Hverjir trúa á illa anda?
TRÚIR þú að ósýnilegir andar geti haft áhrif á líf þitt? Margir myndu svara spurningunni afdráttarlaust neitandi. Þótt þeir viðurkenni tilvist Guðs skopast þeir að hugmyndinni um ofurmannleg, ill öfl.
Útbreidda vantrú Vesturlandabúa á tilvist anda má að nokkru leyti rekja til áhrifa kristna heimsins sem kenndi um aldaraðir að jörðin væri miðja alheimsins, mitt á milli himna og neðanjarðarvítis. Samkvæmt þeirri kenningu bjuggu englarnir í himneskri alsælu en djöflar réðu ríkjum í helvíti.
Þegar uppgötvanir vísindanna fengu menn til að hafna röngum hugmyndum um gerð alheimsins komst það úr tísku að trúa á andaverur. The New Encyclopædia Britannica segir: „Í kjölfar Kóperníkusarbyltingarinnar (byggð á kenningum pólska stjarnfræðingsins Kóperníkusar) á 16. öld, þar sem . . . jörðin var ekki lengur álitin miðja alheimsins heldur einungis reikistjarna í sólkerfi sem er agnarsmár hluti vetrarbrautar í að því er virðist óendanlegum alheimi — virtust hugmyndir um engla og djöfla ekki lengur við hæfi.“
Enda þótt margir trúi ekki á tilvist illra anda eru til milljónir manna sem gera það. Fallnir englar gegna stóru hlutverki í mörgum trúarbrögðum, bæði fyrr og nú. Auk þess hlutverks að spilla andlegu hugarfari manna er litið svo á að þessir illu englar valdi hörmungum svo sem styrjöldum, hungursneyð og jarðskjálftum, auk þess að stuðla að veikindum, geðsjúkdómum og dauða.
Satan djöfullinn er helsti illi andinn í Gyðingdómi og kristni en múslímar kalla hann Iblis. Í hinni forn-persnesku zaraþústratrú birtist hann sem Angra Mænjú. Í gnostíkatrúnni, sem stóð í blóma á annarri og þriðju öld okkar tímatals, var hann álitinn vera Heimssmiðurinn, en það heiti var gefið afbrýðisömum og óæðri guði sem meirihluti mannkyns tilbað í fáfræði.
Lágt settir, illir andar eru áberandi í austurlenskum trúarbrögðum. Hindúar álíta að asúrar (djöflar) séu andstæðingar deva (guða). Af asúrunum óttast menn sérstaklega raksjasa, hræðilegar verur sem ásækja grafreiti.
Búddhatrúarmenn hugsa sér illa anda sem persónugerð öfl er hindri manninn í að öðlast nirvana, slokknun löngunarinnar eða algleymi. Aðalfreistarinn meðal þeirra er Mara og þrjár dætur hans, þær Ratí (löngun), Raga (unaður) og Tanha (eirðarleysi).
Kínverjar nota brennur, blys og púðurkerlingar til verndar fyrir kúei eða náttúrudjöflum. Japönsk trúarbrögð kenna einnig að til séu margir djöflar, þeirra á meðal hinir skelfilegu tengú, andar sem taka sér bólfestu í fólki uns prestur særir þá út.
Í trúarbrögðum þjóðflokka án ritmáls í Asíu, Afríku, Eyjaálfu og allri Ameríku eru andaverur álitnar hjálpsamar eða skaðsamar eftir aðstæðum og ríkjandi skapi sínu. Fólk sýnir þessum öndum lotningu í því skyni að bægja frá sér ógæfu og njóta greiðsemi þeirra.
Við allt þetta má svo bæta almennum áhuga á göldrum og spíritisma og er þá ljóst að trú á illa anda á sér langa sögu og útbreidda. En er skynsamlegt að trúa því að slíkar verur séu til? Biblían segir þær vera til. En ef þær eru til, hvers vegna leyfir Guð þeim þá að hafa skaðleg áhrif á menn?