Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ht þjálfunarliður 21 bls. 12-17
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
  • Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Svipað efni
  • Fræðandi fyrir áheyrendur
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Sannfærðu áheyrendur, hjálpaðu þeim að álykta
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Uppbyggjandi ráðleggingar
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Samband við áheyrendur og minnisblöð
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
Sjá meira
Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
ht þjálfunarliður 21 bls. 12-17

2. námskafli

Fræðandi efni, skýrt og greinilegt

1 Undirstaða góðrar ræðu er rækilegur undirbúningur. Slíkur undirbúningur kostar bæði tíma og fyrirhöfn en hann borgar sig. Þú safnar í forðabúr þitt nákvæmri þekkingu og hefur gagnlegar upplýsingar að miðla áheyrendum þínum. Þú talar ekki um efnið almennt heldur miðlar fróðlegum upplýsingum og þú veist að þú ert að fara með rétt mál. Það byggir upp virðingu áheyrenda fyrir orði Jehóva Guðs og heiðrar hann. Umfjöllun okkar um fræðandi efni lýtur sérstaklega að efni ræðunnar. Skoðum stuttlega hina ýmsu þætti þessa máls. Þetta er fyrsta þjálfunarstigið á ráðleggingakortinu.

2 Hnitmiðað efni. Ef aðeins er fjallað almennt um efnið skortir ræðuna þunga og vald. Hún er ómarkviss og skilur áheyrendur eftir í óvissu. Til að hugmyndir festist í minni verða þær að vera hnitmiðaðar og nákvæmar. Það ber vitni um rannsóknir og þekkingu á efninu.

3 Þessu má ná fram með því að spyrja meðan á undirbúningi stendur: Hvers vegna, hvenær, hvar og svo framvegis. Venjulega er ekki nóg að segja að einhver atburður hafi átt sér stað. Þú þarft að nefna stað og stund og ef til vill orsakir. Það er ekki nóg að skýra aðeins frá ákveðnum staðreyndum, heldur þarftu að sýna fram á hvers vegna þær eru sannar og hvers vegna gott er að þekkja þær. Ef þú gefur leiðbeiningar skaltu útskýra hvernig eigi að gera hlutina. Slík úrvinnsla ræðst að miklu leyti af þekkingu áheyrenda á málefninu. Þú þarft því að hafa áheyrendur í huga þegar þú ákveður hvaða upplýsingar séu nauðsynlegar.

4 Fræðandi fyrir áheyrendur. Ákveðið efni getur verið fræðandi fyrir einn áheyrendahóp án þess að bæta nokkru við þekkingu annars. Og þriðji hópurinn skilur kannski ekki neitt. Það er því augljóst að efnið þarf að hæfa þörfum áheyrenda. Í ræðu um starf okkar er efnið til dæmis tekið allt öðrum tökum á þjónustusamkomu heldur en í spjalli við manneskju sem er að búa sig undir að vígjast Jehóva, eða í ræðu fyrir hópi veraldlegs fólks.

5 Taka verður mið af þessu við hin ýmsu verkefni í Guðveldisskólanum. Skoða þarf efni allra ræðuverkefna með tilliti til áheyrenda, sviðsetningar og markmiðs ræðunnar. Þetta ræðst af því hvers eðlis ræðan er og af þeirri umgerð sem ræðumaðurinn hefur valið henni. Kennsluræðan á auðvitað að vera ræða fyrir söfnuðinn. Aðrar ræður geta verið breytilegar þar sem sviðsetningin gerir ráð fyrir ákveðnum áheyrendum og markmiði. Bæði nemandinn og leiðbeinandinn geta í öllum tilvikum spurt sig: Er efnið aðlagað áheyrendunum? Fræðast þeir og læra af því?

6 Spyrðu sjálfan þig hverju þú viljir áorka með ræðunni meðan þú ert að undirbúa þig. Hversu mikið af því sem ég ætla að fjalla um veit þessi manneskja eða hópur nú þegar? Hvaða grundvöll verð ég að leggja áður en þessi atriði skiljast? Hvernig myndi ég orða þetta fyrir gerólíkum hópi? Samanburður skerpir oft skilning okkar. Reyndu að nálgast ólíka hópa á mismunandi vegu meðan á undirbúningi stendur svo að þú finnir hverju það breytir að hafa áheyrendur í huga, og gerðu efnið fræðandi fyrir þá sem þú ætlar að ávarpa.

7 Hagnýtt gildi efnisins. Margt er hægt að læra en ekki er allt gagnlegt. Fyrir okkur er það fræðandi sem við þurfum að vita um kristilegt líf okkar og þjónustu. Við viljum vita hvernig á að nota þekkinguna sem við höfum aflað okkur.

8 Bæði þegar nemandinn undirbýr sig og þegar skólahirðirinn veitir tilsögn geta þeir íhugað þetta með því að spyrja: Hvaða meginreglur er að finna í ræðunni? Er hægt að nota efnið við ákvarðanatöku? Er hægt að laga efnið að boðunarstarfinu? Upphefur það orð Guðs og bendir á tilgang hans? Fáar ræður ná fram öllu þessu, en eigi efnið að hafa hagnýtt gildi verða áheyrendur að geta notað það á einn eða annan hátt.

9 Nákvæmar fullyrðingar. Vottar Jehóva eru skipulag sannleikans. Við viljum tala sannleikann öllum stundum og vera fullkomlega nákvæm í öllum smáatriðum, ekki aðeins í kenningarlegum efnum heldur einnig í tilvitnunum, ummælum um aðra og hvernig við höfum orð þeirra eftir. Sama gildir um vísinda- og fréttaefni.

10  Séu rangar fullyrðingar bornar fyrir áheyrendur er hætta á að þær verði endurteknar og villan magnist. Taki áheyrendur eftir ónákvæmni vekur það efasemdir um áreiðanleika ræðumannsins í öðrum efnum, og þeir geta jafnvel dregið í efa sannleiksgildi sjálfs boðskaparins. Ef áhugasamur maður heyrði slíkar fullyrðingar, sem styngju í stúf við það sem hann hefði heyrt við önnur tækifæri, gæti hann hugsað sem svo að vottar Jehóva væru ekki innbyrðis sammála. Hann gæti slitið sambandi við þá jafnvel án þess að segja hvers vegna.

11 Leiðbeinandinn ætti ekki að tæta í sundur hverja einustu staðhæfingu nemandans, einkum ef hann er nýr í sannleikanum og hefur þar af leiðandi ekki náð tökum á hinum djúpu sannindum orðs Guðs. Þess í stað hjálpar hann nemandanum nærgætnislega að móta hugsanagang sinn og sýnir honum hvernig hann geti orðið nákvæmari með góðum undirbúningi.

12 Ítarefni til skýringar. Hugmyndir sprottnar af hugleiðingu eða nákvæmri rannsókn á efninu geta gert sitt til að koma í veg fyrir endurtekningu á efni sem áheyrendur þekkja fyrir. Þær lífga upp á flutninginn, glæða áhuga áheyrenda og geta jafnvel gert velþekkt efni ánægjulegt áheyrnar. Og þær gefa ræðumanninum sjálfstraust. Hann flytur ræðuna með eldmóði því að hann veit að hann hefur eitthvað fram að færa umfram hið venjulega.

13 Persónulegar tilgátur eru þó varasamar. Rétt er að nota rit Félagsins og treysta þeim. Athugaðu efnisskrár Félagsins og neðanmálsskýringar Biblíunnar. Fullvissaðu þig um að það sem þú segir sé upplýsandi en ekki villandi.

14 Við undirbúning efnisins er einnig mikilvægt að hugleiða vel hvernig þú ætlar að koma því á framfæri sem þú hefur að segja. Á ráðleggingakortinu kallast þetta „Skýrt, greinilegt.“ Sé því ekki gefinn viðeigandi gaumur getur það torveldað þér að ná til áheyrenda eða hindrað þá í að hugfesta það sem þeir heyra. Hafa þarf þrjú grundvallarsjónarmið í huga.

15 Einfalt orðalag. Það merkir ekki að gerhugsa þurfi hverja setningu fyrirfram. En þær hugmyndir, sem bornar eru fram, þarf að rannsaka ítarlega og gera ráð fyrir ýmsu. Það stuðlar venjulega að því að ræða verði gagnorð, auðskilin og flutt á skýru máli. Ef efnið vefst fyrir ræðumanninum verður það flókið í flutningi.

16 Forðast ber undirbúning á síðustu stundu. Ræðumaðurinn ætti að hugsa um hvert einasta efnisatriði ræðunnar uns það er einfalt, skýrt og auðskilið í huga hans. Ef hann rifjar þau upp meðan á undirbúningi stendur grópast þau í huga hans og getur hann þá kallað þau fram eftir þörfum. Þá verða þau jafnskýr í hugum áheyrenda og ræðumanns.

17 Framandi hugtök útskýrð. Nám okkar í Ritningunni og ritum Varðturnsfélagsins hefur bætt ýmsu við orðaforða okkar sem hljómar framandi í eyrum þeirra sem eru ókunnugir starfi okkar. Ef við værum að útskýra sannleika Biblíunnar fyrir þess konar áheyrendum og notuðum þessi hugtök, myndi annaðhvort mikið af því sem við segðum fara fyrir ofan garð og neðan eða ræða okkar í heild sinni vera algerlega óskiljanleg.

18 Hafðu því áheyrendur í huga. Hvað vita þeir? Hve mikið þekkja þeir til starfs okkar? Hve mörg af þessum hugtökum skilja þeir jafn vel og ræðumaðurinn? Hugtök eins og „guðveldi,“ „leifarnar,“ „hinir aðrir sauðir“ og jafnvel „Harmagedón“ og „Guðsríki“ geta gefið áheyrendum aðrar hugmyndir eða alls engar. Jafnvel hugtök eins og „sál,“ „helvíti“ og „ódauðleiki“ þarfnast útskýringa ef áheyrandinn er ókunnugur starfi okkar. En sé ræðan flutt fyrir söfnuðinum þarfnast þannig hugtök ekki skýringa. Það þarf því að taka tillit til aðstæðna.

19 Ekki of mikið efni. Ræða getur verið svo efnismikil að áheyrendur nánast drukkna í efnisflóðinu sem hellist yfir þá og meðtaka einungis brot af því eða jafnvel ekkert. Til að ræðan nái tilgangi sínum má efnið ekki vera meira en svo að hægt sé að flytja það á skýran hátt á tilsettum tíma. Efnið má ekki vera meira en ætla má að áheyrendur nái að tileinka sér. Efni ætlað ókunnugum eða fólki sem er nýfarið að sýna áhuga þarf auk þess að einfalda verulega meira en sams konar efni sem ætlað er söfnuðinum. Leiðbeinandinn þarf því að taka mið af því hvers konar áheyrendur ræðumaðurinn er að ávarpa.

20 Hvernig getur nemandinn vitað hversu mikið efni á að hafa í ræðu? Meðan á undirbúningi stendur er gagnlegt að gera samanburð. Brjóttu til mergjar það sem þú hefur fram að færa. Hve vel þekkja áheyrendurnir það nú þegar, í það minnsta að hluta til? Hve mikið er algerlega nýtt fyrir þeim? Því breiðari sem þekkingargrunnur þeirra er, þeim mun meiru má bæta við á tilsettum tíma. En ef þeir vita nánast ekkert um viðfangsefnið skal gæta ítrustu varúðar hve mikið er tekið fyrir og hve langan tíma þarf til að útskýra hvert mál á þann hátt að áheyrendur skilji það til fullnustu.

[Spurningar]

1-3. Hvers vegna er hnitmiðað efni forsenda þess að ræða sé fræðandi?

4-6. Hvað þarftu að hafa í huga til að ræðan geti verið fræðandi fyrir áheyrendahóp þinn?

7, 8. Hvernig getum við gefið ræðum okkar hagnýtt gildi?

9-11. Hvers vegna er mikilvægt að vera nákvæmur í fullyrðingum?

12, 13. Hvaða gildi hefur ítarefni?

14-16. Hvers þarf að gæta við undirbúning ræðu svo að orðalag hennar verði einfalt?

17, 18. Af hverju þarf að skýra framandi hugtök?

19, 20. Hvernig getum við forðast að hafa of mikið efni?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila