Varpaðu allri áhyggju þinni á Jehóva
„Auðmýkið yður . . . undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:6, 7.
1. Hvaða áhrif geta áhyggjur haft á okkur og hvernig má lýsa því?
ÁHYGGJUR geta haft gríðarleg áhrif á líf okkar. Það má líkja þeim við truflanir í útvarpi þegar við erum að hlusta á fallegt lag. Ef ekkert truflar útvarpsbylgjurnar er hægt að njóta fallegrar og róandi tónlistar. En sargandi truflanir geta spillt jafnvel fegursta lagi og gert okkur gramt í geði. Áhyggjur geta haft sams konar áhrif á innri ró okkar. Þær geta íþyngt okkur svo að við getum ekki sinnt mikilvægum málum. Já, „hugsýki beygir manninn.“ — Orðskviðirnir 12:25.
2. Hvað sagði Jesús Kristur um „áhyggjur þessa lífs“?
2 Jesús Kristur talaði um hættuna samfara því að láta óhóflegar áhyggjur trufla okkur. Í spádómi sínum um síðustu daga hvatti hann: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ (Lúkas 21:34-36) Alveg eins og ofát og ofdrykkja geta gert mann sljóan og sinnulausan geta „áhyggjur þessa lífs“ íþyngt okkur þannig að við missum andlega yfirsýn okkar með hörmulegum afleiðingum.
Hvað eru áhyggjur?
3. Hvernig hafa „áhyggjur“ og „kvíði“ verið skilgreind og hvað getur meðal annars valdið þeim?
3 „Áhyggjur“ eru skilgreindar sem „kvíði, ótti um [eitthvað], óró.“ (Orðabók Menningarsjóðs) „Kvíði“ er skýrður sem „beygur eða órói, í ætt við hræðslu, af óljósum orsökum“ eða „sterk óróleikakennd eða beygur, án sjáanlegs tilefnis eða yfirvofandi háska; einkennist m.a. af aukinni lífeðlisfræðilegri virkni.“ (Orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði, Íslenska alfræðiorðabókin.) Áhyggjur og kvíði geta því verið flókið vandamál. Orsakirnar geta verið margar, svo sem veikindi, öldrun, ótti við glæpi, atvinnumissir og áhyggjur af velferð fjölskyldunnar.
4. (a) Hvað er gott að muna í sambandi við fólk og áhyggjur þess? (b) Hvað er hægt að gera ef áhyggjur leggjast á okkur?
4 Ljóst er að áhyggjur geta verið misþungar líkt og aðstæðurnar sem þær spretta úr eru breytilegar. Fólk bregst misjafnlega við aðstæðum. Við þurfum þess vegna að gera okkur ljóst að jafnvel þótt eitthvað angri ekki okkur getur það valdið sumum af trúbræðrum okkar þungum áhyggjum. Hvað er hægt að gera ef áhyggjur verða slíkar að við getum ekki einbeitt okkur að hinum hljómfögru og unaðslegu sannindum Biblíunnar? Hvað getum við gert ef áhyggjur leggjast svo þungt á okkur að við getum ekki lengur séð deilumálin um drottinvald Jehóva og kristna ráðvendni í skýru ljósi? Við getum kannski engu breytt um aðstæður okkar en við þurfum þá að leita til Biblíunnar eftir hjálp til að takast á við þungar áhyggjur sem hin erfiðu vandamál lífsins valda okkur.
Hjálpin er nærri
5. Hvernig getum við farið eftir Sálmi 55:23?
5 Þegar kristnir menn þarfnast andlegrar aðstoðar og áhyggjur íþyngja þeim geta þeir leitað hughreystingar í orði Guðs. Það veitir okkur áreiðanlega leiðsögn og fullvissar okkur á margvíslegan hátt um að við séum ekki ein á báti sem dyggir þjónar Jehóva. Til dæmis söng sálmaritarinn Davíð: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 55:23) Hvernig getum við hegðað okkur í samræmi við þessi orð? Með því að varpa öllum áhyggjum okkar, kvíða, ótta og vonbrigðum á ástríkan, himneskan föður okkar. Það stuðlar að öryggistilfinningu og innri ró hjá okkur.
6. Hvað getur bænin gert fyrir okkur samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7?
6 Reglulegt, innilegt bænasamband er nauðsynlegt til að varpa byrðum okkar, meðal annars allri áhyggju, á Jehóva. Það veitir okkur innri frið því að Páll postuli skrifaði: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Hinn óviðjafnanlegi „friður Guðs“ er óvenjuleg ró sem vígðir þjónar Jehóva njóta jafnvel við erfiðustu aðstæður. Hún stafar af nánu einkasambandi okkar við Guð. Við losnum ekki við öll vandamál lífsins þegar við biðjum um heilagan anda og látum hann örva okkur, en við njótum friðar sem er ávöxtur andans. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23) Við látum ekki áhyggjurnar verða yfirþyrmandi því að við vitum að Jehóva lætur alla trúfasta þjóna sína ‚búa óhulta‘ og lætur ekkert gerast sem er okkur til varanlegs tjóns. — Sálmur 4:9.
7. Hvaða hlutverki geta kristnir öldungar gegnt í að hjálpa okkur að takast á við áhyggjur?
7 En hvað þá ef áhyggjurnar þjaka okkur áfram jafnvel þótt við séum að hugleiða Ritninguna og séum staðföst í bæninni? (Rómverjabréfið 12:12) Hinir útnefndu öldungar safnaðarins eru líka ráðstöfun Jehóva til að hjálpa okkur andlega. Þeir geta hughreyst okkur og aðstoðað með því að nota orð Guðs og með því að biðja fyrir okkur og með okkur. (Jakobsbréfið 5:13-16) Pétur postuli hvatti samöldunga sína til að gæta hjarðar Guðs fúslega, af áhuga og með því að vera til fyrirmyndar. (1. Pétursbréf 5:1-4) Þessir menn bera hag okkar fyrir brjósti og vilja hjálpa. Ef við viljum hafa fullt gagn af hjálp öldunganna og viljum að okkur vegni vel andlega í söfnuðinum þurfum við auðvitað öll að fara eftir ráðleggingu Péturs: „Þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ — 1. Pétursbréf 5:5.
8, 9. Hvaða hughreystingu má sækja í 1. Pétursbréf 5:6-11?
8 Pétur bætti við: „Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður. Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.“ — 1. Pétursbréf 5:6-11.
9 Það er einkar hughreystandi að vita að við getum ‚varpað allri áhyggju okkar á Guð því að hann ber umhyggju fyrir okkur‘! Og stafi sumar áhyggjur okkar af tilraunum djöfulsins til að spilla sambandi okkar við Jehóva með því að láta ofsækja okkur og þjá á annan hátt, er þá ekki stórkostlegt að vita að allt muni fara vel hjá ráðvöndum mönnum? Já, eftir að við höfum þjáðst stutta stund mun Guð allrar náðar ljúka þjálfun okkar og styrkja og gera okkur öflug.
10. Hvaða þrem eiginleikum hefur 1. Pétursbréf 5:6, 7 óbeint orð á sem geta hjálpað okkur að draga úr áhyggjum?
10 Fyrra Pétursbréf 5:6, 7 hefur óbeint orð á þrem eiginleikum sem geta hjálpað okkur í baráttunni við áhyggjur og kvíða. Einn þeirra er auðmýkt eða ‚lítillæti.‘ Sjötta versið bætir við að Guð upphefji okkur „á sínum tíma“ sem gefur til kynna að við þurfum að vera þolinmóð. Sjöunda versið sýnir að við getum með trúartrausti varpað allri áhyggju á Guð ‚því að hann ber umhyggju fyrir okkur,‘ og þessi orð hvetja okkur til að treysta Jehóva skilyrðislaust. Við skulum því sjá hvernig auðmýkt, þolinmæði og skilyrðislaust traust á Guði getur dregið úr áhyggjum.
Hvernig auðmýkt getur hjálpað
11. Hvernig getur auðmýkt hjálpað okkur að takast á við áhyggjur?
11 Ef við erum auðmjúk viðurkennum við að hugsanir Guðs eru óendanlega æðri okkar eigin hugsunum. (Jesaja 55:8, 9) Auðmýkt hjálpar okkur að viðurkenna að mannlegri hugsun eru takmörk sett en yfirsýn Jehóva ótakmörkuð. Hann sér hluti sem við sjáum ekki eins og frásagan af hinum réttláta Job ber með sér. (Jobsbók 1:7-12; 2:1-6) Með því að auðmýkja okkur „undir Guðs voldugu hönd“ erum við að viðurkenna að við séum ósköp smá í samanburði við hinn háa alheimsdrottin. Það hjálpar okkur síðan að takast á við þær aðstæður sem hann leyfir. Hjörtu okkar þrá kannski tafarlausa lausn, en þar sem eiginleikar Jehóva eru í fullkomnu jafnvægi veit hann nákvæmlega hvenær og hvernig hann á að láta til sín taka í okkar þágu. Við skulum því eins og lítil börn halda auðmjúk í volduga hönd Jehóva í trausti þess að hann hjálpi okkur að takast á við áhyggjur okkar. — Jesaja 41:8-13.
12. Hvaða áhrif getur það haft á áhyggjur af fjárhagslegu öryggi ef við förum auðmjúk eftir orðum Hebreabréfsins 13:5?
12 Auðmýkt felur í sér að vera fús til að fara eftir ráðleggingum frá orði Guðs. Það getur oft dregið úr áhyggjum. Ef áhyggjur okkar stafa af því að við erum mjög upptekin af lífsgæðakapphlaupinu væri til dæmis gott að hugleiða ráðleggingu Páls: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ (Hebreabréfið 13:5) Með því að fara auðmjúkir eftir slíkum ráðleggingum hafa margir losnað við miklar áhyggjur af fjárhagslegu öryggi sínu. Enda þótt fjárhagur þeirra hafi kannski ekki batnað er hugurinn ekki upptekinn af fjárhagsáhyggjum á kostnað andlegs heilbrigðis.
Hlutverk þolinmæðinnar
13, 14. (a) Hvaða fordæmi setti Job í sambandi við þolinmæði og þolgæði? (b) Hvaða gagn getum við haft af því að bíða þolinmóð eftir Jehóva?
13 Orðin „á sínum tíma“ í 1. Pétursbréfi 5:6 gefa til kynna að þolinmæði og þolgæðis sé þörf. Vandamál verða stundum langdregin og það getur aukið áhyggjurnar. Þá þurfum við sérstaklega að leggja málin í hendur Jehóva. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Job missti börn sín tíu ásamt aleigunni, var sleginn viðbjóðslegum sjúkdómi og mátti sitja undir röngum ásökunum falskra huggara. Að minnsta kosti einhverjar áhyggjur eru eðlilegar við slíkar aðstæður.
14 Hvað sem því líður var Job til fyrirmyndar í þolinmæði og þolgæði. Ef við verðum fyrir erfiðum trúarprófraunum getum við þurft að bíða eftir að þeim linni eins og hann þurfti að gera. En Guð lét til sín taka í þágu Jobs, linaði þjáningar hans um síðir og umbunaði honum ríkulega. (Jobsbók 42:10-17) Með því að bíða þolinmóð eftir Jehóva stælum við þolgæði okkar og sýnum hve djúpt hollusta okkar við hann ristir. — Jakobsbréfið 1:2-4.
Treystu á Jehóva
15. Af hverju ættum við að treysta skilyrðislaust á Jehóva?
15 Pétur hvatti trúbræður sína til að ‚varpa allri áhyggju á Guð af því að hann bæri umhyggju fyrir þeim.‘ (1. Pétursbréf 5:7) Við getum því og ættum að treysta skilyrðislaust á Jehóva. Orðskviðirnir 3:5, 6 segja: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Sökum fyrri reynslu eiga sumir erfitt með að treysta öðrum þegar þeir eru áhyggjufullir. En við höfum fullt tilefni til að treysta skapara okkar, honum sem er uppspretta lífs okkar og viðheldur því. Jafnvel þótt við treystum ekki eigin viðbrögðum í vissu máli getum við alltaf treyst að Jehóva frelsi okkur úr raunum okkar. — Sálmur 34:19, 20; 36:10; 56:4, 5.
16. Hvað sagði Jesús Kristur um áhyggjur af efnislegum hlutum?
16 Að treysta á Guð felur í sér að hlýða syni hans, Jesú Kristi, sem kenndi öðrum það sem hann lærði af föður sínum. (Jóhannes 7:16) Jesús hvatti lærisveina sína til að ‚safna sér fjársjóðum á himni‘ með því að þjóna Jehóva. En hvað um efnislegar þarfir, svo sem fæði, klæði og húsaskjól? „Verið ekki áhyggjufullir,“ ráðlagði Jesús. Hann benti á að Guð nærði fuglana. Hann klæðir blómin fögrum búningi. Eru ekki mennskir þjónar Guðs meira virði? Auðvitað. Þess vegna hvatti Jesús: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Hann hélt áfram: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ (Matteus 6:20, 25-34) Já, við þörfnumst matar, drykkjar, klæða og húsaskjóls, en ef við treystum á Jehóva höfum við ekki óhóflegar áhyggjur af þessu.
17. Hvaða dæmi mætti nota til að lýsa nauðsyn þess að leita fyrst Guðsríkis?
17 Til að leita fyrst Guðsríkis verðum við að treysta á Guð og hafa rétta forgangsröð. Maður kafar án súrefniskúta eftir ostrum með perlum í. Þannig sér hann fjölskyldunni farborða. Vissulega er það mjög mikilvægt. En hvað skiptir enn meira máli fyrir hann? Loft! Hann verður að koma með reglulegu millibili upp á yfirborðið til að fylla lungun lofti. Það er enn mikilvægara fyrir hann. Á sama hátt erum við kannski tilneydd að eiga eitthvað saman við þetta heimskerfi að sælda til að sjá okkur fyrir lífsnauðsynjum. En andleg mál verða að ganga fyrir af því að líf heimilismanna okkar er undir því komið. Til að forðast óþarfar áhyggjur af efnislegum nauðsynjum verðum við að treysta Guði skilyrðislaust. Að vera ‚síauðug í verki Drottins‘ getur auk þess hjálpað okkur að draga úr áhyggjum því að þá er ‚gleði Jehóva‘ hlífiskjöldur okkar. — 1. Korintubréf 15:58; Nehemíabók 8:10.
Haltu áfram að varpa allri áhyggju þinni á Jehóva
18. Hvað sýnir að það hjálpar okkur virkilega að varpa allri áhyggju okkar á Jehóva?
18 Við verðum að halda áfram að varpa allri áhyggju okkar á Jehóva til að hafa skýra andlega sjón. Munum alltaf að hann ber sanna umhyggju fyrir þjónum sínum. Lýsum því með dæmi: Kristin kona varð svo hugsjúk vegna ótrúmennsku eiginmanns síns að loks gat hún ekki sofið. (Samanber Sálm 119:28, NW.) En þar sem hún lá andvaka í rúminu varpaði hún allri áhyggju sinni á Jehóva. Hún úthellti hjarta sínu fyrir Guði og sagði honum frá þeim sársauka sem hún og dætur hennar tvær á barnsaldri máttu þola. Eftir að hún hafði hrópað á hjálp í ákafri bæn gat hún alltaf sofnað í trausti þess að Jehóva myndi annast hana og börnin hennar. Eftir skilnað á biblíulegum forsendum giftist konan aftur og býr nú í hamingjusömu hjónabandi með safnaðaröldungi.
19, 20. (a) Nefndu nokkrar leiðir til að takast á við áhyggjur og kvíða. (b) Hvað ættum við að halda áfram að gera í sambandi við alla áhyggju okkar?
19 Við sem erum þjónar Jehóva höfum ýmsar leiðir til að takast á við áhyggjur og kvíða. Það er sérstaklega gagnlegt að fara eftir orði Guðs. Guð sér okkur fyrir ríkulegri, andlegri fæðu fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns,‘ meðal annars gagnlegum og hressandi greinum í Varðturninum og Vaknið! (Matteus 24:45-47) Við njótum aðstoðar heilags anda Guðs. Reglulegt og innilegt bænasamband er mjög gagnlegt fyrir okkur. Hinir útnefndu, kristnu öldungar eru fúsir og reiðubúnir að veita andlega hjálp og hughreystingu.
20 Auðmýkt okkar og þolinmæði er mjög gagnleg í baráttunni við áhyggjur sem leggjast á okkur. Skilyrðislaust traust á Jehóva er sérstaklega þýðingarmikið því það byggir upp trú okkar að finna fyrir hjálp hans og handleiðslu. Trú á Guð forðar okkur síðan frá því að verða áhyggjufull um of. (Jóhannes 14:1) Trú kemur okkur til að leita fyrst Guðsríkis og vera önnum kafin í gleðilegu starfi Drottins sem hjálpar okkur síðan að takast á við áhyggjur og kvíða. Með því að vera upptekin af slíku finnum við til öryggis meðal þeirra sem syngja Guði lof um alla eilífð. (Sálmur 104:33) Við skulum því halda áfram að varpa allri áhyggju okkar á Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig má skilgreina áhyggjur og kvíða?
◻ Nefndu nokkrar leiðir til að takast á við áhyggjur.
◻ Hvernig getum við dregið úr áhyggjum okkar með því að vera auðmjúk og þolinmóð?
◻ Af hverju er nauðsynlegt að treysta Jehóva skilyrðislaust til að takast á við áhyggjur?
◻ Af hverju ættum við að halda áfram að varpa allri áhyggju okkar á Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Veistu af hverju Jesús sagði: „Verið ekki áhyggjufullir“?