Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w24 október bls. 12-17
  • Síðustu fjörutíu dagar Jesú á jörðinni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Síðustu fjörutíu dagar Jesú á jörðinni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • UPPÖRVUM AÐRA
  • HJÁLPUM ÖÐRUM AÐ SKILJA RITNINGARNAR
  • ÞJÁLFUM BRÆÐUR TIL AÐ VERÐA „MENN AÐ GJÖF“
  • Sýnum brennandi áhuga á boðuninni eins og Jesús
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Njóttu ánægjunnar sem fylgir því að gefa
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Bræður – sækist þið eftir að verða öldungar?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
w24 október bls. 12-17

NÁMSGREIN 41

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

Síðustu fjörutíu dagar Jesú á jörðinni

„Hann birtist þeim um 40 daga skeið og talaði um ríki Guðs.“ – POST. 1:3.

Í HNOTSKURN

Við getum lært ýmislegt af því hvernig Jesús notaði síðustu 40 dagana sem hann var hér á jörð.

1, 2. Hvað gerðist þegar tveir af lærisveinum Jesú voru á leiðinni til Emmaus?

ÞAÐ er 16. nísan árið 33. Lærisveinar Jesú eru sorgmæddir og óttaslegnir. Tveir þeirra eru á leið frá Jerúsalem til Emmaus, þorps í um 11 kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Þeir eru hryggir vegna þess að maðurinn sem þeir höfðu fylgt hafði verið tekinn af lífi. Þeir höfðu vonast til þess að Messías myndi gera stórkostlega hluti fyrir Gyðinga en nú er hann dáinn. En þá gerist nokkuð óvænt.

2 Ókunnugur maður slæst í för með þeim. Lærisveinarnir segja honum hversu vonsviknir þeir eru yfir því sem kom fyrir Jesú. Maðurinn fer þá að ræða við þá um hluti sem þeir eiga aldrei eftir að gleyma. ‚Hann byrjar á Móse og öllum spámönnunum‘ og útskýrir hvers vegna Messías þurfti að þjást og deyja. Þegar mennirnir þrír koma til Emmaus upplýsir ókunnugi maðurinn hver hann er – hinn upprisni Jesús. Við getum rétt ímyndað okkur gleði lærisveinanna að komast að því að Messías var lifandi. – Lúk. 24:13–35.

3, 4. Hvernig breyttist staða lærisveina Jesú og hvað lærum við í þessari námsgrein? (Postulasagan 1:3)

3 Jesús birtist lærisveinunum nokkrum sinnum síðustu 40 daga sína á jörðinni. (Lestu Postulasöguna 1:3.) Á þessu tímabili átti sér stað mikil umbreyting hjá lærisveinunum. Þeir voru ekki lengur óttaslegnir og hryggir heldur glaðir, öruggir og hugrakkir boðberar og kennarar fagnaðarboðskaparins.a

4 Það er lærdómsríkt að skoða hvað Jesús gerði á þessu tímabili. Í þessari námsgrein sjáum við hvernig hann notaði tímann til að (1) uppörva lærisveinana, (2) dýpka skilning þeirra á Ritningunum og (3) þjálfa þá til að axla meiri ábyrgð. Við lærum hvernig við getum líkt eftir fordæmi Jesú.

UPPÖRVUM AÐRA

5. Hvers vegna þurftu lærisveinar Jesú á uppörvun að halda?

5 Lærisveinar Jesú þurftu á uppörvun að halda. Sumir þeirra höfðu sagt skilið við heimili, fjölskyldu og fyrirtæki til þess að fylgja Jesú í fullu starfi. (Matt. 19:27) Aðrir voru útskúfaðir úr samfélaginu vegna þess að þeir urðu lærisveinar hans. (Jóh. 9:22) Þeir færðu þessar fórnir vegna þess að þeir trúðu að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. (Matt. 16:16) En þegar hann var tekinn af lífi urðu vonir þeirra að engu og það dró úr þeim kjarkinn.

6. Hvað gerði Jesús eftir að hafa verið reistur upp?

6 Jesús áleit eflaust ekki að lærisveinarnir væru veikir í trúnni þótt þeir væru sorgmæddir heldur að þetta væru eðlileg sorgarviðbrögð. Þennan sama dag og hann var reistur upp fór hann til vina sinna til að uppörva þá. Hann birtist til dæmis Maríu Magdalenu þar sem hún grét við gröf hans. (Jóh. 20:11, 16) Hann birtist líka lærisveinunum tveim sem voru á leið til Emmaus. Og hann birtist Pétri postula. (Lúk. 24:34) Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Skoðum hvað gerðist þegar hann birtist Maríu Magdalenu.

7. Hvað sá Jesús Maríu gera morguninn 16. nísan og hvað gerði hann fyrir hana samkvæmt Jóhannesi 20:11–16? (Sjá einnig mynd.)

7 Lestu Jóhannes 20:11–16. Snemma morguns 16. nísan fóru nokkrar trúfastar konur þangað sem Jesús hafði verið lagður í gröf. (Lúk. 24:1, 10) Ein þeirra var María Magdalena. Þegar hún kom til grafarinnar var gröfin tóm. Hún flýtti sér til að segja Jóhannesi og Pétri frá. Þeir hlupu til grafarinnar og hún fylgdi á eftir þeim. Eftir að hafa séð sjálfir að gröfin var tóm sneru þeir aftur heim. En María varð eftir og grét. Hún vissi ekki að Jesús fylgdist með henni. Hann sá að hún grét vegna hans og vildi hugga hana. Hann birtist Maríu og gerði nokkuð sem veitti henni mikla uppörvun. Hann talaði við hana og gaf henni mikilvægt verkefni – að færa lærisveinunum fréttir af upprisu hans. – Jóh. 20:17, 18.

Jesús upprisinn talar við Maríu Magdalenu fyrir utan tóma gröf.

Líktu eftir Jesú með því að vera athugull og sýna þeim sem eru niðurdregnir samkennd. (Sjá 7. grein.)


8. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

8 Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Ef við erum vakandi fyrir því hvernig bræðrum og systrum líður getum við líkt eftir Jesú og hughreyst þau. Þannig hvetjum við þau til að halda áfram að þjóna Jehóva. Systir að nafni Jocelyn missti systur sína í hræðilegu slysi. „Ég var lömuð af sorg svo mánuðum skipti,“ segir hún. En hjón í söfnuðinum buðu henni heim til sín og hlustuðu samúðarfull á hana og fullvissuðu hana um að hún væri dýrmæt í augum Guðs. Jocelyn segir: „Mér leið eins og ég væri í fárviðri úti á sjó og alveg að drukkna en þá sendi Jehóva þau til að draga mig upp í björgunarbát. Þau hjálpuðu mér að endurheimta löngunina til að halda áfram að þjóna Jehóva.“ Við getum líka uppörvað trúsystkini ef við leyfum þeim að tjá tilfinningar sínar og hlustum vel hvað þau segja. Þannig getum við huggað þau og hjálpað þeim að halda áfram að vera sterk í trúnni. – Rómv. 12:15.

HJÁLPUM ÖÐRUM AÐ SKILJA RITNINGARNAR

9. Hvað reyndist lærisveinunum erfitt og hvernig hjálpaði Jesús þeim?

9 Lærisveinarnir trúðu því sem segir í Ritningunum og lögðu sig fram við að fara eftir því. (Jóh. 17:6) En þeir skildu ekki hvers vegna Jesús var tekinn af lífi sem glæpamaður. Jesús vissi að efasemdir þeirra voru ekki merki um illt hjarta heldur að þá skorti skilning. (Lúk. 9:44, 45; Jóh. 20:9) Hann vildi því hjálpa þeim að skilja Ritningarnar. Skoðum nánar hvernig hann gerði það þegar hann birtist lærisveinunum tveim á leið til Emmaus.

10. Hvernig sannfærði Jesús lærisveinana um að hann væri Messías? (Lúkas 24:18–27)

10 Lestu Lúkas 24:18–27. Tökum eftir að Jesús sagði mönnunum ekki strax hver hann væri. Hann spurði þá spurninga. Kannski vildi hann fyrst vita hvað þeir voru að hugsa og hvernig þeim leið. Þeir sögðu honum að þeir hefðu vænst þess að Jesús myndi leysa Ísraelsmenn undan kúgun Rómverja. Jesús gaf þeim tækifæri til að tjá tilfinningar sínar. Síðan notaði hann Ritningarnar til að skýra fyrir þeim hvernig margir spádómar hefðu uppfyllst.b Síðar sama kvöld útskýrði hann fyrir hinum lærisveinunum merkingu þessara spádóma. (Lúkas 24:33–48) Hvað lærum við af þessari frásögu?

11, 12. (a) Hvað lærum við af því hvernig Jesús kenndi frá Ritningunni? (Sjá einnig myndir.) (b) Hvernig reyndist biblíukennari Norteys góður kennari?

11 Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Þegar þú kennir öðrum ættirðu að spyrja viðeigandi spurninga til að draga fram það sem býr í huga og hjarta nemandans. (Orðskv. 20:5) Þegar þú skilur hvernig honum líður skaltu sýna honum hvernig hann getur fundið biblíuvers sem eiga við aðstæður hans. Ekki segja honum hvað hann á að gera. Hvettu hann frekar til að hugleiða biblíuversin og hvernig hann getur farið eftir meginreglunum sem þar er að finna. Skoðum reynslu bróður í Gana sem heitir Nortey.

12 Þegar Nortey var 16 ára fór hann að lesa Biblíuna með vottum Jehóva. Fyrr en varði var fjölskyldan mjög andsnúin því. Hvað gerði honum kleift að halda sínu striki? Biblíukennarinn hans hafði þegar lesið með honum í Matteusi 10. kafla til að sýna honum að sannkristnir menn yrðu ofsóttir. „Þegar andstaðan hófst,“ segir Nortey, „var ég sannfærður um að ég hefði fundið sannleikann.“ Þeir lásu saman Matteus 10:16 þar sem segir að við verðum að vera varkár. Síðan ræddu þeir hvernig þetta vers gæti hjálpað Nortey að útskýra trú sína af virðingu fyrir fjölskyldunni. Þegar Nortey var búinn að láta skírast langaði hann að verða brautryðjandi en faðir hans ætlaðist til að hann færi í háskóla. Bróðirinn sagði Nortey ekki hvað hann ætti að gera. Þess í stað notaði hann spurningar til að hjálpa honum að draga ályktanir og taka ákvarðanir byggðar á meginreglum Biblíunnar. Nortey gerðist síðan brautryðjandi og faðir hans rak hann þá af heimilinu. Hvað hugsar Nortey þegar hann lítur til baka? „Ég er sannfærður um að ég tók rétta ákvörðun,“ segir hann. Þegar við hvetjum aðra til að rökhugsa út frá Ritningunum hjálpum við þeim að styrkja trú sína. – Ef. 3:16–19.

Samsett mynd: 1. Bróðir hjálpar manni í biblíunámi að skilja meginreglu í biblíuversi. 2. Maðurinn fleygir jólaskrauti í ruslatunnu.

Líktu eftir Jesú með því að hjálpa öðrum að skilja meginreglur Biblíunnar. (Sjá 11. grein.)e


ÞJÁLFUM BRÆÐUR TIL AÐ VERÐA „MENN AÐ GJÖF“

13. Hvað gerði Jesús til að tryggja að boðunin héldi áfram eftir að hann sneri til himna? (Efesusbréfið 4:8)

13 Þegar Jesús var á jörðinni sinnti hann því verkefni sem faðir hans fól honum að vinna. (Jóh. 17:4) En Jesús hugsaði ekki: „Ef ég vil að eitthvað sé gert vel þarf ég að gera það sjálfur.“ Hann þjálfaði aðra til að vinna verkið þau þrjú og hálft ár sem þjónusta hans stóð. Áður en hann sneri til himna fól hann lærisveinunum – sumum rétt rúmlega tvítugum – þá ábyrgð að annast dýrmæta sauði Jehóva og fara með forystuna í boðuninni og kennslunni. (Lestu Efesusbréfið 4:8.) Hvernig notaði Jesús 40 síðustu daga sína til að hjálpa þessum dyggu, trúföstu og duglegu mönnum að verða „menn að gjöf“?

14. Hvað kenndi Jesús lærisveinunum síðustu 40 dagana sem hann var á jörðinni? (Sjá einnig mynd.)

14 Þegar Jesús gaf lærisveinunum leiðbeiningar var hann bæði hreinskilinn og kærleiksríkur. Hann tók til dæmis eftir að sumir þeirra höfðu tilhneigingu til að efast þannig að hann leiðbeindi þeim. (Lúk. 24:25–27; Jóh. 20:27) Hann hvatti þá til að leggja meiri áherslu á hirðastarfið en veraldlega vinnu. (Jóh. 21:15) Hann minnti þá á að hugsa ekki of mikið um hvaða verkefni aðrir fengju í þjónustu Jehóva. (Jóh. 21:20–22) Og hann leiðrétti rangar hugmyndir sem þeir höfðu um Guðsríki og beindi athygli þeirra að boðun fagnaðarboðskaparins. (Post. 1:6–8) Hvað geta öldungar lært af Jesú?

Jesús talar við lærisveina sína niðri við vatnið á meðan hann eldar fisk yfir eldi.

Líktu eftir Jesú með því að þjálfa menn til að axla meiri ábyrgð. (Sjá 14. grein.)


15, 16. (a) Á hvaða vegu geta öldungar líkt eftir Jesú? (b) Hvaða gagn hafði Patrick af því að fá leiðbeiningar?

15 Hvernig geta öldungar líkt eftir Jesú? Þeir verða að þjálfa menn, þar á meðal þá sem eru ungir, til að verða hæfir til að axla meiri ábyrgð.c Öldungar ætlast ekki til að þeir séu fullkomnir. Þeir ættu að leiðbeina þeim á kærleiksríkan hátt svo að þessir ungu bræður öðlist reynslu og skilji að það er mikilvægt að vera auðmjúkur, trúfastur og fús að þjóna öðrum. – 1. Tím. 3:1; 2. Tím. 2:2; 1. Pét. 5:5.

16 Bróðir sem heitir Patrick hafði gagn af því að fá leiðbeiningar. Þegar hann var ungur hafði hann tilhneigingu til að vera óvingjarnlegur og hvassyrtur við aðra, jafnvel systur. Þroskaður öldungur veitti þessu athygli og gaf honum skýrar leiðbeiningar en af mildi. „Ég er ánægður að hann gerði það,“ segir Patrick. „Ég var vanur að vera svekktur þegar aðrir bræður fengu verkefni í þjónustu Jehóva sem mig langaði að fá. En öldungurinn opnaði augu mín fyrir því að ég þyrfti að einbeita mér að því að þjóna bræðrum og systrum af auðmýkt frekar en hugsa um stöðu og verkefni í söfnuðinum.“ Fyrir vikið var Patrick útnefndur öldungur þegar hann var 23 ára. – Orðskv. 27:9.

17. Hvernig sýndi Jesús að hann treysti lærisveinunum?

17 Jesús gaf lærisveinunum ekki aðeins það verkefni að boða trúna heldur líka kenna. Ef til vill hefur þeim ekki fundist þeir starfinu vaxnir. En Jesús var ekki í nokkrum vafa um að þeir gætu sinnt þessu starfi. Hann hafði fulla trú á þeim og sagði: „Ég sendi ykkur eins og faðir minn hefur sent mig.“ – Jóh. 20:21.

18. Hvernig geta öldungar líkt eftir Jesú?

18 Hvernig geta öldungar líkt eftir Jesú? Reyndir öldungar treysta öðrum fyrir verkefnum. (Fil. 2:19–22) Öldungar geta til dæmis beðið hina ungu að taka þátt í viðhaldi á ríkissalnum og þrifum. Þeir geta gefið þeim verkefni, þjálfað þá til að inna þau af hendi og treyst þeim til að ljúka því. Matthew er nýlega orðinn öldungur. Hann segist kunna vel að meta þegar reyndir öldungar þjálfa hann til að sinna verkefni og treysta því að hann geri það vel. Hann segir: „Þegar ég geri mistök hjálpa þeir mér að sjá hvað ég get lært af því og hvernig ég get gert betur næst.“d

19. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

19 Jesús notaði síðustu 40 dagana á jörð til að uppörva, kenna og þjálfa aðra. Líkjum eftir honum eins vel og við getum. (1. Pét. 2:21) Hann hjálpar okkur til þess og lofar: „Ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ – Matt. 28:20.

HVERNIG NOTAÐI JESÚS SÍÐUSTU 40 DAGANA Á JÖRÐ …

  • til að uppörva aðra?

  • til að hjálpa öðrum að skilja Ritningarnar?

  • til að þjálfa menn til að axla meiri ábyrgð?

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

a Guðspjöllin og aðrar bækur Biblíunnar segja frá því þegar Jesús birtist öðrum eftir upprisu sína við mörg tækifæri. Hann birtist til dæmis Maríu Magdalenu (Jóh. 20:11–18), öðrum konum (Matt. 28:8–10; Lúk. 24:8–11), tveim lærisveinum (Lúk. 24:13–15), Pétri (Lúk. 24:34), öllum postulunum nema Tómasi (Jóh. 20:19–24), postulunum ásamt Tómasi (Jóh. 20:26), sjö lærisveinum (Jóh. 21:1, 2), fleiri en 500 lærisveinum (Matt. 28:16; 1. Kor. 15:6), bróður sínum, Jakobi (1. Kor. 15:7), öllum postulunum (Post. 1:4) og postulunum í grennd við Betaníu. (Lúk. 24:50–52) Hann gæti hafa birst fylgjendum sínum við önnur tækifæri sem Biblían greinir ekki frá. – Jóh. 21:25.

b Í greininni „Sanna Messíasarspádómar að Jesús hafi verið Messías?“ á jw.org er að finna lista yfir Messíasarspádóma.

c Í sumum tilfellum eru menn á þrítugsaldri útnefndir farandhirðar. Þeir þurfa samt fyrst að hafa öðlast reynslu sem öldungar.

d Fleiri tillögur um hvernig hægt er að hjálpa ungum bræðrum að verða hæfir til að axla ábyrgð má finna í Varðturninum í ágúst 2018, bls. 11–12, gr. 15–17 og 15. apríl 2015, bls. 3–13.

e MYND: Biblíunemandi hendir jólaskrauti eftir að hafa fengið hjálp til að hugleiða meginreglur Biblíunnar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila