IBOLYA BARTHA | ÆVISAGA
Ég vann eiginmann minn „orðalaust“
Það var svo margt fallegt sem laðaði mig að Jehóva. Ég var snortin af kærleika og hlýju votta hans og hvernig þeir kenndu sannindi Biblíunnar. Það heillaði mig að læra um umhyggju Guðs fyrir fólki og að vita um framtíðina dásamlegu sem bíður okkar. En maðurinn minn var ekki eins hrifinn og það átti eftir að gera mér erfitt fyrir.
Á brúðkaupsdegi okkar.
Ég fæddist í Rúmeníu árið 1952. Þó að móðir mín hafi verið skírður vottur var hún ekki virk í sannleikanum svo að ég sótti ekki samkomur. Auk þess var Rúmenía kommúnistaríki og því bannað að gefa út rit Vottanna og boða trúna. Fyrstu 36 ár ævinnar vissi ég því ekki hver Jehóva er né hvað Biblían kennir. En árið 1988, meðan ég bjó í borginni Satu-Mare ásamt István eiginmanni mínum, gerðist nokkuð sem breytti lífi mínu.
Boð sem ég gat ekki hafnað
Dag einn kom móðir mín í heimsókn og sagði: „Ég ætla að heimsækja frænku þína. Villtu ekki koma með mér? Síðan getum við verslað saman.“ Ég hafði ekkert betra að gera og samþykkti því að fara með henni.
Þegar við komum til frænku minnar komst ég að því að á heimili hennar fór fram samkoma Votta Jehóva þar sem um níu aðrir voru viðstaddir. Það kom á daginn að mamma var aftur orðinn virkur og kappsfullur vottur. Það sem ég lærði þennan morgun hafði varanleg áhrif á mig.
Þegar samkomunni lauk kom stjórnandinn að máli við mig og sagði: „Ég heiti János. Ég tók eftir að þú fylgdist mjög vel með. Líkar þér það sem þú heyrðir í dag?“ Ég sagðist aldrei hafa verið á samkomu sem þessari og að mig langaði að koma aftur. „Myndi þig langa til að fá biblíunámskeið?“ Spurði hann. Þetta var boð sem ég gat ekki hafnað. Ég fann að Guð hafði dregið mig til þessa fólks.
Daginn eftir kynnti János Idu fyrir mér og hún byrjaði að fræða mig um Biblíuna. En ég óttaðist viðbrögð Istváns þegar hann kæmist að því að ég væri að lesa Biblíuna með vottum Jehóva. Ég reyndi nokkrum sinnum að ræða málið við hann en hann var algerlega áhugalaus. Ég vissi að honum var ekkert um það gefið sem ég var að gera.
Þrátt fyrir það hélt ég áfram að kynna mér Biblíuna og lét skírast í ágúst árið 1989. Fjórum mánuðum síðar féll kommúnistastjórnin í Rúmeníu og leiðtogi hennar var tekinn af lífi.
Aukin andstaða
Fall stjórnarinnar hafði frelsi á mörgum sviðum í för með sér. Núna máttu vottar Jehóva koma saman og boða trúna fyrir opnum tjöldum. En í mínu tilfelli leiddi frelsið af sér meiri andstöðu. István sagði: „Mér er sama hverju þú trúir svo lengi sem þú gengur ekki í hús til að boða trú þína.“
Ég ætlaði að sjálfsögðu ekki að hætta að boða trúna. (Postulasagan 4:20) Ég reyndi því að fara eins leynt með það og hægt var. En dag einn sáu vinir Istváns mig í boðuninni og sögðu honum frá því. Þegar ég kom heim hrópaði hann að mér: „Þú ert mér og heimili okkar til vanvirðu.“ Hann lagði hníf að hálsi mínum og hótaði að drepa mig ef ég hætti ekki boðuninni.
Ég reyndi að ræða við István og fullvissa hann um ást mína. Það leit út fyrir að orð mín róuðu hann um stund. En þegar ég neitaði að sækja trúarlegt brúðkaup náins ættingja blossaði reiði hans upp á ný. Þetta hafði enn meiri svívirðingar í för með sér.
Því miður þurfti ég að umbera reiði Istváns í 13 ár. Á þessum árum hótaði hann mér skilnaði. Stundum læsti hann dyrunum og neitaði að hleypa mér inn. Eða hann bað mig að taka saman föggur mínar og fara.
Hvað hjálpaði mér að komast í gegnum þessar hræðilegu aðstæður? Ég leitaði til Jehóva og bað hann að hjálpa mér að halda ró minni og styðja mig. Og ég fann vel hvernig hann studdi mig. (Sálmur 55:22) Söfnuðurinn studdi líka dyggilega við bakið á mér. Öldungarnir og nokkrar reyndar systur hvöttu mig til að hætta ekki að þjóna Jehóva. Þau minntu mig á það sem Biblían segir um að vinna eiginmenn sína „orðalaust“ með því að varðveita hollustu sína við Jehóva. (1. Pétursbréf 3:1) Er fram liðu stundir reyndust þetta orð að sönnu í mínu tilfelli.
Vendipunktur
Árið 2001 fékk István heilablóðfall og gat ekki gengið. Hann var í mánuð á spítala og var síðan í endurhæfingu í nokkrar vikur. Meðan þessu fór fram var ég við hlið hans allan tímann. Ég gaf honum að borða, talaði við hann og passaði upp á að hann hefði allt sem hann þarfnaðist.
Trúsystkini úr söfnuðinum heimsóttu hann líka. István kynntist kærleikanum og umhyggjunni sem bræður og systur sýna. Margir buðust til að hjálpa okkur við heimilisstörfin. Og öldungarnir voru alltaf boðnir og búnir til að hugga okkur og styðja.
Þessar heimsóknir snertu István og hann fór að skammast sín fyrir framkomu sína við mig. Hann sá líka að enginn vina hans kom nokkurn tíma í heimsókn. Þegar István útskrifaðist af spítalanum sagði hann: „Ég vil kynna mér Biblíuna og verða vottur Jehóva.“ Ég gat ekki haldið aftur af gleðitárunum.
István var skírður í maí árið 2005. Þar sem hann gat ekki gengið ýttu bræður honum í hjólastól að skírnarlauginni, settu hann varlega ofan í vatnið og skírðu hann. István var kappsamur boðberi sannleikans. Ég á dýrmætar minningar af því þegar við vorum saman í boðuninni. Það er svo ótrúlegt að hugsa til þess að maður sem einu sinni barðist gegn því að ég boðaði sannindi orðs Guðs var nú glaður mér við hlið að segja öðrum þessar góðu fréttir.
István lærði að elska Jehóva innilega og hann notaði tímann til að rannsaka Biblíuna og leggja biblíuvers á minnið. Honum fannst mjög gaman að ræða þessi vers við aðra í söfnuðinum. Hann notaði þessar umræður til að uppörva bræður sína og systur.
Með vinum á umdæmismóti.
Heilsu Istváns hrakaði stöðugt. Eftir að hafa fengið nokkur minniháttur heilablóðföll gat hann ekki talað lengur og að lokum varð hann rúmfastur. Hægði þetta á honum í þjónustu Jehóva? Engan veginn! Hann hélt áfram að rannsaka Biblíuna eftir bestu getu. Þegar trúsystkini heimsóttu hann notaði hann rafeindatæki með einföldum skjá sem gerði honum kleift að eiga samskipti við þau og styrkja trú þeirra. Bróðir nokkur sagði: „Það er svo gott að hitta István. Þegar ég fer frá honum finnst mér ég alltaf hafa fengið styrk og endurnæringu.“
Því miður lést István þann 15. desember 2015. Það var mér ótrúlegur missir og gerði mig mjög hrygga. En ég verð að játa að það færði mér líka sannan hugarfrið. István var nefnilega orðinn vinur Jehóva löngu áður en hann dó og það var ein mesta gleði mín. Bæði István og móðir mín eru nú í minni Jehóva. Það verður dásamlegt að faðma þau á ný og bjóða þau velkomin í réttlátan nýjan heim Jehóva.
Meira en 35 ár eru liðin frá því að við mamma heimsóttum frænku mína. Ég mun aldrei gleyma þeirri heimsókn. Núna er ég komin yfir sjötugt og ég þjóna sem brautryðjandi. Ég veit ekki um betri leið til að þakka Jehóva fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig. (Sálmur 116:12) Hann hjálpaði mér að varðveita hollustu mína og rósemi þegar ég mætti andstöðu. Þrátt fyrir þessa andstöðu komst ég að því að kringumstæður geta breyst. Þó svo að það hafi komið mér algerlega á óvart gat ég unnið eiginmann minn orðalaust.