Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 23 bls. 157-bls. 159 gr. 4
  • Hagnýtt gildi dregið fram

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hagnýtt gildi dregið fram
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Fræðandi fyrir áheyrendur
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Inngangur sem vekur áhuga
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Efnið aðlagað boðunarstarfinu
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 23 bls. 157-bls. 159 gr. 4

Námskafli 23

Hagnýtt gildi dregið fram

Hvað þarftu að gera?

Sýndu áheyrendum fram á að efnið snerti þá eða að þeir geti notað það sér að gagni.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Ef fólk kemur ekki auga á hagnýtt gildi þess sem þú hefur fram að færa má búast við að það segist ekki hafa áhuga eða hætti að hlusta á þig og leyfi huganum að reika.

ÞÓ AÐ þú hafir áhuga á ákveðnu viðfangsefni ættirðu ekki að ganga að því sem gefnum hlut að áheyrendur hafi það líka, og gildir þá einu hvort þeir eru einn eða fleiri. Þú hefur mikilvægt efni fram að færa, en takist þér ekki að sýna fram á notagildi þess er ósennilegt að þér takist að halda áhuga annarra vakandi nema um stund.

Þetta getur jafnvel gerst í ríkissalnum. Áheyrendur sperra eyrun þegar þú bregður upp líkingu eða frásögu sem þeir hafa ekki heyrt áður, en athyglin getur dvínað þegar þú talar um efni sem þeir þekkja, einkum ef þú eykur ekki við það. Þú verður að sýna þeim fram á að þeir hafi gagn af því sem þú ert að segja og hvaða gagn þetta er.

Biblían hvetur okkur til að vera raunsæ, skynsöm, hagsýn og hyggin — að sýna visku. (Orðskv. 3:21) Jehóva lét Jóhannes skírara beina fólki til „hugarfars [„hygginda,“ NW] réttlátra.“ (Lúk. 1:17) Þessi hyggindi og viska byggjast á heilnæmum guðsótta og hjálpa þeim sem kunna að meta hana að takast farsællega á við lífið eins og það er núna og að höndla hið sanna og eilífa líf sem er framundan. — Sálm. 111:10; 1. Tím. 4:8; 6:19.

Að gefa ræðunni hagnýtt gildi. Þú þarft bæði að hugleiða efnið vel og velta fyrir þér áheyrendahópnum til að ræðan hafi hagnýtt gildi. Áheyrendur eru ekki bara hópur fólks heldur fjölskyldur og einstaklingar. Þar geta verið lítil börn, unglingar og fullorðnir á öllum aldri. Kannski er meðal viðstaddra fólk sem hefur nýlega sýnt áhuga og eins fólk sem byrjaði að þjóna Jehóva löngu áður en þú fæddist. Sumir eru andlega þroskaðir en aðrir eru kannski enn undir sterkum áhrifum vissra viðhorfa og háttsemi heimsins. Spyrðu þig: ‚Hvernig gæti efnið, sem ég ætla að fjalla um, komið áheyrendum að gagni? Hvernig get ég komið þeim í skilning um þetta?‘ Kannski ákveður þú að beina orðum þínum aðallega til eins eða tveggja af þeim hópum sem hér eru nefndir. En gleymdu samt ekki hinum.

Setjum sem svo að þér sé falið að fjalla um ákveðna undirstöðukenningu Biblíunnar. Hvernig geturðu fjallað um efnið þannig að áheyrendur, sem trúa þessari kenningu hvort eð er, hafi gagn af ræðunni? Þú gætir reynt að styrkja sannfæringu þeirra. Hvernig? Með því að rökræða út frá þeim ritningarstöðum sem styðja kenninguna. Þú getur líka aukið virðingu þeirra fyrir þessari biblíukenningu, til dæmis með því að sýna fram á hvernig hún samræmist öðrum biblíusannindum og persónuleika Jehóva. Notaðu dæmi — helst raunsannar frásögur — sem sýna hvaða gagn fólk hefur haft af því að skilja þessa ákveðnu kenningu og hvaða áhrif hún hefur haft á framtíðarsýn þess.

Einskorðaðu þig ekki við örfá orð í niðurlagi ræðunnar þegar þú bendir á hagnýtt gildi efnisins. Frá því að þú segir fyrsta orðið ættu allir í salnum að finna að efnið snertir þá persónulega. Eftir að þú hefur lagt þennan grunn skaltu halda áfram að benda á notagildi efnisins, bæði þegar þú vinnur úr hverju aðalatriði ræðunnar og eins í niðurlagsorðunum.

Þegar þú bendir á hið hagnýta gildi þarftu að gera það í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Hvað er átt við með því? Það merkir að gera það á kærleiksríkan hátt og setja þig í spor annarra. (1. Pét. 3:8; 1. Jóh. 4:8) Páll postuli þurfti að taka á ýmsum erfiðum vandamálum í Þessaloníku en gerði sér alltaf far um að benda á hið jákvæða, á andlegar framfarir kristinna bræðra sinna og systra. Hann lét jafnframt í ljós að hann treysti því að þau vildu gera rétt í því máli sem hann tók fyrir. (1. Þess. 4:1-12) Þetta er gott fordæmi til eftirbreytni.

Er markmið ræðunnar að hvetja áheyrendur til að boða fagnaðarerindið og kenna öðrum? Vektu þá áhuga á þessum sérréttindum og virðingu fyrir þeim. En hafðu samt hugfast að það er misjafnt eftir aðstæðum hve mikinn þátt fólk getur tekið í þessu starfi, og Biblían tekur tillit til þess. (Matt. 13:23) Íþyngdu ekki trúsystkinum þínum með sektarkennd. Hebreabréfið 10:24 bendir okkur á að ‚hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka.‘ Ef við hvetjum til kærleika fylgja góðu verkin í kjölfarið. Jehóva vill að við vekjum „hlýðni við trúna“ svo að þú ættir ekki að ætlast til þess að allir séu eins. (Rómv. 16:26) Þess vegna leggjum við okkur fram um að styrkja trúna — bæði okkar eigin og trúsystkina okkar.

Hjálpaðu öðrum að átta sig á gildi efnisins. Þegar þú vitnar fyrir öðrum máttu ekki gleyma að halda hagnýtu gildi fagnaðarerindisins á loft. Til að gera það þarftu að íhuga hvað er fólki á starfssvæðinu ofarlega í huga. Þú getur hlustað á útvarps- og sjónvarpsfréttir til að glöggva þig á því. Renndu yfir forsíður dagblaða. Reyndu líka að draga fólk inn í samræður og hlustaðu þegar það talar. Kannski kemstu að raun um að það er að berjast við aðkallandi vandamál — atvinnuleysi, húsaleigu, veikindi, ástvinamissi, hættu á afbrotum, ranglæti af hendi ráðamanna, hjónaskilnað, barnauppeldi og svo mætti lengi telja. Getur Biblían hjálpað fólki? Já, vissulega.

Sennilega ertu með ákveðið umræðuefni í huga þegar þú hefur samtal. En ef viðmælandi þinn gefur til kynna að eitthvað annað liggi honum á hjarta skaltu ekki hika við að snúa þér að því ef þú getur, eða að bjóðast til að koma aftur með gagnlegar upplýsingar. Við forðumst auðvitað að ‚gefa okkur að því sem okkur kemur ekki við‘ en segjum öðrum fúslega frá góðum ráðleggingum Biblíunnar. (2. Þess. 3:11) Biblíuráð, sem snerta fólk beinlínis, hafa auðvitað sterkust áhrif á það.

Ef fólk áttar sig ekki á því að boðskapur okkar eigi erindi til sín er það líklega fljótt til að slíta samtalinu. Það leyfir okkur kannski að tala en boðskapurinn hefur sáralítil áhrif á það ef okkur tekst ekki að sýna fram á hagnýtt gildi hans. Þegar við sýnum hins vegar fram á hagnýtt gildi boðskaparins getur samtalið markað straumhvörf í lífi þess.

Þegar þú sérð um biblíunámskeið þarftu einnig að draga fram notagildi efnisins. (Orðskv. 4:7) Hjálpaðu nemandanum að skilja ráðleggingar, meginreglur og frásögur Biblíunnar og kenndu honum að ganga á vegum Jehóva. Bentu honum á hve gagnlegt það sé. (Jes. 48:17, 18) Þannig hjálpar þú nemandanum að gera nauðsynlegar breytingar á lífi sínu. Kenndu honum að elska Jehóva og langa til að þóknast honum og vektu löngun með honum til að fara eftir þeim leiðbeiningum sem orð Guðs gefur.

GERÐU EFTIRFARANDI

  • Þegar þú semur ræðu þarftu bæði að hugsa um efnið og áheyrendur. Komdu efninu þannig á framfæri að áheyrendur hafi raunverulegt gagn af því.

  • Láttu notagildi efnisins koma fram alls staðar í ræðunni, ekki aðeins í niðurlagsorðunum.

  • Glöggvaðu þig á því hvað er fólki á starfssvæðinu ofarlega í huga og taktu mið af því þegar þú býrð þig undir boðunarstarfið.

  • Hlustaðu vel á viðmælanda þinn í boðunarstarfinu og hagaðu kynningarorðunum eftir því.

ÆFING: Farðu yfir tiltæk eintök Ríkisþjónustu okkar og veldu eina eða tvær kynningar sem þú telur eiga sérstaklega vel við á starfssvæðinu. Prófaðu þær í boðunarstarfinu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila