Boðunarskólinn menntar okkur í því sem mestu máli skiptir
1 Fólk gengur í skóla til að afla sér menntunar sem gerir því kleift að ná markmiðum sínum í lífinu. En hvaða markmið getur verið verðugra en að lofa lífgjafa okkar og hjálpa öðrum að kynnast vegum hans og ásetningi? Ekkert. Það er markmið Boðunarskólans að mennta okkur svo að við getum kennt öðrum trú okkar. Þess vegna erum við að mennta okkur í því sem mestu máli skiptir í lífinu þegar við sækjum skólann í hverri viku.
2 „Dagskrá Boðunarskólans árið 2003“ birtist í Ríkisþjónustu okkar í síðasta mánuði. Þar er gerð grein fyrir því hvernig skólanum verður háttað. Þú ættir að geyma dagskrána í Boðunarskólabókinni þinni sem þú tekur með þér í skólann í hverri viku. Lítum á helstu þætti skóladagskrárinnar fyrir árið 2003.
3 Þjálfunarliður: Frá og með janúarbyrjun hefst skólasamkoman á fimm mínútna ræðu um ákveðinn þjálfunarlið sem snýr að lestri, námi eða kennslu. Umsjónarmaður skólans flytur þessa ræðu eða felur öðrum hæfum öldungi að gera það. Ræðumaðurinn skilgreinir kannski í hverju þjálfunarliðurinn er fólginn og ræðir um þýðingu hans. Hann ætti síðan að auka við efnið með því að nefna dæmi úr Biblíunni og sýna fram á hvernig þessi þjálfunarliður kemur að gagni, sérstaklega hvernig hann getur verið til framfara í boðunarstarfinu.
4 1. verkefni: Bræðrum, sem falið er að flytja kennsluræðuna, er enn á ný bent á að ‚beina athyglinni að hagnýtu gildi efnisins.‘ Þetta merkir að þeir þurfa að sýna söfnuðinum fram á hvernig efnið kemur að notum. Ef þér er falið þetta verkefni skaltu fara yfir tillögur um undirbúning á blaðsíðu 48-9 í Boðunarskólabókinni og skoða tilvísanir í atriðisorðaskránni undir „Hagnýt heimfærsla.“
5 Biblíulestraráætlun: Ef þér hefur ekki tekist að fylgja hinni vikulegu biblíulestraráætlun fram til þessa, væri þá ekki ráð að gera bragarbót á því þetta árið? Þeir sem gera það ljúka við að lesa kristnu Grísku ritningarnar undir lok ársins. Í 4. grein á blaðsíðu 10 í Boðunarskólabókinni er fjallað um kosti þess að hefja reglulegan biblíulestur í kristnu Grísku ritningunum.
6 Höfuðþættir biblíulesefnisins: Þessi dagskrárliður hefur verið lengdur í tíu mínútur til að gefa áheyrendum tækifæri til að tjá sig um lesefni vikunnar. Þeir sem sjá um þetta verkefni ættu að halda sig innan tímamarka. Höfuðþættirnir verða á dagskrá allar vikur ársins, einnig í vikunni þegar munnleg upprifjun fer fram. Þegar þú lest úthlutaða kafla skaltu vera vakandi fyrir atriðum sem koma þér að gagni í fjölskyldunáminu, boðunarstarfinu eða á öðrum sviðum í lífinu. Hvaða eiginleikar Jehóva komu fram í samskiptum hans við menn og þjóðir? Hvað lærðir þú sem styrkti trúna og þakklætið til Jehóva? Þú mátt tjá þig um hvað sem er af lesefninu, einnig versin sem lesin eru í 2. verkefni skólans því að bróðirinn, sem sér um það verkefni, kemur ekki með skýringar á versunum.
7 2. verkefni: Fyrsta nemendaverkefni hverrar viku er æfing í upplestri. Lesinn er hluti af biblíulesefni vikunnar nema í síðustu viku mánaðarins, þá er lesið upp úr Varðturninum. Nemandinn ætti að lesa hið úthlutaða efni án inngangs- og niðurlagsorða. Þannig getur hann einbeitt sér að lestrarfærninni. — 1. Tím. 4:13.
8 3. og 4. verkefni: Sum þessara verkefna styðjast við bókina Reasoning from the Scriptures (Rökræðubókina), og er þá vísað í mismikið efni í henni, en stundum er aðeins gefið upp stef. Þeir sem fá uppgefið takmarkað heimildarefni eða aðeins stefið, fá tækifæri til að vinna verkefnið með því að leita fanga í ritum okkar. Þetta getur auðveldað systrum að sníða umræðurnar að þörfum aðstoðarmanna sinna.
9 Sviðsetning: Umsjónarmaður skólans getur úthlutað þátttakanda sviðsetningu eins og fram kemur á blaðsíðu 45 í Boðunarskólabókinni. Ef hann gerir það ekki mega systurnar velja sviðsetningu af listanum á blaðsíðu 82. Ef systur eru með verkefni á tveggja mánaða fresti bjóða þessar 30 sviðsetningar upp á fjölbreytta möguleika í fimm ár. Systur, sem velja sviðsetningu nr. 30, „Önnur sviðsetning sem á við á svæðinu,“ ættu að skrifa sviðsetninguna neðst á úthlutunarblaðið (S-89) eða aftan á það. Umsjónarmaður skólans skrifar dagsetninguna á blaðsíðu 82 í bókinni við þá sviðsetningu sem hún notaði. Hann getur gert það um leið og hann færir inn upplýsingar á ráðleggingasíðu nemandans.
10 Ráðleggingasíður: Nú er ekki lengur gefið út sérstakt ráðleggingablað heldur eru þjálfunarliðirnir taldir upp á blaðsíðu 79-81 í bókinni. Þú þarft því að afhenda umsjónarmanni skólans bókina eftir hverja ræðu sem þú flytur. Umsjónarmaðurinn þarf sjálfur að halda skrá um það hvaða þjálfunarlið nemandinn er að vinna að hverju sinni.
11 Munnleg upprifjun: Héðan í frá verður rifjað upp munnlega það efni sem farið hefur verið yfir í Boðunarskólanum. Upprifjunin er gerð á tveggja mánaða fresti og tekur hálfa klukkustund. Spurningarnar, sem á að svara, birtast í Ríkisþjónustu okkar eins og verið hefur. Ef svæðismót er haldið í vikunni sem upprifjunin á að fara fram eða ef farandhirðirinn heimsækir söfnuðinn í þeirri viku skal færa ræður næstu viku fram um eina viku og upprifjunin skal síðan fara fram viku seinna en tilgreint er í dagskránni.
12 Aðrar skólastofur: Ef fleiri en 50 nemendur eru skráðir í skólann mætti huga að því að opna fleiri skólastofur handa nemendum. „Flytja mætti allar nemendaræður í hinum skólastofunum eða aðeins tvær síðustu.“ (Boðunarskólabókin, bls. 285) Síðarnefnda tillagan er ætluð söfnuðum þar sem systur eru margar en fáir bræður eru til að annast upplestrarverkefni. Öldungarnir ættu að velja hæfa bræður til að leiðbeina í þessum skólastofum.
13 Aðstoðarleiðbeinandi: Eins og fram kemur í dagskrá Boðunarskólans ætti öldungaráðið að velja aðstoðarleiðbeinanda til að leiðbeina öldungum og safnaðarþjónum sem sjá um höfuðþætti biblíulesefnisins og kennsluræðuna. Þessar leiðbeiningar eru gefnar einslega. Það ætti að velja reyndan bróður til að sjá um þetta verkefni svo að hinir öldungarnir virði ráðleggingar hans. Ráðleggingarnar ættu að vera uppbyggjandi. Leiðbeinandinn ætti að hrósa fyrir góða ræðumennsku og kennslutækni og benda á eitt eða tvennt sem gæti verið til bóta. Ef bróðir er oft með ræðu er engin ástæða til að leiðbeina honum eftir hverja ræðu. Aðstoðarleiðbeinandinn ætti samt sem áður að vera skarpskyggn og hafa hugfast að bræður, sem flytja opinbera fyrirlestra, geta samt sem áður bætt sig. — 1. Tím. 4:15.
14 Eftir hverju á að hlusta? Hvað getur leiðbeinandi gert til að brjóta ræðuverkefni til mergjar? Í þriðju rammagreininni í flestum köflum Boðunarskólabókarinnar er stutt ágrip af því sem hlusta ætti eftir. Umsjónarmaður skólans ætti einnig að gefa gaum að öðrum ábendingum eða tillögum bókarinnar sem auðvelda honum að vera fljótur að leggja mat á samfellda úrvinnslu verkefnisins og áhrif þess. Taktu til dæmis eftir spurningunum efst á blaðsíðu 55 og hugmyndunum sem slegið er fram í síðustu greininni á blaðsíðu 163.
15 Fylltu í eyðurnar: Boðunarskólabókin er með breiðum spássíum en auk þess eru auðar línur á eftir sumum köflunum þar sem þú getur bætt við athugasemdum í einkanámi þínu og meðan skólinn stendur yfir. (Sjá blaðsíðu 77, 92, 165, 243, 246 og 250.) Taktu bókina með þér í skólann í hverri viku. Fylgstu með í bókinni meðan fyrsta ræðan er flutt. Hafðu bókina opna það sem eftir er skólans. Taktu eftir ábendingum umsjónarmannsins. Fylgstu með kennsluaðferðum, spurningum, dæmum, myndmáli, líkingum, andstæðum og nýsigögnum sem þátttakendur nota. Vertu duglegur að skrifa hjá þér minnispunkta því að það auðveldar þér að rifja upp allan þann lærdóm sem skólinn veitir.
16 Jesú Kristi var ljóst að boðun fagnaðarerindisins um ríkið var göfugasta verkefni sem nokkur maður getur fengið. Það var aðalverkefni hans. (Mark. 1:38) „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur,“ sagði hann. (Lúkas 4:43) Við höfum þegið boðið um að fylgja honum, þannig að við erum líka upptekin af því að boða fagnaðarerindið, og við leggjum okkur kappsamlega fram um að bæta ‚lofgjörðarfórnina‘ sem við færum. (Hebr. 13:15) Verum því staðráðin í að taka reglulega þátt í Boðunarskólanum sem hefur það hlutverk að búa okkur undir það sem mestu máli skiptir í lífinu.