SAGA 103
„Við biðjum að ríki þitt komi“
Jehóva er búinn að gefa þetta loforð: ‚Það verður enginn leiður lengur og það mun enginn finna til, vera veikur eða deyja. Ég ætla að þurrka tárin af augum allra. Allt það vonda sem hefur gerst verður gleymt.‘
Jehóva setti Adam og Evu í Edengarðinn og vildi að þau yrðu hamingjusöm. Þau áttu að tilbiðja föður sinn á himnum, eignast börn og fylla jörðina. Adam og Eva óhlýðnuðust Jehóva, en hann vildi enn þá að fólk byggi í paradís. Í þessari bók höfum við séð að Guð stendur alltaf við loforð sín. Ríki hans mun láta öllum líða vel á jörðinni, alveg eins og hann lofaði Abraham.
Bráðum verða Satan, illir andar hans og allt vont fólk horfið. Þá munu allir tilbiðja Jehóva. Við verðum ekki veik eða deyjum heldur vöknum við á hverjum degi með fullt af orku og glöð yfir því að vera á lífi. Jörðin verður að paradís. Allir munu eiga góðan mat og öruggt heimili. Enginn verður vondur eða grimmur því að allir verða góðir. Villidýr verða ekki hrædd við okkur og við verðum ekki hrædd við þau.
Það verður mjög spennandi þegar Jehóva byrjar að reisa fólk upp frá dauðum. Við munum taka vel á móti fólki sem var til í gamla daga, eins og Abel, Nóa, Abraham, Söru, Móse, Rut, Ester og Davíð. Þau verða með okkur í að gera jörðina að paradís. Það verður alltaf eitthvað spennandi að gera.
Jehóva vill að þú verðir þar. Þú átt eftir að kynnast Jehóva betur en þér hefur nokkurn tíma dottið í hug. Við skulum halda áfram að verða betri vinir Jehóva, núna og að eilífu!
„Jehóva Guð okkar, þú ert þess verðugur að fá dýrðina, heiðurinn og máttinn því að þú skapaðir allt.“ – Opinberunarbókin 4:11.