Hefur leiðsögn manna brugðist?
HVER skapaði alla hluti? Ef þú svarar „Guð,“ þá ert þú að taka undir með milljónum manna sem trúa á Guð Biblíunnar, skaparann.
En margir, sem trúa á Guð, eiga erfitt með að fallast á að hann taki virkan þátt í því að leysa vandamál mannkynsins. Er raunhæft að halda að Guð hafi hrint af stað áætlun sem á eftir að lina þrautir mannkyns? Margir sjá engin raunhæf merki þess.
Um þúsundir ára hafa menn prófað óteljandi aðferðir til að bjarga sér sjálfir í leit sinni að lausnum, án þess þó að taka Guð með í reikninginn. En hafa menn fundið lausnirnar eða verða vandamálin æ erfiðari og vandleystari? Hvernig tekst manninum að ráða fram úr aðkallandi vandamálum heimsins nú á dögum?
Sérfræðingur orðar það þannig: „Allt frá iðnbyltingunni hafa hin þróuðu lönd ofnýtt náttúruauðlindir jarðar með framleiðslu- og neysluháttum sem ekki er hægt að halda uppi til frambúðar, og valdið umhverfisspjöllum á heimsvísu til tjóns fyrir þróunarlöndin.“
Maðurinn heldur áfram að eyðileggja jörðina. Argentínska dagblaðið Clarín sagði: „Á síðari helmingi þessarar aldar ollu fégræðgi, óvarkárni og hirðuleysi stórslysum sem ekki bara kostuðu mannslíf heldur ollu líka umhverfisspjöllum, oft ómetanlegum.“
Gífurleg fátækt virðist hafa tekið sér bólfestu til frambúðar í þjóðfélagi nútímans. Jafnvel hinar svokölluðu ríku þjóðir eru að kikna undan þunga feikilegrar fátæktar. Að sögn dagblaðsins The Globe and Mail í Tórontó í Kanada er áætlað að „þriðjungur allra Kanadamanna finni fyrir fátækt einhvern tíma á starfsævi sinni.“ Blaðið bætir við að „upplausn fjölskyldunnar sé ein aðalástæða fátæktar og að þróunin hafi aukið hraðann á síðustu árum.“
Fíkniefnanotkun er annað teikn hnignandi þjóðfélags. Hvað getur mannkynið gert í málinu? Greinilega sáralítið á heildina litið. Líkamleg, andleg og siðferðileg niðurlæging heldur áfram að hrjá milljónir manna beinlínis vegna eiturlyfjanotkunar þeirra. Og vandamálið breiðist út eins og eldur í sinu.
Vísindamenn virðast vera að tapa stríðinu gegn sjúkdómum. Að vísu hefur nútímatækni unnið margar orrustur, en sumar vísindaaðferðir hafa líka beinlínis stuðlað að því að komið hafa fram ný, lyfþolin afbrigði hættulegra örvera.
Stjórnir manna geta ekki stöðvað útbreidd mannréttindabrot. Til dæmis er talið að um heim allan séu yfir hundrað milljónir manna neyddar til að vinna við aðstæður sem jafngilda ömurlegri þrælkun, þrátt fyrir hin fjölmörgu hátíðlegu loforð og lög sem sett hafa verið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þrælahald.
En hvers vegna hefur leiðsögn manna brugðist? Hugleiddu eftirfarandi atriði: Leiðsögn manna er komin frá mönnum — fólki sem eru veruleg takmörk sett. Lífsreynsla þeirra er tiltölulega stutt og takmarkast yfirleitt af vissri menningu eða umhverfi. Þekking þeirra er líka takmörkuð. Hver sú leiðsögn, sem þeir veita, endurspeglar þessi takmörk. Eins og Páll postuli sagði ‚hafa allir syndgað og skortir Guðs dýrð.‘ — Rómverjabréfið 3:23.
Í rauninni eru flest þau vandamál og erfiðleikar, sem meirihluti mannkyns á við að etja, bein eða óbein afleiðing þess að það hefur hunsað leiðsögn Guðs. En hvar er þá slíka leiðsögn að finna? Hvernig leiðbeinir Guð okkur nú á tímum? Greinin á eftir svarar því.