SAGA 81
Fjallræðan
Þegar Jesús var búinn að velja postulana tólf kom hann niður af fjallinu á stað þar sem fullt af fólki var búið að safnast saman. Fólkið var komið frá Galíleu, Júdeu, Týrus, Sídon, Sýrlandi og frá svæðinu hinum megin við Jórdan. Það kom með fólk sem var veikt og nokkra sem illir andar voru í. Jesús læknaði alla. Síðan settist hann í fjallshlíðina og byrjaði að tala. Hann útskýrði hvað við þurfum að gera ef við viljum vera vinir Guðs. Hann sagði að við þyrftum að skilja að við þurfum á Jehóva að halda og að við verðum að kynnast honum og elska hann. En við getum ekki elskað Guð ef við elskum ekki annað fólk. Við þurfum að vera góð og sanngjörn við alla, meira að segja óvini okkar.
Jesús sagði: ‚Það er ekki nóg að þú elskir bara vini þína. Þú þarft líka að elska óvini þína og þegar þú fyrirgefur öðrum áttu að meina það í alvörunni. Ef einhver er ósáttur við þig skaltu fara strax til hans og segja fyrirgefðu. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.‘
Jesús gaf fólkinu líka góð ráð um það að eiga hluti. Hann sagði: ‚Það er mikilvægara að vera vinur Jehóva heldur en að eiga mikið af peningum. Þjófur getur stolið peningunum þínum en ef þú ert vinur Jehóva getur enginn stolið því frá þér. Hættið að hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að borða, drekka eða hvaða fötum þið eigið að vera í. Horfið á fuglana. Guð sér alltaf um að þeir hafi nóg að borða. Enginn fær lengra líf með því að hafa áhyggjur. Mundu að Jehóva veit hvað þú þarft.‘
Fólkið hafði aldrei heyrt neinn tala eins og Jesús gerði. Trúarleiðtogarnir – farísearnir og fræðimennirnir – höfðu ekki kennt fólkinu þetta. Af hverju var Jesús svona frábær kennari? Af því að allt sem hann kenndi var frá Jehóva.
„Takið á ykkur mitt ok og lærið af mér því að ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta, og þá endurnærist þið.“ – Matteus 11:29.