi skotbyrgi. Tilkynningin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Við vorum nefnilega ekki stödd á einhverju stríðshrjáðu svæði úti í heimi heldur að heimsækja vinafólk á fallegri kóraleyju í útjaðri Marshalleyjaklasans í Míkrónesíu.

Við ætluðum að eyða viku með hjónum á smáeynni Tõrwã. Eiginkonan var eini votturinn á eynni og við vildum hjálpa henni að prédika fyrir eyjarskeggjum.

Marshalleyjabúar eru vingjarnlegir að eðlisfari og vilja óðfúsir ræða Biblíuna. Þar eð bókin Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð var nýlega komin út á máli heimamanna gátum við dreift fjölda bóka. Allir sem þáðu bókina fullvissuðu okkur um að þeir myndu lesa hana og ekki nota hana sem ken karawan eða „heillagrip“ til að bægja illum öndum frá sér. Það er algengur siður þar um slóðir að rúlla saman síðu úr Biblíunni, stinga í flösku og hengja á þaksperru eða nálægt tré, af því að það er talið halda illum öndum frá.

Við höfðum notið dvalarinnar í nokkra daga, en þegar laugardagurinn rann upp gerðum við okkur fljótt grein fyrir að hann yrði öðruvísi. Við höfðum tekið daginn snemma og fengið okkur hressandi sundsprett í hlýju og kristaltæru lóninu. Á heimleið frá ströndinni sáum við grátt skip nálgast land. Það virtist ekki vita á gott. Fljótlega komumst við að því hvað hér var á ferð. Lögregluþjónn tjáði okkur að sjö manna flokkur frá bandaríska hernum væri kominn til að eyða gömlum sprengjum á eynni. Til að tryggja öryggi almennings átti að rýma húsin og láta eyjarskeggja dvelja daglangt í skotbyrgjum sem Japanir reistu í síðari heimsstyrjöldinni.

Gestkomandi á Tõrwã taka nánast strax eftir þessum skotbyrgjum sem bera vitni um hrylling fyrri tíma. Úr fjarlægð er Tõrwã hreinasta hitabeltisparadís að sjá en í návígi ber eyjan greinileg merki stríðs sem lauk fyrir um 50 árum. Hún var á sínum tíma ein af aðalflugbækistöðvum Japana og er þakin menjum úr síðari heimsstyrjöldinni. Hvarvetna eru ryðgandi stríðstól — orustuflugvélar, fallbyssustæði og tundurskeyti — þakin hitabeltisgróðri.

En það eru gömlu sprengjurnar sem valda mestri ógn. Í stríðinu vörpuðu hersveitir Bandaríkjamanna meira en 3600 tonnum af sprengjum, napalmsprengjum og flugskeytum á Tõrwã og japanska setuliðið hafði eigið vopnabúr á jörðu niðri. Þótt ólíklegt sé að 50 ára gamlar sprengjur springi stafar alltaf hætta af þeim og það skýrir hvers vegna sprengjuleitarflokkar hafa komið að minnsta kosti fimm sinnum til eyjarinnar síðan 1945 þegar stríðinu lauk.

Við veltum fyrir okkur hvort viðvörunin væri á rökum reist og fórum því að hitta sprengjuleitarflokkinn þar sem hann hafði komið í land. Viðvörunin var ekki einasta sönn heldur áttu sprengingarnar að hefjast innan klukkustundar! Ef við leituðum ekki skjóls í skotbyrgi yrðum við umsvifalaust að yfirgefa eyna.

Vinkona okkar ákvað að vera um kyrrt á Tõrwã og leitaði skjóls í stóru vélbyssuhreiðri ásamt nokkrum fjölskyldum. Síðar sagði hún okkur að einu gluggarnir á þessu gamla steinsteypta byrgi hefðu verið fallbyssuopin og að inni hefði verið óþægilega heitt og þröngt. Dagsvist í skotbyrginu vakti upp minningar hjá henni um stríðsárin, og hún viðurkenndi að sér hefðu þótt sprengingarnar heillandi sem barn en nú vöktu þær óhug hennar.

Maðurinn hennar hafði fallist á að flytja okkur til eyjarinnar Wollet, um átta kílómetra í burtu, á litlum báti með utanborðsmótor. Við vorum aðeins komin skamman spöl frá landi þegar við heyrðum mikla drunu. Við litum um öxl til Tõrwã og sáum reykjarsúlu stíga upp nálægt íbúðarhverfi eyjarinnar. Brátt kvað við önnur sprenging og síðan sú þriðja sem var miklu öflugri.

Við notuðum daginn til að prédika á Wollet og af og til rauf fjarlægur sprengjugnýr kyrrðina. Gömlu sprengjurnar höfðu verið leitaðar uppi nokkrum mánuðum áður og merktar. Sprengjuhleðslur fundust á víð og dreif um eyna — á ströndinni, við flugvöllinn og jafnvel í húsagörðum fólks! Til að fækka sprengingum hafði sprengjuleitarhópurinn safnað minni sprengjum saman og sprengt þær síðan í einu lagi.

Sólin var næstum gengin til viðar þegar við komum aftur til Tõrwã. Þegar við nálguðumst eyna tókum við eftir því að engan reyk lagði frá eldstæðum heimilanna eins og venjulega. Við vissum að eitthvað var að. Allt í einu skaust smábátur í áttina til okkar og við vorum vöruð við því að sigla nær. Stór sprengja í sjónum við kóralrifið var enn ósprengd. Við létum bátinn því reka út af ströndinni í ljósaskiptunum og fengum að sjá það sem flestir núlifandi menn hafa aldrei séð — sprengju úr síðari heimsstyrjöldinni springa neðansjávar og þeyta sjó og reyk hundruð metra í loft upp.

Til allrar hamingju varð enginn á Tõrwã fyrir meiðslum þennan dag. Tókst sprengjuleitarflokknum loks að eyða öllum sprengjum á eynni? Sennilega ekki. Foringi hópsins sagðist búast við því að eyjarskeggjar rækjust á fleiri gamlar sprengjur síðar. Það gaf okkur auðvitað eitthvað til að ræða um við fólk meðan við lukum prédikunarstarfi okkar á Tõrwã. Það voru sannkölluð sérréttindi að geta sagt þessum eyjarskeggjum frá þeim tíma þegar ríki Jehóva „stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:10.

Frásaga Nancyar Vander Velde.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Virk sprengja.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila