Skurðaðgerð án skurðhnífs
HÖFUÐVERKUR Christine var í fyrstu ekki talinn neitt áhyggjuefni þótt slæmur væri. Hann var hvort eð er horfinn næsta dag. En þá varð hún stíf í hálsinum. Svo kom höfuðverkurinn aftur og hún varð áttavillt. Þetta voru óvenjuleg sjúkdómseinkenni, sérstaklega hjá átta ára barni.
Sneiðmyndataka leiddi í ljós að Christine var með slag- og bláæðarflækju í heilanum.a Ef ekkert yrði að gert gæti hún að lokum fengið heilablóðfall og dáið.
Til skamms tíma var einungis hægt að laga slíka slag- og bláæðarvansköpun með heilaskurðaðgerð. Hún fer þannig fram að höfuðleðrið er skorið og dregið frá og höfuðkúpan opnuð. Skurðlæknirinn þarf síðan að smeygja sér gegnum viðkvæmt völundarhús tauga og heilavefjar til að komast að meininu. Klínískt mat leiðir í ljós að aukakvillar fylgdu 12 prósent slíkra skurðaðgerða sem gerðar voru á árinu 1995.
Foreldrar Christine völdu aðgerð með gammaskurðhníf í stað venjulegrar skurðaðgerðar. Nafnið er eilítið villandi því að gammaskurðhnífur er ekki raunverulegur hnífur, heldur tæki sem beinir 201 nákvæmlega stilltum geisla gegnum höfuðkúpuna. Einn sér er hver geisli of veikur til að skadda vefina sem hann fer gegnum. En geislunum 201 er vandlega miðað svo að þeir skerist allir nákvæmlega þar sem meinsemdin er. Þeir skila síðan sterkum geislaskammti í skurðarpunktinn.
Gammahnífurinn hefur reynst hagkvæmur kostur samkvæmt niðurstöðum sumra rannsókna og sýkingar eftir aðgerð eru verulega færri en við hefðbundnar taugaskurðaðgerðir. En hvernig fer aðgerðin fram?
Hin fjögur þrep geislaskurðlækninga
Aðgerð með gammahnífnum fer fram í fjórum þrepum. Fyrst er fest létt umgjörð á höfuð sjúklingsins til að halda því kyrru í aðgerðinni. Næst er heili sjúklingsins „kortlagður,“ annaðhvort með röntgensneiðmyndatæki, segulsneiðmyndatæki eða æðamyndatöku. Síðan eru myndirnar af heilanum fluttar yfir í tölvustýrt meðferðaráætlunarkerfi þar sem meinið er einangrað og hnit þess ákvörðuð.
Þá er loks komið að sjálfri aðgerðinni. Höfði sjúklingsins er komið fyrir í hjálmi með 201 opi sem gammageislunum er miðað gegnum. Sjálf aðgerðin tekur aðeins einn til þrjá stundarfjórðunga. Sjúklingnum er gefið vægt, róandi lyf og hann finnur ekkert til.
Sjúklingurinn er hafður áfram á spítalanum til eftirlits eftir aðgerðina og er að jafnaði útskrifaður morguninn eftir. Christine, sem nefnd var í upphafi greinarinnar, gekkst undir aðgerðina á fimmtudegi, hún var útskrifuð á föstudegi og var komin aftur í skólann á mánudegi.
Hvað verður um meinsemdina?
Geislaskurðaðgerð eyðir ekki sjálfri slag- og bláæðarflækjunni. Hún veldur því hins vegar að frumurnar í æðaveggjunum fjölga sér og loka fyrir blóðstreymið til svæðisins þar sem meinið er. Á einu eða tveim árum lokast algerlega fyrir gölluðu æðarnar sem rýrna og eyðast smám saman.
Gammahnífurinn hefur líka verið notaður gegn smáum, illkynja, vel afmörkuðum æxlum og einnig gegn sumum meinvarpsæxlum sem berast til heilans frá öðrum líkamshlutum. Hann hefur skilað vænlegum árangri við meðferð vangahvots (kvalafulls kvilla sem hefur áhrif á andlitstaugina), flogaveiki, Parkinsonsveiki og í sumum tilvikum við meðferð þráláts sársauka.
Gammahnífurinn dugir auðvitað ekki gegn öllum meinum eða æxlum í heila. Það á eftir að koma í ljós hvort framfarir í taugaskurðlækningum eigi eftir að skila sér í enn árangursríkari læknismeðferð en hingað til. Gammahnífurinn lofar engu að síður góðu fyrir marga sjúklinga með æxli.
[Neðanmáls]
a Sneiðmynd er tölvuunnin þverskurðarmynd af líkamshluta, tekin með röntgengeislum.
[Rammi áblaðsíðu 21]
Þróun geislaskurðlækninga
Gammahnífurinn var smíðaður fyrir næstum 50 árum af taugaskurðlækninum Lars Leksell og lífeðlisfræðingnum Börje Larsson. Leksell uppgötvaði að með einum stórum geislaskammti mætti eyða skemmdum djúpt í heilanum án skurðaðgerðar — og þar með án blæðinga og sýkingarhættu.
Leksell kallaði þessa nýju aðferð þrívíddarmiðaða geislaskurðaðgerð. Loksins voru læknar búnir að finna aðferð til að komast að þeim hlutum heilans sem höfðu verið utan seilingar, án þess að nota skurðhníf til að þrengja sér fremur gróflega gegnum völundarhús viðkvæmra tauga og heilavefjar. En mörg ár liðu uns hægt var að beita þessari nýju tækni, því að fyrst þurfti að þróa myndatækni svo sem röntgensneiðmynda- og segulsneiðmyndatækni til að hægt væri að miða geisluninni nákvæmlega. Fyrsti gammahnífurinn var settur upp í Stokkhólmi árið 1968.
[Myndir á blaðsíðu 20]
Hin fjögur þrep aðgerðar með gammahnífnum
1. Umgjörðin fest.
2. Heilinn myndaður.
3. Tölvumyndir auðvelda undirbúning aðgerðar.
4. Sjálf meðferðin.
[Rétthafi]
Myndir birtar með góðfúslegu leyfi Elekta Instruments, Inc., framleiðanda Gamma Knife.®