Aftanmálsgreinar
1. Að bera kennsl á Babýlon hina miklu
Hvernig vitum við að „Babýlon hin mikla“ táknar falstrúarbrögðin í heild? (Opinberunarbókin 17:5) Hugleiddu eftirfarandi:
Hún er að verki um allan heim. Babýlon hin mikla er sögð sitja yfir ‚fólki og þjóðum‘. Hún „ríkir yfir konungum jarðarinnar“. – Opinberunarbókin 17:15, 18.
Hún getur hvorki táknað stjórnmálavald né viðskiptavald. „Konungar jarðar“ og „kaupmennirnir“ lifa af eyðingu hennar. – Opinberunarbókin 18:9, 15.
Hún gefur ranga mynd af Guði. Hún er kölluð vændiskona vegna þess að hún gerir bandalag við stjórnvöld fyrir peninga eða aðra greiða. (Opinberunarbókin 17:1, 2) Hún blekkir fólk af öllum þjóðum. Og hún á sök á dauða margra. – Opinberunarbókin 18:23, 24.
2. Hvenær átti Messías að koma?
Biblían sagði fyrir að það ættu að líða 69 vikur þar til hann kæmi. – Lestu Daníel 9:25.
Hvenær byrjuðu vikurnar 69? Árið 455 f.Kr. Það ár kom Nehemía landstjóri til Jerúsalem til að „endurreisa og endurbyggja“ borgina. – Daníel 9:25; Nehemíabók 2:1, 5–8.
Hvað voru vikurnar 69 langar? Í sumum spádómum Biblíunnar er dagur látinn tákna ár. (4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6) Hver vika stendur því fyrir sjö ár. Í þessum spádómi eru 69 vikur 483 ár (69 x 7).
Hvenær lauk vikunum 69? Ef maður telur 483 ár frá 455 f.Kr. kemur maður að árinu 29 e.Kr.a Það var einmitt það ár sem Jesús lét skírast og varð Messías. – Lúkas 3:1, 2, 21, 22.
3. Læknismeðferðir sem tengjast blóðgjöfum
Þjónar Guðs þiggja hvorki blóðgjafir né gefa blóð. En í sumum læknismeðferðum er notað blóð úr sjúklingnum sjálfum. Sumar þeirra – eins og að geyma eigið blóð fyrir fyrirhugaða aðgerð – koma ekki til greina fyrir þjóna Guðs. – 5. Mósebók 15:23.
En aðrar aðferðir gætu verið í lagi fyrir þjón Guðs, eins og til dæmis blóðrannsóknir, blóðskilun, blóðvökvaaukning, endurvinnsla blóðs eða notkun hjarta- og lungnavéla. Hver og einn þarf að ákveða sjálfur hvernig farið er með blóð hans í aðgerð, læknisrannsókn eða yfirstandandi meðferð. Þar sem það getur verið smávægilegur munur á starfsháttum lækna þarf þjónn Guðs að kynna sér vel – áður en hann gengst undir skurðaðgerð, læknisrannsókn eða meðferð – hvernig blóð hans yrði meðhöndlað. Hugleiddu eftirfarandi spurningar:
Hvað ef einhverju af blóði mínu er veitt út úr líkamanum og blóðflæðið er jafnvel stöðvað um tíma? Leyfir samviskan mér þá að líta svo á að blóðið sé enn þá hluti af mér þannig að það þurfi ekki að „hella því á jörðina“? – 5. Mósebók 12:23, 24.
Hvað ef mér væri í tengslum við meðferð dregið blóð sem væri síðan breytt á einhvern hátt og veitt aftur inn í líkama minn (eða lagt á sárið)? Myndi það angra biblíufrædda samvisku mína eða gæti ég þegið slíka meðferð?
4. Samvistaslit hjóna
Orð Guðs hvetur hjón til að slíta ekki samvistum og segir skýrt að það gæfi hvorugu hjónanna leyfi til að gifta sig aftur. (1. Korintubréf 7:10, 11) En sumir þjónar Jehóva hafa við vissar aðstæður íhugað að slíta samvistum við maka sinn.
Vísvitandi vanræksla: Eiginmaður neitar að sjá fjölskyldu sinni farborða svo að fjölskyldan á ekki fyrir lífsnauðsynjum. – 1. Tímóteusarbréf 5:8.
Alvarlegt líkamlegt ofbeldi: Ofbeldi getur stofnað heilsu og lífi makans í hættu. – Galatabréfið 5:19–21.
Andlegri og trúarlegri velferð stofnað í hættu: Annað hjónanna gerir hinu ókleift að þjóna Jehóva. – Postulasagan 5:29.
5. Hátíðir
Þjónar Jehóva taka ekki þátt í hátíðum sem eru honum vanþóknanlegar. En hver og einn þarf af nota biblíufrædda samvisku sína til að taka ákvörðun um hvað hann ætli að gera í aðstæðum sem snerta slíkar hátíðir. Skoðaðu eftirfarandi dæmi:
Einhver óskar þér gleðilegrar hátíðar. Þú gætir einfaldlega sagt: „Takk fyrir.“ Ef viðkomandi vill vita meira geturðu útskýrt fyrir honum af hverju þú heldur ekki hátíðina.
Maki þinn, sem er ekki vottur Jehóva, býður þér að borða með ættingjum á hátíðisdegi. Ef samviska þín leyfir þér að fara geturðu útskýrt fyrir maka þínum fyrir fram að þú munir ekki taka þátt í heiðnum siðum.
Vinnuveitandi þinn gefur þér bónus í kringum hátíðirnar. Ættirðu að afþakka hann? Ekki endilega. Lítur vinnuveitandinn á bónusinn sem hluta af hátíðarhöldunum eða lítur hann einfaldlega á hann sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf?
Einhver gefur þér gjöf í kringum hátíðina. Hann segir kannski: „Ég veit að þú heldur ekki upp á hátíðina en mig langar að gefa þér þetta.“ Kannski er hann bara að sýna góðvild. Eða er ástæða til að halda að hann sé að reyna trú þína eða reyna að fá þig til að taka þátt í hátíðinni? Þú getur hugleitt það og ákveðið síðan hvort þú þiggir gjöfina. Við viljum að allar ákvarðanir okkar geri okkur kleift að hafa hreina samvisku og vera Jehóva trú. – Postulasagan 23:1.
6. Smitsjúkdómar
Við gætum vel að því að dreifa ekki smitsjúkdómum vegna þess að okkur er annt um fólk. Það á við hvort sem við erum sjálf með smitandi sjúkdóm eða gætum verið smitberar. Við gerum það vegna þess að Biblían segir: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – Rómverjabréfið 13:8–10.
Hvernig getum við fylgt þessum fyrirmælum? Sá sem er sýktur ætti ekki að eiga frumkvæði að því að faðma eða kyssa aðra. Hann ætti ekki að taka því illa ef öðrum finnst þeir ekki geta boðið honum inn á heimili sitt af öryggisástæðum fyrir fjölskylduna. Og áður en hann lætur skírast ætti hann að láta umsjónarmann öldungaráðsins vita af sjúkdómnum til að hægt sé að gera ráðstafanir til verndar öðrum skírnþegum. Sá sem gæti hafa verið útsettur fyrir smiti ætti að fara sjálfviljugur í blóðprufu áður en hann byrjar tilhugalíf. Með því að gera þetta sýnum við að okkur er annt um aðra og að við ‚hugsum ekki aðeins um eigin hag heldur einnig hag annarra‘. – Filippíbréfið 2:4.
7. Fjárhagsleg og lagaleg mál
Við getum komist hjá mörgum vandamálum með því að gera skriflegan samning um allt sem tengist fjármálum, jafnvel milli trúsystkina. (Jeremía 32:9–12) En það geta stundum komið upp lítils háttar missætti milli trúsystkina um peninga eða önnur mál. Það ætti að vera hægt að leysa fljótt úr slíkum málum á friðsaman hátt og í einrúmi.
En hvernig ættum við að taka á alvarlegum málum eins og fjársvikum eða rógburði? (Lestu Matteus 18:15–17.) Jesús benti á þrjú skref:
Reynið að leysa málið undir fjögur augu. – Sjá 15. vers.
Ef það dugir ekki til skaltu biðja einn eða tvo þroskaða boðbera að fara með þér. – Sjá 16. vers.
Ef málið er enn óleyst geturðu leitað til öldunganna. – Sjá 17. vers.
Yfirleitt ættum við ekki að fara með deilumál við trúsystkini fyrir rétt því að það gæti komið óorði á Jehóva og söfnuðinn. (1. Korintubréf 6:1–8) En sum mál getur þurft að leysa fyrir dómstólum, svo sem lögskilnaði, forræðismál, meðlagagreiðslur, tryggingabótakröfur, gjaldþrotamál eða staðfestingar erfðaskráa. Þjónn Jehóva sem leysir úr slíkum málum fyrir dómstólum eins friðsamlega og hann getur óvirðir ekki ráð Biblíunnar.
Þjónn Jehóva sem kærir alvarlegan glæp til yfirvalda – svo sem nauðgun, ofbeldi gegn barni, líkamsárás, stórfelldan þjófnað eða morð – óvirðir ekki ráð Biblíunnar.
a Frá 455 f.Kr. til 1 f.Kr. eru 454 ár. Frá 1 f.Kr. til 1 e.Kr. er eitt ár (núllár er ekki til). Og frá 1 e.Kr. til 29 e.Kr. eru 28 ár. Samtals gera það 483 ár.