SAGA 68
Elísabet eignast barn
Meira en 400 ár voru liðin frá því að múrar Jerúsalem voru endurreistir. Prestur sem hét Sakaría og Elísabet konan hans bjuggu nálægt borginni. Þau höfðu verið gift í mörg ár en áttu engin börn. Einn daginn þegar Sakaría var að brenna reykelsi í musterinu birtist engillinn Gabríel. Sakaría varð hræddur en Gabríel sagði: ‚Ekki vera hræddur. Ég er með góðar fréttir handa þér frá Jehóva. Elísabet konan þín mun fæða son og hann á að heita Jóhannes. Jehóva hefur valið Jóhannes til að vinna sérstakt verkefni.‘ Sakaría spurði: ‚Hvernig get ég treyst því sem þú segir? Við Elísabet erum orðin of gömul til að eignast barn.‘ Gabríel sagði: ‚Guð sendi mig til að segja þér þetta. En af því að þú trúðir mér ekki muntu ekki geta talað fyrr en barnið er fætt.‘
Sakaría var óvenju lengi inni í musterinu. Þegar hann kom loksins út vildi fólkið fá að vita hvað hafði gerst. Sakaría gat ekki talað. Hann gat bara gert tákn með höndunum. Þá skildi fólkið að Sakaría hafði fengið skilaboð frá Guði.
Elísabet varð síðan ólétt og fæddi lítinn strák, alveg eins og engillinn var búinn að segja. Vinir hennar og ættingjar komu til að sjá barnið. Þeir voru mjög glaðir að hún skyldi hafa eignast barn. Elísabet sagði: „Hann á að heita Jóhannes.“ Þeir sögðu: ‚Það er enginn í fjölskyldunni þinni sem heitir Jóhannes. Láttu hann heita Sakaría eins og pabbi hans.‘ En Sakaría skrifaði á spjald: „Hann heitir Jóhannes.“ Þá gat Sakaría allt í einu talað aftur. Fólk alls staðar í Júdeu frétti af barninu og það hugsaði með sér: „Hvað skyldi verða úr þessu barni?“
Þá fylltist Sakaría heilögum anda og spáði: ‚Lofaður sé Jehóva. Hann lofaði Abraham að hann myndi senda Messías til að frelsa okkur. Jóhannes verður spámaður og hann mun gera fólk tilbúið fyrir Messías.‘
En María frænka Elísabetar upplifði líka svolítið sérstakt. Lesum um það í næstu sögu.
„Mönnum er það ógerlegt en Guð getur allt.“ – Matteus 19:26.