Hvernig hægt er að vera farsælt foreldri
„ÉG skal segja ykkur hvað þarf til að vera farsælt foreldri,“ segir Raymond, sem er fimm barna faðir. „Blóð, erfiði, svita og tár!“
Kona Raymonds tekur undir það af öllu hjarta og bætir við: „Það er ekki auðvelt að ala upp börn nú á dögum, en þegar maður sér þau vaxa og verða ábyrga einstaklinga er það erfiðisins virði.“
Barnauppeldi hefur aldrei verið með öllu áhyggjulaust. Núna virðist það þó vera erfiðara en nokkru sinni fyrr. „Ég held að það sé erfiðara að vera foreldri núna heldur en þegar foreldrar mínir voru að ala upp börn, vegna þess að lífið er orðið flóknara,“ segir Elaine sem er fertug og á son á táningaaldri. „Maður veit ekki alltaf hvenær á að vera strangur og hvenær mildur.“
Hvað felst í því að vera farsælt foreldri?
Það er farsælt foreldri sem elur barn sitt þannig upp að það hafi sem ákjósanlegast tækifæri til að verða ábyrgur einstaklingur sem heldur áfram að tilbiðja Guð og sýna náunga sínum kærleika. (Matteus 22:37-39) Því miður verða ekki öll börn ábyrgir einstaklingar þegar þau vaxa úr grasi. Hvers vegna? Er það alltaf sök foreldranna þegar svo fer?
Við skulum taka dæmi. Segjum að byggingaverktaki hafi í höndunum ágætustu teikningar og byggingarefni. En hver yrði árangurinn ef hann færi ekki eftir teikningunum, hirti ekki um öryggiskröfur og notaði jafnvel léleg byggingarefni í stað hinna sem til var ætlast? Er ekki hætt við að byggingin yrði léleg eða jafnvel hættuleg? En setjum sem svo að byggingaverktakinn sé samviskusamur og geri sitt besta til að fylgja vinnuteikningunum og noti bestu fáanleg efni. Er það þá ekki ábyrgð eigandans að viðhalda byggingunni þegar hann fær hana tilbúna í hendur? Er það ekki hans ábyrgð að láta það vera að rífa burt góða byggingarefnið og setja annað lélegra í staðinn?
Í táknrænum skilningi vinna foreldrarnir að gerð byggingar. Þeir vilja byggja upp góðan persónuleika með börnum sínum. Í Biblíunni eru bestu vinnuteikningarnar að honum. Byggingarefnunum, ‚gulli, silfri og dýrum steinum,‘ er í Ritningunni líkt við eiginleika svo sem sterka trú, visku frá Guði, andlega dómgreind, hollustu og kærleika til alvalds Guðs og laga hans. — 1. Korintubréf 3:10-13; samanber Sálm 19:8-12; Orðskviðina 2:1-6; 1. Pétursbréf 1:6, 7.
Þegar barnið stálpast eykst jöfnum höndum ábyrgð þess sjálfs til að byggja upp með sér ráðvandan persónuleika. Það þarf að vera fúst til að fylgja sömu vinnuteikningum, orði Guðs, og nota sömu gæðaefnin og foreldrar þess. Ef barnið neitar að gera það þegar það er vaxið úr grasi eða rífur niður hina ágætu byggingu, sem reist hefur verið, þá er ógæfan, sem af því hlýst, því sjálfu að kenna. — 5. Mósebók 32:5.
Hvers vegna er það erfitt?
Það eru að minnsta kosti tvær orsakir fyrir því að erfitt er að vera farsælt foreldri nú á tímum. Í fyrsta lagi eru bæði foreldrar og börn ófullkomin og gera mistök. Það hefur oft í för með sér að við syndgum eins og Biblían kallar það, og þessi tilhneiging til syndar er arfgeng. — Rómverjabréfið 5:12.
Hin ástæðan er þessi: Börn í uppvexti verða ekki aðeins fyrir áhrifum af foreldrum sínum. Samfélagið í heild hefur viss áhrif á verðmætamat og viðhorf barns til lífsins. Í ljósi þessa hefur spádómur Páls um okkar daga sérstaka þýðingu fyrir foreldra. Hann sagði: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Úr því að nútímasamfélag er byggt úr svona gölluðum efnum, er það þá nokkur furða að sumir foreldrar skuli fórna höndum í örvæntingu og nánast gefast upp við að reyna að ala upp börnin sín? Líttu um öxl til ársins 1914. Þetta örlagaríka ár varð grundvallarbreyting á samfélaginu og sú breyting var ekki til batnaðar. Þær tvær heimsstyrjaldir, sem háðar hafa verið síðan, hafa sópað meiru en aðeins friðinum burt af jörðinni. Þjóðfélagið skortir þann siðferðisstyrk sem þarf til að gegna því hlutverki sínu að búa börnin undir að taka á sig ábyrgð sem fullvaxta einstaklingar. Foreldrar, sem hneigjast til réttlætis, standa meira að segja frammi fyrir þjóðfélagsumhverfi sem er fjandsamlegt þeim siðferðisverðmætum er þeir vilja kenna börnum sínum.
Foreldrar hafa því færra sér til stuðnings en fyrrum. Áður fyrr gátu þeir gengið að því vísu að skólarnir hjálpuðu þeim við að innprenta börnunum sama verðmætamat og foreldrarnir kenndu heima fyrir. Nú er það ekki lengur svo.
„Unglingar þurfa að mæta annars konar álagi núna,“ segir Shirley sem útskrifaðist úr menntaskóla árið 1960. „Við höfðum hvorki fíkniefni né frjálst kynlíf þegar ég var í menntaskóla. Fyrir 30 árum var það talinn ljóður á ráði manns að fikta við að reykja. Þegar elsta dóttir mín sótti menntaskóla frá 1977 til 1981 var fíkniefnanotkun stórt vandamál. Núna eru fíkniefni komin inn í skóla yngri barna. Á hverjum einasta degi síðastliðin tvö ár hefur verið reynt að fá yngstu dóttur mína, sem er 13 ára, til að neyta fíkniefna í skólanum.“
Áður fyrr gátu foreldrar einnig reiknað með því að afi og amma, ættingjar og nágrannar leggðu þeim lið við að hafa auga með hegðun barnanna. En það er líka breytt. Og því miður fer þeim fjölskyldum fjölgandi þar sem ekki eru einu sinni tveir um barnauppeldið; þar hvílir öll uppeldisbyrðin á herðum annars foreldrisins.
Vinnuteikningar sem duga
Enda þótt barnauppeldi sé erfiðara núna en áður var geta foreldrar náð góðum árangri ef þeir notfæra sér gamalreynt hjálpargagn — Biblíuna. Orð Guðs getur verið vinnuteikning þín að barnauppeldinu. Alveg eins og vitur byggingameistari fylgir nákvæmlega vinnuteikningunum þegar hann ætlar að reisa hús, eins er hægt að nota Biblíuna sem altækan leiðarvísi að því að ala upp börn svo að þau verði ábyrgir einstaklingar. Að vísu var Biblían ekki hugsuð eingöngu sem handbók um barnauppeldi, en hún geymir eigi að síður beinskeytt heilræði ætluð foreldrum og börnum. Hún hefur einnig að geyma mikinn sjóð meginreglna sem geta verið öllum foreldrum til mikillar hjálpar, sé eftir þeim farið. — 5. Mósebók 6:4-9.
Sú hefur verið reynsla Diane. Þegar sonur hennar, Eric, nú 14 ára, var yngri var hann „mjög ákaflyndur drengur og erfitt að tala við hann,“ segir hún. Það var þá sem hún uppgötvaði viskuna að baki þessum orðskvið Biblíunnar: „Ráðin [tilgangur eða áform] í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.“ (Orðskviðirnir 20:5) Hjá sumum börnum er djúpt á tilfinningum og hugsunum hjartans — hinum raunverulegu áformum og löngunum — líkt og vatni í botninum á djúpum brunni. Eric var þannig. Það kostar erfiði af hálfu foreldranna að draga fram það sem í hjartanu býr. „Þegar hann kom heim úr skólanum var hann ekki ólmur að segja frá því sem þar hafði gerst,“ segir Diane. „Ég tók mér því tíma til að komast að því hvað mætti honum í skólanum. Stundum þurfti ég að tala bókstaflega svo klukkustundum skipti við Eric áður en hann lét í ljós hvað hann var raunverulega að hugsa innst inni.“
Ástæðan fyrir hinu mikla gildi Biblíunnar sem leiðarvísis er einföld: Jehóva Guð er höfundur hennar. Hann er líka skapari okkar. (Opinberunarbókin 4:11) Hann þekkir eðli okkar og er fús til að ‚kenna okkur að gera það sem okkur er gagnlegt og vísa okkur þann veg sem við ættum að ganga.‘ Það á við jafnt um börn sem foreldra. (Jesaja 48:17; Sálmur 103:14) Enda þótt sumir þurfi að leggja meira á sig en aðrir til að verða farsælir foreldrar, þá geta allir orðið betri foreldrar með því að fylgja þeim leiðbeiningum sem er að finna í Ritningunni.
Meðhöndlaðu hvert barn sem einstakling
Góð börn verða ekki til við það eitt að fylgt sé einhverjum reglum sem menn hafa búið til og allt eiga að geta leyst, nokkuð frekar en að sérhver fullorðinn maður sé til þess fallinn að verða „fullkomið“ foreldri. Hvert barn hefur sinn eigin persónuleika og það þarf að meðhöndla sem einstakling. Biblían horfist í augu við það. Meginreglan að baki eftirfarandi leiðbeiningum getur hjálpað foreldrum að gera ekki óhagstæðan samanburð á börnum: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ — Galatabréfið 5:26; 6:4.
John, tveggja barna faðir, hefur þá reynslu að þessi ráðlegging Ritningarinnar hjálpi börnum hans að hafa öfgalaust viðhorf hvort til annars, og jafnvel til annarra fjölskyldna. „Ég hvet börnin mín til að einblína ekki á hvað aðrar fjölskyldur eiga eða gera,“ segir John. „Við höfum okkar eigin staðal í fjölskyldunni sem okkur ber að fylgja.“
Kennt „frá blautu barnsbeini“
Hvenær ætti trú og trúfræðsla að verða hluti af árangursríku barnauppeldi? „Það er ekki hægt að byrja of snemma,“ segir Gary sem á dreng nýbyrjaðan í forskóla. Gary álítur að börnin verði að eiga sanna vini í kristna söfnuðinum jafnvel áður en þau byrja að sækja skóla. Það er ein af ástæðunum fyrir því að Gary og kona hans hafa farið með drenginn á kristnar samkomur nánast frá fæðingu. Í þessu líkir Gary eftir því sem Evnike, móðir sem er hrósað í Biblíunni, gerði fyrir son sinn Tímóteus. Tímóteus lærði undirstöðukenningar Ritningarinnar „frá blautu barnsbeini.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15.
Móðir Tímóteusar og sennilega einnig amma, Lóis, fullvissuðu sig um að það væru ekki þeirra eigin hugmyndir sem þær innprentuðu honum frá blautu barnsbeini, heldur kenningar Jehóva sem gátu veitt honum visku til hjálpræðis. Í bréfi til Tímóteusar segir kristni postulinn Páll: „Halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.
Lóis og Evnike hjálpuðu sem sagt Tímóteusi að draga ályktanir út frá orði Guðs og byggja trú sína á því sem hið ritaða orð Guðs sagði. Því var trú hans ekki byggð eingöngu á kennslu móður hans og ömmu heldur á visku Jehóva sem orð hans geymir. Hann fylgdi ekki hinum kristna sannleika einungis vegna þess að móðir hans og amma voru tilbiðjendur Jehóva; hann var sjálfur sannfærður um að það sem þær höfðu kennt honum væri sannleikur.
Vafalaust hefur Tímóteus einnig leitt hugann að því hvers konar manneskjur móðir hans og amma voru — andlega sinnaðir einstaklingar. Þær hvorki blekktu hann né rangsneru sannleikanum í eigingjörnum tilgangi. Þær voru ekki hræsnisfullar. Tímóteus hafði því engar efasemdir um það sem hann hafði lært. Og enginn vafi leikur á að þjónusta hans sem fullvaxta kristins manns hefur yljað trúfastri móður hans um hjartaræturnar.
Já, það kostar erfiði og strit að vera farsælt foreldri, en móðirin, sem í var vitnað í greinarbyrjun, sagði: „Það er erfiðisins virði.“ Einkum er það svo ef foreldrarnir geta sagt um börnin sín eins og Jóhannes postuli skrifaði andlegum börnum sínum: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ — 3. Jóhannesarbréf 4.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Fræðsluáætlun ísraelskra foreldra
Foreldrar í Ísrael til forna báru ábyrgð á því að mennta börnin sín og ala þau upp. Þeir urðu að vera kennarar og leiðbeinendur barnanna. Nútímaforeldrar geta haft að því mikið gagn að fylgja svipaðri áætlun. Hægt er að draga fræðsluáætlun Ísraelsmanna saman í eftirfarandi atriði:
1. Börnin áttu að læra að óttast Jehóva. — Sálmur 34:12.
2. Þau voru hvött til að heiðra föður sinn og móður. — 2. Mósebók 20:12.
3. Þau voru frædd í lögmálinu og lærðu um samskipti Jehóva við þjóð sína. — 5. Mósebók 6:7-21.
4. Lögð var áhersla á virðingu fyrir þeim sem eldri voru. — 3. Mósebók 19:32.
5. Lögð var áhersla á hlýðni. — Orðskviðirnir 23:22-25.
6. Veitt var hagnýt kennsla, verkþjálfun. — Markús 6:3.
7. Kenndur var lestur og skrift. — Jóhannes 7:15.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Orð Guðs er eins og vinnuteikning eða mælistika sem sýnir hvernig á að ala upp börn.