Júní
Miðvikudagur 1. júní
„Við vorum ekki aðeins ákveðnir í að gefa ykkur fagnaðarboðskap Guðs heldur líka okkar eigið líf.“ – 1. Þess. 2:8.
Kennarar verða að láta sér annt um nemendur sína. Innan skamms gætu þeir orðið bræður eða systur í söfnuðinum. Það er ekki auðvelt fyrir þá að segja skilið við vini sína í heiminum og gera þær breytingar sem þarf til að þjóna Jehóva. Færir biblíukennarar kynna nemendur sína fyrir öðrum í söfnuðinum sem geta haft góð áhrif á þá. Nemendurnir geta þá notið félagsskapar við þjóna Jehóva sem geta veitt þeim stuðning og hjálpað þeim að byggja upp sterka trú. Við viljum að hverjum og einum nemanda finnist hann tilheyra söfnuðinum og okkar andlegu fjölskyldu. Við viljum að hann laðist að hlýju og kærleiksríku bræðralagi okkar. Þá á hann auðveldara með að hætta að eiga náin samskipti við þá sem hvetja hann ekki til að elska Jehóva. (Orðskv. 13:20) Ef fyrrverandi vinir hafna honum veit hann að hann getur eignast sanna vini í söfnuði Jehóva. – Mark. 10:29, 30; 1. Pét. 4:4. w20.10 17 gr. 10, 11
Fimmtudagur 2. júní
„Mér hefur verið gefið allt vald á himni og jörð.“ – Matt. 28:18.
Við þurfum að vera vinir Jesú til að eiga gott samband við Jehóva. Hvers vegna? Skoðum tvær ástæður. Í fyrsta lagi sagði Jesús við lærisveina sína: „Faðirinn sjálfur elskar ykkur því að þið hafið elskað mig.“ (Jóh. 16:27) Hann sagði líka: „Enginn kemst til föðurins án mín.“ (Jóh. 14:6) Að reyna að vera vinur Jehóva án þess að tengjast Jesú nánum vináttuböndum er eins og að reyna að komast inn í hús án þess að nota dyrnar. Jesús notaði svipað myndmál þegar hann sagðist vera „dyr sauðanna“. (Jóh. 10:7) Önnur ástæða er að Jesús endurspeglaði eiginleika föður síns fullkomlega. Hann sagði við lærisveina sína: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Að læra um líf Jesú er því mikilvæg leið til að kynnast Jehóva. Eftir því sem við lærum meira um Jesú vex kærleikur okkar til hans. Og þegar vinátta okkar við hann verður nánari styrkist um leið kærleikur okkar til föður hans. w20.04 21–22 gr. 5, 6
Föstudagur 3. júní
Ég gleðst því yfir að mega þola veikleika. Þegar ég er veikburða er ég sterkur. – 2. Kor. 12:10.
Ert þú rúmfastur eða bundinn við hjólastól? Ertu slæmur í hnjánum eða með lélega sjón? Geturðu þá hlaupið með þeim sem eru ungir og hraustir? Svo sannarlega! Margir eldri og veikburða hlaupa eftir veginum til lífsins. Þeir geta það ekki í eigin krafti. Þeir fá styrk frá Jehóva með því að hlusta á samkomur í gegnum síma eða horfa á þær í streymi. Og þeir taka þátt í að gera fólk að lærisveinum með því að boða læknum, hjúkrunarfræðingum og ættingjum trúna. Þú skalt aldrei láta vanmáttarkennd vegna líkamlegra takmarka þinna sannfæra þig um að þú sért of veikburða til að hlaupa eftir veginum til lífsins. Jehóva elskar þig fyrir trú þína á hann og allt sem þú hefur gert í þjónustu hans. Þú þarft meira á hjálp hans að halda núna en nokkurn tíma fyrr og hann mun ekki bregðast þér. (Sálm. 9:11) Hann nálgast þig öllu heldur enn meira. w20.04 29 gr. 16, 17
Laugardagur 4. júní
„Ég geri allt vegna fagnaðarboðskaparins svo að ég geti miðlað honum til annarra.“ – 1. Kor. 9:23.
Hvað gætirðu rætt um við þann sem er trúaður? Reyndu að finna sameiginlegan grunn til að byggja á. Kannski tilbiður hann aðeins einn guð. Hann viðurkennir kannski Jesú sem frelsara mannkyns eða að tímarnir sem við lifum á séu vondir en að þeir taki brátt enda. Þegar þú kemur boðskap Biblíunnar á framfæri skaltu byggja umræðurnar á því sem þið eruð sammála um. Þegar þú gerir það er líklegra að hann vilji hlusta á þig. Höfum í huga að margir trúa kannski ekki öllu sem trúfélag þeirra kennir. Reyndu þess vegna að komast að því hverju fólk trúir sjálft þótt þú hafir fengið að vita hvaða trúfélagi það tilheyrir. Bróðir sem er trúboði bendir á að sumir segist trúa á þrenninguna en telja ekki endilega að faðirinn, sonurinn og heilagur andi séu einn guð. Hann segir: „Þegar ég hef það í huga á ég auðveldara með að ræða við fólk út frá því sem við getum verið sammála um.“ Reyndu því að komast að því hverju fólk trúir í raun og veru. Þá geturðu, líkt og Páll postuli, ,orðið öllum allt‘. – 1. Kor. 9:19–22. w20.04 10 gr. 9, 10
Sunnudagur 5. júní
„Á þeim tíma mun þjóð þín bjargast, allir þeir sem skráðir eru í bókinni.“ – Dan. 12:1.
Við getum horft örugg til framtíðarinnar vegna þess að bæði Daníel og Jóhannes staðfesta að þeir sem þjóna Jehóva og Jesú muni lifa af mestu hörmungatíma sögunnar. Daníel segir að þeir sem lifa af hafi nafn sitt ,skráð í bókinni‘. Hvernig getum við fengið nafn okkar skráð í þessa bók? Við verðum að gefa skýrt merki um að við trúum á Jesú sem er lamb Guðs. (Jóh. 1:29) Við verðum að láta skírast til tákns um að við séum vígð Guði. (1. Pét. 3:21) Og við verðum að sýna að við styðjum Guðsríki með því að leggja okkur fram við að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Núna er rétti tíminn til að styrkja traust okkar til Jehóva og safnaðar hans sem samanstendur af trúföstum þjónum hans. Núna er rétti tíminn til að styðja ríki Guðs. Ef við gerum það verður okkur bjargað þegar Guðsríki tortímir konungi norðursins og konungi suðursins. w20.05 16 gr. 18, 19
Mánudagur 6. júní
„Jehóva, nafn þitt varir að eilífu.“ – Sálm. 135:13 NW.
Adam og Eva vissu að Guð hét Jehóva og þau þekktu ýmis mikilvæg sannindi um hann. Þau vissu að hann var skaparinn sem hafði gefið þeim lífið, paradísina sem var heimili þeirra og fullkominn maka. (1. Mós. 1:26–28; 2:18) En myndu þau hugleiða allt það góða sem Jehóva hafði gert fyrir þau? Myndu þau styrkja kærleikann og þakklætið til hans sem bar nafnið Jehóva? Því var svarað þegar óvinur Guðs lagði prófraun fyrir þau. Satan notaði höggorm sem málpípu og spurði Evu: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ (1. Mós. 2:16, 17; 3:1) Spurningin fól í sér dulbúna lygi sem eitraði huga Evu. Guð hafði sagt að þau hjónin mættu borða ávexti allra trjáa í garðinum með einni undantekningu. (1. Mós. 2:9) Satan ýjaði að því að Guð væri ekki örlátur. Eva velti kannski fyrir sér hvort Guð meinaði henni um eitthvað gott. w20.06 3–4 gr. 8, 9
Þriðjudagur 7. júní
„Haldið áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega.“ – Kól. 3:13.
Sumir þjónar Jehóva hafa móðgast við trúsystkini. Páll postuli nefndi að stundum gætum við haft „ástæðu til að kvarta undan“ bróður eða systur. Kannski hefur einhver verið ósanngjarn við okkur. Við gætum orðið gröm ef við pössum okkur ekki. Reiði getur orðið til þess að maður fjarlægist söfnuð Jehóva. Bróðir í Suður-Ameríku sem heitir Pablo var ranglega sakaður um að hafa brotið af sér og missti þess vegna þjónustuverkefni í söfnuðinum. Hvernig brást hann við? Hann segir: „Ég varð reiður og fjarlægðist söfnuðinn smám saman.“ Einnig getur samviskubit þjakað þann sem hefur brotið lög Guðs og látið honum finnast hann ekki verður þess að Jehóva elski sig og ekki nógu góður til að teljast þjónn Guðs þó að hann hafi iðrast og fengið fyrirgefningu. Hvernig lítur þú á bræður og systur sem líður svipað og í dæmunum hér að framan? w20.06 19 gr. 6, 7
Miðvikudagur 8. júní
„Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ – Orðskv. 22:3.
Það er mikilvægt að við sjáum fyrir og forðumst aðstæður þar sem samband okkar við Jehóva gæti beðið skaða. (Hebr. 5:14, neðanmáls) Það er til dæmis mikilvægt að við sýnum skynsemi í vali okkar á afþreyingu og skemmtiefni. Sjónvarpsþættir og kvikmyndir sýna oft siðlausa hegðun. Slík hegðun særir Jehóva og það er óhjákvæmilegt að hún valdi skaða. Við verðum því að forðast skemmtiefni sem gæti smám saman grafið undan kærleika okkar til Guðs. (Ef. 5:5, 6) Við þurfum líka að átta okkur á hættunni sem stafar af röngum upplýsingum fráhvarfsmanna þegar þeir reyna að sá efasemdum hjá okkur í garð trúsystkina okkar og safnaðar Jehóva. (1. Tím. 4:1, 7; 2. Tím. 2:16) Villandi upplýsingar af þessum toga gætu grafið undan trú okkar. Við verðum að varast að láta blekkjast af slíkum áróðri. Hvers vegna? Vegna þess að svona sögum er dreift af mönnum „sem hafa spillt hugarfar og skilja ekki lengur sannleikann“. Markmið þeirra er að koma af stað „þrætum og rökræðum“. (1. Tím. 6:4, 5) Þeir vilja að við trúum rógburði þeirra og hættum að treysta trúsystkinum okkar. w20.09 29 gr. 13, 15
Fimmtudagur 9. júní
„Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Kor. 10:24.
Hjón ættu að koma fram hvort við annað af ást og virðingu. (Ef. 5:33) Biblían kennir okkur að hugsa meira um að gefa en þiggja. (Post. 20:35) Auðmýkt er eiginleiki sem auðveldar hjónum að sýna ást og virðingu. Auðmýkt hefur hjálpað mörgum hjónum í söfnuðinum að verða enn ánægðari með hjónaband sitt. Eiginmaður að nafni Steven segir til dæmis: „Ef hjón eru teymi vinna þau saman, sérstaklega þegar upp koma vandamál. Í stað þess að hugsa hvað sé best fyrir mann sjálfan hugsar maður: Hvað er best fyrir okkur?“ Stephanie konan hans er á sama máli. „Það vill enginn búa með keppinaut,“ segir hún. „Þegar okkur greinir á reynum við að átta okkur á hvað veldur því. Við förum síðan með bæn, leitum upplýsinga í ritum okkar og ræðum hvernig við getum leyst málin. Við ráðumst ekki hvort á annað heldur á vandann.“ Það er hjónum sannarlega til góðs að líta ekki of stórt á sig. w20.07 3–4 gr. 5, 6
Föstudagur 10. júní
„Ég var kominn lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir af þjóð minni.“ – Gal. 1:14.
Treystum ekki á eigin styrk eða getu þegar við þjónum Jehóva. Páll postuli var vel menntaður – hann hlaut kennslu frá Gamalíel, einum virtasta trúarleiðtoga Gyðinga á þeim tíma. (Post. 5:34; 22:3) Á sínum tíma hafði Páll verið áhrifavaldur í samfélagi Gyðinga. (Post. 26:4) En Páll treysti ekki á sjálfan sig. Hann sagði fúslega skilið við það sem gerði hann mikilvægan í augum heimsins. (Fil. 3:8, neðanmáls) Páll greiddi það dýru verði að gerast fylgjandi Krists. Hans eigin þjóð hataði hann. (Post. 23:12–14) Hann var barinn og fangelsaður af rómverskum samborgurum sínum. (Post. 16:19–24, 37) Auk þess gerði Páll sér sárlega grein fyrir ófullkomleika sínum. (Rómv. 7:21–25) En hann ,gladdist yfir að mega þola veikleika‘ í stað þess að leyfa andstæðingum sínum og eigin ófullkomleika að lama sig. Hvers vegna? Vegna þess að þegar hann var veikburða fann hann fyrir krafti Guðs í lífi sínu. – 2. Kor. 4:7; 12:10. w20.07 16 gr. 7, 8
Laugardagur 11. júní
Hver sem trúir á mig mun vinna enn meiri verk. – Jóh. 14:12.
Við þurfum sannarlega að einbeita okkur að því að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið. Jesús sagði að þetta starf myndi aukast að umfangi og halda áfram eftir að hann dæi. Þegar hann hafði verið reistur upp gaf hann nokkrum lærisveinum mokveiði fyrir kraftaverk. Eftir kraftaverkið lagði hann áherslu á að verkefni þeirra að veiða menn væri mikilvægasta starfið. (Jóh. 21:15–17) Stuttu áður en Jesús fór til himna sagði hann lærisveinum sínum að boðunin sem hann hóf myndi ná langt út fyrir landamæri Ísraels. (Post. 1:6–8) Mörgum árum síðar gaf Jesús Jóhannesi postula sýn um það sem myndi eiga sér stað ,á Drottins degi‘. Jóhannes sá þennan tilkomumikla atburð: Engill lét flytja „eilífan fagnaðarboðskap ... hverri þjóð, ættflokki, tungu og kynþætti“. (Opinb. 1:10; 14:6) Jehóva vill augljóslega að við tökum þátt í þessari mikilfenglegu boðun þar til henni lýkur. w20.09 9 gr. 5
Sunnudagur 12. júní
„Vegna trúar var Abraham að því kominn að fórna Ísak þegar hann var reyndur.“ – Hebr. 11:17.
Það komu upp alvarleg vandamál í fjölskyldu Abrahams. Sara konan hans gat ekki átt börn. Í marga áratugi þurftu þau að sætta sig við þau vonbrigði. Á endanum gaf Sara manni sínum ambáttina Hagar til að hún gæti alið þeim barn. En þegar Hagar varð ófrísk að Ísmael fór hún að fyrirlíta Söru. Ástandið varð svo slæmt að Sara flæmdi Hagar að heiman. (1. Mós. 16:1–6) Að lokum varð Sara ófrísk og fæddi Abraham son sem hann gaf nafnið Ísak. Abraham elskaði báða syni sína. En Ísmael kom illa fram við Ísak og því neyddist Abraham til að senda Ísmael og Hagar burt. (1. Mós. 21:9–14) Síðar bað Jehóva Abraham að fórna Ísak. (1. Mós. 22:1, 2; Hebr. 11:17–19) Í báðum tilfellum þurfti Abraham að treysta að Jehóva myndi á sínum tíma efna loforð sín varðandi syni hans. w20.08 4 gr. 9, 10
Mánudagur 13. júní
Íklæðist hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs og byggist á sönnu réttlæti og hollustu. – Ef. 4:24.
Hugsaðu þér gleðina sem hinir upprisnu upplifa þegar þeir afklæðast sínum gamla persónuleika og lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Guðs. Þeir sem gera þessar breytingar fá að lifa að eilífu. Hins vegar leyfir Jehóva ekki þeim sem gera uppreisn gegn sér að lifa áfram og raska friðinum í paradís. (Jes. 65:20; Jóh. 5:28, 29) Undir stjórn Guðsríkis upplifa allir þjónar Guðs það sem segir í Orðskviðunum 10:22: „Blessun Jehóva auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ (NW) Með hjálp heilags anda Jehóva verða þjónar hans andlega ríkir, það er að segja sífellt líkari Kristi, og með tímanum verða þeir fullkomnir. (Jóh. 13:15–17; Ef. 4:23) Þeir styrkjast líkamlega með hverjum deginum og verða betri einstaklingar. Þá verður ánægjulegt að lifa! – Job. 33:25. w20.08 17 gr. 11, 12
Þriðjudagur 14. júní
Leggið ykkur fram um að sinna ykkar eigin málum. – 1. Þess. 4:11.
Við verðum að hafa í huga að sum einhleypra trúsystkina okkar hafa ákveðið að ganga ekki í hjónaband. Sum myndu vilja giftast en hafa einfaldlega ekki fundið réttu manneskjuna. Enn önnur trúsystkini hafa misst maka sinn í dauðann. En hvað sem því líður, er þá viðeigandi að aðrir í söfnuðinum spyrji þau hvers vegna þau séu ekki gift eða bjóðist til að hjálpa þeim að finna maka? Hvernig myndi þeim líða ef þeim yrði boðin aðstoð án þess að hafa beðið um hana? (1. Tím. 5:13) Einhleyp trúsystkini okkar verða þakklát ef við metum þau vegna góðra eiginleika en ekki vegna hjúskaparstöðu. Í stað þess að vorkenna þeim ættum við að vera þakklát fyrir trúfesti þeirra. Þá fá þau aldrei á tilfinninguna að við segjum við þau: „Ég þarf ekki á ykkur að halda.“ (1. Kor. 12:21) Og þau finna að við virðum þau og kunnum að meta hlutverk þeirra í söfnuðinum. w20.08 29 gr. 10, 14
Miðvikudagur 15. júní
Kristur birtist meira en 500 lærisveinum í einu. – 1. Kor. 15:6.
Seinna birtist Jesús Páli postula sjálfum. (1. Kor. 15:8) Páll (Sál) var á leið til Damaskus þegar hann heyrði rödd hins upprisna Jesú og sá hann í sýn á himnum. (Post. 9:3–5) Reynsla Páls var enn ein sönnun fyrir því að Jesús væri upprisinn. (Post. 26:12–15) Vitnisburður Páls var sérstaklega eftirtektarverður fyrir suma því að hann hafði áður ofsótt kristna menn. Eftir að Páll sannfærðist um að Jesús hefði verið reistur upp lagði hann sig allan fram um að sannfæra aðra um það. Hann þurfti að þola barsmíðar, fangavist og skipbrot þegar hann boðaði sannleikann um að Jesús hefði dáið en væri á lífi á ný. (1. Kor. 15:9–11; 2. Kor. 11:23–27) Páll var svo sannfærður um að Jesús hefði verið reistur upp frá dauðum að hann var tilbúinn að láta lífið til að verja trú sína. Sannfærir ekki vitnisburður frumkristinna manna þig um að Jesús hafi verið reistur upp frá dauðum? Og styrkir hann ekki trú þína á upprisuna? w20.12 3 gr. 8–10
Fimmtudagur 16. júní
Ef þið leitið til Jehóva lætur hann ykkur finna sig. – 2. Kron. 15:2.
Við gætum spurt okkur: Sæki ég safnaðarsamkomur að staðaldri? Á samkomum styrkjum við samband okkar við Jehóva og fáum hvatningu frá bræðrum okkar og systrum. (Matt. 11:28) Við gætum líka spurt okkur: Hef ég góða reglu á sjálfsnámi mínu? Tökum við fjölskyldan frá tíma í hverri viku fyrir biblíunámsstund fjölskyldunnar? Ef ég bý einn, tek ég þá samt frá tíma fyrir biblíunám eins og fjölskyldur gera? Og geri ég mitt besta til að taka þátt í að boða trúna og gera fólk að lærisveinum? Hvers vegna ættum við að spyrja okkur þessara spurninga? Biblían segir að Jehóva rannsaki hugsanir okkar og hjörtu. Það ættum við líka að gera. (1. Kron. 28:9) Ef við verðum vör við að við þurfum að breyta markmiðum okkar, viðhorfi eða hugsunarhætti ættum við að biðja Jehóva að hjálpa okkur að gera þessar breytingar. Nú er tíminn til að búa okkur undir að trú okkar verði reynd. w20.09 19 gr. 19, 20
Föstudagur 17. júní
„Enginn ykkar getur verið lærisveinn minn nema hann segi skilið við allt sem hann á.“ – Lúk. 14:33.
Jesús notaði dæmi til að sýna fram á hvað það felur í sér að gerast lærisveinn hans. Hann sagði frá manni sem vildi byggja turn og konungi sem vildi halda út í stríð. Jesús sagði að sá sem vildi byggja þyrfti ,fyrst að setjast niður og reikna kostnaðinn‘ til að geta lokið verkinu og að konungurinn þyrfti „að setjast fyrst niður með ráðgjöfum sínum“ til að ganga úr skugga um hvort her hans væri fær um að framkvæma ætlunarverkið. (Lúk. 14:27–32) Á sama hátt vissi Jesús að sá sem vill verða lærisveinn hans verður að hugleiða vandlega hvað hann þurfi að gera til að fylgja Jesú. Við þurfum þess vegna að hvetja biblíunemendur okkar til að rannsaka Biblíuna með okkur í hverri viku. Sem kennarinn þarftu að undirbúa þig vel fyrir hverja biblíunámsstund. Hafðu nemanda þinn í huga og íhugaðu hvernig þú ætlar að útskýra efnið á einfaldan og skýran hátt til að auðvelda honum að skilja efnið og fara eftir því. – Neh. 8:8; Orðskv. 15:28a. w20.10 7 gr. 5; 8 gr. 7
Laugardagur 18. júní
Farið því og gerið fólk að lærisveinum og kennið því að halda öll fyrirmæli mín. – Matt. 28:19, 20.
Það sem Jesús sagði er skýrt. Við verðum að kenna fólki það sem hann bauð. En það er eitt sem við megum alls ekki gleyma. Jesús sagði ekki: ,Kennið fólki öll fyrirmæli mín.‘ Þess í stað sagði hann: „Kennið því að halda öll fyrirmæli mín.“ Til að fara eftir þessu er ekki nóg að kenna biblíunemendum hvað þeir eiga að gera. Við þurfum líka að sýna þeim hvernig þeir geta gert það. (Post. 8:31) Að halda fyrirmæli merkir að fara eftir þeim. Þegar við leiðbeinum öðrum við biblíunám kennum við þeim hvers Guð krefst af okkur. En það er ekki nóg. Við verðum að kenna biblíunemendum okkar að fara eftir því sem þeir læra í daglegu lífi sínu. (Jóh. 14:15; 1. Jóh. 2:3) Við þurfum að sýna nemendum okkar hvernig þeir geta farið eftir meginreglum Biblíunnar í skólanum, vinnunni eða þegar þeir njóta afþreyingar. Við getum beðið til Jehóva með nemanda okkar um að hann leiðbeini honum með heilögum anda sínum. – Jóh. 16:13. w20.11 2–3 gr. 3–5
Sunnudagur 19. júní
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ – Sak. 4:6.
Lærisveinar Jesú þurftu að glíma við ýmsar hindranir. Það voru til dæmis ekki til mörg eintök af Ritningunni. Þeir höfðu engin námsgögn eins og við höfum. Og lærisveinarnir þurftu að boða fólki trúna á mörgum tungumálum. Þrátt fyrir allt þetta gerðu þessir kappsömu lærisveinar það sem virtist ómögulegt. Á fáeinum áratugum höfðu þeir boðað fagnaðarboðskapinn „meðal allra manna“. (Kól. 1:6, 23) Nú á dögum heldur Jehóva áfram að leiða þjóna sína og styrkja þá. Við fáum leiðsögnina að mestu leyti úr innblásnu orði Guðs. Í Biblíunni lesum við um hvernig Jesús boðaði trúna og sagði fylgjendum sínum að halda áfram verkinu sem hann hóf. (Matt. 28:19, 20) Jehóva mismunar ekki fólki. Hann sagði fyrir að fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður „hverri þjóð, ættflokki, tungu og kynþætti“. (Opinb. 14:6, 7) Hann vill að boðskapurinn um Guðsríki nái til allra. w20.10 21 gr. 6–8
Mánudagur 20. júní
„Þú frelsar undirokaða en hefur augu á hinum hrokafullu og auðmýkir þá.“ – 2. Sam. 22:28.
Davíð konungur hafði „yndi af leiðsögn Drottins“. (Sálm. 1:1–3) Hann vissi að Jehóva frelsar þá sem eru auðmjúkir en stendur gegn hrokafullum. Davíð leyfði því leiðsögn Guðs að breyta hugarfari sínu. Hann orti: „Ég lofa Drottin sem gefur mér ráð, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.“ (Sálm. 16:7) Ef við erum auðmjúk leyfum við orði Guðs að leiðrétta ranga hugsun hjá okkur áður en hún leiðir til rangrar breytni. Biblían verður þá eins og rödd sem segir: „Þetta er vegurinn, farið hann.“ Hún varar okkur við þegar við erum að fara út af sporinu. (Jes. 30:21) Það gagnast okkur á ýmsa vegu að hlusta á Jehóva. (Jes. 48:17) Til dæmis verðum við ekki fyrir þeim óþægindum að þurfa að fá leiðréttingu frá öðrum. Og við nálgumst Jehóva enn meira því að við skynjum að hann kemur fram við okkur eins og börn sem hann elskar. – Hebr. 12:7. w20.11 20 gr. 6, 7
Þriðjudagur 21. júní
„Þegar menn heyrðu minnst á upprisu frá dauðum gerðu sumir gys.“ – Post. 17:32.
Þetta getur hafa haft áhrif á einhverja í Korintu. (1. Kor. 15:12) Aðrir hafa kannski hugsað um upprisuna í óeiginlegri merkingu, að sá sem hafði verið „dauður“ vegna syndar væri nú „lifandi“ sem kristinn maður. Hvernig sem stóð á því að sumir kristnir menn höfnuðu upprisunni var trú þeirra til einskis. Ef Guð reisti Jesú ekki upp var ekki búið að greiða lausnargjaldið og enginn hafði fengið syndir sínar fyrirgefnar. Þeir sem trúðu ekki á upprisuna höfðu þá í raun enga von. (1. Kor. 15:13–19; Hebr. 9:12, 14) Páll postuli vissi af eigin reynslu að „Kristur [var] risinn upp frá dauðum“. Upprisa Jesú var fremri upprisu þeirra sem höfðu áður verið reistir upp til lífs á jörðinni og dóu síðan aftur. Páll sagði að Jesús væri „frumgróði þeirra sem eru dánir“. Hann var sá fyrsti sem var reistur upp sem andavera og fyrsti maðurinn sem fór til himna. – 1. Kor. 15:20; Post. 26:23; 1. Pét. 3:18, 22. w20.12 5 gr. 11, 12
Miðvikudagur 22. júní
Þeir fluttu mönnum úrskurði postulanna og öldunganna sem þeir áttu að fylgja. – Post. 16:4.
Á fyrstu öld vann hið stjórnandi ráð í Jerúsalem saman í einingu til að viðhalda skipulagi og friði á meðal þjóna Guðs. (Post. 2:42) Þegar menn greindi til dæmis á um umskurð í kringum árið 49 kom hið stjórnandi ráð saman og ræddi málið undir leiðsögn heilags anda. Ef söfnuðurinn hefði verið tvískiptur áfram vegna þessa máls hefði það truflað boðunina. Postularnir og öldungarnir létu erfðavenjur Gyðinga eða þá sem héldu þeim á lofti ekki hafa áhrif á sig þó að þeir væru sjálfir Gyðingar. Þeir leituðu öllu heldur leiðsagnar í orði Guðs og báðu um heilagan anda hans. (Post. 15:1, 2, 5–20, 28) Hver var niðurstaðan? Jehóva blessaði ákvörðun þeirra, friður og eining hélt áfram að ríkja í söfnuðinum og boðunin hélt áfram. (Post. 15:30, 31; 16:5) Nú á dögum hefur söfnuður Jehóva einnig unnið að því að viðhalda skipulagi og friði á meðal þjóna hans. w20.10 22–23 gr. 11, 12
Fimmtudagur 23. júní
Salómon, sonur minn, er sá sem Guð hefur valið. – 1. Kron. 29:1.
Aldur okkar, heilsa eða eitthvað annað gæti komið í veg fyrir að við eigum kost á að fá ákveðin verkefni í söfnuðinum. Þá gætum við lært af fordæmi Davíðs konungs. Þegar Davíð var sagt að hann hefði ekki verið valinn til að byggja musteri Guðs – nokkuð sem hann hafði innilega vonast til að gera – studdi hann af heilum hug þann sem Guð valdi til verksins. Davíð gaf jafnvel rausnarlegt framlag til verksins. Hann er okkur sannarlega frábært fordæmi til eftirbreytni. (2. Sam. 7:12, 13; 1. Kron. 29:3–5) Vegna heilsuvandamála hætti Hugues, bróðir í Frakklandi, að þjóna sem öldungur. Hann var ekki einu sinni fær um að gera einföld heimilisstörf. Hann segir: „Í fyrstu fannst mér ég einskis virði og var mjög niðurdreginn. En með tímanum sá ég að ég þurfti að sætta mig við takmörk mín og var ánægður með það sem ég gat gert í þjónustu Jehóva. Líkt og Gídeon og hans þrjú hundruð menn – sem voru allir þreyttir – held ég áfram að berjast.“ – Dóm. 8:4. w20.12 25–26 gr. 14, 15
Föstudagur 24. júní
„Höldum áfram að elska hvert annað.“ – 1. Jóh. 4:7.
Jóhannes postuli notar í frásögn sinni um ævi Jesú orðin „kærleikur“ og „elska“ oftar en hinir þrír guðspjallaritararnir samanlagt. Innblásin rit hans sýna fram á að kærleikurinn þarf að endurspeglast í öllu sem við gerum. (1. Jóh. 4:10, 11) En Jóhannes þurfti tíma til að læra það. Sem ungur maður sýndi Jóhannes ekki alltaf kærleika. Einu sinni voru Jesús og lærisveinar hans á ferð til Jerúsalem og fóru um Samaríu. Íbúar í samversku þorpi neituðu að sýna þeim gestrisni. Jóhannes lagði til að kalla eld niður af himni til að tortíma öllum þorpsbúum! (Lúk. 9:52–56) Við annað tækifæri fengu Jóhannes og Jakob bróðir hans móður sína til að biðja Jesú um að veita sér mikilvægar stöður við hlið hans í Guðsríki. Hinir postularnir urðu bálreiðir þegar þeir komust að því hvað Jakob og Jóhannes höfðu gert. (Matt. 20:20, 21, 24) En Jesús elskaði Jóhannes þrátt fyrir öll hans mistök. – Jóh. 21:7. w21.01 9 gr. 3, 4
Laugardagur 25. júní
„Kristur hugsaði ekki um eigin hag.“ – Rómv. 15:3.
Jehóva tekur ákvarðanir með hag annarra í huga. Hann ákvað að skapa líf, ekki til að hafa hag af því sjálfur heldur til að við gætum notið lífsins. Enginn hefði getað þvingað hann til að gefa son sinn til að greiða fyrir syndir okkar. Hann var fús til að færa þá fórn í okkar þágu. Jesús tók líka ákvarðanir sem voru fyrst og fremst í þágu annarra. Hann ákvað til dæmis að ýta til hliðar eigin þörf fyrir hvíld til að kenna hóp af fólki. (Mark. 6:31–34) Sá sem sinnir forystuhlutverki sínu vel veit að eitt af því erfiðasta sem hann gerir er að taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir fjölskylduna sína og hann tekur þessa ábyrgð mjög alvarlega. Hann forðast að taka ákvarðanir sem eru gerræðislegar eða eingöngu byggðar á tilfinningum. Hann leyfir Jehóva að þjálfa sig. (Orðskv. 2:6, 7) Þannig hugsar hann um hag annarra en ekki eigin hag. (Fil. 2:4) Ef eiginmaður gerir sitt besta til að fylgja fordæmi Jehóva og Jesú gerir hann vel sem höfuð fjölskyldunnar. w21.02 7 gr. 19–21
Sunnudagur 26. júní
„Asa gerði það sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns.“ – 2. Kron. 14:1.
Sem ungur maður var Asa konungur auðmjúkur og hugrakkur. Eftir að Abía faðir hans dó tók hann við sem konungur og hóf að hreinsa landið af skurðgoðadýrkun. Og „hann skipaði Júdamönnum að leita Drottins, Guðs feðra sinna, og framfylgja lögmálinu og boðorðunum“. (2. Kron. 13:23–14:6) Og þegar Serak frá Eþíópíu gerði innrás í Júda með milljón manna her sýndi Asa þá visku að leita hjálpar hjá Jehóva og sagði: „Drottinn, enginn getur hjálpað veikum gegn sterkum eins og þú. Hjálpa þú okkur, Drottinn, Guð okkar, því að við styðjumst við þig.“ Þessi fallega bæn sýnir hversu mikið traust Asa hafði á getu Jehóva til að bjarga honum og fólki hans. Asa treysti himneskum föður sínum og Jehóva sigraði Eþíópíumenn. (2. Kron. 14:7–11) Það hefur eflaust verið ógnvekjandi að standa andspænis milljón manna her. En Asa stóð uppi sem sigurvegari af því að hann treysti Jehóva. w21.03 5 gr. 12, 13
Mánudagur 27. júní
Sýnið hvert öðru ástúð. – Rómv. 12:10.
Í Biblíunni er að finna frásögur af ófullkomnu fólki sem sýndi ástúð. Tökum sem dæmi Jónatan og Davíð. Biblían segir: ,Jónatan vingaðist við Davíð. Jónatan elskaði hann eins og sjálfan sig‘. (1. Sam. 18:1) Davíð var valinn til að vera konungur eftir Sál. Sál varð öfundsjúkur út í hann og reyndi að drepa hann. En Jónatan sonur Sáls tók ekki þátt í tilraunum föður síns til að taka Davíð af lífi. Jónatan og Davíð lofuðu hvor öðrum að vera alltaf vinir og styðja hvor annan. (1. Sam. 20:42) Náin vinátta Jónatans og Davíðs er enn eftirtektarverðari þegar við höfum í huga ýmislegt sem hefði getað komið í veg fyrir hana. Jónatan var til dæmis um 30 árum eldri en Davíð. Jónatan hefði getað litið svo á að hann ætti fátt sameiginlegt með þessum sér yngri og óreyndari manni. En hann hugsaði ekki þannig heldur bar hann mikla virðingu fyrir Davíð. w21.01 22 gr. 6, 7
Þriðjudagur 28. júní
„Lítið á það sem eintómt gleðiefni, bræður mínir og systur, þegar þið lendið í ýmiss konar prófraunum.“ – Jak. 1:2.
Jesús lofaði fylgjendum sínum að þeir myndu njóta sannrar hamingju. Hann varaði líka við því að þeir sem elskuðu hann yrðu fyrir prófraunum. (Matt. 10:22, 23; Lúk. 6:20–23) Það gleður okkur að vera lærisveinar Krists. En hvað finnst okkur um þá tilhugsun að fjölskyldan gæti snúist gegn okkur, yfirvöld ofsótt okkur og að vinnufélagar eða skólafélagar gætu þrýst á okkur að gera það sem er rangt? Sú tilhugsun getur eðlilega valdið okkur kvíða. Fólk lítur yfirleitt ekki á ofsóknir sem ástæðu til að gleðjast. En orð Guðs segir okkur að við eigum einmitt að gera það. Lærisveinninn Jakob skrifaði til dæmis að við ættum ekki að láta prófraunir buga okkur heldur líta á þær sem gleðiefni. (Jak. 1:2, 12) Og Jesús sagði að við ættum að vera hamingjusöm, jafnvel þegar við erum ofsótt. (Matt. 5:11) Jehóva innblés Jakobi að skrifa til bræðra og systra og gefa þeim hagnýt ráð sem myndu hjálpa þeim að halda gleðinni þrátt fyrir prófraunir. w21.02 26 gr. 1, 2; 27 gr. 5
Miðvikudagur 29. júní
„Hlustaðu ekki á innantómar orðræður sem gera lítið úr því sem er heilagt.“ – 1. Tím. 6:20.
Sumir samtíðarmenn Tímóteusar kunnu ekki að meta þann heiður að fá að vera samverkamenn Guðs. Þar á meðal voru Demas, Fýgelus, Hermogenes, Hýmeneus, Alexander og Fíletus. (1. Tím. 1:19, 20; 2. Tím. 1:15; 2:16–18; 4:10) Allir þessir menn höfðu elskað Jehóva en þeir hættu að meta þau verðmæti sem hann hafði gefið þeim. Hvernig reynir Satan að fá okkur til að láta af hendi þau verðmæti sem Jehóva hefur trúað okkur fyrir? Skoðum sumar þeirra aðferða sem hann notar. Hann notar skemmtanaiðnaðinn og fjölmiðla til að hafa áhrif á gildismat okkar, hugsun og verk. Markmið hans er að veikja kærleika okkar til Jehóva svo að við hættum smám saman að hlýða lögum hans. Hann notar hópþrýsting og ofsóknir til að reyna að draga úr okkur kjarkinn svo að við hættum að boða trúna. Og hann reynir að freista okkar til að hlusta á „mótsagnir hinnar rangnefndu ,þekkingar‘“ fráhvarfsmanna svo að við yfirgefum sannleikann. Ef við erum ekki á varðbergi gætum við fjarlægst sannleikann hægt og bítandi.– 1. Tím. 6:21. w20.09 27 gr. 6–8
Fimmtudagur 30. júní
„Drottinn hefur hlustað á ákall mitt, Drottinn hefur bænheyrt mig.“ – Sálm. 6:10.
Hefur vinur þinn eða einhver í fjölskyldunni sært þig? Ef svo er væri gott fyrir þig að skoða söguna af Absalon, syni Davíðs konungs. (2. Sam. 15:5–14, 31; 18:6–14) Með frásöguna í huga skaltu segja Jehóva frá því hvernig þér líður út af því hvernig komið var fram við þig. (Sálm. 6:7–9) Reyndu nú að ímynda þér hvernig Davíð hefur liðið þegar allt þetta gekk á. Hann elskaði Absalon og treysti Akítófel. En þeir sviku hann báðir. Þeir særðu tilfinningar hans og reyndu jafnvel að drepa hann. Davíð hefði getað grunað aðra vini sína um að hafa gengið í lið með Absalon og hætt að treysta þeim. Hann hefði getað hugsað aðeins um sjálfan sig og reynt að flýja landið einn. Og hann hefði getað misst móðinn. En Davíð bað Jehóva að hjálpa sér. Hann leitaði líka hjálpar hjá vinum sínum. Og hann var fljótur að koma því í verk sem hann hafði ákveðið. Hann hélt áfram að treysta Jehóva og vinum sínum. w21.03 15 gr. 7, 8; 17 gr. 10, 11