Trú getur breytt lífi þínu
„ÞAÐ er örugglega hægt að fylgja góðum siðferðisgildum án Guðs,“ sagði efasemdakona. Hún kvaðst hafa innprentað börnum sínum góð siðferðisgildi og sagði að þau hefðu síðan innprentað sínum eigin börnum sömu gildi — án trúar á Guð.
Ber að skilja þetta svo að guðstrúin sé óþörf? Greinilega fannst þessari konu það. Og vissulega eru ekki allir guðsafneitarar vondir menn. Páll postuli sagði að „heiðingjar“ sem þekktu ekki Guð gerðu „að eðlisboði það sem lögmálið býður.“ (Rómverjabréfið 2:14) Allir fá samviskuna í vöggugjöf, þeirra á meðal efasemdamenn. Margir reyna að hlýða rödd samviskunnar jafnvel þótt þeir trúi ekki á þann Guð sem gaf þeim þetta innra skyn á rétt og rangt.
En sterk trú á Guð — sem er byggð á Biblíunni — er margfalt virkara afl til góðs en leiðsögn samviskunnar ein sér. Trú byggð á orði Guðs, Biblíunni, uppfræðir samviskuna og skerpir vitund hennar á rétt og rangt. (Hebreabréfið 5:14) Og trú gefur fólki styrk til að halda góðar siðferðisreglur í heiðri andspænis hvaða álagi sem er. Á 20. öldinni komust margar þjóðir undir yfirráð spilltra stjórna sem þvinguðu að því er virtist heiðvirt fólk til að fremja hræðileg ódæðisverk. En þeir sem trúðu á Guð í sannleika neituðu að víkja frá sannfæringu sinni þótt þeir settu sig í lífshættu með því. Og trú byggð á Biblíunni getur breytt fólki. Hún getur bjargað lífi sem virðist glatað og forðað fólki frá alvarlegum mistökum. Lítum á nokkur dæmi.
Trú getur bætt fjölskyldulíf
„Með trú ykkar hafið þið getað gert hið ómögulega,“ sagði enskur dómari er hann úrskurðaði um forræði barna þeirra Johns og Tönju. Þegar mál þeirra kom til kasta yfirvalda bjuggu þau í óvígðri sambúð og heimilislífið var í rúst. John var fíkniefnaneytandi og fjárhættuspilari og var kominn út í afbrot til að standa undir þessum löstum. Hann vanrækti börnin og móður þeirra. Hvaða „kraftaverk“ hafði átt sér stað?
Dag nokkurn heyrði John ungan bróðurson sinn tala um paradís. Forvitni hans var vakin og hann spurði foreldra drengsins nánar út í málið. Foreldrarnir voru vottar Jehóva og fræddu John um paradís með hjálp Biblíunnar. Smám saman öðluðust þau John og Tanja trú á Biblíuna sem breytti lífi þeirra. Þau giftu sig og sigruðust á löstum sínum. Yfirvöld, sem fylgdust með heimilislífi þeirra, sáu hamingjusama fjölskyldu og hreint heimili boðlegt til barnauppeldis. Það sem virst hafði óhugsandi skömmu áður hafði gerst. Það var hárrétt hjá dómaranum að þakka þetta „kraftaverk“ nýrri trú þeirra Johns og Tönju.
Í Austurlöndum nær, mörg þúsund kílómetra frá Englandi, var ung eiginkona í þann mund að binda enda á hjónaband sitt með skilnaði eins og milljónir manna í heiminum gera á hverju ári. Hún átti barn en eiginmaðurinn var miklu eldri en hún. Ættingjar hennar höfðu af þeirri ástæðu hvatt hana til að skilja við manninn og hún var reyndar byrjuð að gera ráðstafanir til þess. En hún var að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva um þetta leyti. Þegar konan, sem var að leiðbeina henni, komst að raun um hvernig ástatt var benti hún henni á hvað Biblían segir um skilnað — til dæmis að hjónabandið sé gjöf frá Guði og að það eigi ekki að slíta því eins og ekkert sé sjálfsagðara. (Matteus 19:4-6, 9) ‚Þetta er undarlegt,‘ hugsaði eiginkonan unga með sér, ‚að þessi ókunna kona skuli vera að reyna að bjarga hjónabandi okkar en ættingjar mínir vilja slíta því.‘ Hin nýja trú hennar hjálpaði henni að varðveita hjónabandið.
Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum er áætlað að fóstureyðingar séu að minnsta kosti 45 milljónir á hverju ári. Það er alltaf harmleikur þegar endi er bundinn á líf ófædds barns. Biblíuþekking forðaði konu á Filippseyjum frá því að bæta við þessa tölu.
Konan hitti votta Jehóva og hún þáði hjá þeim biblíunámsbæklinginn Hvers krefst Guð af okkur?a og hóf biblíunám. Mörgum mánuðum síðar sagði hún þeim af hverju hún hefði þegið boðið um biblíunámskeið. Hún var barnshafandi þegar vottarnir heimsóttu hana fyrst og þau hjónin voru búin að ákveða að láta eyða fóstrinu. En myndin af ófædda barninu á bls. 24 í bæklingnum snerti hjarta hennar. Til hliðar við myndina eru biblíutengdar skýringar þess efnis að lífið sé heilagt af því að ‚hjá Guði er uppspretta lífsins,‘ og þessar skýringar hvöttu hana til að ganga með barnið. (Sálmur 36:10) Hún á núna fallegt og heilbrigt barn.
Trú hjálpar fólki sem aðrir líta niður á
Tveir tötralega klæddir menn komu á samkomu hjá vottum Jehóva í Eþíópíu. Eftir samkomuna kom vottur að máli við þá og kynnti sig vingjarnlega. Mennirnir báðu um ölmusu. Votturinn gaf þeim eitthvað betra en peninga. Hann hvatti þá til að byggja upp trú á Guð sem er „langtum dýrmætari en forgengilegt gull.“ (1. Pétursbréf 1:7) Annar þeirra þáði biblíunámskeið sem breytti lífi hans. Þegar honum jókst trú hætti hann reykingum, drykkjuskap og siðleysi og hætti að nota kat-lauf (vanabindandi örvandi efni). Hann lærði að sjá fyrir sér í stað þess að betla og er nú hreinlífur og nýtur þjóðfélagsþegn.
Fjörutíu og sjö ára gamall maður á Ítalíu hafði verið dæmdur í tíu ára fangelsi og var vistaður á réttargeðdeild. Vottur, sem hafði leyfi til að veita biblíufræðslu inni á fangelsisstofnunum, fræddi hann um Biblíuna. Maðurinn tók hröðum framförum. Trúin breytti lífi hans svo mikið að núna leita hinir fangarnir ráða hjá honum við vandamálum sínum. Biblíuleg trú hans hefur aflað honum virðingar og trausts fangelsisyfirvalda.
Dagblöð hafa á síðustu árum greint frá borgarastríði sums staðar í Afríku. Sérstaklega vekja óhug fréttir af ungum drengjum sem eru þjálfaðir til hermennsku. Þessum drengjum eru gefin fíkniefni og þeim er misþyrmt, og til að tryggja hollustu þeirra við klofningshópinn, sem þeir berjast fyrir, eru þeir neyddir til að vera illmannlegir við ættingja sína. Getur biblíuleg trú breytt lífi slíkra drengja? Það hefur gerst að minnsta kosti tvisvar.
Alex var altarisdrengur í kaþólsku kirkjunni í Líberíu. Þrettán ára gamall gekk hann til liðs við stríðandi fylkingu og varð illræmdur ungliði. Hann stundaði galdra til að taka í sig kjark fyrir bardaga. Hann sá marga félaga sína drepna en komst sjálfur lifandi úr hildarleiknum. Árið 1997 hitti hann votta Jehóva og komst að raun um að þeir litu ekki niður á hann heldur bentu honum á hvað Biblían segir um ofbeldi. Hann hætti í hernum. Hann fór að trúa og hlýddi boði Biblíunnar sem segir: „Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.“ — 1. Pétursbréf 3:11.
Drengurinn Samson hafði einnig verið hermaður og átti um þessar mundir leið um bæinn þar sem Alex bjó. Hann hafði verið kórdrengur en gerðist hermaður árið 1993 og flæktist í fíkniefnaneyslu, spíritisma og siðleysi. Hann var afvopnaður árið 1997 og var á leið til Monróvíu þar sem hann ætlaði að ganga til liðs við sérstaka öryggissveit þegar vinur hans fékk hann til að nema Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Námið varð til þess að hann fékk trú og trúin veitti honum hugrekki til að segja skilið við hermennskuna. Núna eru bæði Alex og Samson friðsamir og hreinlífir. Getur nokkuð annað en biblíuleg trú breytt lífi þeirra sem hafa verið svona grátt leiknir?
Rétt trú
Þetta eru aðeins fáein dæmi af mörgum sem hægt væri að nefna til að sýna fram á kraft ósvikinnar trúar sem er byggð á Biblíunni. Það lifa að sjálfsögðu ekki allir í samræmi við hinar göfugu siðferðiskröfur Biblíunnar þótt þeir segist trúa á Guð. Líferni sumra trúleysingja er jafnvel hreinna en sumra þeirra sem kalla sig kristna. Það kemur til af því að biblíuleg trú er meira en aðeins að segjast trúa á Guð.
Páll postuli kallaði trúna ‚fullvissu um það sem menn vona, sannfæringu um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.‘ (Hebreabréfið 11:1) Trú felur þannig í sér sterka sannfæringu um það sem ekki sést, sannfæringu sem byggist á óhrekjandi sönnunargögnum. Þar vegur hvað þyngst að vera ekki í minnsta vafa um að Guð sé til, að hann láti sér annt um okkur og blessi þá sem gera vilja hans. Postulinn sagði enn fremur: „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — Hebreabréfið 11:6.
Það var þess konar trú sem breytti lífi Johns, Tönju og annarra sem nefndir eru í greininni. Hún kom þeim til að treysta skilyrðislaust á leiðsögn orðs Guðs, Biblíunnar. Hún hjálpaði þeim að færa tímabundnar fórnir í stað þess að velja þægilegustu leiðina en jafnframt þá röngu. Þótt aðstæður þessa fólks hafi verið ólíkar var kveikja trúarinnar alltaf sú sama. Einn af vottum Jehóva aðstoðaði hvert þeirra við biblíunám og þau kynntust af eigin raun að „orð Guðs er lifandi og kröftugt“ eins og Biblían segir. (Hebreabréfið 4:12) Krafturinn í orði Guðs hjálpaði þeim öllum að byggja upp sterka trú sem breytti lífi þeirra til hins betra.
Vottar Jehóva starfa í meira en 230 löndum og eyjum. Þeir bjóða þér biblíunámskeið. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru sannfærðir um að biblíuleg trú geti bætt líf þitt til muna.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Myndir á blaðsíðu 3]
Biblíuleg trú breytir lífi fólks til hins betra.