Ljós látið skína í myrkri jarðar
„Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur [Jehóva] og dýrð hans birtist yfir þér.“ — Jesaja 60:2.
1. Hvaða jákvætt svar er hægt að gefa við spurningunum sem hér er varpað fram?
NÚNA er sannarlega stórkostlegir tímar til að lifa á! ‚Stórkostlegir tímar?‘ kann einhver að spyrja. ‚Hvernig getið þið sagt svona lagað þegar heimurinn klöngrast áfram sundraður stjórnmálalega, efnahagslega og trúarlega, og gereyðingarhættan umlykur þjóðirnar eins og niðamyrkur?‘ Þrátt fyrir þetta eru núna dýrlegir tímar — vegna fagnaðarerindisins sem nú er prédikað um alla jörðina og upplýsir þá sem hungrar eftir sannleikanum um þýðingu þess sem er að gerast í kringum okkur og um hina stórfenglegu tíma sem þeir geta fengið að lifa!
2. (a) Hvaða hvatningarorð gefur Jehóva í 45. og 60. kafla Jesajabókar? (b) Hver er „kona“ Guðs?
2 Uppspretta okkar undursamlegu vonar er enginn annar en alvaldur Drottin Jehóva, hinn mikli skapari himins og jarðar. (Jesaja 45:12, 18) Hann gefur fyrirskipunina sem er skráð hjá Jesaja í kafla 60, 1. versi: „Statt upp, ó kona, skín þú, því að ljós þitt er komið og dýrð Jehóva er runnin upp yfir þér.“ (NW) Hver er þessi „kona“? Hún er ekki lífvana frelsisstytta né kona af holdi og blóði sem berst fyrir réttindum kvenna. Hún er hið kraftmikla, framsækna, himneska skipulag Jehóva Guðs, hin trúa hjálparhella hans mynduð af ógrynni trúfastra engla og nú einnig ‚hinum heilögu upprisnu‘ — þeim sem hafa sannað sig trúfasta allt til dauða sem smurðir kristnir menn hér á jörð. — Opinberunarbókin 11:18; 2:10.
3. Hvernig hefur kona Guðs (a) ‚staðið upp‘? (b) ‚skinið‘?
3 „Statt upp, ó kona,“ fyrirskipar Jehóva. Í hlýðni hefur himneskt skipulag Guðs risið upp frá aldalöngu, ófrjóu, óvirku ástandi í stöðu þar sem það ber ríkulegan ávöxt. Árið 1914 fæddi það Messíasarríkið. (Opinberunarbókin 12:1-5) Frá 1919 hefur það leitt þá sem eftir voru af smurðum sonum sínum á jörðinni inn í „land“ eða ástand þar sem ríkir dýrleg, andleg velsæld. (Jesaja 66:8) Enn fremur hefur himneskt skipulag Guðs ‚látið ljós skína á‘ stórkostlega spádóma Guðsríkis. Hinum fjölmörgu sonum hennar er ‚kennt af Jehóva.‘ — Jesaja 54:1, 13, NW.
Ljós í niðamyrkri
4. Hvaða andstæðu lýsir Jehóva milli þjóna Guðs og þjóða jarðarinnar?
4 „Ljós þitt er komið,“ lýsir Jehóva yfir. Svo sannarlega hefur ‚dýrð Jehóva runnið upp yfir‘ eða skinið á þetta himneska skipulag, og endurreist þjóð Jehóva á jörðinni hefur endurspeglað það á dásamlegan hátt. En þessu næst dregur Jehóva fram andstæðu og segir: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ (Jesaja 60:2) Lýsir þetta ekki vel ástandinu á jörðinni síðan 1914?
5. Hvers vegna geta falstrúarbrögðin enga lausn fundið á vandamálum kjarnorkualdarinnar?
5 Kristni heimurinn sér í lagi hefur hafnað hinu spádómlega ‚tákni um nærveru Jesú og endalok þessa heimskerfis.‘ Þess vegna reikar hann hrasandi um í andlegu myrkri sem verður sífellt svartara. Trúarbrögð kristna heimsins hafa sýnt sig vera uppistöðu heimsveldis falskra trúarbragða, Babýlonar hinnar miklu — víðs fjarri ljósi sannleikans. (Matteus 24:3-14; Opinberunarbókin 17:3-6) Trúarbrögð heimsins hafa enga lausn fundið á vandamálum þessarar kjarnorkualdar, og þau geta ekki heldur hrakið í burtu svartamyrkrið sem hefur lagst yfir mannkynið, vonleysið sem gerir mönnum óglatt. Afskipti falskra trúarbragða af stjórnmálum þjóðanna mun um síðir leiða til gereyðingar þeirra. — Opinberunarbókin 17:6, 17.
6, 7. (a) Hvernig ‚rann upp‘ dýrð Jehóva á árunum 1919-31? (b) Hvaða hámarki náði það árið 1931?
6 Gagnstætt þessu heldur Jehóva áfram og segir við sitt himneska skipulag: „En yfir þér upp rennur Jehóva og dýrð hans birtist yfir þér.“ (Jesaja 60:2, NW) Þessi dýrð endurspeglast til smurðra kristinna manna hér á jörð svo að þeir geti síðan ‚látið ljós sitt skína meðal mannanna.‘ (Matteus 5:16) Árin frá 1919 til 1931 voru dýrleg ár til að láta ljós Guðsríkis skína, en á þeim árum losaði fólk Guðs sig algerlega við fjötra babýlonskra trúarkenninga, hugsunarháttar og siða sem enn voru eftir hjá því. Á þessum árum hófu hinar litlu leifar sannkristinna manna að gefa jákvætt svar við spurningunni: „HVER MUN HEIÐRA JEHÓVA?“ — en þessi spurning var titill námsgreinar í Varðturninum á ensku þann 1. janúar 1926.
7 Þá, árið 1931, fór dýrð Jehóva að skína enn skærar á ‚þjón‘ hans þegar þeir tóku við nafninu sem hann sjálfur hafði gefið þeim — VOTTAR JEHÓVA. (Jesaja 43:10, 12) Á tólf frjósömum og starfsömum árum fram til ársins 1931 fjölgaði boðberum Guðsríkis úr litlum hópi upp í tugi þúsunda kostgæfra votta.
Skærara ‚skin‘
8, 9. (a) Hvaða öðrum hópi beindi Varðturninn athyglinni að árið 1931? (b) Hvernig eru þeir ‚merktir‘ að sögn Ritningarinnar?
8 En myndi Jehóva ‚renna upp‘ eða skína aðeins fyrir hina smurðu sem tilheyrðu ‚lítilli hjörð erfingja Guðsríkis‘? (Lúkas 12:32) Nei, því að árin 1931 til 1938 voru stórkostlegir tímar aukinnar upplýsingar því að Varðturninn byrjaði að beina athyglinni meir að öðrum hópi. Námsgreinin í enskri útgáfu blaðsins þann 1. september 1931 hét: „MAÐURINN MEÐ SKIRFFÆRIN“ og var byggð á Esekíel 9:1-11. Eftir að hafa auðkennt ‚manninn með skriffærin‘ sem hinar smurðu leifar sagði Varðturninn:
9 „Sú skipun er gefin að ‚setja merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum sem framdar eru inni í kristna heiminum. . . . Drottin segir frá hópi manna sem hann mun ‚bjarga á mæðudeginum og varðveita og láta njóta lífs og sælu í landinu.‘ (Sálmur 41:2, 3) Þetta hlýtur að vera sá hópur manna sem er oft lýst sem ‚milljónum núlífandi manna er munu aldrei deyja.‘“ Hrífandi er að sjá núna milljónir þessara manna merkta til björgunar þegar þeir íklæðast sannkristnum persónuleika í vígslusambandi við Jehóva fyrir milligöngu Krists Jesú. — 1. Mósebók 22:15-18; Sefanía 2:1-3; Efesusbréfið 4:24.
10, 11. (a) Hvernig var Jehú fyrirmynd um Jesú? (b) Hver er „Jónadab“ nútímans?
10 Einkar athyglisverðar voru námsgreinar í enska Varðturninum frá 1. júlí til 1. ágúst 1932. Með tilvísan til 9. og 10. kafla 2. Konungabókar sýndu þær fram á hvernig Jehú var fyrirmynd um böðul Jehóva, konunginn Jesú Krist, með hinar smurðu leifar sem fulltrúa á jörðinni, en þær vara aðra við hinum komandi dómsdegi Jehóva. En hvern eða hverja táknaði félagi Jehús, Jónadab? Varðturninn svaraði:
11 „Jónadab er fulltrúi fyrir eða fyrirmynd um þann hóp manna, núna á jörðinni á þeim tíma sem starf Jehús er í fullum gangi, sem . . . er ekki í takt við skipulag Satans heldur tekur afstöðu með réttlætinu og er því sá hópur sem Drottinn mun varðveita meðan Harmagedón stendur yfir, bjarga í gegnum þá erfiðleika og gefa eilíft líf á jörðinni.“ Varðturninn sýndi síðan fram á að þeir væru „hinir blessuðu föður míns“ í dæmisögu Jesú um ‚sauðina og hafrana.‘ (Matteus 25:1-46) Þar sagði: „Þessir mynda hóp ‚sauðana‘ sem láta sér annt um smurða þjóna Guðs af því að þeir vita að hinir smurðu Drottins vinna verk Drottins.“
12. Hvaða hrifandi opinberun á sannleika Guðs varð árið 1935?
12 Þessi leiftur hins spádómlega ljóss undirbjuggu jarðveginn fyrir hina sögulegu ræðu um ‚múginn mikla‘ sem þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, J. F. Rutherford, flutti þann 31. maí 1935 á móti votta Jehóva í Washington, D.C. Hvílík opinberun á sannleika Guðs! Bornar voru fram fullgildar sannanir fyrir því að ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9 væri ‚aðrir sauðir‘ Drottins í Jóhannesi 10:16, Jónadabhópurinn, þeir sem fengju merki á ennið til björgunar, milljónir núlifandi manna sem munu aldrei deyja og ‚sauðirnir‘ sem eru aðgreindir frá „höfrunum“ og munu taka að erfðum eilíft líf á jarðnesku umráðasvæði Guðsríkis. Yfir allt þetta var farið í Varðturninum þann 1. og 15. ágúst 1935.
13. Hvaða hugmynd kom fram árið 1938?
13 Á árunum, sem á eftir komu, hélt skipulag Guðs áfram að gefa mikinn gaum hinum ‚mikla múgi‘ og stórfenglegri von hans um að lifa af inn í endurreista paradís á jörð. Þann 9. til 11. september 1938 komu vottar Jehóva saman til móts í London á Englandi, og tvær aðalræður voru fluttar með símalínum til annarra mótstaða víða um heim. Í einni af þessum ræðum, sem hét „Fyllið jörðina,“ kom fram sú hugmynd, að með hliðsjón af fyrri tilskipunum til manna kynnu „Jónadabar,“ sem lifðu af þrenginguna miklu, að giftast og ala börn í hinni nýju heimsskipan eftir Harmagedón, að minnsta kosti um tíma. — 1. Mósebók 1:28; 9:1, 7: sjá Varðturninn á ensku þann 15. október og 1. nóvember 1938.
14. Hvernig döfnuðu þjónar Jehóva á þessum árum?
14 Á þessum árum safnaði „herra uppskerunnar,“ Jehóva Guð, saman og sendi út fleiri verkamenn. Því fjölgaði boðberum á akrinum í um 60.000 árið 1938. — Matteus 9:37, 38.
„Konungar“ og „þjóðir“
15, 16. Hvernig áttu „konungar“ í hlut í uppfyllingu á Jesaja 60:3-10 (a) til forna og (b) nú á tímum? (c) Hvernig þjóna „útlendir menn“ nú með ‚konungum‘?
15 Þessari samansöfnun er fagurlega lýst í 60. kafla Jesajabókar, 3. til 10. versi. Þar talar Jehóva um ‚konunga‘ sem ganga fram í tengslum við það er Síon „skín“ og þjóna því skipulagi sem líkt er við eiginkonu. Þegar þjóð Guðs til forna sneri heim úr útlegðinni í Babýlon tóku Daríus Medakonungur og Kýrus Persakonungur forystuna í því að búa í haginn fyrir endurreisn tilbeiðslunnar á Jehóva í Jerúsalem. (Daníel 5:30, 31; 9:1; Esra 1:1-3) Í því hlutverki voru þeir viðeigandi tákn um konunginn alvalda, Jehóva, og meðkonung hans, Jesú, sem hafa stjórnað endurreisn sannrar guðsdýrkunar meðal þjóna Jehóva nú á tímum. (Opinberunarbókin 11:15, 17) Auk þess hafa smurðar leifar sannra guðsdýrkenda — verðandi „konungar,“ „samarfar Krists“ — tekið forystuna í vitnisburðarstarfi nútímans. Með þeim þjóna „útlendir menn“ — þeir sem ekki eru andlegir Ísraelsmenn heldur verða jarðneskir þegnar Guðsríkis og eiga jafnvel nú þegar hlutdeild í að byggja upp hið guðræðislega starf um alla jörðina. — Rómverjabréfið 8:17; samanber Jesaja 61:5, 6.
16 Jehóva sjálfur býður okkur: „Hef upp augu þín og litast um.“ Nú slæst í lið með hinum samansöfnuðu erfingjum Guðsríkis hinn ‚mikli múgur af öllum þjóðum‘! (Opinberunarbókin 7:9; Sakaría 8:23; Jesaja 2:2, 3) ‚Þeir kunngera lof Jehóva‘ í kostgæfri þjónustu. Þeir gefa líka af sjálfum sér til verkefna eins og byggingar Ríkissala til tilbeiðslu — sem sumir hverjir eru reistir á aðeins tveim dögum. Þeir „þjóna“ með heilshugar stuðningi við ört vaxandi hagsmuni Guðsríkis um allan hnöttinn. — Jesaja 60:4-7.
17, 18. (a) Hvaða hrífandi ‚flug‘ á sér nú stað? (b) Hvernig lýsir árstíðabundinn atburður í Palestínu þessu ‚flugi‘ vel?
17 Þessu næst ber Jehóva fram mjög viðeigandi spurningu: „Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna?“ Fyrstir til að koma til skipulags Guðs eru ‚synir þess af fjarlægum löndum‘ sem aðgreina sig fullkomlega frá öllum babýlonskum trúarbrögðum. Þessir smurðu menn koma með dýrmætar gjafir og helga sig fullkomlega ‚nafni Jehóva‘ Guðs síns. Sem ‚hinn heilagi í Ísrael‘ hefur hann lagt nafn sitt yfir þá og fegrað þá með þeim sérréttindum að þjóna honum sem vottar hans. Þeir taka forystuna í að upphefja nafn síns alvalda Drottins, Jehóva, hið stórfenglegasta, frægasta og dýrlegasta nafn í öllum alheiminum. — Jesaja 60:8, 9.
18 Til allrar hamingju hafa hinar smurðu leifar ekki verið einar að þessu starfi. Það gæti verið mjög erfitt fyrir þær! Þessi aldurhnigni hópur fer minnkandi því að meðlimir hans ljúka ráðvandir sínu jarðneska skeiði hver á fætur öðrum. Um 9000 eru núna eftir. En aðrir, sem teljast í milljónum, hópast núna eins og dúfur „til búra sinna,“ leita hælis hjá skipulagi Guðs. Þeir eru eins og dúfnahópar sem sjá má í Palestínu á vissum árstímum — svo margar að það er sem ský dragi fyrir sólu þegar þær fljúga yfir.
‚Opin hlið‘
19. Hvers vegna standa „hlið“ skipulags Jehóva opin og hver eru viðbrögð ‚konunga‘ og ‚útlendra manna‘?
19 Í miskunn sinni hefur Jehóva opnað upp á gátt hlið skipulags síns sem hann nú ávarpar með þessum orðum: „Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna.“ Þannig er það núna þegar hinn friðelskandi ‚mikli múgur‘ fer stöðugt vaxandi. Með fögnuði og gleði leggja ‚útlendu menn‘ fram tíma sinn, krafta og efni í ‚heilagri þjónustu dag og nótt.‘ Þeir færa sér í nyt hinar ‚víðu dyr til verka‘ og taka þátt með verðandi konungum í að færa undrafagra lofgjörð um Jehóva. — Jesaja 60:10, 11; Opinberunarbókin 7:4, 9, 15; 1. Korintubréf 16:9.
20. (a) Hverjum verður ‚gereytt‘? (b) Hvaða andstæður sjáum við hér?
20 Þessu næst ávarpar Jehóva skipulag sitt og segir: „Hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.“ Allar drembilátar þjóðir heims og aðrir andstæðingar verða auðmýktir við Harmagedón. Gagnstætt því fegrar Jehóva sinn helga tilbeiðslustað. Hann ‚gerir vegsamlegan stað fóta sinna,‘ hina jarðnesku forgarða síns mikla andlega tilbeiðslumusteris, og það gerir hann með því að safna saman þar hinum sívaxandi mikla múgi. Fyrir munn annars spámanns segir Jehóva: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ (Haggaí 2:7) En ofsækjendur, fráhvarfsmenn og aðrir ruddalegir andstæðingar munu neyðast til að „fleygja sér flötum“ — viðurkenna sér til skapraunar að vottar Jehóva eru sannarlega fulltrúar skipulags Guðs — „borg [Jehóva], Síon Hins heilaga í Ísrael.“ — Jesaja 60:12-14.
21, 22. (a) Hvað fullvissar Jehóva okkur um? (b) Hvernig ‚drekka þjónar Guðs mjólk þjóðanna‘? (c) Hvaða námsefni bíður athugunar?
21 Jehóva mun aldrei yfirgefa hjálparhellu sína, líkt við eiginkonu, óháð því hversu andstæðingarnir kunna að smána ‚syni hennar og dætur‘ hér á jörðinni. Þess í stað segir hann sínu drottinholla skipulagi: „[Ég] gjöri . . . þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða. Og þú munt drekka mjólk þjóðanna.“ Þannig er lýst með myndrænu máli hvernig jarðneskir fulltrúar skipulags Guðs notfæra sér allar leiðir til að efla sanna guðsdýrkun. Þeir færa sér í nyt fjarskipta- og fjölmiðlatækni nútímans, samgöngur og prenttækni til að prédíka fagnaðarerindið. Jehóva hefur verndað, gætt og leiðbeint vottum sínum í þessu starfi. Í þjónustu sinni við hið himneska skipulag Jehóva fagna þeir því að sjá fyrirheit hans rætast: „Þá skalt þú reyna það, að ég [Jehóva], er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.“ — Jesaja 60:15, 16.
22 Hvaða frekari hvatningu gefur Jehóva okkur í Jesaja 60:17-22? Það er hið hrifandi viðfangsefni eftirfarandi námsgreinar.
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvaða andstæður ljóss og myrkurs blasa við nú á dögum?
◻ Hvaða ljós ‚rann upp‘ markvisst á árunum 1919-38?
◻ Hvernig uppfyllist Jesaja 60:8 nú á tímum?
◻ Hvernig ganga „konungar“ og „útlendir menn“ inn um ‚galopin hlið‘?
[Rammi á blaðsíðu 9]
„Ógnvekjandi gereyðingarvopnum er nú hrúað upp með vaxandi hraða . . . Vígbúnaðarkapphlaupið teygir sig núna út á heimshöfin og út í geiminn. Það er reyndar kaldhæðnislegt að uppsöfnun vopna er ein af hinum fáu vaxandi iðngreinum á tímum efnahagskreppu og samdráttar.“ — Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier Pérez de Cuéllar
„Undir hurðinni heima var um daginn annar kunnuglegur boðskapur í formi trúarlegs smáblaðs: ‚Er Harmagedón í nánd? stóð stórum stöfum á mynd af þungbúnum himni með leiftrandi, margklofinni eldingu sem stefndi á okkur. Einu sinni hefði þess konar boðskapur kallað fram góðlátlegt bros. En skyndilega virðist þetta ekkert fyndið lengu.“ — Haynes Johnson í The Washington Post.