Erindrekar hins illa
SKÝRINGAR Biblíunnar á hlutverki illra anda í málefnum mannsins svara stóru spurningunum um hið illa sem annars væru engin svör við. Tökum sem dæmi þessa staðhæfingu blaðsins International Herald Tribune um hið yfirstandandi stríð á Balkanskaga: „Rannsóknarnefnd Evrópubandalagsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að [hermenn] hafi nauðgað allt að 20.000 múslímskum konum og stúlkum . . . og að það sé þáttur í kerfisbundinni grimmdarverkastefnu sem sé ætlað að hræða kjarkinn úr fólki, lama siðferðisþrek þess og hrekja það frá heimilum sínum.“
Í grein í tímaritinu Time var bjástrað við að koma með skýringu: „Ungir menn í stríði eiga það stundum til að nauðga konum til að þóknast þeim sem eldri eru, foringjum sínum, og ávinna sér eins konar föðurlega velþóknun. Nauðgunin er sönnun um fylgi við grimmd herdeildarinnar. Ungur maður, sem er fús til að vinna voðaverk, hefur látið samvisku sína víkja til að samlagast ósveigjanlegum markmiðum hópsins. Maður innsiglar hollustu sína með ódæðisverkum.“
En hvers vegna eru ‚ósveigjanleg markmið hópsins‘ spilltari en samviska einstaklinganna í hópnum? Sem einstaklingar þrá nálega allir að lifa í friði við náunga sinn. Hvers vegna nauðga menn þá, pynda og drepa hver annan á stríðstímum? Ein höfuðástæða er sú að ill öfl, illir andar, eru að verki.
Skilningur á hlutverki illra anda er líka lausnin á því sem sumir kalla „vandamál guðfræðingsins.“ Vandamálið er það hvernig eigi að samrýma þrjár staðhæfingar: (1) Guð er almáttugur; (2) Guð er kærleiksríkur og góður og (3) hræðilegir atburðir eiga sér stað. Sumir álíta að það sé hægt að samrýma einhverjar tvær þessara staðhæfinga en að það sé aldrei hægt að samrýma allar þrjár. Orð Guðs veitir okkur svarið og svar þess tekur mið af ósýnilegum öndum, erindrekum hins illa.
Fyrsti uppreisnarseggurinn
Biblían segir okkur að Guð sé sjálfur andi. (Jóhannes 4:24) Þegar fram liðu stundir skapaði hann milljónir annarra andavera, englasyni. Í sýn sá þjónn Guðs, Daníel, hundrað milljónir engla. Allar andaverurnar, sem Jehóva skapaði, voru réttlátar og samstilltar vilja hans. — Daníel 7:10; Hebreabréfið 1:7.
Síðar, þegar Guð „grundvallaði jörðina“ sungu þessir englasynir Guðs ‚gleðisöng allir saman‘ og „fögnuðu.“ (Jobsbók 38:4-7) En einn þeirra byggði upp löngun til að hrifsa til sín þá tilbeiðslu sem skaparanum bar réttilega. Með því að gera uppreisn gegn Guði gerði þessi engill sig að satan (sem merkir „andstæðingur“) og djöfli (sem merkir „rógberi“). — Samanber Esekíel 28:13-15.
Satan notaði höggorm í Eden til að tala við fyrstu konuna, Evu, og telja hana á að óhlýðnast beinum fyrirmælum Guðs um að borða ekki ávöxtinn af ákveðnu tré í garðinum. Eftir á fór eiginmaður hennar að dæmi hennar. Þannig gengu fyrstu mannhjónin í lið með englinum í uppreisn gegn Jehóva. — 1. Mósebók 2:17; 3:1-6.
Svo getur virst sem atburðirnir í Eden séu einföld lexía í hlýðni en Satan vakti auk þess upp tvö, siðferðileg deilumál. Í fyrsta lagi véfengdi Satan að stjórn Jehóva yfir sköpunarverum hans væri réttlát og þeim fyrir bestu. Kannski gætu menn stjórnað sér betur sjálfir. Í öðru lagi dró Satan í efa að nokkur skynsemigædd sköpunarvera yrði Guði trúföst og drottinholl þegar enginn efnislegur ávinningur virtist vera af því að vera hlýðinn.a
Góður skilningur á deilumálunum, sem komið var af stað í Eden, og þekking á eiginleikum Jehóva hjálpar okkur að skilja lausnina á „vandamáli guðfræðingsins,“ það er að segja að samrýma tilvist hins illa við mátt og kærleika Guðs. Þótt Jehóva ráði vissulega yfir ótakmörkuðum mætti og sé sjálfur persónugervingur kærleikans er hann líka vitur og réttvís. Hann beitir þessum fjórum eiginleikum í fullkomnu jafnvægi. Þess vegna beitti hann ekki ómótstæðilegum krafti sínum til að afmá þessa þrjá uppreisnarseggi þegar í stað. Það hefði verið réttlátt en ekki endilega viturlegt eða kærleiksríkt. Hann gat ekki heldur bara gleymt og fyrirgefið sem sumum finnst kannski hafa verið kærleiksríki kosturinn. Að gera það hefði hvorki verið viturlegt né réttlátt.
Það tæki sinn tíma að útkljá deilumálin sem Satan kom af stað. Það hlaut að taka sinn tíma að sanna hvort menn gætu stjórnað sjálfum sér vel óháðir Guði. Með því að leyfa uppreisnarseggjunum þrem að halda lífi gerði Jehóva sköpunverum sínum einnig kleift að eiga þátt í að afsanna ákæru Satans með því að þjóna Guði trúfastlega við erfiðar aðstæður.b
Jehóva hafði tekið skýrt fram við Adam og Evu að þau dæju ef þau ætu forboðna ávöxtinn. Og þau dóu sannarlega þótt Satan hefði fullvissað Evu um að hún myndi ekki deyja. Dauðadómur hefur einnig verið felldur yfir Satan, en hann heldur áfram að afvegaleiða mannkynið uns honum verður fullnægt. Biblían segir reyndar: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:19; 1. Mósebók 2:16, 17; 3:4; 5:5.
Aðrir englar gera uppreisn
Skömmu eftir atburðina í Eden gengu aðrir englar til liðs við uppreisnarseggina gegn drottinvaldi Jehóva. Biblían segir: „Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur, sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.“ Með öðrum orðum „yfirgáfu [englarnir] eigin bústað [á himnum]“ og komu til jarðar, holdguðust í mannsmynd og nutu holdlegs unaðar með konum. — 1. Mósebók 6:1, 2; Júdasarbréfið 6.
Frásagan heldur áfram í 1. Mósebók 6:4: „Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.“ Þessir kynblendingssynir kvenna og engla voru óeðlilega sterkir, ‚kappar.‘ Þeir voru ofbeldismenn eða nefílímʹ á hebresku en það merkir „þeir sem valda öðrum falli.“
Það er eftirtektarvert að þessir atburðir skyldu síðar koma fram í þjóðsögum fornþjóðanna. Til dæmis lýsir 4000 ára gamalt, babýlonskt söguljóð ofurmannlegum hetjudáðum Gilgamesar en hann var voldugur, ofbeldisfullur hálfguð sem var svo „lostafenginn að engin mey er eftirlátin elskhuga sínum.“ Annað dæmi, úr grískri þjóðsögu, er hinn ofurmannlegi Herkúles (eða Herakles). Hann var sonur Alcmenu, sem var mennsk, og guðsins Seifs. Herkúles lagði út í ofbeldisfulla ævintýraför eftir að hafa drepið konu sína og börn í æðiskasti. Enda þótt slíkar sögur hafi afbakast mjög er þær gengu frá einni kynslóð til annarrar eiga þær allar rót sína að rekja til þess sem Biblían segir um nefílím og uppreisnargjarna englafeður þeirra.
Vegna áhrifa hinna illu engla og ofurmannlegra sona þeirra fylltist jörðin slíku ofbeldi að Jehóva ákvað að eyða heiminum í miklu flóði. Nefílím-risarnir fórust ásamt öllum óguðlegum mönnum. Einu mennirnir, sem lifðu af, voru hinn réttláti Nói og fjölskylda hans. — 1. Mósebók 6:11; 7:23.
En hinir illu englar dóu ekki. Þeir afholdguðust og sneru aftur yfir í andaheiminn. Sökum óhlýðni sinnar var þeim ekki hleypt aftur inn í réttláta englafjölskyldu Guðs og þeim var ekki heldur leyft að íklæðast mannslíkömum aftur eins og þeir gerðu á dögum Nóa. Eftir sem áður höfðu þeir skaðvænleg áhrif á málefni mannkynsins undir yfirráðum ‚höfðingja illu andanna,‘ Satans djöfulsins. — Matteus 9:34; 2. Pétursbréf 2:4; Júdasarbréfið 6.
Óvinir mannkyns
Satan og illir andar hans hafa alltaf verið grimmir og blóðþyrstir. Með ýmsum aðferðum tók Satan búpening Jobs frá honum og drap flesta þjóna hans. Því næst drap hann hin tíu börn Jobs með því að láta ‚fellibyl‘ eyðileggja húsið sem þau voru í. Eftir það þjakaði Satan Job með „illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja.“ — Jobsbók 1:7-19; 2:3, 7.
Illu andarnir sýna sams konar illar tilhneigingar. Á dögum Jesú rændu þeir fólk máli og sjón. Þeir létu mann lemja sig grjóti. Þeir slengdu dreng til jarðar og ‚teygðu hann ákaflega.‘ — Lúkas 9:42; Matteus 9:32, 33; 12:22; Markús 5:5.
Fregnir alls staðar að úr heiminum sýna að Satan og illu andarnir eru illskeyttari en nokkru sinni fyrr. Þeir slá suma sjúkdómum. Aðra ásækja þeir með því að ræna þá svefni eða með því að valda þeim hræðilegum draumförum eða misnota þá kynferðislega. Enn aðra hafa þeir gert vitstola eða rekið til að fremja morð eða svipta sig lífi.
Hve miklu lengur verða þeir umbornir?
Satan og illir andar hans verða ekki umbornir endalaust. Jehóva hefur haft ærið tilefni með því að leyfa þeim að vera til fram á okkar dag, en nú eiga þeir stutt eftir. Snemma á þessari öld var stigið stórt skref til að takmarka athafnasvið þeirra. Opinberunarbókin segir: „Stríð [hófst] á himni: Míkael [hinn upprisni Jesús Kristur] og englar hans fóru að berjast við drekann [Satan]. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ — Opinberunarbókin 12:7-9.
Með hvaða afleiðingum? Frásagan heldur áfram: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið.“ Hinir réttlátu englar gátu fagnað af því að Satan og illir andar hans voru ekki lengur á himnum. En hvað um jarðarbúa? Biblían segir: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:12.
Í reiði sinni eru Satan og handbendi hans staðráðin í að valda eins miklu böli og mögulegt er fyrir yfirvofandi eyðingu sína. Á þessari öld hafa verið háðar tvær heimsstyrjaldir og yfir 150 minni háttar styrjaldir frá lokum þeirrar síðari. Ýmis orð hafa bæst í orðaforða okkar sem endurspegla ofbeldi þessarar kynslóðar, svo sem „sýklahernaður,“ „helförin,“ „vígvellir,“ „nauðgunarbúðir“ og „fjöldamorðingjar.“ Fréttirnar eru yfirfullar af sögum um fíkniefni, morð, sprengjutilræði, geðveikar mannætur, fjöldamorð, hungursneyðir og pyndingar.
Góðu fréttirnar eru þær að þetta er tímabundið ástand. Í náinni framtíð mun Guð aftur láta til skarar skríða gegn Satan og illum öndum hans. Jóhannes postuli lýsti sýn, sem hann fékk frá Guði, þannig: „Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin.“ — Opinberunarbókin 20:1-3.
Eftir það verða djöfullinn og illir andar hans ‚leystir um stuttan tíma‘ og síðan verður þeim tortímt að eilífu. (Opinberunarbókin 20:3, 10) Það verður stórkostlegur tími! Þegar Satan og illir andar hans verða horfnir fyrir fullt og allt verður Jehóva „allt í öllu.“ Og allir munu „njóta unaðsemdar af þeim mikla friði.“ — 1. Korintubréf 15:28; Sálmur 37:11, Bi. 1859.
[Neðanmáls]
a Þetta skýrðist síðar þegar Satan sagði um Job sem var þjónn Guðs: „Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 2:4, 5.
b Ítarlega umræðu um það hvers vegna Guð leyfir illskuna er að finna í bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Er maðurinn einn ábyrgur fyrir slíkum ódæðum eða á ósýnilegt, illt afl hluta af sökinni?
Olíulindir brenna í Kúveit árið 1991: Chamussy/Sipa Press
[Mynd á blaðsíðu 7]
Það verður stórkostlegur tími þegar illir andar ásækja mannkynið ekki lengur!