Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w22 júlí bls. 14-19
  • Forn spádómur sem snertir þig

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Forn spádómur sem snertir þig
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERJIR KOMA VIÐ SÖGU Í SPÁDÓMINUM?
  • HVERNIG HEFUR SPÁDÓMURINN RÆST?
  • HVAÐA GAGN HÖFUM VIÐ AF ÞESSUM SPÁDÓMI?
  • B1 Boðskapur Biblíunnar
    Biblían – Nýheimsþýðingin
  • Sæði höggormsins — hvernig afhjúpað?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Jehóva opinberar fyrirætlun sína
    Ríki Guðs stjórnar
  • Sagan af Eden — hvernig snertir hún þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
w22 júlí bls. 14-19

NÁMSGREIN 30

Forn spádómur sem snertir þig

„Ég set fjandskap milli þín og konunnar.“ – 1. MÓS. 3:15.

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

YFIRLITa

1. Hvað gerði Jehóva stuttu eftir að Adam og Eva höfðu syndgað? (1. Mósebók 3:15)

STUTTU eftir að Adam og Eva syndguðu veitti Jehóva afkomendum þeirra von með því að bera fram merkilegan spádóm. Hann er að finna í 1. Mósebók 3:15. – Lestu.

2. Hvað er merkilegt við þennan spádóm?

2 Spádómurinn er skráður í fyrstu bók Biblíunnar. En allar aðrar bækur Biblíunnar tengjast honum á einhvern hátt. Spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 bindur saman innihaldið í öllum biblíubókunum svo að þær myndi heildarboðskap, rétt eins og allar blaðsíður í bók eru bundnar saman í bókarkjölinn. Þessi boðskapur felur í sér að frelsari yrði sendur sem myndi eyða Djöflinum og öllum illum fylgjendum hans.b Hvílík blessun það verður fyrir þá sem elska Jehóva!

3. Hvað ræðum við í þessari námsgrein?

3 Í þessari námsgrein fáum við svör við eftirfarandi spurningum varðandi spádóminn í 1. Mósebók 3:15: Hverjir koma við sögu í spádóminum? Hvernig uppfyllist hann? Og hvernig getum við haft gagn af honum?

HVERJIR KOMA VIÐ SÖGU Í SPÁDÓMINUM?

Myndir: „Þeir sem koma við sögu í 1. Mósebók 3:14, 15“. 1. Höggormurinn: Satan, sem er andavera. 2. Afkomendur höggormsins: illar andaverur. 3. Konan: trúfastar andaverur. 4. Afkomendur konunnar: Jesús Kristur og smurðir meðstjórnendur hans í himneskri dýrð sinni. Fjallað er um myndirnar í grein 4, 5, 7, og 8.

4. Hver er ,höggormurinn‘ og hvernig vitum við það?

4 Þeir sem koma við sögu í spádóminum í 1. Mósebók 3:14, 15 eru ,höggormurinn‘ og ,afkomendur‘ hans og ,konan‘ og ,afkomendur‘ hennar. (Sjá 1. Mósebók 3:15, neðanmáls.) Biblían hjálpar okkur að bera kennsl á þau.c Byrjum á ,höggorminum‘. Bókstaflegur snákur hefði ekki skilið það sem Jehóva sagði í Edengarðinum. Og Jehóva myndi aðeins fella dóm yfir skynsemigæddri sköpunarveru. Hver var það? Við fáum skýrt svar í Opinberunarbókinni 12:9. ,Hinn upphaflegi höggormur‘ er sagður vera Satan Djöfullinn. En hverjir eru afkomendur höggormsins?

Satan, sem er andavera.

HÖGGORMURINN

Satan Djöfullinn sem er nefndur ,upphaflegi höggormurinn‘ í Opinberunarbókinni 12:9. (Sjá 4. grein.)

5. Hverjir eru afkomendur höggormsins?

5 Þegar Biblían talar um afkomendur í táknrænni merkingu er átt við þá sem hugsa og haga sé eins og táknrænn faðir þeirra. Afkomendur höggormsins eru fólk og andaverur sem hafna Jehóva Guði og standa á móti þjónum hans, rétt eins og Satan. Þar á meðal eru englar sem yfirgáfu stöðu sína á himnum á dögum Nóa og vont fólk sem hagar sér eins og faðir þess, Djöfullinn. – 1. Mós. 6:1, 2; Jóh. 8:44; 1. Jóh. 5:19; Júd. 6.

Illar andaverur.

AFKOMENDUR HÖGGORMSINS

Illar andaverur og fólk sem stendur á móti Jehóva Guði og þjónum hans. (Sjá 5. grein.)

6. Hvers vegna getur ,konan‘ ekki hafa verið Eva?

6 Skoðum því næst hver ,konan‘ er. Hún getur ekki hafa verið Eva. Hvers vegna ekki? Skoðum eina ástæðu. Í spádóminum segir að afkomandi konunnar myndi „kremja“ höfuð höggormsins. Eins og áður er nefnt er höggormurinn illur engill, það er að segja Satan, og enginn ófullkominn afkomandi Evu gæti kramið hann. Eitthvað meira þarf til.

7. Hver er konan sem fjallað er um í 1. Mósebók 3:15 samkvæmt Opinberunarbókinni 12:1, 2, 5, 10?

7 Við fáum að vita hver konan í 1. Mósebók 3:15 er í síðustu bók Biblíunnar. (Lestu Opinberunarbókina 12:1, 2, 5, 10.) Hún er engin venjuleg kona. Tunglið er undir fótum hennar og á höfðinu er hún með kórónu úr 12 stjörnum. Hún fæðir mjög óvenjulegt barn: Guðsríki. Ríkið er á himnum þannig að konan hlýtur einnig að vera á himnum. Hún táknar himneskan hluta alheimssafnaðar Jehóva, trúfasta engla hans. – Gal. 4:26.

Trúfastar andaverur.

KONAN

Himneskur hluti safnaðar Jehóva sem samanstendur af trúföstum andaverum. (Sjá 7. grein.)

8. Hver er mikilvægasti afkomandi konunnar og hvenær varð hann það? (1. Mósebók 22:15–18)

8 Við fáum líka að vita í orði Guðs hver mikilvægasti afkomandi konunnar er. Hann átti að vera afkomandi Abrahams. (Lestu 1. Mósebók 22:15–18.) Eins og spádómurinn sagði fyrir um var Jesús afkomandi þessa trúfasta ættföður. (Lúk. 3:23, 34) En afkomandinn þyrfti að hafa meira en mannlegan mátt til að kremja Satan Djöfulinn svo að hann væri úr sögunni. Þegar Jesús var um þrítugt var hann því smurður sem andasonur Guðs. Þar með varð hann helsti afkomandi konunnar. (Gal. 3:16) Eftir dauða Jesú og upprisu krýndi Guð hann „dýrð og heiðri“ og gaf honum „allt vald á himni og jörð“, þar á meðal vald „til að brjóta niður verk Djöfulsins“. – Hebr. 2:7; Matt. 28:18; 1. Jóh. 3:8.

Jesús Kristur og smurðir meðstjórnendur hans í himneskri dýrð sinni.

AFKOMENDUR KONUNNAR

Jesús Kristur og 144.000 meðstjórnendur hans. (Sjá 8. og 9. grein.)

9, 10. (a) Hverjir eru líka afkomendur konunnar og hvenær verða þeir það? (b) Hvað skoðum við nú?

9 En konan myndi eiga fleiri afkomendur. Páll postuli benti á þá þegar hann sagði við smurða kristna menn – Gyðinga og menn af öðrum þjóðum: „Ef þið tilheyrið Kristi eruð þið auk þess afkomendur Abrahams, erfingjar samkvæmt loforði.“ (Gal. 3:28, 29) Þegar Jehóva smyr þjón sinn með heilögum anda verður hann afkomandi konunnar. Afkomendur konunnar eru því Jesús Kristur og 144.000 meðstjórnendur hans. (Opinb. 14:1) Allir endurspegla þeir anda Jehóva Guðs, föður síns.

10 Við höfum borið kennsl á þá sem koma við sögu í 1. Mósebók 3:15. Skoðum nú stuttlega hvernig Jehóva hefur látið þennan spádóm rætast stig af stigi og hvaða gagn við höfum af því.

HVERNIG HEFUR SPÁDÓMURINN RÆST?

11. Í hvaða skilningi var afkomandi konunnar ,höggvinn í hælinn‘?

11 Samkvæmt spádóminum í 1. Mósebók 3:15 myndi höggormurinn höggva afkomanda konunnar „í hælinn“. Það gerðist þegar Satan eggjaði Gyðinga og Rómverja til að taka son Guðs af lífi. (Lúk. 23:13, 20–24) Rétt eins og skaddaður hæll getur hamlað einhverjum tímabundið var Jesús óvirkur tímabundið meðan hann lá dáinn í gröfinni. – Matt. 16:21.

12. Hvernig og hvenær verður höfuð höggormsins kramið?

12 Spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 sýnir að Jesús yrði ekki áfram í gröfinni. Hvernig getum við sagt það? Samkvæmt spádóminum myndi afkomandinn kremja höfuð höggormsins. Það þýddi að hælsár Jesú myndi gróa. Og það gerði það sannarlega. Á þriðja degi eftir dauða hans var hann reistur upp sem ódauðleg andavera. Á tilteknum tíma Guðs kremur Jesús Satan sem verður þar með úr sögunni. (Hebr. 2:14) Jesús og þeir sem ríkja með honum losa jörðina við alla óvini Guðs – afkomendur höggormsins. – Opinb. 17:14; 20:4, 10.d

Mikilvægir atburðir í uppfyllingu 1. Mósebókar 3:15

Tímalína sem sýnir mikilvæga atburði í uppfyllingu 1. Mósebókar 3:15. A. 1943 f.Kr.: Abraham horfir upp í stjörnuprýddan himininn. B. Árið 29: Jesús er smurður með heilögum anda eftir að hafa látið skírast hjá Jóhannesi. C. Páskar árið 33: Jesús á kvalastaur. D. Hvítasunna árið 33: ,Eldtungur‘ birtast yfir höfðum fylgjenda Krists. E. Um árið 1914: Jesús kastar Satan og illum öndum hans frá himni. F. Lok þúsundáraríkisins: Satan og illum öndum hans er kastað í eldhafið.
  1. A. 1943 f.Kr.

    Loforð Guðs uppfyllist um að mikilvægasti afkomandinn yrði afkomandi Abrahams. (1. Mós. 12:1–3; 22:15–18)

  2. B. ÁRIÐ 29

    Jesús er smurður og verður þar með mikilvægasti afkomandi konunnar. (Matt. 3:16; Gal. 3:16)

  3. C. PÁSKAR ÁRIÐ 33

    Jesús er ,höggvinn í hælinn‘ en nær sér þrem dögum síðar. (Matt. 16:21; 26:1, 2)

  4. D. HVÍTASUNNA ÁRIÐ 33

    Sá fyrsti af öðrum afkomendum konunnar er smurður heilögum anda. (Post. 2:1–4; Gal. 3:29)

  5. E. UM ÁRIÐ 1914

    Satan er kastað burt frá himni og ofsóknir á hendur afkomendum konunnar magnast. (Opinb. 12:9, 12, 17)

  6. F. LOK ÞÚSUNDÁRARÍKISINS

    Satan er endanlega eytt. (Opinb. 20:7, 10)

HVAÐA GAGN HÖFUM VIÐ AF ÞESSUM SPÁDÓMI?

13. Hvaða gagn höfum við af uppfyllingu spádómsins?

13 Ef þú ert þjónn Guðs hefurðu gagn af uppfyllingu þessa spádóms. Jesús kom til jarðar sem maður. Hann endurspeglaði persónuleika föður síns fullkomlega. (Jóh. 14:9) Þegar við lærum um hann kynnumst við um leið Jehóva Guði og förum að elska hann. Við höfum líka haft gagn af kennslu Jesú og leiðsögn hans í kristna söfnuðinum nú á dögum. Hann hefur kennt okkur að lifa lífinu þannig að við höfum velþóknun Jehóva. Og við getum öll haft gagn af dauða Jesú – þegar hann var höggvinn í hælinn. Hvernig? Þegar Jesús hafði verið reistur upp til lífs á ný þáði Jehóva verðgildi blóðs hans sem fullkomna fórn en það „hreinsar okkur af allri synd“. – 1. Jóh. 1:7.

14. Hvernig vitum við að uppfylling spádómsins í Eden tæki þó nokkurn tíma? Skýrðu svarið.

14 Það sem Jehóva sagði í Eden gefur til kynna að þó nokkur tími liði áður en spádómurinn rættist að fullu. Það tæki konuna tíma að geta af sér afkomendur, Djöfulinn að safna liði og fyrir fjandskap, eða hatur, að byggjast upp milli þessara tveggja hópa. Það er gagnlegt að þekkja spádóminn því að hann upplýsir okkur um að heimurinn undir stjórn Satans myndi hata tilbiðjendur Jehóva. Jesús sagði seinna eitthvað svipað við lærisveina sína. (Mark. 13:13; Jóh. 17:14) Við höfum sannarlega séð þann hluta spádómsins uppfyllast, sérstaklega síðustu 100 árin. Hvernig?

15. Hvers vegna hefur hatur heimsins aukist en hvers vegna þurfum við ekki að óttast Satan?

15 Satan var kastað út af himnum fljótlega eftir að Jesús settist í hásæti sem smurður konungur Guðsríkis árið 1914. Satan er nú í nágrenni jarðarinnar og bíður eyðingar. (Opinb. 12:9, 12) En hann situr ekki auðum höndum. Hann er örvæntingafullur og ævareiður og tekur út reiðina á fólki Guðs. (Opinb. 12:13, 17) Þess vegna hefur hatur heimsins í garð þjóna Guðs aukist. En við þurfum ekki að óttast Satan og fylgjendur hans. Við getum haft sömu sannfæringu og Páll postuli, en hann skrifaði: „Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“ (Rómv. 8:31) Við getum haft fullt traust á Jehóva því að eins og við höfum séð hefur stór hluti spádómsins í 1. Mósebók 3:15 þegar ræst.

16–18. Hvernig hafa Curtis, Ursula og Jessica haft gagn af því að skilja 1. Mósebók 3:15?

16 Loforð Jehóva í 1. Mósebók 3:15 getur hjálpað okkur að þola allar prófraunir sem við mætum. Curtis er trúboði í Gvam. Hann segir: „Ég hef stundum glímt við prófraunir og vonbrigði sem reyndu á hollustu mína við Jehóva. En að hugleiða spádóminn í 1. Mósebók 3:15 hefur hjálpað mér að varðveita traustið á föður mínum á himni.“ Curtis hlakkar til þess dags þegar Jehóva bindur enda á allar prófraunir okkar.

17 Systir að nafni Ursula í Þýskalandi segir að það að skilja 1. Mósebók 3:15 hafi sannfært sig um að Biblían sé innblásin af Guði. Það hafði mikil áhrif á hana að sjá hvernig allir aðrir spádómar tengjast þessum spádómi. Hún segir líka: „Það snerti mig að uppgötva að Jehóva gerði strax ráðstafanir til að veita mannkyninu von.“

18 Jessica er frá Míkrónesíu. Hún segir: „Ég man enn þá hvernig mér leið þegar ég áttaði mig á því að ég hafði fundið sannleikann. Spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 var að uppfyllast. Það hefur hjálpað mér að gleyma ekki að líf okkar í þessum heimi er ekki hið sanna líf. Spádómurinn hefur líka styrkt þá sannfæringu að besta mögulega lífið núna felist í því að þjóna Jehóva og að í framtíðinni verði lífið enn betra.“

19. Hvers vegna getum við treyst að síðari hluti spádómsins uppfyllist?

19 Eins og við höfum séð er spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 að uppfyllast. Við höfum borið kennsl á afkomendur konunnar og afkomendur höggormsins. Jesús, mikilvægasti afkomandi konunnar, náði sér af hælsárinu og er nú dýrlegur og ódauðlegur konungur. Jehóva hefur nú valið nánast alla hina afkomendur konunnar. Fyrri hluti spádómsins hefur ræst. Við höfum því fulla ástæðu til að treysta að síðari hluti hans verði uppfylltur – að höfuð höggormsins verði kramið. Þvílíkur léttir fyrir trúfast mannkyn að losna við Satan! Þangað til skulum við halda út. Við getum treyst Guði okkar. Fyrir milligöngu afkomanda konunnar færir hann ,öllum þjóðum jarðar‘ margvíslega blessun. – 1. Mós. 22:18.

GETURÐU ÚTSKÝRT SPÁDÓMINN Í 1. MÓSEBÓK 3:15?

  • Hverjir eru ,höggormurinn‘ og afkomendur hans og konan og afkomendur hennar?

  • Hvernig hefur spádómurinn uppfyllst hingað til?

  • Hvernig hefur þú haft gagn af uppfyllingu spádómsins?

SÖNGUR 23 Jehóva tekur völd

a Við getum ekki skilið boðskap Biblíunnar til fulls án þess að skilja spádóminn í 1. Mósebók 3:15. Að rannsaka þennan spádóm getur styrkt trú okkar á Jehóva og sannfæringu okkar um að hann uppfylli öll loforð sín.

b Sjá 5. kafla bæklingsins Handbók biblíunemandans sem nefnist „Boðskapur Biblíunnar“.

c Sjá rammann „Þeir sem koma við sögu í 1. Mósebók 3:14,15“.

d Sjá rammann „Mikilvægir atburðir í uppfyllingu 1. Mósebókar 3:15“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila