Desember
Fimmtudagur 1. desember
„Sá sem efast er eins og sjávaralda sem berst og hrekst fyrir vindi.“ – Jak. 1:6.
Af og til gætum við átt erfitt með að skilja eitthvað í Biblíunni. Og kannski svarar Jehóva ekki bænum okkar á þann hátt sem við höfðum vonast eftir. Það gæti vakið hjá okkur efasemdir. Ef við hunsum þær veikja þær trú okkar og skaða samband okkar við Jehóva. (Jak. 1:7, 8) Og við gætum jafnvel misst von okkar um framtíðina. Páll postuli líkti von okkar um framtíðina við akkeri. (Hebr. 6:19) Akkeri heldur skipi stöðugu í óveðri og kemur í veg fyrir að það reki upp á sker. En akkerið kemur ekki að gagni ef keðjan slitnar. Efasemdir sem við hunsum veikja trú okkar rétt eins og ryð veikir keðju akkerisins. Þegar sá sem hefur efasemdir verður fyrir andstöðu sem reynir á trú hans gæti hann misst trúna á að Jehóva uppfylli loforð sín. Ef við missum trúna missum við von okkar. Sá sem líður þannig finnur líklega ekki til neinnar gleði. w21.02 30 gr. 14, 15
Föstudagur 2. desember
„Abraham trúði á Jehóva.“ – Jak. 2:23.
Abraham var líklega yfir sjötugt þegar hann og fjölskylda hans yfirgáfu Úr. (1. Mós. 11:31–12:4) Og hann bjó í tjöldum víðs vegar um Kanaansland í um hundrað ár. Abraham varð 175 ára. (1. Mós. 25:7) En hann fékk ekki að sjá Jehóva efna loforð sitt um að gefa afkomendum hans landið. Og hann lifði það ekki að sjá „borgina“, ríki Guðs, stofnsetta. Samt segir í Biblíunni að Abraham hafi dáið „gamall og saddur lífdaga“. (1. Mós. 25:8) Hann varðveitti sterka trú og beið fúslega eftir Jehóva þrátt fyrir alla erfiðleikana. Hvers vegna gat hann haldið út? Vegna þess að Jehóva verndaði hann alla ævi og leit á hann sem vin sinn. (1. Mós. 15:1; Jes. 41:8; Jak. 2:22) Rétt eins og Abraham bíðum við þeirrar borgar sem hefur traustan grunn. (Hebr. 11:10) En við þurfum ekki að bíða eftir að hún verði byggð. Ríki Guðs var stofnsett árið 1914 og hefur nú þegar tekið við stjórn á himnum. (Opinb. 12:7–10) En við bíðum eftir að ríki Guðs taki stjórnina yfir allri jörðinni. w20.08 4 gr. 11, 12
Laugardagur 3. desember
„Ráð mannshjartans eru sem djúp vötn og hygginn maður eys af þeim.“ – Orðskv. 20:5.
Við þurfum að vera auðmjúk og þolinmóð til að geta hlustað af athygli á aðra. En það er þess virði að gera það af að minnsta kosti þrem ástæðum. Í fyrsta lagi eru minni líkur á að við verðum neikvæð í garð annarra. Í öðru lagi fáum við tækifæri til að skynja tilfinningar og hvatir trúsystkinis okkar og það auðveldar okkur að sýna samkennd. Og í þriðja lagi má vera að trúsystkini okkar læri eitthvað nýtt um sjálft sig þegar við leyfum því að tjá sig. Við mennirnir skiljum stundum ekki tilfinningar okkar til hlítar fyrr en við færum þær í orð. Sumum bræðra okkar og systra finnst erfitt að tala um tilfinningar sínar vegna bakgrunns, menningar eða persónuleika. Það getur tekið tíma áður en þau treysta okkur nógu vel til að segja okkur hvernig þeim líður. En ef við líkjum eftir Jehóva og erum þolinmóð ávinnum við okkur með tímanum traust þeirra og fáum tækifæri til að heyra hvernig þeim er innanbrjósts. Og þegar þau eru tilbúin að tjá sig skulum við hlusta af athygli. w20.04 15–16 gr. 6, 7
Sunnudagur 4. desember
Þú skalt veiða menn. – Lúk. 5:10.
Fiskar halda sig venjulega á svæðum þar sem þeir þrífast vel og þar sem er nóg æti. Skiptir máli hvenær menn fara til veiða? Taktu eftir hvað boðberi á eyju í Kyrrahafi sagði þegar hann bauð trúboða að fara með sér að veiða. Trúboðinn sagði: „Ég kem klukkan níu í fyrramálið.“ Bróðirinn svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Við förum þegar það er besti tíminn til að fiska, ekki þegar það hentar okkur.“ Eins fóru þeir sem veiddu menn á fyrstu öld þangað sem „fenginn“ var að finna og á þeim tímum sem hann var þar. Fylgjendur Jesú boðuðu trúna til dæmis í musterinu og í samkunduhúsunum, hús úr húsi og á torginu. (Post. 5:42; 17:17; 18:4) Við þurfum líka að þekkja venjur þeirra sem búa á okkar starfssvæði. Við þurfum að vera sveigjanleg og boða trúna á stað og stund sem líklegast er að við hittum fólk. – 1. Kor. 9:19–23. w20.09 4 gr. 8, 9
Mánudagur 5. desember
Við skulum tala sannleika og sýna kærleika en þannig getum við þroskast á allan hátt til að líkjast Kristi sem er höfuðið. – Ef. 4:15.
Ein leið til að byggja upp vináttu við Jesú er að styðja fyrirkomulag safnaðarins. Við styrkjum samband okkar við Jesú höfuð safnaðarins þegar við erum samstarfsfús við þá sem er falið að annast okkur. (Ef. 4:16) Nú reynum við til dæmis að fullnýta alla ríkissali. Þess vegna hafa sumir söfnuðir verið sameinaðir. Þar af leiðandi hefur sparast talsvert af þeim fjármunum sem eru gefnir söfnuðinum. En það hefur líka haft í för með sér að sumir boðberar hafa þurft að aðlagast nýjum aðstæðum. Þessir trúföstu boðberar voru kannski í sama söfnuðinum í mörg ár og urðu nánir bræðrum sínum og systrum þar. En þeir voru beðnir að tilheyra öðrum söfnuði. Jesús hlýtur að vera mjög ánægður að sjá þessa trúu lærisveina styðja þetta fyrirkomulag. w20.04 24 gr. 14
Þriðjudagur 6. desember
Konungur suðursins mun snúast gegn honum. – Dan. 11:40.
Konungur norðursins og konungur suðursins halda áfram að berjast um heimsyfirráð. Skoðum til dæmis hvað gerðist eftir síðari heimsstyrjöldina þegar Sovétríkin og bandamenn þeirra náðu yfirráðum yfir stórum hluta Evrópu. Konungur suðursins kom því á hernaðarbandalagi við aðrar þjóðir gegn konungi norðursins með því að stofna Atlantshafsbandalagið, eða NATO. Konungur norðursins heldur áfram að berjast við konung suðursins með kostnaðarsömu vígbúnaðarkapphlaupi. Hann barðist óbeint við keppinaut sinn í staðbundnum átökum og uppreisnum í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku. Undanfarin ár hafa Rússar og bandamenn þeirra aukið áhrif sín. Þeir hafa einnig átt í nethernaði við konung suðursins. Konungarnir hafa báðir sakað hinn um að nota spilliforrit til að skaða hagkerfi sín og stjórnmálakerfi. Eins og Daníel spáði heldur konungur norðursins áfram að ráðast á þjóna Guðs. – Dan. 11:41. w20.05 13 gr. 5, 6
Miðvikudagur 7. desember
„Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim.“ – Esek. 34:11.
„Fær kona gleymt brjóstbarni sínu?“ Jehóva bar fram þessa spurningu á dögum Jesaja spámanns. „Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki,“ sagði hann þjóð sinni. (Jes. 49:15) Jehóva líkir sér ekki oft við móður en hann gerði það í þessu tilfelli. Hann notaði samband móður og barns til að sýna hversu vænt honum þykir um þjóna sína. Flestar mæður geta tekið undir með systur að nafni Jasmin: „Þegar maður gefur barninu sínu brjóst myndar maður mjög sérstök tengsl sem endast alla ævi.“ Jehóva tekur eftir því þegar aðeins eitt barna hans hættir að sækja samkomur og boða trúna. Mörg þessara kæru trúsystkina sem hafa orðið óvirk snúa aftur til safnaðarins og við gleðjumst mjög yfir því. Jehóva vill að allir sem hafa orðið óvirkir snúi aftur og það viljum við líka. – 1. Pét. 2:25. w20.06 18 gr. 1–3
Fimmtudagur 8. desember
Horfum á hið ósýnilega því að hið sýnilega er tímabundið en hið ósýnilega er eilíft. – 2. Kor. 4:18.
Til eru verðmæti sem ekki er hægt að sjá berum augum. Mestu verðmætin eru reyndar ósýnileg. Í fjallræðunni talaði Jesús um fjársjóði á himni sem eru langtum verðmætari en efnislegar eigur. Síðan bætti hann við: „Þar sem fjársjóður þinn er þar verður líka hjarta þitt.“ (Matt. 6:19–21) Hjartað knýr okkur til að keppast eftir því sem okkur finnst verðmætt, eða metum mikils. Við söfnum „fjársjóðum á himni“ með því að eignast gott mannorð hjá Guði. Jesús sagði að slík verðmæti eyddust ekki og að þeim yrði aldrei stolið. Páll postuli hvetur okkur til að ,horfa á hið ósýnilega‘. (2. Kor. 4:17, 18) Hið ósýnilega felur meðal annars í sér þá blessun sem við munum njóta í nýjum heimi Guðs. Sýnum við að við erum þakklát fyrir þessa ósýnilegu fjársjóði? w20.05 26 gr. 1, 2
Föstudagur 9. desember
„Kenning mín streymi sem regn.“ – 5. Mós. 32:2.
Það sem Móse kenndi Ísraelsþjóðinni var hressandi og endurnærandi eins og mild og hlý gróðrarskúr. Hvernig getum við kennt fólki á sambærilegan hátt? Þegar við boðum fagnaðarboðskapinn hús úr húsi eða á fjölförnum stöðum getum við notað Biblíuna til að sýna fólki að Guð heitir Jehóva. Við getum boðið því falleg rit, sýnt fræðandi myndskeið og bent á efni á vefnum okkar sem dregur upp sanna mynd af Jehóva. Okkur bjóðast oft tækifæri í vinnunni, skólanum eða á ferðalögum til að tala um Guð okkar og aðlaðandi eiginleika hans. Þegar við segjum þeim sem við hittum frá fyrirætlun Jehóva með mannkynið og jörðina gefum við þeim mynd af Jehóva sem þeir hafa kannski aldrei fengið áður. Við eigum þátt í að helga nafn Jehóva þegar við segjum frá sannleikanum um hann. Þá hrekjum við sumar af lygunum og róginum sem fólk kann að hafa heyrt um ástríkan föður okkar. Ekkert er jafn hressandi og endurnærandi fyrir fólk og sannleikur Biblíunnar sem við kennum. – Jes. 65:13, 14. w20.06 10 gr. 8, 9
Laugardagur 10. desember
„Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar.“ – Mal. 3:7.
Hvaða eiginleika þurfum við að sýna til að geta hjálpað þeim sem vilja snúa aftur til Jehóva? Skoðum hvað við getum lært af dæmisögu Jesú um týnda soninn. (Lúk. 15:17–24) Sonurinn kom loks til sjálfs sín og ákvað að snúa aftur heim. Faðirinn hljóp á móti syni sínum og faðmaði hann innilega til að sýna honum hversu heitt hann elskaði hann. Sonurinn hafði slæma samvisku og fannst hann ekki eiga skilið að vera kallaður sonur. Faðirinn fann til með syni sínum sem úthellti hjarta sínu fyrir honum. Hann gerði síðan ýmislegt til að fullvissa son sinn um að hann væri velkominn heim sem mikils metinn sonur. Hann hélt veislu og gaf iðrunarfullum syni sínum glæsileg föt. Jehóva er eins og faðirinn í þessari dæmisögu. Hann elskar óvirka bræður okkar og systur og vill að þau snúi aftur til sín. Við getum hjálpað þeim að snúa aftur með því að líkja eftir Jehóva. Við þurfum að sýna þolinmæði, samúð og kærleika. w20.06 25–26 gr. 8, 9
Sunnudagur 11. desember
„Ef þið fylgið orðum mínum staðfastlega eruð þið sannir lærisveinar mínir og þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ – Jóh. 8:31, 32.
Jesús sagði að trú sumra sem tækju við sannleikanum „með fögnuði“ myndi dvína þegar hún yrði reynd. (Matt. 13:3–6, 20, 21) Kannski áttuðu þeir sig ekki á að fylgjendur Jesú myndu mæta erfiðleikum og héldu kannski að lífið myndi einkennast af eintómri blessun. (Matt. 16:24) En enginn er laus við vandamál í þessum ófullkomna heimi. Aðstæður geta breyst og haft þau áhrif að gleði okkar dvíni um tíma. (Sálm. 6:7; Préd. 9:11) Langflest trúsystkini okkar sýna að þau eru sannfærð um að þau hafi fundið sannleikann. Hvernig? Þau hvika ekki frá sannfæringu sinni þótt trúsystkini særi þau eða fari að haga sér ókristilega. (Sálm. 119:165) Í hvert sinn sem reynir á trú þeirra styrkist hún í stað þess að veikjast. (Jak. 1:2–4) Við verðum að byggja upp slíka trú. w20.07 8 gr. 1; 9 gr. 4, 5
Mánudagur 12. desember
„Ef einhvern á meðal ykkar skortir visku ætti hann ekki að gefast upp á að biðja Guð um hana.“ – Jak. 1:5.
Áður en þú byrjar að lesa í Biblíunni skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að sjá hvaða gagn þú getur haft af því sem þú lest. Ef þú ert til dæmis að leita að leiðbeiningum um það hvernig þú getur tekist á við vandamál skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að finna meginreglur í Biblíunni sem geta leiðbeint þér. (Fil. 4:6, 7) Jehóva hefur gefið okkur ímyndunaraflið, sem er stórkostlegur hæfileiki. Til að hjálpa þér að gera biblíusöguna lifandi skaltu sjá hana fyrir þér með sjálfan þig í lykilhlutverkinu. Reyndu að sjá fyrir þér það sem aðalpersónan sá og ímynda þér hvernig henni leið. Hugleiddu síðan. Að hugleiða þýðir að hugsa vandlega um það sem maður les og heimfæra það upp á sjálfan sig. Það hjálpar manni að tengja saman hugmyndir og fá dýpri skilning á efninu. Að lesa Biblíuna án þess að hugleiða er eins og að horfa á bitana í púsluspili án þess að raða þeim saman. Að hugleiða hjálpar okkur að sjá alla myndina. w21.03 15 gr. 3–5
Þriðjudagur 13. desember
Ég er þakklátur Guði og minnist þín alltaf í innilegum bænum mínum dag og nótt. – 2. Tím. 1:3.
Páll postuli hefði getað einblínt á það sem var liðið og hugsað að hann hefði kannski ekki verið handtekinn ef hann hefði tekið öðruvísi ákvarðanir. Hann hefði getað orðið reiður út í mennina í skattlandinu Asíu sem yfirgáfu hann og tortrygginn í garð annarra vina sinna. En hann gerði það ekki. Þó að hann vissi að hann ætti stutt eftir ólifað missti hann ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir – að lofa Jehóva. Og hann hélt áfram að hugsa um hvernig hann gæti uppörvað aðra. Hann reiddi sig á Jehóva með því að biðja oft til hans. Í stað þess að hugsa of mikið um þá sem höfðu yfirgefið hann tjáði hann innilegt þakklæti sitt fyrir kærleiksríkan stuðning vina sinna sem hjálpuðu honum á ýmsan hátt. Páll hélt auk þess áfram að lesa og hugleiða orð Guðs. (2. Tím. 3:16, 17; 4:13) Og það sem mestu máli skipti var að hann hafði fullt traust á að Jehóva og Jesús elskuðu hann. w21.03 18 gr. 17, 18
Miðvikudagur 14. desember
„Rétt eins og illgresinu er safnað og það brennt í eldi, þannig verður á lokaskeiði þessarar heimsskipanar.“ – Matt. 13:40.
Einhvern tíma á annarri öld fóru falskristnir menn að leggja sannkristna söfnuðinn undir sig. Þeir höfðu tileinkað sér heiðnar kenningar og földu sannindin í orði Guðs. Þangað til seint á 19. öld var enginn skipulagður hópur þjóna Guðs á jörðinni. Illgresi falskrar kristni dafnaði svo að það var erfitt að bera kennsl á sannkristna menn. (Matt. 13:36–43) Hvers vegna skiptir máli að vita það? Það gefur til kynna að það sem við lesum um konung norðursins og konung suðursins í 11. kafla Daníelsbókar geti ekki hafa átt við um stjórnendur sem ríktu frá því einhvern tíma á annarri öld fram á seinni hluta 19. aldar. Það var enginn skipulagður hópur þjóna Guðs sem þeir gátu ráðist á. En við getum samt búist við að konungur norðursins og konungur suðursins hafi komið aftur í ljós seint á 19. öld. w20.05 3 gr. 5
Fimmtudagur 15. desember
„Þjóð hefur ráðist inn í land mitt.“ – Jóel 1:6.
Í Jóelsbók segir frá engisprettuplágu sem leggur land Ísraels í eyði og gleypir í sig allan gróður í landinu. (Jóel 1:4) Í mörg ár töldum við að spádómurinn merkti að þjónar Guðs væru eins og óstöðvandi engisprettusveimur þegar þeir boða trúna. Við höfðum þann skilning að boðunin myndi afhjúpa bagalegt ástand ,landsins‘ eða fólks sem er undir áhrifum trúarleiðtoga. En þegar við skoðum spádóminn í heild sinni er augljóst að hann hefur aðra merkingu en við töldum áður. Tökum eftir loforði Jehóva varðandi engisprettupláguna: „Andstæðinginn í norðri [engispretturnar] rek ég langt frá yður.“ (Jóel 2:20) Hvers vegna myndi Jehóva lofa að reka burt engispretturnar ef þær táknuðu votta hans sem hlýða boði Jesú um að boða trúna og gera fólk að lærisveinum? (Esek. 33:7–9; Matt. 28:19, 20) Jehóva rekur augljóslega ekki burt þjóna sína heldur eitthvað eða einhvern sem er þeim fjandsamlegur. w20.04 2–3 gr. 3–5
Föstudagur 16. desember
„Ef einhvern á meðal ykkar skortir visku ætti hann ekki að gefast upp á að biðja Guð um hana.“ – Jak. 1:5.
Hvað ættum við að gera ef okkur finnst Jehóva ekki svara bæn okkar strax? Jakob segir að við ættum „ekki að gefast upp á að biðja“. Jehóva verður ekki pirraður þó að við höldum áfram að biðja hann um visku. Hann reiðist okkur ekki fyrir það. Faðir okkar á himnum „gefur öllum af örlæti“ sem biðja hann um visku til að standast prófraunir. (Sálm. 25:12, 13) Hann sér raunir okkar, hefur samúð með okkur og vill gjarnan hjálpa okkur. Það gefur okkur sannarlega ástæðu til að gleðjast. En hvernig gefur Jehóva okkur visku? Í orði sínu. (Orðskv. 2:6) Til að öðlast hana verðum við að lesa og hugleiða Biblíuna og biblíutengd rit. En við þurfum að gera meira en bara að afla okkur þekkingar. Við verðum að láta viskuna frá Guði hafa áhrif á líf okkar með því að fara eftir ráðum hans. Jakob skrifaði: ,Látið ykkur ekki nægja að heyra orðið heldur farið eftir því.‘ (Jak. 1:22) Þegar við förum eftir ráðum Guðs verðum við friðsamari, sanngjarnari og miskunnsamari. (Jak. 3:17) Þessir eiginleikar hjálpa okkur að þola hvaða prófraun sem er án þess að missa gleðina. w21.02 29 gr. 10, 11
Laugardagur 17. desember
Allir líkamshlutar stuðla að því að líkaminn vex. – Ef. 4:16.
Ef biblíunemandi fær hjálp frá fleirum í söfnuðinum eru meiri líkur á að hann taki stöðugum framförum og láti skírast. Allir boðberar geta lagt sitt af mörkum til að hjálpa nýjum að koma inn í söfnuðinn. Brautryðjandi nokkur segir: „Sagt hefur verið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Ég held að það sama eigi við um að gera fólk að lærisveinum. Það þarf venjulega heilan söfnuð til að hjálpa einhverjum inn í sannleikann.“ Fjölskyldan, vinir og kennarar eiga öll sinn þátt í að hjálpa barni að vaxa og þroskast. Þau gera það með því að hvetja barnið og kenna því það sem það þarf að læra. Eins geta boðberar hjálpað biblíunemendum að verða hæfir til að láta skírast með því að gefa þeim ráð, hvetja þá og sýna þeim gott fordæmi. (Orðskv. 15:22) Hvers vegna ætti boðberi sem heldur biblíunámskeið að gleðjast þegar aðrir í söfnuðinum hjálpa biblíunemandanum? Vegna þess að margir geta hjálpað nemandanum að taka framförum. w21.03 8 gr. 1–3
Sunnudagur 18. desember
„Ef við segjum: ,Við erum syndlaus,‘ blekkjum við sjálf okkur.“ – 1. Jóh. 1:8.
Enginn kristinn maður má láta freistast til að lifa tvöföldu lífi, hvort sem hann er ungur eða gamall. Jóhannes postuli benti á að við getum ekki gengið á vegi sannleikans og á sama tíma lifað siðlausu lífi. (1. Jóh. 1:6) Ef við viljum að Jehóva hafi velþóknun á okkur bæði núna og í framtíðinni verðum við að muna að hann sér allt. Það er því ekki hægt að syndga í leyni vegna þess að allt sem við gerum blasir við Jehóva. (Hebr. 4:13) Við verðum að hafna viðhorfi heimsins til syndar. Á dögum Jóhannesar héldu fráhvarfsmenn því fram að fólk gæti átt vináttusamband við Guð þótt það lifði vísvitandi syndugu líferni. Við búum í heimi þar sem ríkir svipað viðhorf. Margir sem segjast trúa á Guð hafa ekki sama viðhorf og hann til syndar, sérstaklega þegar um kynlíf er að ræða. Í augum þeirra er það sem Jehóva álítur ranga kynhegðun einfaldlega persónulegt val. w20.07 22 gr. 7, 8
Mánudagur 19. desember
Elskum í verki og sannleika. – 1. Jóh. 3:18.
Tekur þú upp hanskann fyrir trúsystur þínar þegar þær þurfa á því að halda? Ímyndum okkur eftirfarandi aðstæður: Sumir boðberar taka eftir að systir á trúarlega skiptu heimili kemur oft seint á samkomur og fer strax að samkomu lokinni. Þeir taka einnig eftir að börnin hennar koma sjaldan með á samkomur. Þeir gagnrýna hana því að þeim finnst að hún ætti að vera ákveðnari við manninn sinn sem er ekki vottur. En sannleikurinn er sá að hún er að gera sitt besta. Hún ræður ekki dagskrá sinni að öllu leyti og það er ekki hún sem á síðasta orðið í málum sem varða börnin. Ef þú hrósar systurinni og segir frá því sem hún gerir vel gæti það orðið til þess að stöðva neikvætt tal. Öldungar vita að það skiptir Jehóva máli hvernig komið sé fram við þær. (Jak. 1:27) Þeir líkja þess vegna eftir sanngirni Jesú og búa ekki til reglur þegar það á betur við að sýna góðvild og skilning. (Matt. 15:22–28) Systur finna að Jehóva og söfnuðinum er annt um þær þegar öldungar leggja sig fram um að hjálpa þeim. w20.09 24–25 gr. 17–19
Þriðjudagur 20. desember
Guð hefur boðað þér, Nebúkadnesar konungur, hvað verða muni. – Dan. 2:28.
Daníel spámaður leitaði ávallt leiðsagnar Jehóva í auðmýkt. Hann eignaði sér til dæmis ekki heiðurinn af því þegar hann var verkfæri í höndum Jehóva og réði draum Nebúkadnesars. Þess í stað gaf hann Jehóva allan heiðurinn. (Dan. 2:26–28) Hvað lærum við af þessu? Ef trúsystkini okkar kunna að meta ræður okkar eða okkur gengur vel í boðuninni ættum við að muna að gefa Jehóva allan heiðurinn. Okkur ætti að vera ljóst að við gætum ekki gert þetta nema með hjálp hans. (Fil. 4:13) Við líkjum einnig eftir Jesú þegar við höfum þetta viðhorf. Jesús reiddi sig á himneskan föður sinn. (Jóh. 5:19, 30) Hann reyndi aldrei að taka af honum völdin. Í Filippíbréfinu 2:6 segir um hann: „[Það] hvarflaði ekki að honum að hrifsa til sín völd til að verða jafn Guði.“ Jesús gerði sér grein fyrir takmörkum sínum og virti vald föður síns. w20.08 11 gr. 12, 13
Miðvikudagur 21. desember
Hlaupið þannig að þið hljótið sigurlaunin. – 1. Kor. 9:24.
Sumir þeirra sem hlaupa eftir veginum til lífsins glíma við persónuleg vandamál sem aðrir sjá ekki og skilja jafnvel ekki. Ef þú ert að glíma við takmörk og þér finnst aðrir ekki skilja þig gæti frásagan af Mefíbóset hughreyst þig. (2. Sam. 4:4) Hann var lamaður og auk þess dæmdi Davíð konungur hann ranglega. En hann varð ekki neikvæður heldur kunni að meta allt það góða í lífinu. Hann var þakkátur fyrir þá góðvild sem Davíð hafði sýnt honum. (2. Sam. 9:6–10) Mefíbóset sá því heildarmyndina þegar Davíð dæmdi hann ranglega. Hann leyfði mistökum Davíðs ekki að gera sig bitran. Og hann kenndi Jehóva ekki um það sem Davíð gerði. Mefíbóset einbeitti sér að því sem hann gat gert til að styðja smurðan konung Jehóva. (2. Sam. 16:1–4; 19:25–31) Jehóva lét skrá frábært fordæmi Mefíbósets í Biblíuna til að við gætum haft gagn af því. – Rómv. 15:4. w20.04 26 gr. 3; 30 gr. 18, 19
Fimmtudagur 22. desember
„Við erum samverkamenn Guðs.“ – 1. Kor. 3:9.
Sumir í söfnuðinum eru ef til vill útnefndir trúboðar, sérbrautryðjendur eða brautryðjendur. Þeir hafa tekið þá ákvörðun að þjóna í fullu starfi við að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. Mörg þeirra eiga ekki margt og hafa lítið milli handanna en Jehóva hefur umbunað þeim ríkulega. (Mark. 10:29, 30) Við metum mikils þessa dýrmætu bræður og systur og erum þakklát að þau skuli vera í söfnuðinum. Eru útnefndir bræður og þeir sem þjóna í fullu starfi þeir einu sem hafa hlutverki að gegna í söfnuðinum? Alls ekki! Allir boðberar fagnaðarboðskaparins skipta Guð og söfnuðinn miklu máli. (Rómv. 10:15; 1. Kor. 3:6–8) Það er vegna þess að eitt mikilvægasta markmið safnaðarins er að gera fólk að lærisveinum Drottins okkar Jesú Krists. (Matt. 28:19, 20; 1. Tím. 2:4) Allir sem taka þátt í boðuninni, bæði skírðir og óskírðir boðberar, leggja sig fram um að láta hana hafa forgang í lífi sínu. – Matt. 24:14. w20.08 21 gr. 7, 8
Föstudagur 23. desember
„Ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ – Matt. 28:20.
Eins og sjá má í versi dagsins styður Jesús okkur þegar erfiðleikar verða á vegi okkar. Það sem Jesús segir getur veitt okkur styrk. Hvers vegna? Vegna þess að suma daga finnst okkur erfitt að halda út. Þegar ástvinur deyr syrgjum við til dæmis ekki bara í fáeina daga heldur líklega mörg ár. Aðrir eiga erfiða daga sem fylgja því að verða gamall. Enn aðrir takast á við daga sem þeim finnst yfirþyrmandi vegna þunglyndis. Þrátt fyrir það fáum við styrk til þess að halda út vegna þess að við vitum að Jesús er með okkur „alla daga“, þar á meðal verstu daga lífs okkar. (Matt. 11:28–30.) Í Biblíunni erum við fullvissuð um að Jehóva hjálpar okkur fyrir atbeina engla sinna. (Hebr. 1:7, 14) Englar veita okkur til dæmis stuðning og leiðsögn þegar við boðum fólki af ,hverri þjóð, ættflokki og tungu‘ fagnaðarboðskapinn um ríkið. – Matt. 24:13, 14; Opinb. 14:6. w20.11 13–14 gr. 6, 7
Laugardagur 24. desember
„Ráð mannshjartans eru sem djúp vötn og hygginn maður eys af þeim.“ – Orðskv. 20:5.
Við viljum að nemandi okkar skilji að það sem hann er að læra kemur frá Biblíunni. (1. Þess. 2:13) Hvernig hjálpum við honum til þess? Hvettu nemandann til að tala um það sem hann lærir. Í stað þess að útskýra alltaf biblíuvers fyrir nemandanum skaltu biðja hann að útskýra sum þeirra fyrir þér. Hjálpaðu honum að sjá hvernig orð Guðs snertir hann sjálfan. Spyrðu leiðandi spurninga og viðhorfsspurninga til að fá hann til að tjá sig, segja hvað hann hugsar og hvað honum finnst um biblíuversin sem hann les. (Lúk. 10:25–28) Þú gætir spurt hann: Hvernig hjálpar þetta vers þér að koma auga á einn af eiginleikum Jehóva? Hvernig geturðu nýtt þér það sem kemur fram í versinu? Hvað finnst þér um það sem segir hérna? Það skiptir ekki mestu máli hversu mikið nemandinn veit heldur hversu þakklátur hann er fyrir það sem hann veit og hversu vel hann fer eftir því. Notaðu Biblíuna við kennsluna. Þú þarft að vera auðmjúkur ef þú vilt bæta kennsluhæfni þína. w20.10 15 gr. 5, 6
Sunnudagur 25. desember
„Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi.“ – Préd. 11:6.
Við getum treyst því að boðun Guðsríkis ljúki á nákvæmlega réttum tíma. Tökum sem dæmi atburði á dögum Nóa. Jehóva sýndi að hann stendur alltaf við tímaáætlanir sínar. Hann ákvað um 120 árum fyrir flóðið hvenær það myndi koma. Áratugum síðar sagði Jehóva Nóa að byggja örkina. Nói vann hörðum höndum áður en flóðið kom, kannski í 40 eða 50 ár. Þó að fólk hlustaði ekki á hann hélt hann áfram að vara fólk við þar til Jehóva sagði að tímabært væri að fara inn í örkina. Og „Drottinn lokaði á eftir honum“ á hárréttum tíma. (1. Mós. 6:3; 7:1, 2, 16) Bráðlega lætur Jehóva boðun Guðsríkis taka enda. Hann „lokar“ á heimskerfi Satans og kemur á réttlátum nýjum heimi. Þangað til skulum við líkja eftir Nóa og öðrum sem hafa ekki látið hendur sínar hvílast. Höldum einbeitingunni, sýnum þolinmæði og viðhöldum sterkri trú á Jehóva og loforð hans. w20.09 13 gr. 18, 19
Mánudagur 26. desember
„Allt skal fara fram á sómasamlegan og skipulegan hátt.“ – 1. Kor. 14:40.
Án skýrrar forystu myndi ríkja óreiða og óhamingja í fjölskyldu Jehóva. Enginn myndi til dæmis vita hver ætti að taka lokaákvarðanir og forystuna í að framfylgja þeim. Ef fyrirkomulag Guðs varðandi forystu er svona gott, hvers vegna finnst þá mörgum konum þær kúgaðar? Vegna þess að margir menn fylgja ekki þeim reglum sem Jehóva hefur gefið fjölskyldunni og kjósa þess í stað að fylgja siðum og hefðum þar sem þeir búa. Hugsanlega koma þeir líka illa fram við eiginkonur sínar af eigingjörnum hvötum. Eiginmaður gæti til dæmis kúgað eiginkonu sína til að reyna að bæta sjálfsálitið eða til að sanna fyrir öðrum að hann sé ,enginn aumingi‘. Kannski finnst honum hann ekki geta þvingað konuna sína til að elska sig en geti að minnsta kosti fengið hana til að óttast sig. Og hann gæti notað óttann til að stjórna henni. Slíkur hugsunarháttur og hegðun rænir konur þeirri virðingu sem þær eiga rétt á og gengur algerlega í berhögg við vilja Jehóva. – Ef. 5:25, 28. w21.02 3 gr. 6, 7
Þriðjudagur 27. desember
„Varpið öllum áhyggjum ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pét. 5:7.
Þegar þjónar Guðs eru undir álagi geta þeir fundið til léttis með því að leita til Jehóva í einlægri bæn. Jehóva getur svarað bænum þínum með því að gefa þér frið sinn sem er æðri öllum mannlegum skilningi. (Fil. 4:6, 7) Jehóva sefar áhyggjur okkar með sínum kraftmikla heilaga anda. (Gal. 5:22) Opnaðu hjarta þitt fyrir Jehóva þegar þú talar við hann í bæn. Vertu nákvæmur. Segðu honum hvert vandamálið er og hvernig þér líður. Ef það er hægt að leysa vandamálið skaltu biðja hann um visku til að sjá lausnina og styrk til að vinna að henni. Ef það er ekki á þínu færi að leysa vandamálið skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að hafa ekki of miklar áhyggjur af því. Þegar þú ert nákvæmur í bænum þínum sérðu með tímanum betur hvernig Jehóva hefur svarað þeim. Gefstu ekki upp þótt þú fáir ekki svar við bæn þinni strax. Jehóva vill ekki bara að við séum nákvæm í bænum okkar heldur líka að við gefumst ekki upp á að biðja. – Lúk. 11:8–10. w21.01 3 gr. 6, 7
Miðvikudagur 28. desember
Jesús sagði við þá: „Það er ekki á allra færi að gera eins og ég segi heldur aðeins þeirra sem það er gefið.“ – Matt. 19:11.
Í söfnuði Jehóva eru hjón og sum þeirra eiga börn. En í honum eru líka mörg einhleyp trúsystkini. Hvaða augum ættum við að líta þau sem eru ekki gift? Við ættum að líta þau sömu augum og Jesús. Hann gekk ekki í hjónaband meðan hann þjónaði hér á jörð. Hann var einhleypur og notaði allan tíma sinn og krafta til að sinna verkefni sínu. Hann kenndi aldrei að það væri krafa að annaðhvort giftast eða vera einhleypur. Hann sagði hins vegar að sumir kristnir menn kysu að ganga ekki í hjónaband. (Matt. 19:12) Jesús virti einhleypa. Hann leit ekki svo á að einhleypt fólk væri verr sett en gift fólk á einhvern hátt. Líkt og Jesús þjónaði Páll postuli Jehóva einhleypur. Páll kenndi aldrei að það væri rangt að giftast. Hann vissi að það væri persónuleg ákvörðun hvort kristinn maður giftist eða ekki. w20.08 28 gr. 7, 8
Fimmtudagur 29. desember
„Guð er kærleikur.“ – 1. Jóh. 4:16.
Jóhannes postuli lifði langa og viðburðaríka ævi. Hann þurfti að glíma við margs konar erfiðleika sem hefðu getað veikt trú hans. En hann gerði alltaf sitt besta til að hlýða fyrirmælum Jesú, þar á meðal boðorðinu um að elska bræður sína og systur. Fyrir vikið gat Jóhannes verið viss um að Jehóva og Jesús elskuðu hann og að þeir gæfu honum kraft til að þola alla erfiðleika. (Jóh. 14:15–17; 15:10) Ekkert sem Satan eða heimur hans gerði gat hindrað Jóhannes í að finna til kærleika, tjá hann með orðum og sýna hann í verki. Líkt og Jóhannes búum við í heimi sem er undir stjórn Satans, en hann er andstyggilegur guð þessa heims. (1. Jóh. 3:1, 10) Hann vill að við hættum að elska trúsystkini okkar, en hann getur ekki fengið okkur til þess nema við leyfum honum það. Verum staðráðin í að elska bræður okkar og systur, tjá kærleikann með orðum og sýna hann í verki. Þá njótum við þeirrar ánægju að vera í fjölskyldu Jehóva og lífið verður virkilega þess virði að lifa því. – 1. Jóh. 4:7. w21.01 13 gr. 18, 19
Föstudagur 30. desember
Guð veitir þolgæði. – Rómv. 15:5.
Líf okkar getur stundum verið erfitt í þessum heimi sem Satan stjórnar, jafnvel þannig að við vitum ekki hvað við eigum að gera. (2. Tím. 3:1) En við þurfum ekki að vera kvíðin eða hrædd. Jehóva veit hvað við erum að ganga í gegnum. Hann lofar að styðja okkur með sterkri hendi sinni þegar við hrösum. (Jes. 41:10, 13) Við erum fullviss um að hann hjálpi okkur og við getum sótt styrk í Biblíuna til að sigrast á hvaða erfiðleikum sem er. Myndböndin okkar, „Leiklesnir biblíutextar“ og greinaröðin „Líkjum eftir trú þeirra“ geta blásið lífi í frásögur Biblíunnar. Biddu Jehóva að hjálpa þér að koma auga á sérstök atriði sem þú getur nýtt þér áður en þú horfir á, hlustar á eða lest þetta efni. Sjáðu sjálfan þig í sporum aðalpersónunnar. Veltu fyrir þér því sem þessir trúföstu þjónar Jehóva gerðu og hvernig hann hjálpaði þeim að sigrast á erfiðleikum. Notaðu svo það sem þú lærir í þínum aðstæðum. Þakkaðu Jehóva fyrir þá hjálp sem hann veitir þér nú þegar. Og sýndu að þú kunnir að meta þá hjálp sem þú færð með því að leita leiða til að styðja og hvetja aðra. w21.03 19 gr. 22, 23
Laugardagur 31. desember
„Synir eru gjöf frá Drottni.“ – Sálm. 127:3.
Ef þið eruð hjón og langar til að eignast börn skuluð þið spyrja ykkur: Erum við auðmjúkt, andlega sinnað fólk sem Jehóva myndi velja til að annast dýrmætt nýfætt barn? (Sálm. 127:4) Ef þú ert foreldri skaltu spyrja þig: Kenni ég börnunum mínum gildi þess að vera vinnusamur? (Préd. 3:12, 13) Geri ég mitt besta til að vernda börnin mín fyrir líkamlegum og siðferðilegum hættum? (Orðskv. 22:3) Þú getur ekki verndað börnin þín fyrir öllum erfiðleikum. En þú getur á kærleiksríkan hátt haldið áfram að búa þau undir að takast á við vandamál lífsins með því að hjálpa þeim að leita ráða í orði Guðs. (Orðskv. 2:1–6) Ef ættingi hættir að þjóna Jehóva skaltu nota Biblíuna til að hjálpa börnunum þínum að skilja hvers vegna það er svo mikilvægt að sýna Jehóva trúfesti. (Sálm. 31:24) Ef þið missið ástvin skaltu sýna börnunum hvernig þið getið notað orð Guðs til að takast á við sorg og öðlast innri frið. – 2. Kor. 1:3, 4; 2. Tím. 3:16. w20.10 27 gr. 7