LESENDUR SPYRJA …
Af hverju eru sumar biblíupersónur ekki nafngreindar?
Í Rutarbók er talað um mann sem sinnti ekki ákveðnum skyldum sem Móselögin kváðu á um. Hann er einfaldlega ávarpaður „þú þarna“. (Rutarbók 4:1–12) Er rökrétt að álykta að allar ónafngreindar biblíupersónur hafi annaðhvort verið slæmar manneskjur eða of ómerkilegar til að vera nefndar með nafni?
Nei. Skoðum annað dæmi. Þegar komið var að síðustu páskamáltíð Jesú sagði hann lærisveinum sínum að fara „inn í borgina til ákveðins manns“ og gera allt tilbúið á heimili hans. (Matteus 26:18) Myndum við telja að þessi ‚ákveðni maður‘ hafi verið vondur eða of ómerkilegur til að vera nafngreindur? Alls ekki. Hann var líklega lærisveinn Jesú en þar sem nafn hans skiptir engu máli í þessu samhengi er það ekki haft með.
Ýmsar slæmar manneskjur eru reyndar nafngreindar í Biblíunni en einnig eru mörg dæmi um trúfasta einstaklinga sem við vitum ekki hvað hétu. Við þekkjum til dæmis öll nafn fyrstu konunnar, Evu. Hún var samt eigingjörn og óhlýðin og stuðlaði að því að Adam syndgaði en það hafði skelfilegar afleiðingar fyrir allt mannkynið. (Rómverjabréfið 5:12) Þess er hins vegar ekki getið í Biblíunni hvað eiginkona Nóa hét en hún var óeigingjörn og hlýðin og studdi manninn sinn í mjög mikilvægu verki. Við eigum henni margt að þakka. Það að hún skuli ekki vera nafngreind er greinilega ekki merki um að hún hafi verið of ómerkileg til þess né að Jehóva hafi ekki haft velþóknun á henni.
Biblían segir líka frá ýmsum öðrum sem unnu hetjulega að því að koma vilja Jehóva á framfæri en eru samt ekki nafngreindir. Tökum litlu stúlkuna frá Ísrael sem dæmi. Hún var þjónustustúlka hjá Naaman, sýrlenskum hershöfðingja, og hún tók í sig kjark til að tala við konuna hans um spámann Jehóva í Ísrael. Það varð til þess að mikið kraftaverk átti sér stað. (2. Konungabók 5:1–14) Dóttir ísraelska dómarans Jefta sýndi líka einstaka trú. Hún var fús til að uppfylla heit sem faðir hennar hafði gefið en þar með afsalaði hún sér möguleikanum á að giftast og eignast börn. (Dómarabókin 11:30–40) Við vitum ekki heldur nöfn þeirra sem ortu rúmlega 40 sálma í Biblíunni og sömuleiðis er ekki getið um nöfn ýmissa spámanna sem sinntu mikilvægum verkefnum. – 1. Konungabók 20:37–43.
Annað og jafnvel enn merkilegra dæmi eru trúfastir englar. Til eru hundruð milljóna engla en aðeins tveir þeirra eru nafngreindir í Biblíunni – Gabríel og Mikael. (Daníel 7:10; Lúkas 1:19; Júdasarbréfið 9) Aðrir englar sem koma við sögu í Biblíunni eru ekki nefndir á nafn. Manóa faðir Samsonar sagði við engil: „Segðu okkur hvað þú heitir svo að við getum heiðrað þig þegar orð þín rætast.“ En engillinn svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig að nafni?“ Hann var hógvær og tók ekki við heiðri sem aðeins Guð átti skilið. – Dómarabókin 13:17, 18.
Biblían útskýrir ekki endilega hvers vegna sumir eru nafngreindir og aðrir ekki. En við getum lært margt af trúum einstaklingum sem þjónuðu Guði án þess að gera sér nokkrar vonir um frægð og frama.