Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 282-bls. 285
  • Leiðbeiningar til umsjónarmanna skólans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Leiðbeiningar til umsjónarmanna skólans
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Boðunarskólinn árið 2015 hjálpar okkur að bæta okkur í kennslunni
    Ríkisþjónusta okkar – 2014
  • Boðunarskólinn menntar okkur í því sem mestu máli skiptir
    Ríkisþjónusta okkar – 2002
  • Leiðbeiningar fyrir samkomuna Líf okkar og boðun
    Leiðbeiningar fyrir samkomuna Líf okkar og boðun
  • Uppbyggjandi ráðleggingar
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 282-bls. 285

Leiðbeiningar til umsjónarmanna skólans

Í ÖLLUM söfnuðum er öldungur útnefndur til að hafa umsjón með Boðunarskólanum. Ef þér hefur verið falið þetta verkefni getur áhugi þinn á skólanum og umhyggja fyrir hverjum einasta nemanda og framförum hans ráðið miklu um það hverju skólinn áorkar í söfnuðinum.

Vikuleg stjórnun skólans er mikilvægur þáttur verkefnis þíns. Hafðu hugfast að margir fleiri eru viðstaddir en þeir nemendur sem eru með verkefni hverju sinni. Stjórnaðu skólanum þannig að allur söfnuðurinn fái hvetjandi og raunhæfar leiðbeiningar um að minnsta kosti eitt af þeim markmiðum skólans sem nefnd eru á blaðsíðu 5 til 8 í þessari kennslubók.

Sýndu öllum nemendunum áhuga, hvort sem þeir eru með upplestrarverkefni, samtalsverkefni eða eiga að flytja ræðu. Hjálpaðu þeim að líta á verkefni sín sem tækifæri til að taka framförum í þjónustunni við Jehóva, ekki aðeins verkefni sem þeir þurfa að skila. Framfarir ráðast auðvitað mjög af því að þeir leggi sig vel fram sjálfir, en það er líka mikilvægt að þú sýnir þeim vinsamlegan áhuga, hjálpir þeim að skilja gildi ráðlegginganna sem þeir fá og skýrir fyrir þeim hvernig þeir geti nýtt sér þær. Þú þarft því að hlusta vel á hverja ræðu til að geta komið með gagnlegar ábendingar.

Gættu þess að hefja skólann og ljúka honum á réttum tíma. Gefðu gott fordæmi með því að halda þínum eigin ábendingum innan réttra tímamarka. Ef nemandi fer fram yfir tilskilin tímamörk ættir þú eða aðstoðarmaður þinn að gefa merki. Nemandinn ætti þá að ljúka setningunni, sem hann er að segja, og ganga síðan af sviðinu. Ef annar dagskrárliður fer fram yfir tímamörkin skaltu sjálfur stytta mál þitt og ræða svo við bróðurinn eftir samkomuna.

Þú átt að stjórna skólanum sjálfur þegar þú ert viðstaddur. Ef svo ber undir að þú getir ekki verið á samkomunni ætti annar öldungur, sem öldungaráðið hefur tilnefnt, að sjá um skólann. Ef þörf krefur getur öldungaráðið falið safnaðarþjóni að aðstoða þig við að gera dagskrár, skrifa út úthlutunarmiða og dreifa þeim eða að finna nemendur til að hlaupa í skarðið í forföllum.

Að innrita nemendur í skólann. Hvettu alla boðbera til að innrita sig í skólann. Þeir sem sækja samkomur að staðaldri geta innritað sig ef þeir eru sammála kenningum Biblíunnar og lifa í samræmi við kristnar meginreglur. Hrósaðu þeim hlýlega sem láta í ljós að þeir vilji innrita sig í skólann. Ef viðkomandi er ekki boðberi enn þá er það hlutverk þitt sem umsjónarmanns skólans að ræða við hann um skilyrðin fyrir innritun. Æskilegt er að leiðbeinandi hans við biblíunám sé viðstaddur (eða trúað foreldri). Sett eru sömu skilyrði fyrir innritun og gerð eru til þeirra sem vilja verða óskírðir boðberar. Þau er að finna á blaðsíðu 97 til 99 í bókinni Organized to Accomplish Our Ministry (Þjónustubókinni). Haltu dagrétta skrá um alla nemendur skólans.

Skrá yfir þjálfunarliði. Þjálfunarskrá hvers nemanda er að finna á blaðsíðu 79 til 81 í kennslubókinni hans. Eins og litamerkingin sýnir má nota þjálfunarliði 1 til 17 þegar nemandi er með upplestrarverkefni. Fyrir samtalsverkefni má nota alla þjálfunarliðina nema 7, 52 og 53. Fyrir ræður gilda allir þjálfunarliðir nema 7, 18 og 30.

Þegar nemanda er falið að vinna að nýjum þjálfunarlið ætti umsjónarmaður skólans að sjá um að dagsetningin sé skrifuð með blýanti í reitinn „Úthlutað (dagsetn.)“ aftan við þjálfunarliðinn í kennslubók nemandans. Eftir að nemandinn er búinn að skila verkefninu af sér skaltu spyrja hann einslega hvort hann hafi gert æfinguna eða æfingarnar í lok viðkomandi námskafla í bókinni. Ef svo er ætti að haka við í rammanum í þjálfunarskránni. Ef þú mælir með að nemandinn haldi áfram að vinna að sama þjálfunarlið þarf ekki að skrifa meira í þjálfunarskrána. Skildu reitinn „Lokið (dagsetn.)“ eftir óútfylltan. Hann á ekki að fylla út fyrr en nemandinn er tilbúinn til að snúa sér að næsta þjálfunarlið. Vinstra megin á blaðsíðu 82 í bók nemandans skal auk þess færa inn eftir hverja nemendaræðu hvenær hann notaði ákveðna sviðsetningu. Í bókinni er gert ráð fyrir að hægt sé að nota hverja sviðsetningu og fara yfir hvern þjálfunarlið tvisvar. Nemendur ættu að hafa bókina meðferðis í skólann.

Úthlutaðu aðeins einum þjálfunarlið í einu. Að jafnaði er best að fara yfir þá í töluröð. Ef nemandi sýnir einstaka hæfileika geturðu hins vegar hvatt hann til að kynna sér aðra námskafla og tileinka sér jafnframt efni þeirra. Síðan geturðu aðstoðað hann við þá þjálfunarliði sem þú telur munu stuðla mest að framförum hans sem góðs ræðumanns og kennara.

Nemandi getur haft mikið gagn af öllum námsköflunum, þó að hann hafi verið nemandi í skólanum í mörg ár. Til að hjálpa nemendum með sérþarfir mætti velja ákveðna þjálfunarliði og biðja þá að vinna að þeim í stað þess að fara yfir þjálfunarliðina í töluröð.

Að leiðbeina nemendum. Notaðu meginreglur Biblíunnar og dæmi úr henni þegar þú leiðbeinir nemendum. Nemendurnir ættu að finna að ráðleggingarnar og hugurinn að baki þeim byggist á háleitum meginreglum Biblíunnar.

Mundu að þú ert ‚samverkamaður‘ bræðra þinna og systra. (2. Kor. 1:24) Þú þarft sjálfur að leggja þig fram, líkt og þau, við að bæta þig í ræðumennsku og kennslu. Farðu sjálfur vandlega yfir bókina Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, farðu eftir ráðleggingum hennar og hvettu aðra með fordæmi þínu til að gera slíkt hið sama.

Það er markmið þitt að hjálpa nemendum að verða góðir lesarar, færir ræðumenn og dugmiklir kennarar. Reyndu að veita þeim alla þá hjálp sem þeir þurfa til að skilja hvað sé fólgið í hinum ýmsu þáttum góðs málflutnings, hvers vegna þeir eru mikilvægir og hvernig hægt er að tileinka sér þá. Þessi kennslubók er sniðin að því að auðvelda þér þetta. En það er ekki alltaf nóg að lesa leiðbeiningarnar upp úr bókinni. Þú þarft líka að benda á hvað þær merkja og hvernig hægt sé að nýta sér þær.

Hrósaðu nemandanum fyrir það sem hann gerir vel. Nefndu stuttlega hvers vegna það var gott eða mikilvægt. Ef það væri ráðlegt fyrir hann að gefa meiri gaum að ákveðnu atriði skaltu ganga úr skugga um að hann skilji ástæðuna. Skýrðu fyrir honum hvernig hann geti farið að. Vertu nákvæmur en jafnframt vingjarnlegur.

Mundu að það getur verið mikil þraut fyrir marga að stíga upp á ræðupallinn og tala frammi fyrir söfnuðinum. Ef nemanda finnst hann hafa staðið sig illa spyr hann sig kannski hvort það sé þess virði að halda áfram að reyna. Líktu eftir Jesú sem ‚braut ekki brákaðan reyr‘ og ‚slökkti ekki rjúkandi hörkveik.‘ (Matt. 12:20) Taktu tillit til þess hvernig nemandanum líður. Miðaðu ráðleggingar þínar við það hvort hann er tiltölulega nýr eða hvort hann er reyndur boðberi. Hlýlegt og einlægt hrós getur styrkt fólk svo að það haldi áfram að gera sitt besta.

Sýndu öllum nemendum skólans virðingu. „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing,“ segir Rómverjabréfið 12:10. Þetta er viðeigandi ábending til leiðbeinenda í Boðunarskólanum. Ef nemandinn er eldri en þú þarftu að fara vandlega eftir leiðbeiningunum í 1. Tímóteusarbréfi 5:1, 2. En óháð aldri nemandans falla ráðleggingar um það sem betur má fara alltaf í betri jarðveg ef þær eru gefnar vingjarnlega. — Orðskv. 25:11.

Þegar þú leiðbeinir nemanda skaltu minna hann á markmið kennslunnar. Markmiðið er ekki aðeins að gera nógu vel til að fá hrós fyrir verkefnið og fá að snúa sér að næsta þjálfunarlið. Markmiðið er ekki að hljóta aðdáun annarra fyrir ræðumennsku sína og kennslu. (Orðskv. 25:27) Okkur langar til að nota málhæfileikann til að lofa Jehóva og hjálpa öðrum að kynnast honum og elska hann. Kennslan á að gera okkur sem hæfust til að vinna verkið sem lýst er í Matteusi 24:14 og 28:19, 20. Skírðum bræðrum, sem uppfylla hæfniskröfurnar, er kannski boðið að taka þátt í að gæta ‚hjarðar Guðs‘ þegar fram í sækir, með því að kenna og flytja opinbera fyrirlestra. — 1. Pét. 5:2, 3.

Leggðu til að nemendur lesi kaflann um næsta þjálfunarlið innan nokkurra daga eftir að þeim er úthlutað verkefni. Hvettu þá til að nota það sem þeir læra þegar þeir undirbúa verkefni sín í skólanum, þegar þeir svara á samkomum, og einnig í daglegum samræðum og í boðunarstarfinu.

Úthlutun verkefna. Að jafnaði ætti að úthluta verkefnum með að minnsta kosti þriggja vikna fyrirvara, helst skriflega ef þess er nokkur kostur.

Verkefni í skólanum, sem eru jafnframt kennsla handa söfnuðinum, ættu að vera í höndum öldunga, helst þeirra sem geta skilað þeim vel af hendi, og einnig má nota safnaðarþjóna sem eru góðir kennarar.

Fylgið leiðbeiningum námsskrárinnar um það hvaða ræður skal úthluta bræðrum og hvaða ræður systrum. Ef fáir bræður en margar systur flytja nemendaræður þarf að gæta þess að bræðurnir fái nógu mörg verkefni önnur en upplestur.

Úthlutaðu verkefnum miðað við aðstæður nemenda. Er nauðsynlegt að fela vissum öldungi eða safnaðarþjóni verkefni í skólanum sama kvöld og hann er með verkefni á þjónustusamkomu eða í sömu viku og hann er með opinberan fyrirlestur í söfnuðinum? Er nauðsynlegt að úthluta ákveðinni systur samtalsverkefni sama kvöld og eitt af ungum börnum hennar, sem hún þarf kannski að hjálpa, er með verkefni í skólanum? Hæfir viðfangsefnið ungum nemanda eða óskírðum? Gakktu úr skugga um að efnið hæfi þeim þjálfunarlið sem nemandinn er að vinna að þessu sinni.

Systur velja sér að jafnaði sjálfar sviðsetningu í samræmi við leiðbeiningarnar á blaðsíðu 78 og 82. Velja skal einn aðstoðarmann handa nemandanum en hann má fá tvo ef svo ber undir. Taka ber tillit til þess ef nemandinn biður um að fá vissan aðstoðarmann sem hentar sérstaklega vel fyrir ákveðna sviðsetningu.

Fleiri kennslustofur. Ef fleiri en 50 nemendur eru skráðir í skólann mætti huga að því að opna fleiri kennslustofur handa nemendum. Flytja mætti öll nemendaverkefnin í hinum kennslustofunum eða aðeins tvö síðustu, allt eftir aðstæðum.

Fyrir hverja viðbótarstofu þarf að velja hæfan leiðbeinanda, helst öldung. Ef þörf krefur mætti nota hæfan safnaðarþjón. Öldungaráðið á að samþykkja hverjir sinna þessum verkefnum. Eigðu gott samstarf við aðstoðarmennina þannig að nemendur fái viðeigandi leiðbeiningar í framhaldinu, óháð því í hvaða kennslustofu þeir flytja næsta verkefni sitt.

Sérstök lestrarkennsla. Ef öldungaráðið kemst að þeirri niðurstöðu að margir safnaðarmenn þurfi að fá grunnkennslu í lestri í því máli, sem talað er í söfnuðinum, mætti skipuleggja hana í tengslum við Boðunarskólann. Veita mætti grunnkennslu í lestri og skrift eða færniþjálfun í lestri.

Þessi kennsla þarf ekki að fara fram á sama tíma og nemendaverkefnin eru flutt í Boðunarskólanum. Hún gæti verið tímafrekari en svo að hægt sé að veita hana meðan skólinn stendur yfir. Öldungarnir á staðnum geta ákveðið hvað gera þurfi og hvenær kennslan skuli fara fram. Veita má hópkennslu eða einstaklingskennslu eftir því sem þörf krefur.

Finna þarf hæfan leiðbeinanda. Ef hægt er ætti hann að vera bróðir sem les vel og hefur góð tök á heimamálinu. Ef enginn bróðir er tiltækur geta öldungarnir beðið færa systur, sem er til fyrirmyndar, að aðstoða. Hún ætti að bera höfuðfat meðan hún er að kenna. — 1. Kor. 11:3-10; 1. Tím. 2:11, 12.

Til er bæklingur sem nefnist Apply Yourself to Reading and Writing (Lærðu að lesa og skrifa) og hefur hann verið gefinn út á mörgum tungumálum til að nota við lestrar- og skriftarkennslu. Hægt er að velja annað kennsluefni með hliðsjón af lestrarkunnáttu nemenda. Þegar nemendur hafa náð viðunandi árangri ætti að hvetja þá til að taka þátt í hinni reglulegu dagskrá Boðunarskólans.

Þú getur gert söfnuðinum mikið gagn sem umsjónarmaður Boðunarskólans. Þér er trúað fyrir mikilvægu verkefni. Undirbúðu þig vel og sinntu því af alúð í samræmi við leiðbeiningarnar í Rómverjabréfinu 12:6-8.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila