SAGA 82
Jesús kennir lærisveinum sínum að biðja
Allt sem farísearnir gerðu var til að sýnast fyrir fólki. Ef þeir gerðu eitthvað gott var það bara til að aðrir myndu taka eftir því. Þegar þeir fóru með bæn gerðu þeir það þar sem aðrir gátu séð til þeirra. Farísearnir lærðu langar bænir utan að og fóru með þær í samkunduhúsum og úti á götu þar sem aðrir gátu heyrt í þeim. Það kom fólkinu þess vegna á óvart þegar Jesús sagði: ‚Ekki biðja eins og farísearnir. Þeir halda að Guð verði ánægður með langar bænir þeirra, en hann er það ekki. Bænir þínar eru milli þín og Jehóva. Ekki segja það sama aftur og aftur. Jehóva vill að þú segir honum hvernig þér líður innst inni.
Svona skuluð þið biðja: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist. Við biðjum að ríki þitt komi og vilji þinn verði á jörð eins og á himni.“‘ Jesús sagði þeim líka að biðja um mat fyrir daginn, um að vera fyrirgefið fyrir syndir sínar og um annað sem tengdist þeim sjálfum.
Jesús sagði: ‚Hættið aldrei að biðja. Haldið áfram að biðja Jehóva, föður ykkar, um það sem er gott. Allir foreldrar vilja gefa börnunum sínum það sem er gott. Myndirðu gefa syni þínum stein ef hann myndi biðja um brauð? Myndirðu gefa honum snák ef hann bæði þig um fisk?‘
Síðan útskýrði Jesús hvað hann var að meina: ‚Þið vitið hvað börnin ykkar vilja og gefið þeim góðar gjafir. Jehóva er faðir okkar á himnum og hann vill mjög gjarnan gefa okkur heilagan anda. Þú þarft bara að biðja hann um það.‘ Jesús gaf okkur góð ráð um hvernig við eigum að biðja. Hvað ert þú vanur að biðja um?
„Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur.“ – Matteus 7:7.