‚Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó‘
„Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið.“ — 1. PÉTURSBRÉF 1:8.
1. Hvernig reyna sumir að sýna dálæti sitt á Jesú þótt enginn núlifandi maður hafi séð hann?
ENGINN núlifandi maður hefur séð Jesú Krist. Engu að síður segjast milljónir manna elska hann. Hinn 9. janúar ár hvert er dregin um götur Manílu á Filippseyjum stytta af Jesú Kristi í fullri stærð með kross á baki. Þetta er sagður umfangsmesti og tilkomumesti vitnisburður alþýðutrúar þar í landi. Ákafur múgurinn hrindir og treðst. Fólk klifrar jafnvel hvert upp á annað í æsingi sínum og reynir að snerta líkneskið. Margir koma aðallega til að sjá hátíðarskrúðgönguna. En sumir laðast eflaust að Jesú í einlægni. Kannski ganga þeir með róðukross eða sækja kirkju reglulega til tákns um það. En er hægt að líta á slíka skurðgoðadýrkun sem sanna tilbeiðslu?
2, 3. (a) Hverjir af fylgjendum Jesú sáu hann og heyrðu? (b) Hverjir aðrir á fyrstu öld elskuðu Jesú og trúðu á hann þótt þeir hefðu ekki séð hann sjálfir?
2 Þúsundir manna í rómversku skattlöndunum Júdeu, Samaríu, Pereu og Galíleu, sáu Jesú Krist í raun og veru á fyrstu öld. Þeir heyrðu hann útskýra gleðileg sannindi um Guðsríki. Þeir voru sjónarvottar að kraftaverkunum sem hann vann. Sumir þeirra urðu dyggir lærisveinar hans og voru sannfærðir um að hann væri „Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ (Matteus 16:16) En þeir sem Pétur postuli skrifaði hið fyrra innblásna bréf sitt voru ekki í þeim hópi.
3 Þeir sem Pétur skrifaði bjuggu í rómversku skattlöndunum Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu, á svæðinu þar sem nú er Tyrkland. Pétur skrifaði þeim: „Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði.“ (1. Pétursbréf 1:1, 8) Hvernig höfðu þeir kynnst Jesú Kristi svo vel að þeir elskuðu hann og trúðu á hann?
4, 5. Hvernig lærðu þeir sem höfðu aldrei séð Jesú, nóg um hann til að elska hann og trúa á hann?
4 Ljóst er að sumir þeirra höfðu verið í Jerúsalem þegar Pétur postuli bar vitni fyrir mannfjöldanum á hvítasunnuhátíðinni árið 33. Eftir hátíðina dokuðu margir lærisveinar við í Jerúsalem til að fá frekari fræðslu hjá postulunum. (Postulasagan 2:9, 41, 42; samanber 1. Pétursbréf 1:1.) Á trúboðsferðum sínum starfaði Páll postuli kostgæfilega meðal fólks á svæðinu þangað sem Pétur sendi fyrra biblíubréfið sem ber nafn hans. — Postulasagan 18:23; 19:10; Galatabréfið 1:1, 2.
5 Hvers vegna laðaðist þetta fólk svo mjög að Jesú þótt það hefði aldrei séð hann? Hvers vegna elska milljónir nútímamanna um heim allan hann innilega?
Það sem þeir heyrðu
6. (a) Hvað hefðir þú getað lært ef þú hefðir heyrt Pétur vitna um Jesú á hvítasunnunni árið 33? (b) Hvaða áhrif hafði það á um 3000 viðstaddra?
6 Hvað hefðir þú lært um Jesú ef þú hefðir verið í Jerúsalem þegar Pétur talaði við þessa hátíðargesti árið 33? Þú hefðir örugglega lært um kraftaverkin sem hann vann og sýndu að hann var sendur af Guði, að Jesús lægi ekki lengur í gröfinni þótt syndugir menn hefðu tekið hann af lífi, heldur hefði hann verið reistur upp og síðan upphafinn til himna við hægri hönd Guðs, að Jesús væri virkilega Kristur, sá Messías sem spámennirnir höfðu skrifað um, og að heilögum anda hefði verið úthellt yfir fylgjendur Jesú Krists fyrir milligöngu hans, þannig að þeir hefðu þegar í stað getað borið vitni fyrir fólki margra þjóða um þau stórvirki sem Guð var að vinna fyrir atbeina sonar síns. Margir voru djúpt snortnir í hjörtum sér sem heyrðu Pétur tala við þetta tækifæri, og um 3000 létu skírast sem kristnir lærisveinar. (Postulasagan 2:14-42) Hefðir þú tekið svona afdráttarlausa afstöðu ef þú hefðir verið þar?
7. (a) Hvað hefðir þú hugsanlega lært ef þú hefðir verið í Antíokkíu þegar Páll postuli prédikaði þar? (b) Hvers vegna tóku sumir af mannfjöldanum trú og sögðu öðrum frá fagnaðarerindinu?
7 Hvað annað hefðir þú lært um Jesú ef þú hefðir verið meðal þeirra sem Páll postuli kenndi í Antíokkíu í rómverska skattlandinu Galatíu? Þú hefðir heyrt Pál útskýra að spámennirnir hefðu sagt fyrir að valdhafarnir í Jerúsalem myndu dæma Jesú til dauða. Þú hefðir líka heyrt um framburð sjónarvotta að upprisu Jesú. Þér hefði áreiðanlega þótt mikið til um þá skýringu Páls að Jehóva Guð hefði staðfest að Jesús væri virkilega sonur sinn, með því að reisa hann upp frá dauðum. Og hefði það ekki yljað þér um hjartaræturnar að fá vitneskju um að syndafyrirgefning vegna trúar á Jesú gæti leitt til eilífs lífs? (Postulasagan 13:16-41, 46, 47; Rómverjabréfið 1:4) Sumir Antíokkíumenn skildu þýðingu þess sem þeir heyrðu, gerðust lærisveinar og tóku að segja öðrum frá fagnaðarerindinu, jafnvel þótt það hefði í för með sér hatrammar ofsóknir fyrir þá. — Postulasagan 13:42, 43, 48-52; 14:1-7, 21-23.
8. Hvað hefðir þú getað lært ef þú hefðir verið á samkomunni í söfnuðinum í Efesus þegar bréf Páls barst?
8 Hvað nú ef þú hefðir tilheyrt kristna söfnuðinum í Efesus í rómverska skattlandinu Asíu þegar lærisveinunum þar barst innblásið bréf Páls? Hvað hefðirðu lært af því um hlutverk Jesú í tilgangi Guðs? Í þessu bréfi útskýrir Páll að fyrir atbeina Krists verði allt á himni og jörð samstillt Guði á ný, að gjöf Guðs í Kristi nái til manna af öllum þjóðum, að menn, sem voru dauðir í augum Guðs vegna misgerða sinna, hafi verið lífgaðir vegna trúar á Krist, og að vegna þessarar ráðstöfunar geti menn aftur orðið elskaðir synir Guðs. — Efesusbréfið 1:1, 5-10; 2:4, 5, 11-13.
9. (a) Hvað getur hjálpað þér að ganga úr skugga um að þú skiljir þýðingu þess sem Páll skrifaði Efesusmönnum? (b) Hvaða áhrif hafði það á bræðurna í rómversku skattlöndunum sem þeir lærðu um Jesú?
9 Hefði þakklæti fyrir allt þetta dýpkað kærleika þinn til sonar Guðs? Hefði þessi kærleikur haft áhrif á daglegt líf þitt eins og Páll postuli hvatti til í 4. til 6. kafla Efesusbréfsins? Hefði slíkt þakklæti fengið þig til að skoða vandlega hverju þú gæfir forgang í lífinu? Hefði kærleikur til Guðs og þakklæti til sonar hans komið þér til að gera nauðsynlegar breytingar, þannig að þú einbeittir þér virkilega að því að gera vilja Guðs? (Efesusbréfið 5:15-17) Pétur postuli skrifaði um áhrif þessara sanninda á kristna menn í Asíu, Galatíu og öðrum skattlöndum Rómar: „Þér hafið ekki séð hann [Jesú Krist], en elskið hann þó. Þér . . . trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði.“ — 1. Pétursbréf 1:8.
10. (a) Hvað stuðlaði eflaust að kærleika frumkristinna manna til Jesú? (b) Hvaða gagn getum við líka haft af því?
10 Annað stuðlaði eflaust að kærleika þessara frumkristnu manna til sonar Guðs. Hvað var það? Þegar Pétur skrifaði fyrra bréf sitt voru að minnsta kosti tvö guðspjöll þegar í umferð, Matteusar- og Lúkasarguðspjall. Kristnir menn á fyrstu öld, sem höfðu aldrei séð Jesú, gátu lesið þessar frásögur. Við getum það líka. Guðspjöllin eru enginn uppspuni heldur bera öll merki þess að vera fullkomlega sannsöguleg. Við finnum margt í þessum innblásnu frásögum sem dýpkar kærleika okkar til sonar Guðs.
Hugarfar hans
11, 12. Hvað í hugarfari Jesú gagnvart öðrum fær þig til að elska hann?
11 Í skráðri sögu af ævi Jesú kynnumst við því hvernig hann kom fram við aðra menn. Hugarfar hans og framkoma snertir hjörtu manna enn þann dag í dag, meira en 1960 árum eftir dauða hans. Áhrif syndarinnar íþyngja öllum núlifandi mönnum. Margar milljónir eru fórnarlömb ranglætis, eiga í baráttu við sjúkdóma eða finna af öðrum orsökum fyrir þjakandi vonbrigðum. Jesús segir þeim öllum: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.
12 Jesús bar mikla umhyggju fyrir fátækum, hungruðum og sorgmæddum og var næmur á þarfir þeirra. Þegar nauðsyn krafði vann hann jafnvel kraftaverk til að gefa miklum mannfjölda að borða. (Lúkas 9:12-17) Hann frelsaði fólk úr fjötrum erfikenninga. Hann byggði líka upp trú manna á ráðstöfun Guðs til að binda enda á stjórnmálalega og efnahagslega kúgun. Jesús var ekki hranalegur við undirokaða. Með mildi, kærleika og leikni uppörvaði hann auðmjúka menn. Hann hressti við þá sem voru eins og brákaður reyr og rjúkandi hörkveikur sem var að slökkna á. Allt fram á þennan dag vekur nafn hans von, jafnvel í hjörtum manna sem hafa aldrei séð hann. — Matteus 12:15-21; 15:3-10.
13. Hvers vegna laðast fólk að Jesú vegna framkomu hans við syndara?
13 Jesús var ekki samþykkur syndsamlegu líferni en var þó skilningsríkur við fólk sem hafði misstigið sig í lífinu en iðraðist einlæglega og leitaði hjálpar hans. (Lúkas 7:36-50) Hann settist til borðs með fólki sem var fyrirlitið í samfélaginu ef hann áleit það gefa sér tækifæri til að hjálpa því andlega. (Matteus 9:9-13) Sökum hugarfars Jesú hafa milljónir manna í svipaðri aðstöðu, sem hafa aldrei séð hann, fundið sig knúnar til að kynnast honum og tekið trú á hann.
14. Hvað höfðar til þín í sambandi við hjálp Jesú við sjúka, fatlaða og sorgmædda?
14 Framkoma Jesú við sjúka og fatlaða ber bæði vitni um hlýju hans, meðaumkun og getu til að liðsinna þeim. Þegar maður altekinn holdsveiki kom til hans og bað hann ásjár, hrökklaðist hann ekki undan með hryllingi. Og Jesús sagði manninum ekki að hann fyndi að vísu til með honum en að sjúkdómurinn væri bara á of háu stigi til að hægt væri að hjálpa honum. Maðurinn sárbændi Jesú: „Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Hiklaust rétti Jesús út höndina, snerti holdsveika manninn og sagði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ (Matteus 8:2, 3) Öðru sinni reyndi kona að fá lækningu svo lítið bar á með því að snerta klæðafald hans. Jesús var vingjarnlegur og hughreystandi við hana. (Lúkas 8:43-48) Og þegar hann gekk fram á líkfylgd kenndi hann í brjósti um sorgmædda ekkjuna sem misst hafði einkason sinn. Þótt hann hefði ekki viljað nota mátt sinn til að sjá sjálfum sér fyrir mat með kraftaverki beitti hann honum fúslega til að reisa hinn dána upp og fá móður hans hann. — Lúkas 4:2-4; 7:11-16.
15. Hvaða áhrif hefur það á þig að lesa frásagnirnar af Jesú og hugleiða þær?
15 Með því að lesa þessar frásagnir og íhuga hugarfar Jesú dýpkum við kærleika okkar til þessa manns sem lagði líf sitt í sölurnar til að við gætum lifað eilíflega. Þótt við höfum aldrei séð hann löðumst við að honum og viljum feta í fótspor hans. — 1. Pétursbréf 2:21.
Auðmýkt hans og traust á Guði
16. Að hverjum beindi Jesús fyrst og fremst athyglinni og hvað hvatti hann okkur til að gera?
16 Umfram allt beindi Jesús athygli sinni og okkar að himneskum föður sínum, Jehóva Guði. Hann benti á mesta boðorð lögmálsins og sagði: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:36, 37) Hann hvatti lærisveinana: „Trúið á Guð.“ (Markús 11:22) Þegar erfið trúarprófraun blasti við hvatti hann þá: „Biðjið stöðugt.“ — Matteus 26:41, NW.
17, 18. (a) Hvernig sýndi Jesús auðmýkt sína og traust til föður síns? (b) Hvers vegna er það sem hann gerði mjög þýðingarmikið fyrir okkur?
17 Jesús gaf sjálfur fordæmið. Bænin var þýðingarmikill þáttur í lífi hans. (Matteus 14:23; Lúkas 9:28; 18:1) Þegar að því kom að velja postulana treysti Jesús ekki bara á eigin dómgreind, enda þótt allir englarnir á himnum hefðu áður verið undir umsjón hans. Auðmjúkur var hann næturlangt á bæn til föður síns. (Lúkas 6:12, 13) Þegar handtaka og kvalafullur dauði blasti við sneri Jesús sér enn á ný til föður síns og bað innilega. Hann hugsaði ekki með sér að hann þekkti Satan vel og réði hæglega við hvaðeina sem hinn vondi kynni að finna upp á. Jesús gerði sér grein fyrir því hve mikilvægt væri að bregðast ekki. Hvílík háðung fyrir föður hans ef hann brygðist! Og hvílíkt tjón fyrir mannkynið sem átti lífsvon sína undir þeirri fórn sem Jesús var í þann mund að færa!
18 Jesús bað margsinnis — þegar hann var með postulunum í loftstofu í Jerúsalem, og enn ákafar í Getsemanegarðinum. (Matteus 26:36-44; Jóhannes 17:1-26; Hebreabréfið 5:7) Þegar hann hékk þjáður á kvalastaurnum lastmælti hann ekki þeim sem hæddu hann. Þess í stað bað hann fyrir þeim: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“ (Lúkas 23:34) Hann hugsaði fyrst og fremst um föður sinn og „gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ Síðustu orð hans á kvalastaurnum voru bæn til föður hans. (1. Pétursbréf 2:23; Lúkas 23:46) Við erum innilega þakklát fyrir að Jesús skuli hafa borið fullt traust til Jehóva og lokið trúfastur því verkefni sem faðir hans hafði falið honum! Þótt við höfum aldrei séð Jesú Krist elskum við hann innilega fyrir allt sem hann gerði!
Sýnum kærleika okkar til hans
19. Hvað er algerlega óviðeigandi og ber að forðast?
19 Hvernig getum við sýnt að kærleikurinn, sem við segjumst hafa, sé meira en orðin tóm? Þar eð faðirinn, sem Jesús elskaði, bannaði að gerð væru líkneski til dýrkunar, værum við vissulega ekki að heiðra Jesú með því að ganga með slíkt líkneski í keðju um hálsinn eða bera það um götur. (2. Mósebók 20:4, 5; Jóhannes 4:24) Við værum ekki að heiðra Jesú með því að sækja trúarsamkomur, jafnvel nokkrum sinnum í viku, ef við lifðum ekki í samræmi við kenningar hans aðra daga vikunnar. Jesús sagði: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum.“ — Jóhannes 14:21, 23; 15:10.
20. Nefndu sumt sem sýnir hvort við elskum Jesú í sannleika.
20 Hvaða boðorð gaf hann okkur? Fyrst og fremst það að tilbiðja hinn sanna Guð, Jehóva, og hann einan. (Matteus 4:10; Jóhannes 17:3) Vegna hlutverks síns í tilgangi Guðs kenndi Jesús einnig að við yrðum að trúa á hann sem son Guðs og sýna það með því að forðast vond verk og með því að ganga í ljósinu. (Jóhannes 3:16-21) Hann ráðlagði okkur að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis og láta það ganga fyrir áhyggjum af líkamlegum þörfum. (Matteus 6:31-33) Hann fyrirskipaði okkur að elska hver annan eins og hann elskaði okkur. (Jóhannes 13:34; 1. Pétursbréf 1:22) Og hann fól okkur að vera vottar um tilgang Guðs eins og hann sjálfur var. (Matteus 24:14; 28:19, 20; Opinberunarbókin 3:14) Um fimm milljónir votta Jehóva nú á tímum eru knúnar af ósviknum kærleika til Jesú og halda boðorð hans, þótt þeir hafi aldrei séð hann. En þó að þeir hafi ekki persónulega séð Jesú dregur það alls ekki úr þeim ásetningi þeirra að vera hlýðnir. Þeir minnast þess sem Drottinn þeirra sagði við Tómas postula: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ — Jóhannes 20:29.
21. Hvaða gagn höfum við af því að sækja minningarhátíðina um dauða Krists sem haldin verður sunnudaginn 23. mars á þessu ári?
21 Vonandi verður þú meðal þeirra sem koma saman um heim allan í ríkissölum votta Jehóva eftir sólsetur sunnudaginn 23. mars 1997, til að minnast mesta kærleiksverks Guðs í þágu mannkyns, og til að minnast dauða hins drottinholla sonar hans, Jesú Krists. Það sem sagt er og gert við það tækifæri ætti að dýpka kærleika þinn til Jehóva og sonar hans, og auka löngun þína til að halda boðorð Guðs. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig höfðu þeir sem 1. Pétursbréf ávarpaði kynnst Jesú og lært að elska hann?
◻ Nefndu sumt af því sem frumkristnir menn heyrðu og þú hrífst af.
◻ Hvaða hugarfar Jesú dýpkar kærleika þinn til hans?
◻ Hvers vegna er auðmýkt Jesú og traust á Guði svona þýðingarmikið fyrir okkur?
◻ Hvernig getum við sýnt kærleika til Jesú Krists?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Við löðumst að Jesú vegna þess hvaða hug hann bar til annarra.