„Klæðumst hertygjum ljóssins“
„Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 13:12.
1, 2. Hver urðu viðbrögð flestra Gyðinga á fyrstu öld við hinu ‚sanna ljósi‘ þótt þeir stæðu á hvaða hátt vel að vígi?
JESÚS Kristur er „hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann.“ (Jóhannes 1:9) Er hann kom sem Messías árið 29 kom hann til þjóðar sem hafði verið útvalin af Guði til að verða vottar hans og var, í það minnsta að nafninu til, vígð Jehóva. (Jesaja 43:10) Margir Ísraelsmenn höfðu verið að bíða Messíasar og fjölmargir þekktu suma af spádómunum sem hann átti að þekkjast af. Enn fremur prédikaði Jesús út um alla Palestínu og gerði tákn fyrir opnum tjöldum þar sem mannfjöldinn sá til. Menn streymdu til hans hópum saman og hrifust af því sem þeir sáu og heyrðu. — Matteus 4:23-25; 7:28, 29; 9:32-36; Jóhannes 7:31.
2 Þegar til kastanna kom höfnuðu þó flestir Gyðingar Jesú. Jóhannesarguðspjall segir: „Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.“ (Jóhannes 1:11) Hvers vegna? Svarið við þeirri spurningu getur forðað okkur frá sömu mistökunum og þeir gerðu. Það mun hjálpa okkur að ‚leggja af verk myrkursins og klæðast hertygjum ljóssins‘ og forðast þannig óhagstæðan dóm eins og kom yfir Ísrael fyrstu aldar. — Rómverjabréfið 13:12; Lúkas 19:43, 44.
Andstaða frá trúarleiðtogum
3. Á hvaða veg reyndust trúarleiðtogar Gyðinga ‚blindir leiðtogar‘?
3 Trúarleiðtogar Ísraels voru fremstir í því að hafna ljósinu. Þótt þeir væru „lögvitringar,“ kennarar vel að sér í lögmálinu, höfðu þeir þvingað upp á fólk laga- og reglnabálki sem oft gekk í berhögg við lögmál Guðs. (Lúkas 11:45, 46) Þannig ‚ógiltu þeir orð Guðs með erfikenningu sinni.‘ (Markús 7:13; Matteus 23:16, 23, 24) Þeir voru ‚blindir leiðtogar‘ og hindruðu að ljósið fengi að skína. — Matteus 15:14.
4, 5. (a) Hver urðu viðbrögð faríseanna er fjöldi Gyðinga fór að ígrunda hvort Jesús væri Messías? (b) Hvaða slæma hjartalag létu farísearnir í ljós?
4 Einhverju sinni, er margir Ísraelsmenn voru að ígrunda hvort Jesús kynni að vera Kristur, sendu óttaslegnir farísearnir lögreglumenn til að handtaka hann. Lögreglumennirnir komu tómhentir til baka og sögðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ Ósnortnir spurðu farísearnir lögreglumennina: „Létuð þér þá einnig leiðast afvega? Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum? Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“ Níkódemus, meðlimur æðsta ráðsins, andmælti og sagði að það væri ólöglegt að dæma mann án yfirheyrslu. Farísearnir sneru sér þá gegn honum og sögðu illkvitnislega: „Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu.“ — Jóhannes 7:46-52.
5 Hvers vegna hegðuðu trúarleiðtogar þjóðar, sem var vígð Guði, sér svona? Vegna þess að þeir höfðu látið þróast með sér illt hjarta. (Matteus 12:34) Fyrirlitning þeirra á almúgafólki kom upp um hroka þeirra. Er þeir sögðu: „Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum,“ lýsti það því hrokafulla viðhorfi að Messías gæti þá aðeins verið ósvikinn að þeir viðurkenndu hann. Að auki voru þeir óheiðarlegir, reyndu að gera lítið úr Jesú á þeirri forsendu að hann væri frá Galíleu þegar lítilsháttar athugun hefði leitt í ljós að hann var fæddur í Betlehem sem spádómurinn sagði að yrði fæðingarstaður Messíasar. — Míka 5:1; Matteus 2:1.
6, 7. (a) Hver urðu viðbrögð trúarleiðtoganna við upprisu Lasarusar? (b) Hvað sagði Jesús til að afhjúpa hvernig trúarleiðtogarnir elskuðu myrkrið?
6 Ófrávíkjanleg andstaða þessara trúarleiðtoga gegn ljósinu birtist mjög greinilega er Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum. Guðhræddur maður hefði litið á slíkan atburð sem sönnun þess að Jesús væri sendur af Jehóva. Trúarleiðtogarnir gátu hins vegar séð það eitt að forréttindastöðu þeirra væri hugsanlega ógnað. Þeir sögðu: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“ (Jóhannes 11:44, 47, 48) Þeir tóku því saman ráð sín um að drepa bæði Jesú og Lasarus, kannski í von um að þeim tækist þannig að slökkva ljósið. — Jóhannes 11:53, 54; 12:9, 10.
7 Trúarleiðtogar þjóðar Guðs létu því hroka, dramb, óheiðarleika gagnvart heilbrigðri hugsun og eiginhagsmuni á hæsta stigi reka sig burt frá ljósinu. Undir lok þjónustu sinnar afhjúpaði Jesús sekt þeirra og sagði: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast.“ — Matteus 23:13.
Eigingirni og dramb
8. Hvaða atburðir í Nasaret afhjúpuðu slæmt hjartalag sumra þar?
8 Að stærstum hluta til hermdu Gyðingar á fyrstu öld eftir trúarleiðtogum sínum í því að hafna ljósinu sökum rangra viðhorfa. Eitt sinn var Jesú til dæmis boðið að tala í samkunduhúsi í Nasaret. Hann las og útskýrði ritningargrein úr Jesaja og í fyrstu hlustaði söfnuðurinn á hann. En er hann tók að benda á sögulegar hliðstæður sem afhjúpuðu eigingirni þeirra og trúarskort urðu þeir ævareiðir og reyndu að drepa hann. (Lúkas 4:16-30) Dramb, ásamt öðrum slæmum eiginleikum, hindraði þá í að bregðast rétt við ljósinu.
9. Hvernig komu í ljós rangar hvatir hjá stórum hópum Galíleumanna?
9 Við annað tækifæri vann Jesús það kraftaverk að metta mikinn mannfjölda við Galíleuvatn. Þeir sem voru vitni að þessu kraftaverki sögðu: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.“ (Jóhannes 6:10-14) Er Jesús hélt til annars staðar á báti elti mannfjöldinn hann. En Jesús vissi að ástæðan hjá mörgum var ekki sú að þeir elskuðu ljósið. Hann sagði þeim: „Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.“ (Jóhannes 6:26) Það sýndi sig fljótlega að hann hafði lög að mæla er fjöldi þeirra, sem höfðu fylgt honum, sneri aftur til heimsins. (Jóhannes 6:66) Viðhorf sem spyr í eigingirni: ‚Hvað fæ ég út úr því?‘ lokaði fyrir ljósið til þeirra.
10. Hver urðu viðbrögð flestra heiðingja við ljósinu?
10 Eftir dauða Jesú og upprisu héldu Gyðingar, sem tekið höfðu trú, áfram að flytja öðrum Gyðingum ljósið en fáir tóku við því. Þess vegna útbreiddu Páll og aðrir, sem „ljós heiðinna þjóða,“ fagnaðarerindið til annarra landa. (Postulasagan 13:44-47) Margt manna af öðrum þjóðum tók við boðskapnum en hin almennu viðbrögð urðu eins og Páll lýsti: „Vér prédikum Krist krossfestan, . . . heiðingjum heimsku.“ (1. Korintubréf 1:22, 23) Flestir menn af öðrum þjóðum höfnuðu ljósinu vegna þess að þeir voru blindaðir af heiðinni hjátrú eða veraldlegri heimspeki. — Postulasagan 14:8-13; 17:32; 19:23-28.
‚Kallaðir frá myrkrinu‘
11, 12. Hverjir tóku á móti ljósinu á fyrstu öld og hverjir gera það nú á dögum?
11 Þrátt fyrir almennt áhugaleysi á fyrstu öldinni voru margir hjartahreinir menn ‚kallaðir frá myrkrinu til hins undursamlega ljóss Guðs.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Um þá skrifar Jóhannes postuli: „En öllum þeim, er tóku við [Kristi], gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.“ (Jóhannes 1:12) Frá og með hvítasunnunni árið 33 létu þeir sem elskuðu ljósið skírast með heilögum anda og urðu synir Guðs og öðluðust von um að ríkja með Jesú á himnum.
12 Á okkar dögum hefur verið safnað saman hinum síðustu af smurðum sonum Guðs, og þeir uppfylla spádóm Daníels með því að ‚skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og leiða marga til réttlætis.‘ (Daníel 12:3) Þeir hafa látið ljós sitt skína í þeim mæli að yfir fjórar milljónir ‚annarra sauða‘ hafa laðast að sannleikanum og standa nú réttlátir frammi fyrir Guði. (Jóhannes 10:16) Þeir endurkasta síðan ljósinu út um heim allan þannig að það skín skærar nú en nokkru sinni fyrr. Á okkar dögum, eins og á fyrstu öldinni, ‚hefur myrkrið ekki yfirbugað ljósið.‘ — Jóhannes 1:5.
‚Hjá Guði er ekkert myrkur‘
13. Hvaða viðvörun fáum við frá Jóhannesi postula?
13 Við ættum þó aldrei að gleyma varnaðarorðum Jóhannesar postula: „‚Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum.‘ Ef vér segjum: ‚Vér höfum samfélag við hann,‘ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.“ (1. Jóhannesarbréf 1:5, 6) Ljóst er að kristinn maður getur fallið í sömu gildruna og Gyðingar, verið vottur Guðs að nafninu til en unnið verk myrkursins.
14, 15. Hvaða verk myrkursins birtust í kristna söfnuðinum á fyrstu öld og hvað lærum við af því?
14 Það gerðist reyndar á fyrstu öldinni. Við lesum um alvarlega sundrung í Korintu. (1. Korintubréf 1:10-17) Jóhannes postuli þurfti að vara smurða kristna menn við því að hata hver annan og Jakob þurfti að leiðbeina sumum um að taka ekki ríka fram yfir fátæka. (Jakobsbréfið 2:2-4; 1. Jóhannesarbréf 2:9, 10; 3. Jóhannesarbréf 11, 12) Enn fremur, er Jesús gerði könnun hjá söfnuðunum sjö í Litlu-Asíu eins og Opinberunarbókin greinir frá, skýrði hann frá því að verk myrkursins, meðal annars fráhvarf frá trúnni, skurðgoðadýrkun, siðleysi og efnishyggja, hefðu tekið sér bólfestu. (Opinberunarbókin 2:4, 14, 15, 20-23; 3:1, 15-17) Á þessu bernskuskeiði kristna safnaðarins höfðu því margir yfirgefið ljósið, sumum verið vikið úr söfnuðinum og aðrir einfaldlega látið berast út í „ystu myrkur.“ — Matteus 25:30; Filippíbréfið 3:18; Hebreabréfið 2:1; 2. Jóhannesarbréf 8-11.
15 Allar þessar frásögur frá fyrstu öldinni sýna hvernig myrkrið í heimi Satans getur á ýmsa vegu síast inn í huga einstakra kristinna manna eða jafnvel heilla safnaða. Við ættum að vera á verði til að slíkt hendi okkur aldrei. Hvernig getum við gert það?
Nýi persónuleikinn
16. Hvaða góð ráð gaf Páll Efesusmönnum?
16 Páll hvatti Efesusmenn til að ‚láta ekki skilning sinn vera blindaðan og vera ekki fjarlægir lífi Guðs.‘ Til þess að leiðast ekki aftur út í myrkrið yrðu þeir að rækta með sér hjartalag sem hæfði ljósinu. Páll sagði: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ — Efesusbréfið 4:18, 22-24.
17. Hvernig getum við nú á tímum komist hjá því að leiðast aftur út í myrkrið?
17 Páll ráðleggur okkur hérna að gangast undir róttækan „uppskurð“ — að skera burt það sem áður var hluti af okkur, gamla persónuleikann, og leyfa algerlega nýjum anda að þróast til að knýja huga okkar. Og hann var ekki að tala við þá sem nýlega höfðu sýnt áhuga heldur skírða kristna menn. Við skírnina hættum við ekki að breyta persónuleika okkar. Það verk heldur áfram. Ef við hættum að rækta nýja persónuleikann er líklegt að hinn gamli skjóti upp kollinum með drambi sínu, hroka og eigingirni. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 7:21-25) Það gæti leitt okkur aftur til verka myrkursins.
„Í þínu ljósi sjáum vér ljós“
18, 19. Á hverju þekkjast „börn ljóssins“ samkvæmt orðum Jesú og Páls?
18 Munum að það að öðlast eilíft líf er undir því komið að fá hagstæðan dóm af hendi Guðs, og þessi dómur er byggður á því hve heitt við elskum ljósið. Eftir að hafa vikið að því síðarnefnda sagði Jesús: „Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ — Jóhannes 3:19-21.
19 Páll tók undir þessa hugsun er hann skrifaði Efesusmönnum: „Hegðið yður eins og börn ljóssins. — Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Efesusbréfið 5:8, 9) Verk okkar sýna því hvort við erum börn ljóssins eða myrkursins. En rétt verk geta einungis sprottið af góðu hjarta. Þess vegna verðum við að gæta hjarta okkar, vera vakandi fyrir nauðsyn þess að halda áfram að endurnýja persónuleika okkar, gæta að þeim anda sem knýr huga okkar. — Orðskviðirnir 4:23.
20, 21. (a) Hvaða sérstök áskorun mætir börnum sem fæðast inn í kristna fjölskyldu? (b) Hvaða áskorun blasir við öllum börnum kristinna foreldra?
20 Í sumum tilvikum hefur þetta reynst sérstök áskorun fyrir börn sem fædd eru vígðum vottum Jehóva. Hvers vegna? Nú, annars vegar njóta slík börn sérstakrar blessunar. Það að þekkja sannleikann frá bernsku merkir í reynd að einstaklingurinn þarf aldrei að kynnast af eigin raun myrkrinu í heimi Satans. (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Á hinn bóginn taka sum börn í þessari aðstöðu sannleikann sem sjálfsagðan hlut og læra aldrei að elska ljósið í raun. Þannig var komið fyrir flestum Gyðingum á fyrstu öld. Þeir ólust upp meðal þjóðar sem var vígð Jehóva og að einhverju marki höfðu þeir þekkingu á sannleikanum. En hann var ekki í hjörtum þeirra. — Matteus 15:8, 9.
21 Kristnir foreldrar bera þá ábyrgð frammi fyrir Guði að ala börn sín upp í ljósinu. (5. Mósebók 6:4-9; Efesusbréfið 6:4) En að því kemur að barnið verður sjálft að elska ljósið heitar en myrkrið. Það verður að tileinka sér ljós sannleikans. Þegar það vex úr grasi getur sumt í heimi Satans virst aðlaðandi. Áhyggjulaus eða ábyrgðarlaus lífsstíll jafnaldra þess getur virst spennandi. Efahyggjan, sem kennd er í skólanum, getur verið freistandi. En barnið ætti aldrei að gleyma að „myrkur grúfir yfir jörðinni“ þar sem ljóssins nýtur ekki. (Jesaja 60:2) Þegar til lengdar lætur hefur þessi myrkvaði heimur ekkert gott að bjóða. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
22. Hvernig blessar Jehóva þá sem koma til ljóssins og hvernig mun hann blessa þá í framtíðinni?
22 Davíð konungur skrifaði: „Hjá þér [Jehóva] er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós. Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig.“ (Sálmur 36:10, 11) Þeir sem elska ljósið kynnast Jehóva og það getur haft líf í för með sér fyrir þá. (Jóhannes 17:3) Í kærleika sínum styður Jehóva þá núna, og þegar þrengingin mikla skellur á mun hann sjá til þess að þeir komist gegnum hana inn í hinn nýja heim. Það getur orðið hlutskipti okkar ef við vísum núna á bug myrkrinu í heimi Satans. Í nýja heiminum mun mannkyninu verða lyft upp til fullkomleika í paradís. (Opinberunarbókin 21:3-5) Þeir sem hljóta hagstæðan dóm þá eiga í vændum að baða sig í ljósi Jehóva um alla eilífð. Það eru stórkostlegar framtíðarhorfur! Og það er sannarlega öflug hvatning núna til að ‚leggja af verk myrkursins og klæðast hertygjum ljóssins.‘ — Rómverjabréfið 13:12.
Manst þú?
◻ Hvers vegna höfnuðu flestir Gyðingar á dögum Jesú ljósinu?
◻ Í hvaða mæli hefur ljósið skinið nú á tímum?
◻ Hvaða viðvörun gegn eigingirni og drambi ómar frá fyrstu öld?
◻ Hvað er nauðsynlegt ef við ætlum að halda áfram að ganga í ljósinu?
◻ Hvaða blessun bíður þeirra sem elska ljósið?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Þorri Gyðinga á dögum Jesú tók ekki við ljósinu.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Gegnum árin hefur verið beitt ýmsum aðferðum til að láta ljósið skína og gera menn að lærisveinum.
[Mynd á blaðsíðu 19]
„Þér eigið að . . . afklæðast hinum gamla manni . . . og íklæðast hinum nýja manni.“