Þiggðu hjálp Guðs til að yfirstíga leynda ágalla
„Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.
1. Um hvað bað áhyggjufullur faðir?
DRENGURINN var flogaveikur.a Hann froðufelldi, fékk krampaköst og féll stundum á eld og oft í vatn. Áhyggjufullur faðir hans leitaði uppi mann sem var kunnur fyrir að lækna sjúka. Þegar virtist skorta trúartraust á hæfni þessa manns hrópaði faðirinn: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“
2. Hvernig getum við treyst að Guð vilji hjálpa okkur að yfirstíga leyndar ávirðingar?
2 Við getum lært sitthvað af þessum föður sem leitaði hjálpar Jesú. Maðurinn játaði að trú hans kynni að vera áfátt; hann var líka viss um að Jesús vildi hjálpa. Svo getur verið um okkur þegar við horfumst í augu við okkar eigin galla — jafnvel leynda — og vinnum að því að yfirstíga þá. Við getum treyst að Jehóva Guð vilji hjálpa okkur eins og hann hjálpaði öðrum forðum daga. (Samanber Markús 1:40-42) Til dæmis hjálpaði hann Páli postula að takast á við vandamál samfara því að hafa allsnægtir eða líða skort. Fátækur maður gæti þráð auð og efni; ágalli hins auðuga gæti verið sá að hann treysti sjálfumglaður á velgengni sína og liti niður á þá sem minna hafa. (Jobsbók 31:24, 25, 28) Hvernig sigraðist Páll á eða forðaðist slíka ágalla? Hann segir: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:11-13.
3. Hvers vegna er hyggilegt að reyna að sigrast á veikleikum okkar?
3 Hyggilegt er af okkur að treysta á mátt Guðs og vinna að því að yfirstíga ágalla okkar, ekki að láta sem þeir séu ekki til aðeins vegna þess að þeir eru leyndir nú sem stendur. Sálmaritarinn sagði um Jehóva: „Hann . . . þekkir leyndarmál hjartans.“ (Sálmur 44:22) Ef við ekki sigrumst á ávirðingum okkar geta þær komið upp á yfirborðið og orðið okkur til meira tjóns eða hnekkis. Hér á við þessi meginregla: „Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.“ (1. Tímóteusarbréf 5:24) Við skulum skoða tvær algengar ávirðingar sem vert er af kristnum mönnum, sem vilja þóknast Jehóva, að gefa gaum.
Leynd ávirðing tengd kynhvötinni
4, 5. (a) Hvaða öfgalaust sjónarmið gefur Biblían okkur í sambandi við kynhvötina? (b) Hvaða aðvaranir finnum við í Ritningunni um kynferðislegar langanir?
4 Einhver besta gjöf Guðs er hjónabandið ásamt hæfninni og lönguninni til að eignast börn. (1. Mósebók 1:28) Kynferðisleg löngun, sem fær útrás innan vébanda hjónabandsins, er eðlileg og hrein. Biblían fer lofsamlegum orðum um það að njóta kynferðislegs unaðar með maka sínum. (Orðskviðirnir 5:15-19) En ekki má gefa kynhvötinni alveg lausan tauminn. Við skulum til samanburðar líta á löngun okkar í mat. Þótt við höfum matarlyst sem vaknar aftur og aftur þýðir það ekki að við ættum að rækta með okkur óhóflega löngun í mat, eða að við þurfum ekki að stjórna því hvenær, hvar og hvernig við etum. — Orðskviðirnir 25:16, 27.
5 Vera kann að Páll hafi einu sinni verið kvæntur, og hann vissi að eðlileg kynmök milli hjóna voru við hæfi. (1. Korintubréf 7:1-5) Hann hlaut því að hafa eitthvað annað í huga þegar hann skrifaði: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd.“ (Kólossubréfið 3:5) Hér hlýtur Páll að hafa átt við kynferðislegar langanir og fullnægingu þeirra utan hins eðlilega ramma hjónabandsins. Postulinn sagði einnig: „Sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri, en ekki í losta.“ (1. Þessaloníkubréf 4:4, 5) Þessi hreinskilnislegu, innblásnu heilræði eru til gagns bæði giftum kristnum mönnum og einhleypum.
6. Hvers vegna er rétt af kristnum mönnum að forðast sjálfsfróun?
6 Slík „brennandi girnd“ (1. Þessaloníkubréf 4:5, Lifandi orð) birtist oft í því að einstaklingurinn ertir kynfæri sín í ánægjuskyni. Það er kallað sjálfsfróun eða sjálfsflekkun. Hún er mjög algeng meðal einhleypra karlmanna og kvenna, en hún er líka stunduð af mörgum sem eru í hjónabandi. Það hversu algeng hún er kemur mörgum læknum til að fullyrða að hún sé eðlileg og jafnvel til góðs. Eigi að síður gengur þessi iðkun þvert á varnaðarorð Guðs gegn „losta“ og „brennandi girnd.“ Við fáum betur skilið ástæðuna fyrir því og hvers vegna kristnir menn ættu að sigrast á þessari venju með því að íhuga ýmis heilræði sem Jesús gaf.
7. Hvaða ástæða kemur fram í Matteus 5:28 um að forðast sjálfsfróun?
7 Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Hann vissi að ástríðufullar hugsanir um hórdóm eru oft undanfari siðlausra verka. Þó segja þeir sem afsaka sjálfsfróun að hún sé venjulega tengd kynferðislegum hugarórum. Eftir að hafa rætt um a veita „meðvitaða athygli þeirri ánægju sem sjálfsfróun getur veitt,“ segir bókin Talking With Your Teenager: „Þeir [unglingar] geta ímyndað sér sig vera í tryllingslegum, kynferðislegum aðstæðum eða mökum við einhvern af sama kyni eða við sér eldra fólk svo sem kennara, ættingja eða jafnvel [foreldra]. Þeir geta haft hugaróra um kynferðislegt ofbeldi. Allt er þetta fullkomlega eðlilegt.“ En er það eðlilegt? Hvernig gæti kristinn maður álitið slíka hugaróra og sjálfsfróun ‚eðlilega‘ í ljósi varnaðarorða Jesú um ‚hórdóm í hjartanu‘ eða aðvörun Páls gegn „losta“ og „brennandi girnd“? Sigrast þarf á slíkum hugarórum og sjálfsflekkun, hvort sem í hlut á unglingur eða fullorðinn, einhleypur maður eða giftur.
Sigrast á þessari leyndu ávirðingu
8, 9. Hvað getur hjálpað manni að sigrast á sjálfsfróun?
8 Ef kristinn maður ætti við að glíma þessa leyndu ávirðingu, hvað gæti hann þá gert til að sigrast á henni til að „halda líkama sínum í helgun og heiðri“? (1. Þessaloníkubréf 4:4) Í gegnum orð sitt gefur Guð mikilsverða hjálp.
9 Í fyrsta lagi er þýðingarmikið að gera sér ljóst að Jehóva hefur ákveðna staðla. Hann tekur af öll tvímæli um hversu rangt kynlíf utan hjónabands sé, bæði hjúskaparbrot og saurlifnaður. (Hebreabréfið 13:4) Ef við því trúum að hans vegir séu bestir munum við fullnægja kynferðislegum löngunum aðeins innan vébanda hjónabandsins. (Sálmur 25:4, 5) Bókin Adolescence eftir E. Atwater bendir á um sjálfsfróun að unglingar finni oft til ‚hlédrægni, sneypu og kvíða.‘ Ein ástæða, sem hann nefnir, er að ‚hið nána ástarsamband, sem er samfara kynmökum, vantar við sjálfsfróun.‘ Já, það er til góðs að hemja kynhvötina þangað til hægt er að tjá með henni ást og umhyggju innan vébanda hjónabands.
10. Hvaða skref er hægt að stíga til að hjálpa sér að yfirstíga þessa iðkun?
10 Orð Guðs gefur frekari hjálp með því að ráðleggja: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ (Filippíbréfið 4:8) Ljóst er að kynæsandi myndir og siðlausar skáldsögur eru hvorki ‚hreinar né góðar afspurnar.‘ En oft eru þær það sem sjálfsfróarar næra sig á. Sá sem er staðráðinn í að sigrast á þessari ávirðingu verður því að forðast algerlega slíkt kynæsandi efni. Reynslan hefur sýnt að byrji langanir manns að beinast að hinu kynferðislega á svipaðan hátt og áður var undanfari sjálfsfróunar, má draga úr þeim löngunum með því að einbeita sér ákveðið að því sem er rétt og hreint. Einkum er þetta svo ef einstaklingurinn er einn eða í myrkri, en við slíkar aðstæður er hin leynda ávirðing, sjálfsfróun, algengust.b — Rómverjabréfið 13:12-14.
11. Hvað annað hefur verið gagnlegt til að glíma við þetta vandamál?
11 Önnur leið til hjálpar, sem er skyld þessari, er að vera athafnasamur í samræmi við áminninguna: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15) Biddu þroskaðan, kristinn trúnaðarvin um uppástungur um eitthvað jákvætt til að gera. (Jesaja 32:2) Margir sem hafa sigrast á þessari ávirðingu viðurkenna að sú vitneskja að umhyggjusamur kristinn maður fylgdist með framförum þeirra hafi hjálpað þeim að þroska með sér sjálfstjórn. Að sjálfsögðu ætti Jehóva að vera okkar nánasti trúnaðarinur. Því er mikilvægt að snúa sér til hans í bæn og leita hjálpar hans. (Filippíbréfið 4:6, 7) Ef einhver, sem hefur barist við þessa ávirðingu um hríð, ‚hrasar‘ getur hann beðið Guð um styrk og síðan endurnýjað baráttuþrek sitt og tekst líklega að ná tökum á sér aftur um jafnvel enn lengra tímabil. — Hebreabréfið 12:12, 13; Sálmur 103:13, 14.
Barist gegn misnotkun áfengis
12. Hvert er hið kristna sjónarmið til áfengra drykkja?
12 ‚Vin gleður Guð og menn,‘ segir á einum stað í Biblíunni. (Dómarabókin 9:13) Vera má að þú takir undir það því að áfengir drykkir hafa verið mörgum hjálp til að slaka á og gleðjast. (Sálmur 104:15) Fáir munu þó mæla á móti því að neysla áfengra drykkja getur haft í för með sér bæði líkamlegar og siðferðilegar hættur. Hrein og bein ofdrykkja er alvarlegt vandamál. Sú ávirðing er svo alvarleg að Guð varar við því að hægt sé að gera drykkjumenn ræka úr söfnuðinum og útiloka þá frá Guðsríki. (1. Korintubréf 5:11-13; Galatabréfið 5:19-21) Kristnum mönnum er það kunnugt og þeir fallast á að þeir verða að forðast að verða drukknir. En hvernig gæti misnotkun áfengis verið leynd ávirðing að beinni ofdrykkju undanskilinni?
13. Lýsið með dæmi hvernig hægt er að verða háður áfengi?
13 Verið gæti að kristinn maður drykki aðeins í hófi en væri þó sekur um alvarlega ávirðingu. Við skulum taka sem dæmi mann sem við skulum kalla Hauk.
Hann, kona hans og börn gerðust sannkristnir menn og voru mjög athafnasöm í söfnuðinum á staðnum. Að því kom að Haukur var skipaður öldungur og farið var að líta á hann sem ‚máttarstolpa‘ meðal safnaðanna í borginni. (Galatabréfið 2:9) Eins og skiljanlegt er hvíldi á honum visst álag vegna uppeldis barnanna og vissar áhyggjur samfara umsjón hjarðarinnar. (2. Korintubréf 11:28) Töluverð streita fylgdi veraldlegu starfi hans því að fyrirtækið, sem hann vann hjá, var í vexti og yfirmaður hans vildi að hann leysti fjölmörg vandamál og tæki ákvarðanir.
Á kvöldin var Haukur oft mjög taugaspenntur. Hann komst að raun um að einn eða tveir drykkir hjálpuðu honum að slaka á. Þar eð hann var þroskaður kristinn maður gætti hann þess auðvitað vandlega að drekki ekki of mikið. Þótt hann fengi sér í glas á kvöldin til að slaka á þurfti hann ekki að fá sér áfengi yfir daginn og drakk sjaldnast vín með mat. Hann var ekki þekktur fyrir að vera ‚sólginn í vín.‘ — 1. Tímóteusarbréf 3:8.
Einn góðan veðurdag var Haukur óvænt lagður inn á sjúkrahús til að gangast undir algenga skurðaðgerð. Þá komu í ljós ýmis óvenjuleg sjúkdómseinkenni. Hver var orsök þeirra? Læknar voru ekki lengi að úrskurða að þetta væru fráhvarfseinkenni. Já, líkami Hauks var orðinn háður áfengi. Þetta kom fjölskyldunni mjög á óvart en hún kom honum til hjálpar og studdi þann ásetning hans að forðast áfengi algerlega.
14. Hvað gæti leitt til þess að áfengir drykkir spottuðu mann?
14 Sumir finna að áfengi hefur tekið á sig óvenjulegt hlutverk í lífi þeirra og reyna að fela drykkju sína, því að þeir vilja ekki að fjölskylda eða vinir geri sér ljóst hversu mikið þeir drekka né hve oft. Öðrum finnst kannski að þeir séu ekki háðir áfengi, en þó er það orðið að miðpunkti dagsins hjá þeim að fá sér í glas. Þeir sem eru í öðrum hvorum hópnum eiga mjög á hættu að drekka of mikið við sum tækifæri eða að verða áfengissjúklingar þótt leynt fari. Íhugaðu þennan orðskvið: „Vínið er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.“ (Orðskviðirnir 20:1) Kjarni málsins er að of mikil drykkja getur komið manni til að verða glaumsamur og tilefni spotts. En vín gæti spottað mann í öðrum skilningi, því að hann verðskuldar spott ef hann heldur að hann geti falið drykkju sína fyrir Guði.
15. Hvernig tengjast orð Páls í 1. Korintubréfi 9:24-27 notkun kristins manns á áfengi?
15 Einn af ávöxtum anda Guðs er sjálfstjórn og við þörfnumst hennar á öllum sviðum lífsins. (Galatabréfið 5:22, 23) Páll líkti kristnum manni við hlaupagarp. Í venjulegu kapphlaupi þarf hlaupagarpurinn að ‚neita sér um allt,‘ iðka sjálfstjórn, til þess eins að „hljóta forgengilegan sigursveig.“ Á sama hátt þarf kristinn maður að ‚iðka sjálfstjórn í öllum hlutum‘ til að hljóta verðlaun sem eru miklu verðmætari — LÍFIÐ. Páll lagði á það áherslu að við yrðum að ‚gera líkamann að þræli okkar‘ til að tryggja að ‚við, sem höfum prédikað fyrir öðrum, skulum ekki sjálf verða gjörð ræk,‘ til dæmis vegna leyndrar ávirðingar sem tengd er áfengi. — 1. Korintubréf 9:24-27.
16. Hvernig er hægt að ganga úr skugga um hvort notkun áfengis er orðin að ávirðingu?
16 Hvað getur hjálpað kristnum manni að yfirstíga þessa ávirðingu? Gott er að gera sér ljóst að þótt sá sem drekkur geti dulið það öðrum mönnum getur hann ekki falið það fyrir Guði. (1. Korintubréf 4:5) Sá sem neytir áfengis ætti því að hugsa heiðarlega um drykkjuvenjur sínar eins og þær líta út í augum Guðs. (Við erum að tala um það að drekka ánægjunnar eða áhrifanna vegna, ekki aðeins það að drekka lítið eitt með mat.) En sumir segja kannski: ‚En ég þarf ekki að drekka. Mér finnst það bara gott; það hjálpar mér að slaka á. Ég gæti látið það vera ef ég vildi.‘ Nú, í ljósi þess að hætta er á að drekka of mikið eða verða háður áfengi, hví ekki að halda sér frá áfengi í einn eða tvo mánuði? Eða, úr því að sterk tilhneiging er til að neita því að um vandamál sé að ræða, gætir þú einsett þér að snerta ekki vín undir þeim kringumstæðum sem það annars væri eðlilegt. Til dæmis gæti sá sem venjulega fær sér í glas að lokinni vinnu, áður en hann leggst til svefns eða í samkvæmi látið það vera. Þannig getur hann fylgst með hvernig honum líður. Ef þetta er honum erfitt eða ef hann ‚getur ekki slakað á‘ á hann við alvarlega ávirðingu að stríða.
17. Hvers vegna verður kristinn maður, sem er sekur um leynda ávirðingu tengda notkun áfengis, að vinna að því að yfirstíga hana?
17 Þegar einlægum kristnum manni verður ljóst að hann er ekki ámælislaus frammi fyrir Guði í sambandi við notkun áfengis mun honum reynast auðveldara að yfirstíga vandann. Hann veit líklega þá þegar að Biblían segir að það sé ‚heimskulegt‘ að hugsa með sér að ‚stolið vatn sé sætt og lostætt sé launetið brauð [eða áfengi].‘ Slíkir menn munu hníga hjálparvana í dauðann, segja Orðskviðirnir. Aftur á móti elskar vitur maður áminningar, hann ‚lætur af heimskunni og mun lifa með því að feta veg hyggindanna.‘ (Orðskviðirnir 9:1, 6, 8, 13-18) Já, Guð hjálpar okkur enn frekar til að yfirstíga leyndar ávirðingar með því að láta okkur vita hvað framundan er og hvernig okkur muni á endanum farnast.
Guð umbunar fyrir það sem gert er í leynum
18. Hverju getum við treyst þegar við yfirstígum okkar leyndu ávirðingar? (Orðskviðirnir 24:12; 2. Samúelsbók 22:25-27)
18 Sumir lifa í stöðugum ótta að menn eða Guð komist á snoðir um vonda vegu þeirra. Megi það ekki vera svo hjá okkur. Við skulum í staðinn alltaf vera okkur meðvitandi um að við getum ekkert falið fyrir honum „því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ (Prédikarinn 12:14) Við skulum þiggja hjálp Jehóva til að yfirstíga ágalla okkar, jafnvel hina leyndu. Þá getum við hlakkað til þess tíma þegar það „sem í myrkrinu er hulið“ kemur fram í dagsljósið og „ráð hjartnanna“ opinberast. „Þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.“ — 1. Korintubréf 4:5; Rómverjabréfið 2:6, 7, 16.
[Neðanmáls]
a Matteus 17:14-18, Markús 9:17-24 og Lúkas 9:38-43 sýna að drengurinn var haldinn illum anda sem olli þessu. Biblían greinir á milli flogaveiki af þeim orsökum og venjulegum. — Matteus 4:24.
b Stundum fær líkaminn ósjálfráða kynferðislega fróun í svefni. Slíkt er eðlilegt og ekki hið sam og sjálfráð sjálfsfróun.
Manst þú?
◻ Hvernig lítur Guð á leyndar ávirðingar sem við erum að reyna að yfirstíga?
◻ Hvaða ráð Biblíunnar sýna að forðast ber sjálfsfróun?
◻ Hvernig getur kristinn maður sigrast á þeim ósið?
◻ Hvernig gæti notkun áfengis verið leynd ávirðing fyrst Biblían fordæmir hana ekki?
◻ Hvaða viturleg skref má stíga til að sigrast á leyndum ágöllum tengdum áfengi?
[Rammagrein á blaðsíðu 17]
Hann sigraðist á sjálfsflekkun
SEM UNGUR MAÐUR hafði C—— eðlilegar kynferðislegar tilfinningar, en hann átti líka við vandamál að glíma. Frá 13 ára aldri hafði hann tamið sér sjálfsfróun, venjulega í leynum í svefnherberginu sínu. Hann skammaðist sín örlítið fyrir en fannst að hann gerði engum mein með því.
Þegar hann varð 19 ára hafði þessi ávani fest djúpar rætur. Endrum og eins gat C—— um þetta þegar hann skriftaði fyrir presti, en honum var sagt að þetta væri ekki sérlega alvarlegt þótt það væri rangt. Þegar C—— gekk í herinn átti hann þess sjaldan kost að vera einn. Sjálfsfróun var því fátíð hjá honum á þeim tíma sem reyndar sýnir að þessi ósiður stafaði ekki af óviðráðanlegum fýsnum.
Þegar C—— losnaði úr hernum sneri hann aftur heim. Hann fór að kaupa klámtímarit og örvaður af þeim var hann fljótlega kominn í sama farið og áður. Þegar hann fór að búa einn voru lítil vandkvæði að ná í lestrar- og myndefni sem örvaði kynhvöt hans. Stundum fróaði hann sér nokkrum sínnum á dag.
Þá fór hann að nema Biblíuna með einum af vottum Jehóva. Þegar C—— kynntist því hver væru viðhorf Guðs til siðleysis fyrirvarð hann sig fyrir að kaupa klámtímaritin og vildi sigrast á þeim ávana sem sjálfsfróunin var. Hann reyndi. En eftir eina eða tvær vikur fann hann til kynferðislegrar spennu, kom við í einhverri blaðasölu og lét siðlaust blaðaefni aftur æsa sig upp. Þegar hann var kominn heim fannst honum að hann gæti gengið einu skrefi lengra úr því að hann hann hafði þegar látið undan. Eftir á fékk hann svo samviskubit. Myndi honum nokkurn tíma takast að sigrast á þessum slæma ósið?
Að síðustu talaði C—— við öldung í söfnuðinum um þetta. Þessi þjónn orðsins var skilningsríkur og hjálpaði honum að finna efni byggt á Biblíunni sem gæti hjálpað honum að efla sjálfsstjórn sína. Bróðurinn sagði líka við hann:
‚Hugsaðu þér löngunina eins og keðju. Fyrsti hlekkurinn er lítill og veikur. En við hvern hlekk verður keðjan sverari og sterkari. Eins er það með þær hvatir sem leiða til sjálfsfróunar. Þú þarft að berja niður löngunina eins fljótt og þú getur. Því lengur sem hún fær að haldast, þeim mun sterkari verður löngun þín. Að lokum verður hún nær óstöðvandi. Reyndu að slíta keðjuna við fyrsta hlekkinn. Jafnskjótt og þú finnur löngunina koma yfir þig, GERÐU EITTHVAÐ! Stattu upp, breyttu um stellingu, burstaðu skóna þína, tæmdu ruslafötuna — gerðu hvað sem þér dettur í hug til að slíta keðjuna strax. Þú gætir farið að lesa eitthvað upphátt, svo sem Biblíuna, eða kristileg rit sem munu beina hugsun þinni inn á hreinar brautir.‘
Þessi þjónn orðsins var vanur að spyrja C—— á samkomunum hvernig honum gengi og hrósaði honum reglubundið og hvatti hann til að halda fast við ásetning sinn. Í sjö vikur tókst C—— að iðka sjálfstjórn. Þá, vonsvikinn og niðurdreginn vegna annars vandamáls, beið hann lægri hlut fyrir freistingunni og keypti einhver kynæsandi rit. Honum varð aftur fótaskortur. Slíkir afturkippir áttu sér stað en bróðirinn hvatti hann til að halda áfram baráttunni. Smám saman varð lengra og lengra í milli, fyrst 9 vikur síðan 17 og því næst enn lengra. Hægt og hægt jókst sjálfstraust hans og vissa um að hann gæti sigrast á þessu leynda vandamáli.
Að síðustu horfðist C—— í augu við þá staðreynd að Jehóva vissi allt sem hann væri að gera. Ef hann því vildi þjóna Guði með algerlega hreinni samvisku yrði hann að losa líf sitt algerlega við þessa iðkun. Hann gerði það! Nú man hann ekki lengur hversu langt er orðið síðan. C—— er nú til fyrirmyndar sem kristinn maður, hefur verið gefin ábyrgðarstaða í söfnuðinum og hefur á prjónunum að auka þjónustu sína til lofs Guði. Hann er breyttur maður.