Ættu trúarbrögð að taka þátt í stjórnmálum?
Um heim allan eru margir mjög virkir í stjórnmálum sem segjast fylgjendur Jesú Krists. Sumir reyna að koma trúarlegum og siðferðilegum gildum sínum á framfæri með því að styðja ákveðna frambjóðendur eða stjórnmálaflokka. Og stjórnmálamenn nota oft siðferðileg og félagsleg ágreiningsmál til að fá stuðning trúaðs fólks. Ekki er óalgengt að trúarleiðtogar sækist eftir pólitískum embættum. Og í sumum löndum eru jafnvel svokölluð kristin trúarbrögð álitin ríkistrú.
Hvað heldur þú? Ættu fylgjendur Jesú Krists að taka þátt í stjórnmálum? Skoðum fordæmi Jesú. Hann sagði: „Ég hef gefið ykkur fordæmi. Þið skuluð gera það sama og ég hef gert fyrir ykkur.“ (Jóhannes 13:15) Hvaða fordæmi setti Jesús okkur varðandi þátttöku í stjórnmálum?
Tók Jesús þátt í stjórnmálum?
Nei. Jesús tók ekki þátt í stjórnmálum heimsins.
Jesús sóttist ekki eftir pólitískum völdum. Hann hafnaði því að komast til valda þegar Satan Djöfullinn bauð honum „öll ríki heims“. (Matteus 4:8–10)a Við annað tækifæri reyndi fólk sem áttaði sig á forystuhæfileikum Jesú að fá hann til að taka þátt í stjórnmálum. Biblían segir: „Jesús vissi að fólkið myndi nú koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi. Hann fór því aftur upp á fjallið einn síns liðs.“ (Jóhannes 6:15) Jesús lét ekki undan kröfum fólksins. Hann neitaði að blanda sér í stjórnmál.
Jesús tók ekki afstöðu í pólitískum málum. Gyðingum gramdist að borga Rómverjum skatta á dögum Jesú og álitu þá óréttláta byrði. Þegar þeir reyndu að fá Jesú til að taka afstöðu í þessu máli blandaði hann sér ekki í pólitískt deilumál um það hvort skattarnir væru sanngjarnir eða ekki. Hann sagði við þá: „Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“ (Markús 12:13–17) Hann var hlutlaus í pólitískum málum en sýndi fram á að það ætti að greiða rómverskum yfirvöldum, sem keisarinn stóð fyrir, skattana sem þau kröfðust. Hann sýndi um leið fram á að hlýðni við yfirvöld hefði sín takmörk. Maður átti ekki að láta ríkinu í té það sem tilheyrði Guði, þar á meðal hollustu og tilbeiðslu. – Matteus 4:10; 22:37, 38.
Jesús studdi himneska stjórn, ríki Guðs. (Lúkas 4:43) Hann blandaði sér ekki í stjórnmál vegna þess að hann vissi að ríki Guðs, en ekki stjórnir manna, myndi áorka því sem Guð vill fyrir jörðina. (Matteus 6:10) Hann skildi að ríki Guðs notaði ekki stjórnir manna til þess heldur kæmi í stað þeirra. – Daníel 2:44.
Tóku frumkristnir þátt í stjórnmálum?
Nei. Fylgjendur Jesú hlýddu fyrirmælunum um að ,tilheyra ekki heiminum‘. (Jóhannes 15:19) Þeir fylgdu fordæmi hans og héldu sig frá stjórnmálum heimsins. (Jóhannes 17:16; 18:36) Þeir blönduðu sér ekki í pólitísk mál. Þess í stað fylgdu þeir fyrirmælum Jesú um að boða ríki Guðs og fræða fólk um það. – Matteus 28:18–20; Postulasagan 10:42.
Kristnum mönnum á fyrstu öld fannst mikilvægast að sýna Guði hlýðni en þeir vissu jafnframt að þeir ættu að sýna veraldlegum yfirvöldum virðingu. (Postulasagan 5:29; 1. Pétursbréf 2:13, 17) Þeir hlýddu lögunum og borguðu skatta. (Rómverjabréfið 13:1, 7) Þeir tóku ekki þátt í stjórnmálum en nýttu sér lagalega vernd og þjónustu sem stjórnvöld veittu. – Postulasagan 25:10, 11; Filippíbréfið 1:7.
Kristið hlutleysi nú á dögum
Biblían sýnir greinilega að hvorki Jesús né frumkristnir menn blönduðu sér í stjórnmál. Af sömu ástæðu eru vottar Jehóva sem kristnir einstaklingar um allan heim algerlega hlutlausir. Rétt eins og frumkristnir menn fylgja þeir fyrirmælum Jesú um að boða ,fagnaðarboðskapinn um ríkið‘. – Matteus 24:14.
a Þegar Jesús hafnaði boðinu sagði hann ekki að Satan hefði ekki vald til að gera slíkt. Hann kallaði Satan síðar ,stjórnanda heimsins‘. – Jóhannes 14:30.