1. kafli
Löngunin í frið og öryggi um allan heim
1, 2. Hvað skortir allt mannkyn sárlega og hvers vegna?
FRIÐUR og öryggi er það sem við viljum sjá hér á jörðinni. Þörfin á svo æskilegu ástandi hefur aldrei verið brýnni en nú. Þetta er þrá og þörf ekki aðeins okkar sem einstaklinga heldur einnig alls mannkynsins um gjörvallan hnöttinn.
2 Mannkynið stendur núna nær því en nokkru sinni fyrr að sjá slíkt ástand verða að veruleika! ‚Hvernig getur það verið,‘ spyrð þú kannski. ‚Lifum við ekki einhverja hræðilegustu tíma mannkynssögunnar, öld kjarnorkuvopnanna?‘
3. (a) Hver er sögð ástæðan fyrir því að þjóðirnar eru vígbúnar kjarnorkuvopnum? (b) Hvað ætti heilbrigð skynsemi að segja þeim?
3 Sagt er að í það minnsta átta þjóðir geti nú framleitt kjarnorkuvopn. Áætlað er að 31 þjóð gæti ráðið yfir kjarnorkuvopnum um næstu aldamót. Þær segjast eiga slík gereyðingarvopn í varnarskyni, til að fæla önnur kjarnorkuveldi frá því að gera árás, því að hún myndi þá hafa í för með sér gagnkvæma tortímingu. Andspænis slíku heimsástandi ætti heilbrigð skynsemi að krefjast þess að þjóðirnar kæmu sér saman um að umbera hver aðra svo þær mættu búa hlið við hlið.
4. Hver er tilgangur skaparans þótt hann hafi ekki hindrað menn í tilraunum sínum til að tryggja frið og öryggi?
4 En er það hins vegar aðeins friður af mannavöldum sem við viljum, ásamt þeirri tegund öryggis sem menn geta boðið upp á? Þótt skaparinn hafi ekki lagt stein í götu þeirra sem hafa reynt að koma á og viðhalda friði og öryggi á heimsmælikvarða, þá hefur hann sína eigin fullkomnu leið til að svala löngun okkar í frið og öryggi. Hann hefur þegar ákveðið hvenær hann muni fjarlægja alla sem spilla öryggi þeirra sem þrá að dýrka hann. Við getum fagnað því að vita að þessi tími er nálægur!
5. Hvað sagði innblásinn sálmaritari um jörðina og hver er tilgangur skaparans með manninn?
5 Eftir árþúsunda sögu ólgu og ofbeldis er þess að vænta að alls staðar á jörðinni þrái menn heitt að búa við frið og öryggi. Allt frá upphafi mannsins hefur jörðin verið eðlilegur bústaður hans. Innblásinn sálmaritari sagði: „Himinninn er himinn [Jehóva]a, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.“ (Sálmur 115:16) Frá öndverðu hefur það verið kærleiksríkur tilgangur skaparans að maðurinn gæti notið lífsins ríkulega á heimilinu, sem hann gaf honum, jörðinni.
6. Í hvaða skilningi gat fyrsti maðurinn og afkomendur hans komið fram eins og Guð?
6 Samkvæmt sköpunarsögunni „myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Engin önnur lifandi vera á jörðinni var jafnmiklum hæfileikum búin og maðurinn — fær um að líkja eftir Guði við stjórnun og forráð annarra lífvera. Auk þess áttu þessi forráð ekki aðeins að vera á hendi fyrsta mannsins sem skapaður var heldur áttu afkomendur hans að fá að njóta þess líka að fara með þau.
7. Hvernig eignaðist Adam konu og hvað sagði hann þegar þessi fullkomna sköpunarvera var leidd fyrir hann?
7 Af þessari ástæðu gaf skaparinn Adam eiginkonu. Hún átti að verða ættmóðir allra manna er ættu eftir að byggja jörðina. Því sagði maðurinn þegar þessi fullkomna sköpunarvera var leidd fyrir hann: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi.“ Hann nefndi hana því kvenmann, ishshah sem er kvenkyn hebreska orðsins ish, karlmaður. — 1. Mósebók 2:21-23.
8. Hvaða fyrirmæli gaf skaparinn fyrstu hjónunum?
8 Hinn himneski faðir og skapari sagði við fyrstu hjónin: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Þessi aðferð var eitthvað alveg nýtt í sögu skynsemigæddra sköpunarvera, því að andlegir íbúar hinna ósýnilegu himna urðu ekki til vegna æxlunar.
9. Hvernig lýsir Sálmur 8:5, 6 ráðstöfun Guðs?
9 Engan skal undra að í sama mund og jörðin var sköpuð skyldu ‚morgunstjörnurnar syngja gleðisöng allar saman og allir guðssynir fagna.‘ (Jobsbók 38:7) Þá ríkti friður og eining um alheiminn allan. Í 8. sálminum segir sálmaritarinn um manninn, yfir sig hrifinn af fyrirkomulagi Guðs: „Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.“ (Vers 5, 6) Samkvæmt sálminum lagði Guð alla hluti á jörðinni undir fætur mannsins.
Nýtt drottinvald gerist keppinautur
10. (a) Hvað gerðist áður en fyrsta mannsbarnið var getið? (b) Hvað var þar með hægt að setja á fót yfir mannkyninu?
10 Svo ótrúlegt sem það er braust út uppreisn gegn alheimsskipulagi Jehóva Guðs áður en fyrsta mannsbarnið var getið. Sú staða, sem þá kom upp, gat leitt til þess að nýtt drottinvald kæmi fram, ný yfirstjórn yfir mannkyninu — ef hægt yrði að leiða mannkynið frá og koma á aðskilnaði milli þess og alheimsskipulags Jehóva. Til að koma því til leiðar þurfti að grípa til fyrstu lyginnar, að draga upp ranga mynd af Jehóva Guði.
11. Hvað varð fyrsti uppreisnarseggurinn þegar hann dró upp ranga mynd af Jehóva Guði?
11 Þegar fyrsti uppreisnarseggurinn gegn Guði bar fram fyrstu lygina varð hann fyrsti lygarinn, fyrsti djöfullinn eða rógberinn. Í hrópandi mótsögn við hann sagði Jesús Kristur: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jóhannes 14:6) Við trúarlega andstæðinga sína sagði Jesús: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því að í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því að hann er lygari og lyginnar faðir.“ — Jóhannes 8:44.
12. (a) Hvernig kom djöfullinn fyrstu lyginni á framfæri og hvaða áhrif hafði hún á Evu? (b) Hvaða afleiðingar hafði það þegar Adam át forboðna ávöxtinn?
12 Í Edengarðinum, paradís unaðarins, notaði djöfullinn höggorm til að koma fyrstu lyginni á framfæri við konuna. Hann fullyrti að skapari hennar væri lygari og raskaði þar með hugarró hennar. Hann gerði hana óörugga í ímyndaðri vanþekkingu sinni, þannig að hún át af forboðna ávextinum. Síðan taldi hún eiginmann sinn, Adam, á að eta af honum líka og ganga þannig í lið með henni í uppreisninni gegn Jehóva Guði. (1. Mósebók 3:1-6) Óhlýðni þeirra olli friðarslitum við Guð og þau voru rekin út úr paradís unaðarins til að búa við öryggisleysi utan hennar. Rómverjabréfið 5:12 lýsir þessu sorglega ástandi þannig: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“
13. Um hvað verðum við öll að velja núna?
13 Ástandið er þannig núna að við verðum að taka afstöðu. Við verðum að velja á milli uppreisnarstjórnar Satans djöfulsins, ‚guðs þessarar aldar,‘ og stjórnar Jehóva Guðs, hins hæsta og alvalda Guðs alheimsins. — 2. Korintubréf 4:4; Sálmur 83:19.
Leiðin til friðar við Guð
14. Hvaða friðar og öryggis getum við byrjað að njóta nú þegar?
14 Meginþorri mannkyns hvorki þráir né trúir á ráðstöfun hins alvalda Guðs til að dýrkendur hans geti notið nokkurs friðar og öryggis, jafnvel á þessum ólgu- og óróatímum, og veldur með því sjálfum sér sárri kvöl. En það breytir því ekki að Jehóva er „Guð friðarins“ og það eru sérréttindi okkar núna að öðlast frið og öryggi sem aldrei mun bregðast. (Rómverjabréfið 16:20; Filippíbréfið 4:6, 7, 9) Þetta er friður og öryggi sem hann jafnvel nú þegar gefur þjónum sínum á jörðinni, sýnilegu skipulagi sínu, til að uppfylla áreiðanleg loforð sín. Þetta er friður og öryggi sem við fáum notið aðeins í samfélagi við sýnilegt skipulag hans hér á jörð.
15. Er óeðlilegt að ætla að Guð eigi sér skipulag, og hvað viðurkenndi Jesús Kristur?
15 Það stingi í stúf við skýrar kenningar Ritningarinnar að halda því fram að Guð ætti sér ekki skipulag, skipuleg samtök manna, sem hann eitt viðurkennir og ekkert annað. Jesús Kristur gerði sér ljóst að himneskur faðir hans ætti sér sýnilegt skipulag. Fram til hvítasunnunnar árið 33 var það skipulag Gyðinga sem voru í sáttmálasambandi við Jehóva Guð fyrir milligöngu Móse. — Lúkas 16:16.
16. (a) Milli hverra var Móse meðalgangari? (b) Milli hverra er hinn meiri Móse, Jesús Kristur, meðalgangari?
16 Alveg eins og Ísraelsþjóð fortíðar var í sáttmálasambandi við Jehóva Guð fyrir milligöngu Móse, stendur andleg Ísraelsþjóð, „Ísrael Guðs,“ í sáttmálasambandi við hann í gegnum meðalgangara. (Galatabréfið 6:16) Páll postuli skrifaði kristnum samverkamanni sínum: „Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5) Var Móse meðalgangari milli Jehóva Guðs og manna almennt? Nei, hann var meðalgangari milli Guðs Abrahams, Ísaks og Jakobs og þjóðarinnar sem var af þeim komin. Á sama hátt er Jesús ekki meðalgangari milli Guðs og allra manna. Hann er meðalgangari milli föður síns á himnum og andlegrar Ísraelsþjóðar sem telur aðeins 144.000 einstaklinga. Þessi andlega þjóð er eins og lítil hjörð sauðumlíkra þjóna Jehóva. — Rómverjabréfið 9:6; Opinberunarbókin 7:4.
Hirðir yfir meiru en ‚litlu hjörðinni‘
17. (a) Hvaða hlutverk hefur Jehóva Guð falið Jesú Kristi? (b) Hvað sagði Jesús við þá sem eiga að erfa hið himneska ríki?
17 Í Sálmi 23:1 var Davíð, konungi Forn-Ísraels, blásið í brjóst að segja: „[Jehóva] er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Jehóva, hirðirinn æðsti, hefur falið Jesú Kristi að vera „góði hirðirinn.“ (Jóhannes 10:11) Í Lúkasi 12:32 sagði Jesús við þá sem hann er góði hirðirinn yfir: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“
18. (a) Hverjir samsvara nú á dögum musterisþjónunum og sonum útlendra þjóna Salómons? (b) Við hverja eiga þeir náin tengsl?
18 Til forna bjuggu með Ísraelsmönnum ýmsir sem ekki voru Gyðingar, svo sem musterisþjónarnir og synir erlendra þjóna Salómons. (Esrabók 2:43-58; 8:17-20) Á sama hátt eru núna til karlar og konur, sem vígð eru Guði fyrir milligöngu Jesú Krists, en eru þó ekki andlegir Ísraelsmenn. Þau hafa samt sem áður félagsskap við leifar andlegu Ísraelsmannanna, af því að þau hafa vígt sig Jehóva Guði fyrir milligöngu Jesú Krists „sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla.“ (1. Tímóteusarbréf 2:6) Þetta fólk er núna orðið margfalt fjölmennara en þeir 144.000 andlegu Ísraelsmenn sem eiga að erfa hið himneska ríki.
19. Hvað sagði Jesús Kristur sem sýnir að hann átti að vera hirðir yfir öðrum en aðeins ‚litlu hjörðinni‘?
19 Jesús Kristur átti því á tilteknum tíma Guðs að verða hirðir langtum stærri hjarðar sem myndi erfa jörðina vegna hans. Þetta eru þeir sauðir sem hann hafði í huga þegar hann sagði: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ Með þessa „aðra sauði“ í huga skrifaði Jóhannes postuli einnig um Jesú: „Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ — Jóhannes 10:16; 1. Jóhannesarbréf 2:2.
20. (a) Hve margir eru hinir ‚aðrir sauðir‘ í samanburði við þá sem eftir eru af ‚litlu hjörðinni‘? (b) Hvað þýðir hjarðgæsla góða hirðisins fyrir þá alla?
20 Núna eru eftir um 9000 manns sem segjast tilheyra ‚lítilli hjörð‘ andlegra sauða. Í félagi við þessar smurðu leifar eru hins vegar milljónir vígðra kristinna manna sem feta í fótspor góða hirðisins, Jesú Krists. Þá er að finna í meira en 200 löndum hringinn í kringum hnöttinn. Hvað þýðir hjarðgæsla góða hirðisins fyrir þá alla? Hún þýðir frið og öryggi! Ef þeir nytu ekki friðar sín á meðal væri ekki djúpstæð eining og órjúfanlegt samstarf þeirra í milli. Ef ekki ríkti meðal þeirra gagnkvæmur kærleikur og umhyggja fyrir andlegum hag hvers annars nytu þeir ekki þess öryggis sem þeir þekkja núna. Nú þegar er byrjað að fullnægja löngun þeirra í frið og öryggi um alla jörð.
[Neðanmáls]
a Nafn Guðs, Jehóva, er í þessari bók sett innan hornklofa inn í texta íslensku biblíunnar frá 1981 þar sem það á að standa samkvæmt frummálunum.
[Mynd á blaðsíðu 4, 5]
Skaparinn hefur sína eigin, fullkomnu leið til að fullnægja löngun manna í frið og öryggi.