Guð blessar þolgæði þjóna sinna í Malaví
JÓSEF var trúfastur þjónn Jehóva. (Hebreabréfið 11:22) Hann var líka einstaklega þolgóður. Hann bugaðist ekki jafnvel þótt hann væri svikinn af bræðrum sínum, seldur tvívegis í þrælkun og síðar varpað í fangelsi fyrir upplognar sakir. Þolinmóður þoldi hann áralangar þrengingar og beið auðmjúkur eftir blessun Jehóva. — 1. Mósebók 37:23-28, 36; 39:11-20.
Vottar Jehóva í Malaví hafa líka beðið þolinmóðir eftir blessun Guðs. Í 26 ár þoldu þessir kristnu vottar bönn stjórnvalda, harða andstöðu og mörg grimmdarverk. En þolgæði þeirra borgaði sig.
Þegar ofsóknir skullu á í Malaví síðla árs 1967 voru um 18.000 boðberar Guðsríkis í landinu. Það má rétt ímynda sér fögnuð vottanna þegar þeir komust að raun um að þjónustuárið 1997 hófst með nýju boðberahámarki, 38.393 — meira en helmingi fleiri boðberum en í upphafi bannsins. Og rösklega 117.000 manns sóttu umdæmismótin 13 í Malaví sem báru einkunnarorðin „Friðarboðberar Guðs.“ Jehóva hefur svo sannarlega blessað trú þeirra og þolgæði.
Ungur maður, sem heitir Machaka, er dæmi um þessa blessun. Foreldrar hans komust í mikið uppnám þegar hann þáði biblíunámskeið hjá vottum Jehóva. „Ef þú vilt verða vottur verðurðu að flytja að heiman,“ sögðu þau. En þessi hótun kom ekki í veg fyrir að Machaka héldi námi sínu áfram. Foreldrar hans hirtu þá öll fötin hans. Bræðurnir keyptu ný föt handa honum. Þegar foreldrar Machaka uppgötvuðu það sögðu þeir: „Ef vottarnir ætla að sjá fyrir þér verðurðu að fara héðan og búa hjá þeim.“ Eftir að Machaka hafði íhugað málið vandlega flutti hann að heiman og vottafjölskylda í söfnuðinum skaut yfir hann skjólshúsi.
Foreldrar Machaka voru svo gramir að þeir ákváðu að flytja burt af svæðinu til að forðast allt samband við vottana. Machaka þótti það auðvitað miður en það var mikil hughreysting fyrir hann þegar bræðurnir ræddu við hann um Sálm 27:10 sem segir: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“
Með tímanum milduðust foreldrarnir og Machaka ákváð að flytja heim aftur. Það var greinilegt að staðfesta sonarins í að þjóna Jehóva hafði sterk áhrif á þau því að nú vildu þau líka fá biblíunámskeið hjá vottum Jehóva! Þau voru einnig viðstödd alla þrjá daga umdæmismótsins „Friðarboðberar Guðs.“ Eftir mótið sögðu þau: „Þetta er svo sannarlega skipulag Guðs.“
Já, andstaða getur verið ákaflega erfið en drottinhollir boðberar Guðs gefast ekki upp. Þeir halda hugrakkir áfram í þeirri vissu að ‚þrengingin veiti þolgæði en þolgæðið fullreynd.‘ (Rómverjabréfið 5:3, 4) Vottar Jehóva í Malaví geta borið því vitni að Guð blessar þolgæði þjóna sinna.